Færsluflokkur: Mannréttindi
31.12.2009 | 01:21
Síðasta frjálsa kosning Alþingismanna
Ég var á þingpöllum í allt kvöld. Báðir synirnir mínir voru með, hugsanlegir greiðendur Icesave. Það var mjög sérstök upplifun að fylgjast með þingmönnum svona þráðbeint.
Eftir að hafa hlustað á allar ræðurnar í kvöld rann það upp fyrir mér dýrasti maður Íslands er Davíð Oddson. Hatur núverandi ríkisstjórnar á Davíð er svo mikið að þjóðinni skal refsað með Icesave. Það var nefnilega þessi þjóð sem vogaði sér að kjósa hann og því skal henni refsað. Það sem mér sárnar mest að ég hef aldrei kosið Davíð, en eftir að hafa horft á Steingrím og co fremja hórdóm á vinstri pólitík vitum við fæst hvað við kjósum næst.
Við munum aldrei kjósa neinn af þeim sem sögðu já við Icesave, það er víst.
Reyndar hefur það takmarkaða þýðingu úr þessu því AGS mun ráða för á Íslandi til frambúðar. Núna hefur Icesave hindruninni verið rutt úr vegi og eftir það getur AGS farið að taka til hendinni á Íslandi. Um miðjan janúar mun AGS koma með nýja endurskoðun og þá mun sjálfsagt koma fram betur hvernig þeir hafa hugsað sér að við stöndum í skilum við lánadrottna okkar. Ég kvíð því,þjóð mín á ekki slíkt skilið bara vegna löngunar útlendinga í auðlindir okkar. Mér mun ætið verða það óskiljanlegt hvernig Steingrími detti það í hug að við kunnum að meta þessi örlög.
Samfylkingin hugsar bara um ESB í þessu máli og aflífaði þar með áhuga minn á þeim klúbbi.
29.12.2009 | 22:40
Síðasta frjálsa atkvæðagreiðsla Alþingis, í minni vist
Ég hef lesið allt sem að kjafti kemur um skuldir Íslands og greiðslugetu okkar. Þær áætlanir sem smíðaðar hafa verið hingað til ganga ekki upp og örugglega ekki að Icesave viðbættu. Í ljósi þess eru átök innan einhvers stjórnmálaflokks bara sandkorn í mannkynssögunni. Klauf ekki Gunnar Thor sig frá Sjálfstæðismönnum og er sá flokkur eitthvað dauður í dag. Það þarf nú meira til.
Þegar núverandi ríkisstjórn hefur fengið Icesave samþykkt á Alþingi munu lánadrottnar Íslands stjórna öllu hér á landi í gegnum fulltrúa sinn AGS. Því mun kosningin um Icesave á morgun verða síðasta frjálsa kosningin sem Alþingi okkar tekur. Eftir það mun AGS ráða för. Það verður auðvelt því þrátt fyrir himinhrópandi gagnrök í dag virkar flokksagi stjórnarflokkanna. Þegar stjórnarþingmenn hafa einu sinni kastað skynseminni út í hafsauga verður hún vandfundin á nýjan leik.
Þingmönnum er vandi á höndum á morgun, þeir þurfa að ákveða sig hvernig þeir kjósa. Þegar þeir hafa ákveðið sig þá þurfum við, almenningur, að ákveða okkur. Almenningur þarf að ákveða sig hvort hann treystir sér með stjórnvöldum í þá vegferð sem þau hyggjast leggja í. Ég held að mörgum muni reynast erfitt að deila rúmi með þeim sem troða Icesave oní kokið á okkur hinum. Þannig er það nú bara.
Átök innan Vinstri grænna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2009 | 14:47
Hverju skiptir Icesave þjóðina
Spá AGS og íslenskra stjórnvalda, á getu okkar til að standa í skilum sem þjóð, er mikil bjartsýnisspá. Fjárlög fyrir árið 2010 eru klár merki þess að höfundarnir eru ekki í tengslum við raunveruleikann. Forsendurnar, gjaldeyrisafgangur, tekjur ríkisins og þjóðarframleiðsla, standast ekki. Ef forsendurnar eru brostnar þá er ekkert að marka þessi plön. Þá er framtíð okkar ekki eins og okkur er talin trú um.
Hvernig verður þá framtíð okkar Íslendinga?
Ég óttast að þegar AGS birti sína næstu endurskoðun fáum við verri tíðindi. Sú endurskoðun verður ekki birt fyrr en Icesave hefur verið samþykkt sökum þvingunaraðgerða AGS gagnvart okkur. Sennilega verður okkur tjáð að til að geta klofið skuldirnar verðum við að skera enn meira niður. Síðan mun AGS koma með fleiri endurskoðanir og markmið þeirra allra er að við verðum borgunarmenn fyrir skuldum okkar. Því munu þeir leggja til að við setjum hvað eina upp í skuldir. Ef vinnuframlag okkar dugar ekki fara eignir okkar líka.
Því mun arður Íslands fara í vasa lánadrottna.
Til að hámarka arðinn mun laun og annar kostnaður, heilbrigðis- og menntamál, vera skorinn niður.
Þannig óttast ég að framtíð Íslands verði.
Ef Icesave verður fellt á Alþingi kemur upp sú nýja staða að þjóðin þarf að fara að hugsa. Þjóðin þarf þá að setja sig inn í málin og finna lausnir. Þjóðin mun þá gera sér grein fyrir stöðu sinni. Þá er það kostur að hafa fyrirvarana við Icesave.
Ef Icesave verður samþykkt núna mun fyrrnefnd stað, að þjóðin taki til sinna mála, koma upp mun seinna. Saga annarra þjóða í sömu stöðu og við segir okkur það. Þá mun skuldasúpan vera orðin mun verri. Sennilega er þjóðinni fyrirmunað að skynja vitjunartíma sinn fyrr en seinna og sjálfsagt verður maður að sætta sig við það.
Afborganir lána 40% tekna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2009 | 01:21
Góð hugmynd og bætir andrúmsloftið á Alþingi
Það var sérstakt að fylgjast með Alþingismönnum í dag, ég sat á pöllunum. Ég frétti af því að óvissuatkvæðin væru umsetin. Þeir sem voru búnir að gera upp hug sinn voru flestir að taka þátt í þingfundinum.
Tilveran fyrir utan virtist ekki vera í tengslum við þingsalinn. Gamlir refir raða sér í feita stóla í Íslandsbanka. Ráðherrar bera af sér ábyrgð á þessum ráðningum. Þjóðin nær ekki inn á þing því hún vill ekki Icesave í sinni nýjustu mynd. Þess vegna er það vel til fundið að veita okkur möguleika á að kjósa um Icesave. Við berum þá öll sameiginlega ábyrgð, föllum og stöndum með niðurstöðunni. Ekki við nokkurn að sakast nema heimska þjóð.
Er það ekki gott skref í átt að nýju Íslandi að hafa eina þjóðaratkvæðagreiðslu?
Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2009 | 19:18
Að hafna Icesave er sennilega andstætt náttúruvernd
Milli jóla og nýárs mun Icesave verða samþykkt. Það verður mikill léttir fyrir alla Íslendinga. Þeir sem hafa kynnt sér málið og skilja það munu afskrifa Ísland. Þá mun fólk hefjast handa við að skipuleggja framtíð sína fyrir sjálft sig. Við munum hætta að standa í þessu brölti fyrir þjóðina og hugsa eingöngu um eigin hag. Orrustan töpuð og bara að viðurkenna það.
Þegar maður hugsar aðeins út fyrir kassann, hugsar í víðara samhengi er þetta augljóst. Það eru á hverjum degi einhverjar dýra- og plöntutegundir að koma og fara. Þjóðir koma og fara, það er hinn eðlilegi gangur sögunnar, hvað er maður að æsa sig? Hvernig gat nokkrum Íslendingum dottið í hug að stöðva þróun sem þeir hafa ekkert vald til að hafa áhrif á.
Í sinni einföldustu mynd er staðan eftirfarandi: Ísland er gjaldþrota, við lestur skýrslu AGS er það augljóst. Þar að auki munu fleiri skuldir eiga eftir að bætast við og síðan að sjálfsögðu Icesave. Áætlun AGS stenst ekki, hún er óframkvæmanleg. Þegar viljayfirlýsing Jóhönnu og Steingríms við AGS er lesin sér maður hvað er í vændum. Niðurskurður og fátækt. Lausn AGS verður meiri lántaka og vaxtagreiðslur að eilífu.
Vandinn er sérkennilegur. Ef allir Íslendingar hefðu lesið skýrslu AGS, viljayfirlýsingu stjórnvalda við AGS og velt fyrir sér skuldastöðu okkar væru allir á móti Icesave, líka á Alþingi. Þess vegna hafa andstæðingar Icesave ekkert vald.
AGS vill að við samþykkjum Icesave. Meðan það er ógert beita þeir okkur þrýstingi. Þegar Icesave er samþykkt þurfa þeir ekki að beita okkur þrýstingi. Þegar Icesave er samþykkt á Alþingi Íslendinga getur AGS sagt okkur fyrir verkum. Ef Icesave verður samþykkt, verður það síðasta frjálsa/fullvalda atkvæðagreiðsla Alþingis Íslendinga.
Ég ætla að mæta á Austurvöll og mótmæla, meira svona til að geta sagt frá því við afabörnin. Eftir Icesave ætla ég bara að hugsa um sjálfan mig, en sennilega mun ég aldrei skilja hvernig náttúruverndarhugsjónir VG gátu falið í sér tortímingu fullveldis þjóðar sinnar.
Undarlega lítill kraftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.12.2009 | 00:33
Tilgangurinn helgar meðalið...
Steingrímur fjármálaráðherra Íslands virðist vera uppvís að ósannindum. Lögmannsstofan breska sér ástæðu til þess að svara Steingrími. Sennilega finnst þeim vegið að heiðri sínum. Þeir segja einfaldlega að íslenskur ráðherra fari með rangt mál, þ.e. Steingrímur lýgur að þeirra mati.
Ef um væri að ræða minniháttar mál eins og vegagerð í kringum búgarðinn hans þá stæði mér kannski á sama um ósannindi hans. Icesave er mál sem skerðir fullveldi Íslands, sem leggur skuldir á börnin okkar og líka börnin þeirra. Ef Steingrímur getur sagt ósatt við þjóð sína þá hefur ekki vafist fyrir honum að fóðra samflokksmenn sína í VG með heppilegum staðreyndum, bæði sönnum og ósönnum eftir atvikum.
Það verður alltaf augljósara að Steingrímur er staðráðinn í að troða Icesave ofaní þjóðina. Þar helgar tilgangurinn meðalið. Hann svíkur öll sín kosningaloforð, hann segir ósatt og hann bannar birtingu skjala svo að þjóðin sé ekki upplýst. Það getur ekki skýrst af því að Steingrímur sé ESB sinni, það getur ekki verið vegna ást á ráherrastól. Hver er skýringin? Gaman að stjórna eða hugguleg eftirlaun??
De Reya svarar Steingrími | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.12.2009 | 02:00
Tarfurinn Steingrímur
Sendir einhver barnið sitt í flugferð ef það eru 10% líkur á því að flugvélin farist. Sérstaklega ef völ væri á öruggari ferð.
Í þessu samhengi eru svör Steingríms algjörlega út í hött. Það vottar ekki fyrir efa né áhyggjum hjá ábyrgum ráðherra fjármála íslensku þjóðarinnar. Hugsið ykkur ef skurðlæknir tæki svona létt á svipuðum líkum hjá sjúklingi sínum. Það er engin samkennd né samsömun með þjóðinni eða áhyggjum hennar hjá Steingrími. Hann setur bara undir sig hausinn eins og tarfur, sennilega er það Jóhanna sem sveiflar rauða sjalinu sem tryllir hann.
Ég veit ekkert um IFS greiningu né hæfni þeirra en mér finnst að álit sem kemur inn á borð hjá fjárlaganefnd beri að meðhöndla með meiri alvöru hjá Steingrími. Hann hafnar ekki einu sinni niðurstöðum þeirra og samtímist finnst honum þær ekki efni í áhyggjur. Hér er um mikinn skort á tilfinningargreind hjá núverandi fjármálaráðherra okkar.
Ég verð nú að segja að nú tekur steininn úr.
Forsendur IFS-álits svartsýnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.12.2009 | 23:43
Það verður mjög sérstakt að vera búsettur á Íslandi eftir að Ivesave verður samþykkt á mánudaginn.
Það verður mjög sérstakt að vera búsettur á Íslandi eftir að Ivesave verður samþykkt á mánudaginn.
Allar kannanir á skoðunum Íslendinga sýna að 70% eru andvígir Icesave. 35000 manns skora á Ólaf Ragnar forseta að senda lögin til þjóðaratkvæðis. Þrátt fyrir þessar sterku vísbendingar, um að stjórnarmeirihlutinn sé ekki að ganga í takt við þjóð sína, skal þjösnast áfram. Fulltrúarlýðræðið skal nýtt til hins ýtrasta og ekki er það gert fyrir skattgreiðendur þessa lands. Að þjónkast erlendum hagsmunum sem skaða hagsmuni íslenskra borgara er ekki það sem kjósendur þessarar stjórnar kusu þá til. Því miður er töluverður skortur á virkri neytendavernd þegar kemur að gallaðri eða úreltri vöru á Alþingi Íslendinga.
Ein stærsta ástæðan fyrir því að margir Íslendingar telja það rétt að borga Icesave er samviskubit. Við erum flest alin upp við heiðarleika og skilvísi. Okkur finnst rangt að standa ekki í skilum. Þessi skoðun kemur fram í ýmsum myndum. Bæði beint og óbeint eins og þegar rætt er um að tilheyra aftur alþjóðasamfélaginu eða vera aftur þjóð meðal þjóða. Fyrir utan að þetta stenst ekki nánari skoðun þá er stærsta spurningin hversu mikið má leggja á eina þjóð, má rústa blómlegu þjóðfélagi bara vegna samviskubits?
Þetta samviskubit, þessi viðurkenning skuldar er meginorsök fátæktar í heiminum. Fátækustu lönd heimsins skulda langt innan við 1% af öllum skuldum heimsins. Í þessum löndum deyr fólk, 300 manns á hverjum 15 mínútum, vegna sjúkdóma sem hægt er auðveldlega að koma í veg fyrir. Ekki hefur verið tekið í mál að afskrifa þessar skuldir. Gordon Brown hefur þar verið ötull talsmaður lánveitenda við að koma í veg fyrir afskriftir. Hann kann sitt fag og ekki virðist núverandi Ríkisstjórn á Íslandi hafa þvælst mikið fyrir honum.
Það verður mjög sérstakt að vera búsettur á Íslandi eftir að Icesave hefur verið samþykkt á mánudaginn, að vera kominn í fátækragildru lánadrottnanna. Kannski mun Samfylkingunni takast að verða okkur út um fátækrahjálp, það er að segja, fyrir þá Íslendinga sem eftir verða á landinu.
Icesave tekið út úr nefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2009 | 01:30
Það má reka RÚV 10 sinnum á ári fyrir vextina
Þrátt fyrir þetta vopnahlé milli stjórnar og stjórnarandstöðu þá segja talsmenn stjórnarinnar að Icesave málinu ljúki fyrir jól. Það er sérkennilegt að mönnum liggi svona mikið á. Ef við höfum í huga að bara vaxtagreiðslurnar á ári eru meira en rekstrarkostnaður Landspítalans. Einnig mætti reka RÚV 10 sinnum á ári fyrir vextina. Síðan á eftir að greiða sjálft lánið.
Einhvernvegin skil ég Samfylkingarmenn. Þau vilja bara fara inn í ESB hvað sem það kostar. Þeim hefur tekist að heltaka huga þjóðarinnar. Það eru tækifæri í kreppunni. Tækifæri Samfylkingarinnar var að komast í stjórn með VG. Ekki bara það, heldur féllst Steingrímur á það að sækja um ESB aðild. Allt kreppunni að þakka. Sökum yfirvofandi niðurskurðar kemur mjög hófleg gagnrýni frá RÚV á stjórnvöld. Hver vill missa vinnuna sína? Baugsveldið er í andarslitrunum og á allt sitt undir stjórnvöldum, ekki fer maður að gagnrýna lífgjafa sína. Í slíkum samanburði dansar Davíð sóló og kemur vel út.
VG dansar með því þau eru svo hrædd um að Samfó leggist með Sjálfstæðisflokknum. Krumla Samfylkingarinnar hefur læst þjóðina í fangelsi óttans. Kreppan var tækifæri þeirra til að koma Evrópusambandsaðild á koppinn. Það sérkennilega er að sennilega hefði verið betra að ganga inn þar fyrir nokkrum árum eða þá eftir einhver ár. Það hefði gagnast íslenskri þjóð betur. Er von að maður velti því fyrir sér hvað þeim gengur eiginlega til með þessu brölti sínu.
Þar að auki hefur ekkert verið gert í því að hreinsa til í spillingarbælinu. Vill Samfó lifa í spillingunni og deila henni með Evrópubúum. Er það það sem við viljum?
4.12.2009 | 00:00
Steingrímur tekur botnnegluna úr
Það er mjög sérkennileg staða sem ég er í. Ég hef verið sannfærður í næstum heilt ár að við séum ekki borgunarmenn fyrir skuldum ríkis og þjóðar. Þ.e.a.s að Ísland sé gjaldþrota. Sannfæring mín skópst vegna umgengi við hagfræðinga, bæði stóla og sófa, sem voru búnir að kynna sér málin í þaula. Þegar ég rýndi gögnin var málið í raun mjög einfalt. Við Íslendingar getum ekki framleitt nægjanlega til að geta staðið í skilum. Þar sem fáir ef nokkrir tóku undir með okkur fór maður að upplifa sig sem eitthvað skrítinn.
Síðan í fyrra hafa bara komið fram upplýsingar sem styðja þessa niðurstöðu, því hef ég með tímanaum orðið svolítið minna skrítinn.
Björgunarhringur Íslands er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Þar fór í verra og verður sífellt augljósara. AGS gerir ráð fyrir auknum þjóðartekjum, það er óskiljanlegt í kreppu. Tekjur ríkisins eiga að aukast um 50 milljarða á ári næstu árin samkv. AGS. Engin rökstuðningur fyrir því. Vöruskiptajöfnuður á að verða jákvæður um 160 milljarða á ári næstu árin, það er mjög sérkennilegt því jöfnuðurinn hefur verið neikvæður langflest árin frá upphafi síðustu aldar. Til að ná slíkum jöfnuði er fátt sem við getum leyft okkur að flytja inn til landsins.
Áætlun AGS er gengur ekki upp, við lestur hennar fær maður fullvissu á grun sínum að Ísland sé gjaldþrota. Það er í raun eina gagnsemi skýrslu þeirra.
Við slíkar aðstæður er öll umræðan um Icesave algjörlega galin. Við erum gjaldþrota, með Icesave erum við bara meira gjaldþrota. Steingrímur er svo hrikalega 2007, tökum lán og lifum hátt, den tid, den sorg. Sjálfsagt er björgunarbáturinn hans tilbúinn þegar við hin sökkvum í skuldadýkið.
Að taka botnnegluna úr sínum eigin bát er skrítið, því get ég nú orðið huggað mig við það að ég er ekki svo skrítinn eftir allt saman.
Ísland stefnir í greiðsluþrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |