Færsluflokkur: Lífstíll

Að vera eða vera ekki þjónustufulltrúi í banka.

 Grein eftir mig sem er í Mogganum í dag.

 Austurrískur bankastarfsmaður hringdi í vin sinn sem starfar á Íslandi og er samlandi hans. Þetta var í apríl 2008. Bankastarfsmaðurinn sagði samlanda sínum að íslensku bankarnir stæðu illa og hún skyldi geyma sparifé sitt annars staðar, sem hún og gerði. Hún sagði henni að mat manna í Austurríki væri það að miklir möguleikar væru á því að íslensku bankarnir gætu farið í þrot ef illa áraði. Ekki var um neitt leyndarmál að ræða. Öllum starfsmönnum viðkomandi banka í Austurríki var með tölvupósti tjáð að draga úr öllum viðskiptum við Ísland þangað til annað væri ákveðið. Hvar voru íslenskir blaðamenn þá? Að eltast við íslenska Utanríkisráðuneytið við atkvæðasöfnun um allan heim vegna framboðs Íslands til Öryggisráðsins.

Fyrrverandi bankastjóri Kaupþings sendir bréf til Forsætisráðherra og Seðlabankastjóra á sama tíma, þ,e, í apríl 2008. Boðskapurinn var hinn sami og austurríska bankamannsins. Sjálfsagt vegna þess að Sigurður og sá austurríski voru að rýna í sömu hagtölurnar. Munurinn er sá að hlustað var á þann austurríska en ekki bankastjóra Kaupþings. Þess vegna á austurríski einstaklingurinn sem starfar á Íslandi allt sitt sparifé, í austurrískum banka, en við Íslendingar ekki krónu með gati, bara skuldir.

Það voru margir fleiri sem vöruðu við að illa gæti farið en ekki var á þá hlustað. Ríkistjórn landsins, yfirmenn Seðlabanka og fjármálaeftirlitið hafa brugðist. Fjölmiðlanir hafa verið gjörsamlega gagnslausir, bara lýst orðnum hlut en ekki krufið málin til mergjar. Önnum kafin þjóðin dansaði með og veitti ekki nauðsynlegt aðhald. Ábyrgð hinna ýmsu aðila er þó mismikil. Ölvunarakstur útrásarmannanna er vítaverður en ef lögreglan lætur ölvunarakstur óáreittan af því að hann sé svo „kúl“ þá verður slæmt enn þá verra. Þegar við bætist að engar ráðstafanir sem duga voru gerðar til að kljást við afleiðingarnar verða fíklarnir að englum því landsfeðurnir voru að minnsta kosti edrú.

Þegar heimilsfaðir skrifar upp á lán sem ábyrgðarmaður í misskilinni góðvild og heimilið lendir undir hamrinum er svipað ástand og við stöndum í núna sem þjóð. Skynsamir menn veðsetja ekki börnin sín. Núna hefur það gerst.

Hvernig komumst við úr klípunni? Við erum strand og enginn í áhöfninni er með hreint sakavottorð né próf úr Stýrimannaskólanum. Áhöfnin neitar að fara úr brúnni. Þeir reyna að sannfæra okkur farþegana að sökum þess hvað þeim tókst vel að sigla skútunni í strand að þá sé engum betur treystandi en þeim að ná henni á flot aftur. Það er ekki laust við vissa kyngingarörðuleika hjá farþegunum.

Þannig standa málin í dag. Við mætum á Austurvöll því við kyngjum þessu ekki. Við viljum nýja áhöfn því við treystum ekki þeirri gömlu. Allur umheimurinn treystir ekki stjórnendum þessa lands, það þorir enginn að senda fjármuni inn fyrir landsteinana sökum algjörs vantrausts á gæslumönnum þess. Allir aðilar að hruni Íslands benda hvor á annan og kenna hinum um. Maður upplifir sig eins og leikskólakennara sem hlustar á hóp barna útskýra hvers vegna rúðan brotnaði. Á meðan sundrast fleygið okkar í spón á strandstað.

Austurrískir bankar gátu lesið rétt í spilin s.l. vor og gert viðeigandi ráðstafanir skjólstæðingum sínum til hagsbótar. Að okkar hálaunaðu gæslumenn voru staurblindir sökum eigin hagsmunagæslu er eins hallærislegt og hugsast getur. Þeir hefðu átt að gera viðeigandi ráðstafanir eins og þeir austurrísku og hindra frekari skaða. Það er ekki að undra að ráðamenn séu rúnir öllu trausti hér heima og erlendis.

 

 

 


Enn eitt neyslulánið??

Hann er góður þessi gaur í Chíkakó. Það sem er einna athyglisverðast í þessu sambandi er að hann telur okkur EKKI þurfa lánið. Það er afstaða sem ekki margir aðhyllast. Hitt sem er mjög merkilegt er að hann telur mikla hættu á því að lánið brenni upp í höndunum á okkur þegar við notum það til að verja krónuna okkar. Ef hann hefur rétt fyrir sér þá er niðurstaðan sú að við tökum lán sem við þurfum ekki og í þokkabót eyðum við þarflausu láni í vitleysu. Þar með hefur ekkert breyst á Íslandi, þ.e. eyðsla í tóma vitleysu...neyslulán.
mbl.is Gætum hæglega sleppt IMF-láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hart í bak.

Stór meirihluti þjóðarinnar er þeirrar skoðunar að þeir sem hafa stýrt og stjórnað íslensku þjóðfélagi undanfarin ár hafi staðið sig mjög illa. Í þessu samhengi er átt við alla gerendur sem höfðu völd. Ríkisstjórn, þing, Seðlabanki, fjármálaeftirlitið og bólustrákana sem flippuðu í kross. Með öðrum orðum, allir þeir sem höfðu hönd á stýri þjóðarskútunnar okkar. Núna eru þeir búnir að sigla henni í strand. Ef þjóðin má ekki hafa skoðun án tillits til hvaða störfum menn gegna þá er ekki málfrelsi hér á landi. Ef Ríkisstjórnin telur ráðherra sína vammlausa þá hlýtur þjóðarskútan að hafa rekið í strand af sjálfu sér.
mbl.is Vegið ómaklega að ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fúlegg verða forsíðufrétt-er þetta góð blaðamennska?

Ég var á Austurvelli í dag. Þar voru fluttar mjög góðar og innihaldsríkar ræður. Fólk stóð og hlustaði með athygli og tók vel undir með klappi og húrrahrópum. Síðan var fundi slitið. Fólk hvarf til síns heima eða annarrar iðju. Nokkrir tóku upp á þeim óskunda að kasta eggjum í Alþingishúsið. Gjörsamlega tilgangslaus gjörningur-það var nefnilega enginn heima.

Nokkur fúlegg á gömlu mannlausu húsi í Reykjavík verður síðan aðal yrkisefni blaðamanna. Þvílíkt fréttamat, þetta er hneisa. Auðvitað er það mun merkilegra að almennir borgarar gefi sér tíma til að iðka lýðræðið, það er frétt. Hvað sögðu ræðumenn, það er frétt. Hver vill láta útifundinn líta út sem skrílslæti. Hjá hverjum vinna þessir blaðamenn, eða hafa þeir bara ekki kveikt á perunni-við krefjumst þess að vera viðmælendur. Takk fyrir.


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurvöllur og Iðnó í dag.

Nokkrir einstaklingar tóku sig til og svívirtu Alþingishúsið okkar í dag. Það var miður. Það dróg athyglina frá innihaldi mótmælanna. Ræður fundarmanna komust ekki eins vel til skila fyrir vikið í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Vonandi hættir fólk þessu. Reyndar er þetta til marks um reiði fólks. Okkur er vorkunn að vissu marki.

Ég mætti í dag og fylgdist með, bæði í Iðnó og síðan á Austurvelli. Eggjakastið hófst eftir að formlegum útifundi  hafði verið slitið. Það er mikil undiralda í þjóðfélaginu. Mikil reiði. Hún brýst fram með ýmsu móti, ræðurnar í dag voru eldheitar, spurningar á fundinum í Iðnó voru beittar og klappið, stappið og undirtektirnar sýndu greinilega að hugur er í fólki. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var að tillaga Einars Más um að endurheimta kvótann fékk langbestar undirtektir fundarmanna á Austurvelli. Greinilegt var að fundarmenn telja fisk vera hluta af íslensku atvinnulífi.

Þær tilfinningar sem atburðir dagsins skilja eftir í huga mínum eru margs konar. Hvernig gátum við verið svona grandalaus og bláeygð? Einn fundarmanna hvíslaði að mér að það væru til svo margir Íslendingar sem kysu Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þó að þar væri hundur í fyrsta sæti, það væri hluti af skýringunni. Þetta bendir til þess að eitthvað mikið sé að í iðkun lýðræðis ef svo geti gerst. Ég held að fólk verði að fara að leggja svolitla stund á lýðræðisiðkun. Fylgjast vel með og mynda sér sína skoðun. Svo segir sagan að æðstu menn í Sjálfstæðisflokknum segi Ríkisfjölmiðlunum fyrir verkum. Ef satt er þá er erfitt að vera lýðræðisiðkandi ef Ríkisfjölmiðlarnir eru beintengdir pólitískum flokki.

Það er mikil nauðsyn að við stokkum upp spilin. Við verðum að skapa opið lýðræðisþjóðfélag. Við verðum að hafa óháða fjölmiðla, sem þora. Við verðum að hafa þjóð sem nennir að fylgjast með og skiptir sér af. Foreldrar sem láta börnin á vergang eru ekki að standa sig. Að lokum, við verðum að tína burt öll skemmdu eplin jafnvel þó það sé skítverk.


Fjárhag heimilisins borgið!

img_1256.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eiginkonan tók þátt í sundmóti Garpa um helgina. Um var að ræða Norðurlandamót. Hún stakk sér ekki í laugina án þess að fá verðlaunapening. Hún fékk fjögur silfur verðlaun og eitt gull. Því er konan mín Norðurlandameistari í 50 m bringusundi Garpa. Miðað við atburði dagsins í dag hafa bankarnir ekki tileinkað sér hæfileika eiginkonu minnar að vinna en ekki að tapa. Betur hefði hún stjórnað einum eða tveimur bönkum á Íslandi. Til að ná settu markmiði þarf mikla elju og samviskusemi og virðist sem konan mín hafi það í ríkum mæli. Aftur á móti hafa bankarnir verið þaulsetnir af fólki sem heldur að allt verði til af öngvu. Eins og Fagin sagði í Oliver Tvist og orð hans eru eilíf; aflaðu 20 pensa og eyddu 19, því þá áttu afgang. Það átti konan mín og vann en bankarnir töpuðu um helgina.

img_1244.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ragga Run og Helga að taka við GULLI.

Nú er bara að bræða peningana og fara með þa í Seðlabankann og bjarga Þjóðarskútunni.

 

mvi_1237.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Þarna er Sigurjón bróðir Helgu búinn að synda 1500 m skriðsund og fékk Brons. Flottur.sigurjon_nom.jpg


Frjálslyndi Flokkurinn og Kristinn H.

Á fjölmennum fundi hjá FF í síðustu viku kom fram einlæg ósk meirihluta fundarmanna að Kristinn H Gunnarsson yrði ekki lengur formaður þingflokksins.

img_1219.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Þingflokkurinn varð við þessari ósk fundarmanna og Jón Magnússon hefur verið skipaður formaður þingflokksins. Þarna skynjaði flokksforystan grasrótina og megi hún eiga þökk fyrir. Í Reykjavíkurfélögunum er mikill áhugi fyrir öflugu flokkstarfi. Bæði er það starf sem snýr meir að Reykjavíkurborg og málefnum hennar. Borgarmálafélagið sinnir því. Einnig eru tvö kjördæmafélög í Reykjavík sem tengjast frekar starfinu á landsvísu með hugann við alþingiskosningar Við væntum þess að sú breyting sem gerð hefur verið á æðstu stjórn FF muni hafa það í för með sér að starfið í Reykjavík muni eflast mjög. Afleiðing þess gæti orðið aukið fylgi við flokkinn og fleiri (kven)menn á þing. Ef svo fer mun landsbyggðin njóta ávaxtanna af vinnu okkar í Reykjavík.

img_1218.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vonandi er hér um gæfuspor að ræða fyrir Frjálslynda flokkinn. Að minnsta kosti hefur alvarlegt ágreiningsefni innan flokksins verið leyst.


Ekki gera ekki neitt.

Eitthvað er veðurspáin hálf ónotaleg hjá okkur þessa dagana. Stefnir í storm og óveður. Reyndar hefur blásið á skerinu áður og enn byggir þjóð landið. Veðurfar og önnur náttúra hefur engu að síður sett mark sitt á tilveruna. Margt væri öðruvísi ef alltaf hefði verið logn.

Eins er það í stjórnmálum. Núna gustar dulítið í Frjálslynda flokknum. Nýjasta rokinu veldur tillaga sem Eiríkur Stefánsson flutti í miðstjórn um daginn. Þar fer hann fram á það að þingflokkurinn velji sér nýjan formann. Það myndi falla betur að jafnræðisreglu að valdamikil embætti væru ekki öll frá sama kjördæminu. Guðjón Arnar var ekki sáttur við þessa tillögu vitandi að tillagan myndi valda honum mikilli vinnu við að bera klæði á vopnin. Reyndar er Guðjón í vanda. Það skiptir varla máli hvernig Guðjón bregst við, það munu alltaf einhverjir verða ósáttir. Spurningin er hvernig hann lendir þessu máli.

Nauðsynlegt er að taka af skarið þannig að sem flestir flokksmenn verði nokkurn veginn ánægðir og starfsfriður komist á í flokknum. Eins og segir í auglýsingunni,"ekki gera ekki neitt".


BerlínarMúrinn og Frjálslyndi flokkurinn.

Var að koma frá Berlín í dag. Mjög merkileg borg og gott að vera ferðamaður þar. Sá að vísu bara borgarkjarnann og það er yfirleitt sá hluti sem er túristavænstur. Saga Berlínar er mjög merkileg því hluti íbúanna var lokaður inni árum saman með Berlínarmúrnum. Þrátt fyrir að múrinn sé horfinn er saga hans enn ljóslifandi í Berlín.

Á meðan ég var fjarverandi varð allt vitlaust í Frjálslynda flokknum. Miðstjórn flokksins samþykkir ályktun þess efnis að þingflokkurinn kjósi sér nýjan þingflokksformann. Rökstuðningurinn er sá að halli sé á lýðræðinu og jafnræðinu innan þingflokksins. Mönnum finnst ekki eðlilegt að formaður flokksins og þinflokksformaðurinn komi báðir úr sama kjördæminu. Meiri valddreifing sé eðlileg og af hinu góða.

Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindu þessa máls. Vonandi hafa menn gæfu til sátta.


Daður Össurar við Frjálslynda flokkinn.

Össur fer mikinn á heimasíðu sinni í dag. Margt tilreiðir hann sér í hag. Útlendingastefna FF er varkár stefna sem setur spurningamerki við ýmislegt í þeim málaflokki. Ástæðan er sú að nágrannaþjóðir okkar hafa átt í erfiðleikum með nýbúa. Við í FF höfum viljað draga fram það sem hefur gengið miður og hvað hefur gengið vel hjá nágrannaþjóðum okkar í þessum málaflokki. Fyrir vikið erum við kallaðir rasistar. Þetta veitir andstæðingum okkar góðan höggstað á okkur. Samfylkingarmenn, eins og Össur vita þetta mæta vel. Þeir velta sér upp úr þessu eins og svín í flór.

Að temja sér yfirsýn og stjórn á aðstreymi nýbúa til landsins er kallað rasismi. Svipuð örlög hljóta þeir sem vilja ekki drekka áfengi stjórnlaust. Þynnkan gæti orðið verri en menn hugsuðu sér.

Að Sigurjón vilji velta Guðjóni úr sessi er rangtúlkun á ástandinu. Sigurjón eins og margir í flokknum vilja að honum sé stjórnað  og að jafnræðis sé gætt á milli landshluta og stefnumála. Mikill halli hefur verið á flokknum í átt að Vestfjörðum og því hefur mörgum þótt ástæða til að breyta því. Af þeim sökum fær Sigurjón áskorun um að gefa kost á sér í formanninn. Hvort hann geri það er alls óvíst. Guðjón hafnaði Sigurjóni á sínum tíma, sjálfsagt fyrir áeggjan Kristins H. Sennilega er það sterkur hvati innan FF að hvetja Sigurjón til til formennsku þegar Framsóknarmaður setur fyrir hann fæturna. Ef hann er velkominn í Samfylkinguna er það vel.


mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband