Að vera eða vera ekki þjónustufulltrúi í banka.

 Grein eftir mig sem er í Mogganum í dag.

 Austurrískur bankastarfsmaður hringdi í vin sinn sem starfar á Íslandi og er samlandi hans. Þetta var í apríl 2008. Bankastarfsmaðurinn sagði samlanda sínum að íslensku bankarnir stæðu illa og hún skyldi geyma sparifé sitt annars staðar, sem hún og gerði. Hún sagði henni að mat manna í Austurríki væri það að miklir möguleikar væru á því að íslensku bankarnir gætu farið í þrot ef illa áraði. Ekki var um neitt leyndarmál að ræða. Öllum starfsmönnum viðkomandi banka í Austurríki var með tölvupósti tjáð að draga úr öllum viðskiptum við Ísland þangað til annað væri ákveðið. Hvar voru íslenskir blaðamenn þá? Að eltast við íslenska Utanríkisráðuneytið við atkvæðasöfnun um allan heim vegna framboðs Íslands til Öryggisráðsins.

Fyrrverandi bankastjóri Kaupþings sendir bréf til Forsætisráðherra og Seðlabankastjóra á sama tíma, þ,e, í apríl 2008. Boðskapurinn var hinn sami og austurríska bankamannsins. Sjálfsagt vegna þess að Sigurður og sá austurríski voru að rýna í sömu hagtölurnar. Munurinn er sá að hlustað var á þann austurríska en ekki bankastjóra Kaupþings. Þess vegna á austurríski einstaklingurinn sem starfar á Íslandi allt sitt sparifé, í austurrískum banka, en við Íslendingar ekki krónu með gati, bara skuldir.

Það voru margir fleiri sem vöruðu við að illa gæti farið en ekki var á þá hlustað. Ríkistjórn landsins, yfirmenn Seðlabanka og fjármálaeftirlitið hafa brugðist. Fjölmiðlanir hafa verið gjörsamlega gagnslausir, bara lýst orðnum hlut en ekki krufið málin til mergjar. Önnum kafin þjóðin dansaði með og veitti ekki nauðsynlegt aðhald. Ábyrgð hinna ýmsu aðila er þó mismikil. Ölvunarakstur útrásarmannanna er vítaverður en ef lögreglan lætur ölvunarakstur óáreittan af því að hann sé svo „kúl“ þá verður slæmt enn þá verra. Þegar við bætist að engar ráðstafanir sem duga voru gerðar til að kljást við afleiðingarnar verða fíklarnir að englum því landsfeðurnir voru að minnsta kosti edrú.

Þegar heimilsfaðir skrifar upp á lán sem ábyrgðarmaður í misskilinni góðvild og heimilið lendir undir hamrinum er svipað ástand og við stöndum í núna sem þjóð. Skynsamir menn veðsetja ekki börnin sín. Núna hefur það gerst.

Hvernig komumst við úr klípunni? Við erum strand og enginn í áhöfninni er með hreint sakavottorð né próf úr Stýrimannaskólanum. Áhöfnin neitar að fara úr brúnni. Þeir reyna að sannfæra okkur farþegana að sökum þess hvað þeim tókst vel að sigla skútunni í strand að þá sé engum betur treystandi en þeim að ná henni á flot aftur. Það er ekki laust við vissa kyngingarörðuleika hjá farþegunum.

Þannig standa málin í dag. Við mætum á Austurvöll því við kyngjum þessu ekki. Við viljum nýja áhöfn því við treystum ekki þeirri gömlu. Allur umheimurinn treystir ekki stjórnendum þessa lands, það þorir enginn að senda fjármuni inn fyrir landsteinana sökum algjörs vantrausts á gæslumönnum þess. Allir aðilar að hruni Íslands benda hvor á annan og kenna hinum um. Maður upplifir sig eins og leikskólakennara sem hlustar á hóp barna útskýra hvers vegna rúðan brotnaði. Á meðan sundrast fleygið okkar í spón á strandstað.

Austurrískir bankar gátu lesið rétt í spilin s.l. vor og gert viðeigandi ráðstafanir skjólstæðingum sínum til hagsbótar. Að okkar hálaunaðu gæslumenn voru staurblindir sökum eigin hagsmunagæslu er eins hallærislegt og hugsast getur. Þeir hefðu átt að gera viðeigandi ráðstafanir eins og þeir austurrísku og hindra frekari skaða. Það er ekki að undra að ráðamenn séu rúnir öllu trausti hér heima og erlendis.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algjörlega sammála þessu.

Sigrún (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 19:05

2 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Það er hreint með ólíkindum hvað sofandahátturinn var mikill, hjörðin eins og hún leggur sig steinsvaf í sæluvímu lyganna sem á borð voru bornar.

Hallgrímur Guðmundsson, 14.11.2008 kl. 19:17

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Eins og talað út úr mínu hjarta. Þetta er snilldarinnlegg og litlu við það að bæta. Kv, B.F.

Baldur Fjölnisson, 14.11.2008 kl. 19:21

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Skandall, ekkert annað.

Þóra Guðmundsdóttir, 14.11.2008 kl. 19:28

5 Smámynd: Rannveig H

Flott grein,seigi eins og Baldur engu við að bæta.

Rannveig H, 14.11.2008 kl. 21:22

6 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þökk fyrir góðar undirtektir, svo mæta allir á Austurvöll á morgun.

Gunnar Skúli Ármannsson, 14.11.2008 kl. 21:32

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góður pistill félagi, einn af mörgum. Nú er það brýnasta viðfangsefni þessarar þjóðar að svona hugvekjur verði innlegg í líkræðu þessarar ríkisstjórnar.

Burt með spillingaröflin! Lifi byltingin!

Árni Gunnarsson, 14.11.2008 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband