Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
3.11.2008 | 22:42
The Untouchables.
Það virðist sem nýr sértrúarflokkur sé fæddur á Íslandi. Það má kalla þá "the untouchables" eða hinir ósnertanlegu. Það eru svona einstaklingar sem búa yfir þeim einstæða eiginleika að mega ekki skulda, nema það henti þeim sérstaklega. Þ.e.a.s. ef þeir eru að kaupa sér hlutabréf sem munu aukast í verðgildi.
En núna árar illa á hlutabréfamarkaðnum og þá minnka líkur á því að kaupendur á hlutabréfum geti staðið í skilum. Sérstaklega ef það er haft í huga að hlutabréfakaupin voru fjármögnuð með lánum. Við venjulegar aðstæður eru slíkir einstaklingar gerðir upp. Nú vill svo til að töluverður hópur manna sem vinna innan fjármálafyrirtækja njóta sérkjara. Það má segja að kreppan nær ekki til þeirra því þeim er ekki gert að greiða skuldir sínar. Forsendan er sú að ekki sé hægt að hafa gjaldþrota einstaklinga í vinnu í bönkum og slíkum stofnunum.-The Untouchables-.
Á sínum tíma hreinsuðu menn til og fjarlægðu skemmdu eplin. Það var mikill uppgjörstími og ýmsir lágu í valnum að lokum. Það sýndi sig þá að menn voru ekki svo ósnertanlegir.
Á Íslandi í dag eru að myndast mjög sérkennilegar aðstæður. Það er algjör vantrú á Ríkisstjórn og Seðlabanka, bæði hér heima og erlendis. Flokkshollusta riðlast sem aldrei fyrr. Mikil ólga og gerjun á sér stað. Því er þessi sérhagsmunagæsla eins og bensín á bálið. Ætli mörlandanum sé ekki nóg boðið og fjandinn verði laus. Sjálfsagt ekki vanþörf á því.
8.10.2008 | 21:13
Ábyrgð okkar.
Í mínu starfi fylgist ég með lífsmörkum einstaklinga sem eru í skurðaðgerðum. Ég þekki til hvernig líkaminn bregst við ýmsum lyfjum sem ég gef einstaklingnum. Ég veit einnig hvernig mismunandi einstaklingar bregðast við sömu lyfjum og haga mér í samræmi við það. Einnig er ég viðbúinn hinu óvænta. Ofsablæðing í skurðaðgerð er í raun mjög óvænt atvik, sjaldgæft en möguleiki. Þrátt fyrir að þetta gerist mjög sjaldan þá erum við alltaf undir það búnir. Við höfum alltaf tiltæka vökva og neyðarblóð. Við höfum stóra og góða aðganga til að gefa slíkt. Oft er sagt að við svæfingalæknar séum allt of stressaðir og sjáum stórslys í hverju horni. Reynslan hefur einfaldlega kennt okkur að það borgar sig að hafa bæði belti og axlabönd. Ástæða þessa er að sjálfsögðu umhyggja okkar fyrir skjólstæðingum okkar. Einnig og ekki síður orðspor okkar því það er mjög auðvelt að draga hvern og einn okkar til ábyrgðar.
Í bankamálum þjóðarinnar virðast ekki vera neinir sökudólgar. Aftur á móti fullt af fólki sem hvítþvær hendur sínar eins og Seðlabankastjóri okkar. Allir virðast hafa bent á hætturnar, hættuna af of mikilli fjárfestingu bankanna og hættuna af of veikum Seðlabanka með tilliti til þessara miklu fjárfestinga bankanna.
Ég stöðva skurðlækni sem vill skera upp sjúkling sem er á fullri blóþynningu því honum mun blæða. Ef sjúklingur fer í aðgerð sem getur blætt mikið á ég nóg af blóðvarasjóð í hann svo hann lendi ekki í blóðþurrð því þá gæti hann orðið fyrir varanlegum skaða. Ég er Seðlabankinn. Skurðlæknirinn er útrásarbankinn því ef vel teks til þá mun sjúklingurinn læknast, en því fylgir viss áhætta. Hver er ábyrgur, sjúklingurinn(kaupandi hlutabréfa), skurðlæknirinn(bankinn) eða svæfingalæknirinn(Seðlabankinn). Allir en það er eins og svæfingalæknirinn ætli að sleppa.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2008 | 20:21
Ísland að athlægi.
Það er ekki gaman að vera Íslendingur í dag. Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi frelsi athafnamanna og einkavæddi bankanna. Sami flokkur lagði niður frelsið og innleiddi Ráðstjórn á Íslandi. Því má segja að við fáum bæði peninga og verklagsreglur frá gamla góða Rússlandi.
Þrátt fyrir varnaðarorð færustu manna hafa embættismenn og ráðherrar gert minnst lítið, fyrr en núna og þá í algjöru pati. Enda er umheiminum skemmt. Seðlabankinn hefur sent "ekki nægjanlega vel skilgreinda ósk" til Bandaríska seðlabankans. Spurningin er hvort umsóknin var páruð á pappírsþurrku í Seðlabankanum. Norski og sænski Seðlabankinn hafa ekki fengið neina formlega ósk um aðstoð.
Davíð er í Kastljósinu og hvítþvær sig af glæsibrag, enda enginn viðvaningur. Samt gott að fá að hlusta á hann milliliðalaust. Sannfæringarkraftur hans er svo mikill að manni líður strax mikið betur.
Vandamálið er bara að það eru svo fáir sem skilja íslensku í heiminum og fá ekki notið orða Davíðs eins og við hér heima.
16.9.2008 | 20:46
Er múrinn rofinn?
Nú hefur sáttasemjara þótt nóg komið og lagt fram miðlunartillögu. Samninganefnd ljósmæðra ætlar að mæla með þessari tillögu Ásmundar. Það hljómar mjög spennandi. Ef til vill ætlar Ásmundur á endasprettinum að hygla verkalýðnum, svona hálfgerður svanasöngur sáttasemjara áður en hann hættir. Hitt er líka möguleiki að ríkið hafi verið búið að rífa tennurnar svo úr ljósmæðrum að þær sætta sig við hvað sem er. Það sem gerir þennan kafla svo spennandi er hvort ljósmæðrum tekst að rjúfa múrinn. Tekst þeim að ná fram réttlátri leiðréttingum á sínum kjörum. Tekst þeim sem kvennastétt að fá kjarabætur sem er í einhverju samræmi við kaup og kjör slöngustrákanna í bönkunum. Ábyrgð ljósmæðra er mikil því mikið er í húfi. Ekki bara fyrir þær heldur fleiri kvennastéttir. Þetta er einnig fordæmisgefandi að menntun sé einhvers metin en ekki bara að raða síld eða peningum í tunnur til útflutnings.
Ég er í Berlín þessa dagana. Berlínarmúrinn og sú frelsisskerðing sem fólst í honum var ekki brotin á bak aftur á einni nóttu. Sama á við þann múr sem umlykur kjör kvenna á Íslandi. Í dag er Berlínarmúrinn horfinn. Allir eru sáttir, líka þeir sem byggðu hann og sjá núna hversu mikil mistök hann var. Vonandi munu múrararnir í Fjármálaráðuneytinu skynja sinn vitjunartíma.
Verkfalli aflýst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2008 | 23:45
Fagin og kók.
Það er merkilegt þetta blessaða þjóðlíf okkar. Þegar bankarnir missa tekjur auka þeir álögurnar á okkur venjulegum neytendum. Þannig halda þeir í horfinu og útlendir greinendur skilja ekki neitt í neinu. Þrátt fyrir djúpa niðursveiflu skila þeir afgangi. Meira að segja Bubbi tapaði á trúnni á fyrirtækjum. Mjög einföld regla er sú að fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiða eitthvað, eins og Coke t.d. Ekki fjarfesta fyrr en síðasta skuldin er greidd, þannig er það bara. Þetta eru hinar einföldu reglur gyðingsins í Mark Twain. Það virðist að þeir sem telja fólki trú um að að fara EKKI eftir þessum grundvallaratriðum hagfræðinnar fái mestu launin. Það virðist sem Brútus hafi alltaf vinninginn.
Það er eins og öll íslenska þjóðin hafi verið að sniffa kók undanfarin ár. Full af óraunsæi og látið slag standa. Þjóðin er núna með timburmenn og fráhvarf. Yfirvöld, þ.e. íslenska Ríkisstjórnin virðist enn vera í vímu. Allt er svo gott og elskulegt og best að gera ekki neitt og bara njóta. Við þessir venjulegu sem erum fyrir löngu komnir úr trippinu sköðumst bara enn meira eftir því sem tíminn líður. Það er mál til komið að senda yfirvöld í þurrkví.
Meginregla Fagins var eftirfarandi; afla 20 pennía og eyða 19, einfalt ekki satt.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 00:47
Ásmundur og mannréttindin.
Núna eru þeir búnir að innsigla hann Ásmund. Þar sem málfrelsi er á Íslandi er ekki hægt að innsigla raust hans í krukku. Hann er að berjast fyrir mannréttindum á Íslandi. Gandi þurfti að storka lögunum á sínum tíma og eins er farið fyrir Ásmundi. Kínverjar meina þeim íþróttamönnum um landvistarleyfi á meðan ólympíuleikarnir standa sem eru eru að ybba gogg. Þeir sem eru þægir og þegja eins og Ólafur Ragnar og Þorgerður Katrín fá að koma. Viðbrögð stjórnvalda gegn þeim sem berjast fyrir mannréttindum virðast keimlík hjá ríkisstjórnum Kína og Íslands. Ekki er ég hlynntur lögbrotum almennt séð. Aftur á móti eru brot á mannréttindum hafnar yfir slíkar vangaveltur. Mannréttindi eru kjarnaatriði í lífi hvers einstaklings og hafa því meira vægi. Mannréttindi eru ekki verslunarvara. Því styð ég Ásmund heils hugar og finn til skammar vegna viðbragða íslenskra stjórnvalda. Auk þess er ég ekkert hreykinn af þeim stjórnmálamönnum eða forseta vorum sem fóru til Kína. Aftur á móti er íþróttafólkinu vorkunnn ekki ákváðu þau að leikarnir skyldu haldnir í storknuðu blóði fólks á Torgi hins himneska friðar.
Bátur Ásmundar innsiglaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2008 | 21:39
Bubbi, Björk, Ásmundur og lykkjan.
Bubbi Kóngur er enn einu sinni búinn að valda usla. Honum finnst að Björk eigi frekar að hafa áhyggjur af fátækum Íslendingum en náttúru Íslands. Þ.e.a.s.. að hafa frekar áhyggjur af manneskjum en grasi. Stuðningsmenn Bjarkar taka svo upp hanskann fyrir sína konu og skjóta þungum skotum að Bubba, aðallega neðan mittis. Bubbi er mjög "beisik", hann er bara að hugsa um að sem flestir landsmenn eigi fyrir salti í grautinn, eins og faðir Bjarkar er einnig að vinna að. Svo eru sumir, eins og Björk að reyna að bjarga náttúrunni. Sumir telja okkur mennina ekki til náttúrunnar. Vandamál þeirra er að við erum hluti af náttúrunni. Annað vandamál er að manneskjurnar eru bæði hluti af náttúrunni og miklir áhrifavaldar í náttúrunni. Meðan manneskjur svelta verður náttúran að bíða eftir því að röðin komi að henni, það er bara þetta sem Bubbi er að meina.
Svo er það hann Ásmundur trillukarl. Hvar fittar hann inn í þetta náttúrutal? Hann er að reyna að vera náttúrulegur. Hann vill veiða fisk á litlum bát á hafi sem er fullt af fiski. Hví skyldi hann ekki fá að veiða nokkra fiska? Er það ekki sjálfsögð mannréttindi að fá að veiða fisk í landi eins og Íslandi? Ef þú vilt viðhalda manneskjum þá veiðir maður fisk og virkjar náttúruna á allan hátt. Náttúran verður því miður að lúta í lægra haldið fyrir okkur mönnununum. Bæði menn og konur setja sig upp á móti þessu viðhorfi og telja sig til náttúruverndarsinna. Aftur á móti held ég að sömu manneskjur fari sjálfviljugar í fóstureyðingu og noti lykkjuna óspart sem drepur frjóvgað egg, eða þannig sko.
21.7.2008 | 00:43
Ásmundur.
Það er þetta með einstaklingsframtakið. Það getur verið á stundum svolítið fallvalt. Tökum sem dæmi. Marteinn Lúter stóð upp og sagðist ekki geta neitt annað. Jón Sigurðsson stóð upp og sagðist mótmæla í kór þó hann væri einradda þá. Núna er einhver kvótalaus trillukarl sem heitir Ásmundur að veiða fisk úr sjó án leyfis. Allt ætlar um koll að keyra, þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir karli eins og hann sé í bráðri lífshættu.
Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindunni. Að minnsta kosti er Ásmundur að reyna að draga björg í bú, það er meira en hægt er að segja um Ríkisstjórn Íslands.
10.7.2008 | 23:13
Hvalir, veiðimenn og líkbrennsla.
Hvalir, þeir fæðast, lifa og deyja svo. Svo sekkur skrokkurinn til botns og er þar étinn af ránfiskum eða einhverjum örverum. Þegar venjulegur íslenskur sjómaður veiðir hval í soðið þá er rætt um það í Kastljósinu. Dýraverndunarsinnar finnst amalegt að drepa þurfi dýrið og sérstaklega ef ekki tekst að sála því á mannúðlegan hátt. Hitt var einnig slæmt að horfa þurfti upp á dýrið verkað af fagmönnum. Ég veit ekki hvort dýraverndunarsinnar haldi að venjulegur maður geti étið lifandi, spriklandi hval, og þar að auki hráan. Ég tel það að minnsta kosti óvinnandi veg. Auk þess vildi ég ekki mínum versta óvini að vera étinn lifandi og heldur ekki hvölum.
Þegar Afríkubúi deyr úr hungri vegna þess að Ríkisstjórn hans keypti vopn frekar en mat, þá fellur hann til jarðar og er étinn af rándýrum eða einhverjum örverum. Það er örugglega ekki gott að deyja úr hungri og sérstaklega ekki ef hýenurnar eru byrjaðar að narta í mann áður en maður er alveg dauður.
Menn veiða sér til matar og verða eftir sinn dag fóður fyrir móður náttúru. Þeir sem kunna ekki að meta þetta aldna fyrirkomulag munu sjálfsagt panta líkbrennslu.
9.7.2008 | 19:56
Bókaþjófur á jeppa.
Merkilegt hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Ef ég stel bók í búð og það kemst upp, er það tilkynnt til lögreglunnar strax. Í kjölfarið verð ég að skila þýfinu, greiða sekt og er síðan skráður í sakaskrá ríkisins.
Fyrrum forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur lét af störfum fyrir skömmu. Hann var leystur út með 30 milljón krónum að skilnaði. Eitthvað fannst honum það naumt skammtað því hann tók jeppa og mikilvæg skjöl traustataki. Sjálfsagt hefur hann þurft jeppann undir skjölin. Fyrrum samtarfsmenn hans hafa verið að hringja í hann undanfarið og falast eftir því að hann skili aftur eigum Orkuveitunnar. Hann neitar og kemst upp með það. Hvað er í gangi? Hver á Orkuveituna, við eða Gummi? Hvar er löggan?