Austurvöllur og Iðnó í dag.

Nokkrir einstaklingar tóku sig til og svívirtu Alþingishúsið okkar í dag. Það var miður. Það dróg athyglina frá innihaldi mótmælanna. Ræður fundarmanna komust ekki eins vel til skila fyrir vikið í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Vonandi hættir fólk þessu. Reyndar er þetta til marks um reiði fólks. Okkur er vorkunn að vissu marki.

Ég mætti í dag og fylgdist með, bæði í Iðnó og síðan á Austurvelli. Eggjakastið hófst eftir að formlegum útifundi  hafði verið slitið. Það er mikil undiralda í þjóðfélaginu. Mikil reiði. Hún brýst fram með ýmsu móti, ræðurnar í dag voru eldheitar, spurningar á fundinum í Iðnó voru beittar og klappið, stappið og undirtektirnar sýndu greinilega að hugur er í fólki. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var að tillaga Einars Más um að endurheimta kvótann fékk langbestar undirtektir fundarmanna á Austurvelli. Greinilegt var að fundarmenn telja fisk vera hluta af íslensku atvinnulífi.

Þær tilfinningar sem atburðir dagsins skilja eftir í huga mínum eru margs konar. Hvernig gátum við verið svona grandalaus og bláeygð? Einn fundarmanna hvíslaði að mér að það væru til svo margir Íslendingar sem kysu Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þó að þar væri hundur í fyrsta sæti, það væri hluti af skýringunni. Þetta bendir til þess að eitthvað mikið sé að í iðkun lýðræðis ef svo geti gerst. Ég held að fólk verði að fara að leggja svolitla stund á lýðræðisiðkun. Fylgjast vel með og mynda sér sína skoðun. Svo segir sagan að æðstu menn í Sjálfstæðisflokknum segi Ríkisfjölmiðlunum fyrir verkum. Ef satt er þá er erfitt að vera lýðræðisiðkandi ef Ríkisfjölmiðlarnir eru beintengdir pólitískum flokki.

Það er mikil nauðsyn að við stokkum upp spilin. Við verðum að skapa opið lýðræðisþjóðfélag. Við verðum að hafa óháða fjölmiðla, sem þora. Við verðum að hafa þjóð sem nennir að fylgjast með og skiptir sér af. Foreldrar sem láta börnin á vergang eru ekki að standa sig. Að lokum, við verðum að tína burt öll skemmdu eplin jafnvel þó það sé skítverk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband