Vextir hubris og liljur

Flókin stærðfræðimódel hagfræðinnar hafa þann eina tilgang að telja okkur trú um að hagkerfið ráði við óendalega miklar skuldir. Á þann hátt horfum við fram hjá grundvallaratriðum hagfræðinnar sem snýr að rekstri eininga eins og heimilis sem dæmi.

Þar sem hagfræðikenningar nútímans ganga út á það að hægt sé að greiða allar skuldir er augljóst að sú kennisetning er höll undir lánadrottna. Margur stjórnmálamaðurinn gengur sömu erinda og hrópar að „að sjálfsögðu greiðir maður skuldir sínar“. Þegar tillit er tekið til þess að hagvöxtur í Evrópu hefur verið 0,2% á ári s.l. 2000 ár er ekki mikil von til þess að raunhagkerfið geti greitt allar skuldir með þeim vöxtum sem í boði eru.

Súmerar notuðu sama orð yfir vexti og kálfa. Egypska orðið fyrir vexti þýddi að fæða. Til forna var hugsunin sú að af fræi kæmi planta sem gæfi vel af sér að hausti og kálfur gæti skapað mörg afkvæmi. Vextir voru því greiddir eftir að raunhagkerfið hafði borið ávöxt, m.ö.ö. menn deildu með sér uppskerunni eða ávöxtuninni þegar hún hafði raungerst. Ekki fyrirfram eins og í dag.

Öll trúarbrögð heimsins hafa verið á móti vöxtum á peningum því peningar geta ekki af sér, þeir eru ófrjóir. Að fá vexti af engu vinnuframlagi var ekki talið boðlegt. Aftur á móti að deila sameiginlegum ábata sem er orðin til er annað mál.

Bæði í Babílon og Egyptalandi til forna voru hagfræðingar vel meðvitaðir um hættuna á of miklum skuldum fyrir raunhagkerfið. Þess vegna settur þeir reglur. Þegar vextir höfðu náð upphæð höfustólsins féll skuldin niður . Auk þess voru skuldir afskrifaðar af kóngum þegar þær urðu of íþyngjandi fyrir raunhagkerfið. Babílóníumenn afskrifuðu skuldir landbúnaðarins að minnsta kosti á 30 ára fresti því að að öðrum kosti hefðu lánadrottnar eignast allar jarðir og allt sem fylgdi með þeim. Verðlag breyttist ekki mikið vegna vaxtabyrði í Mesópótamíu vegna þess að verð var ákvarðað með lögum eða hefðum. Þess vegna stjórnuðu menn til forna hagkerfinu fyrir sig en ekki öfugt eins og í dag.

Þessi skynsemi að meta raunhagkerfið fram yfir fjármálakerfið hefur því miður tapast í aldanna rás innan hagfræðideilda háskóla. Hugsanleg skýring er að fjármálakerfið hefur verið einn aðal styrktaraðili hagfræðideilda um víða veröld.

Græðgi var fordæmd til forna og hófsemi vegsömuð, ástæðan var sú vissa að hinn gráðugi væri að taka nauðþurftir frá þeim sem minna mátti sín. Hugsunin um græðgi var því beintengd ofgnótt eins á kostnað annars. Í dag er græðgi vegsömuð og því afneitað að hún valdi skorti eins og að hinn gráðugi taki til sín úr ótæmandi hirslum.

Þegar allir ætla að draga vexti úr raunhagkerfinu sem er að minnka, þegar lánadrottnar og lífeyrissjóðir eða aðrir sjóðir ætla að ávaxta sitt pund með samsettum vöxtum án þess að fyrst sjá eitthvað „fæðast“ í raunhagkerfinu sem er hægt að deila með sér verður eitthvað að gefa eftir. Vandamálið er að sóknin í ábata í formi vaxta er orðin sem fíkn og þarf í raun að meðhöndla sem slíka.

Mörgum fræðimanninum í hagfræði er illa við að ríkisvaldið stjórni efnahagskerfinu og vilja meina að kerfið aðlagi sig sjálft að breyttum aðstæðum. Til forna stjórnaði ríkisvaldið efnahagnum með lögum og valdboði eins og afskriftir skulda bera með sér. Það var hægt vegna þess að valdið var hjá kónginum, hann hafði hermenn og lánadrottnar urðu að beygja sig undir vilja hans. Í dag er ekkert vald eftir hjá ríkisstjórnum þjóðlandanna. Á Íslandi hafa allir fjármunir farið í að endurreisa bankakerfið eftir hrun, varla króna í raunhagkerfið og það hefur verið skorið kröftuglega niður bankakerfinu til bjargar. AGS og ESB eru framlengd hönd lánadrottna heimsins og krefjast þess að allar skuldir skulu greiddar með öllum þeim fórnum sem almenningur þarf að leggja á sig. Stjórnvöld fylgja þeim að málum eins og hverjar aðrar strengjabrúður.

Ef Lilja er sett í tjörn og hún og afkomendur hennar tvöfalda sig á hverjum degi þá er tjörnin full á þrítugasta degi og þær geta ekki fjölgað sér frekar eftir það. Hvenær var tjörnin hálf full eða hálftóm? 29 daginn er svarið.

Það er innbyggð tortíming í vöxtum sem er að sliga heiminn í dag og hugsanlega er tjörnin að fyllast. Það er því full þörf á því að hagfræðingar hætti að velta fyrir sér kenningum um hvernig jafnvægi verði náð og reikni frekar út hvenær því líkur.

áður birt á Eyjublogginu mínu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband