Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
30.6.2008 | 12:56
Hver er sinnar gæfu smiður.
Mér finnst augnablikið eitthvað svo merkilegt. Sjálfsagt eru allir tímar merkilegir. Þessa stundina er ég að velta fyrir mér ægivaldi ríkisins gagnvart viðsemjendum sínum um launakjör. Hver samtökin á fætur öðrum koma tómhent frá því samningaborði. Þetta flokkast víst undir þjóðarsátt.
BHM samdi greinilega illa um daginn. Var þar um að ræða að andstæðingurinn var óvinnandi. Vantaði styrk, samheldni og vilja hjá félagsmönnum. Ekki veit ég.
Þegar tekist er á skipta kænska og aflsmunir miklu máli og í raun þurfa báðir þættir að fá að njóta sín. Núna ætla hjúkrunarfræðingar að reyna að ná góðum samningum við ríkið. Eftir að símsvari Árna hefur sagt nei við öllu hafa hjúkrunarfræðingar ákveðið að grípa til aðgerða. Ég óska þeim alls hins besta og hvet þá áfram í baráttu sinni.
Árna vil ég benda á að til er hlutur sem heitir arðbær fjárfesting. Vel mannaðar heilbrigðisstofnanir af hjúkrunarfræðingum ná betri árangri en illa mannaðar. Þar sem við Árni erum nú báðir komnir af léttasta skeiði gæti það skipt sköpum þá og þegar maður fellur í faðm hjúkrunarfræðinganna.
29.6.2008 | 05:06
The Godfather prúttar ekki.
Niðurstaða þessa kjarasamnings er mjög sérkennileg. Ríkið hefur hér fullnaðarsigur. Ég er núna staddur í Tyrklandi og menn stunda mikið prútt í viðskiptum. Niðurstaðan verður alltaf sú að ef viðskipti takast eru báðir sáttir, einfalt og þægilegt. Því virðast menn ekki prúttað mikið á þeim nótunum í karphúsinu.
Þeir sem sáu myndina The Godfather í den muna sjálfsagt eftir senunni þegar hann gerði einum manni svohljóðandi tilboð; annað hvort fer undirskrift þín á skjalið eða heilinn þinn- hann beindi nefnilega skammbyssu að hnakkanum á náunganum. Í þessu dæmi er ekki mikið um prútt. Aftur á móti fellur slíkur viðskiptamáti frekar undir ofbeldi.
Samið til loka mars 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.6.2008 | 22:05
Tyrkland-2.
Hér í Tyrklandi er fyrst og fremst gaman. Afslöppun, sól, hiti og góður matur-það er að minnsta kosti ekta. Tyrkir selja með bros á vör falsaða vöru til hægri og vinstri. Við prúttum pínulítið og kaupum síðan vöruna, vitandi að hún er fölsuð en ánægð samt. Hér get ég keypt heilt Rolex úr á verði einnar leðurólar á úrið mitt í Reykjavík.
Ég er að velta því fyrir mér hvort okkur heima á Fróni er ekki eins farið. Sjálfsagt rennur samskonar blóð í æðum tyrkneskra kaupmanna og íslenskra kaupahéðna. Á Íslandi kaupum við sí og æ falsaða verðlagningu með bros á vör. Að minnsta kosti kannast maður við röksemdir sölumannanna" only for you my frind....."
Skítt að Rússar töpuðu en Spánverjarnir voru miklu betri.
1.6.2008 | 21:44
Sjómannadagurinn.
Það er sjómannadagurinn í dag. Mikill merkisdagur. Ég vil óska öllum sjómönnum innilega til hamingju með daginn. Einnig mökum og fjölskyldum. Þessi dagur skipar stóran sess í mínu lífi. Ekki það að ég sé sjómaður, hef ekki migið í saltan sjó svo neinu nemi. Aftur á móti tók ég þátt í kappróðrakeppni sem stýrimaður hjá kvennaliði sjúkrahússins á Patreksfirði 1987. Við unnum. Fyrir vikið á ég eina medalíu, þá einu sem mér hefur hlotnast enn sem komið er. Þar að auki fleygðu stelpurnar mér í sjóinn.
Það ber vissan skugga á daginn í dag. Íslendingar eru dæmdir sem mannréttindaníðingar af mannréttindadómstóli Sameinuðu Þjóðanna. Við brjótum mannréttindi á sjómönnum. Dómstóll SÞ hefur óskað eftir því að við látum af mannréttindabrotunum og fer fram á að við gerum grein fyrir því hvernig við hyggjumst gera það. Svar okkar er að við "ætlum að pæla í því" Við gætum alveg eins ullað á Sameinuðu Þjóðirnar.
Til allra hamingju voru nokkrar hugrakkar konur frá Landsambandi kvenna í Frjálslynda flokknum sem mótmæltu í dag. Þær klæddu sig upp í sjóstakka og báru mótmælaspjöld. Þær skiptu ekki þúsundum en vöktu engu að síður mikla athygli. Fjölmiðlar tóku eftir þeim og höfðu við þær viðtöl, teknar myndir. Nærvera þeirra undir ræðu sjávarútvegsráðherra gerði ræðu hans að hjómi einu, slæm var hún nú fyrir.
Hvar voru allir menningarvitarnir sem mega aldrei vita af neinu óréttlætinu í útlandinu?
11.5.2008 | 23:58
Það var og.
Stundum getur maður orðið svolítið þreyttur á þessari pólítík. Þetta endalausa pot og plott. Dæmi um það er flutningur á flóttamönnum til Akranesbæjar. Eftir því sem Magnús Þór segir þá er sú framkvæmd gerð á fljótfærnislegan og ólýðræðislegan hátt. Ekki það að Akurnesingar hafi eitthvað á móti þessu fólki heldur aðferðum stjórnvalda við að koma þessu á koppinn. Utanríkisráðuneytið er sjálfsagt orðið svo heimaríkt apparat að örlítill lýðræðislegur halli skiptir þá engu máli. Þá þyrstir í öryggisráðið og því hafa þeir ekki tíma til að ræða málin við lítið sveitarfélað á Íslandi.
Það væri óskandi að þessi framtakssemi væri alsráðandi í störfum ríkisstjórnarinnar. Því miður er ekki svo. Meðan krónan okkar er í frjálsu falli og heimalagaðir vextir bólgna eins og gerbolla gerir stjórnin ekki neitt. Krónan hefur sjálfsagt sitt frelsi til að falla. Ríkisstjórnin hefur sjálfsagt líka sitt frelsi til að gera ekki neitt. En ef frelsið skaðar okkur hin?
Ef kosið hefði verið núna til þings þá hefðu ráðherrar nýtt sér betur innanlandsflugið og ef til vill gert eitthvað meira í málinu, eða hvað? Það var og.
12.4.2008 | 23:06
Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn, Gylfi og Guðmundur.
Ég var svolítið lúinn eftir vinnuna í dag svo ég kom engu af viti í verk, til að gera ekki neitt las ég dagblöðin, athæfi sem ég stunda yfirleitt ekki nema ég sé kominn í þrot með þrek. Merkilegt en ég fann bara nokkra góða bita. Skemmtilegt viðtal við Guðmund Ólafsson í 24stundum. Þar lýsir hann því hvernig íbúar Rússlands höfðu ákkúrat ekkert með stjórn landsins að gera og stjórnendur fóru sínu fram að eigin geðþótta. Fékk svona Deavú tilfinningu, hélt ég byggi ekki í kommúnistaríki, en það er samt margt líkt með okkur og Rússum eins og Lobbi rekur í viðtalinu.
Örlög Ráðstjórnarríkjanna voru víst skelfileg, rotnuðu innanfrá. Það er ekki laust við að smá fúkkalykt sé kominn hér heima líka. Þegar fyrrvernadi Morgunblaðsstarfsmaður en núverandi dósent í hagfræði við Háskóla Íslands fer að leggja til rýmingu á ellideild Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum, þá virðist fokið í flest skjól. Enda var Illuga illilega brugðið í sama blaði þegar hann hlustaði á menntamanninn í sjónvarpsfréttunum um daginn segja þetta. Að segja ráðsettum stjórnvöldum til syndanna getur reynst viðkomandi afdrifaríkt. Það fór ekkert sérstaklega vel fyrir Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn
á sínum tíma ef einhver var búinn að gleyma því.
1.4.2008 | 20:20
24 000 000 000 Evra X 120
Skuldir bankanna næstu 3 árin er víst þessi summa, reikni nú hver sem betur getur. Eins og ég skil þetta þá er verið að tala um að "bjarga" bönkunum. Ég sakna umræðu um hluthafana sem eiga bankana. Ef maður á fyrirtæki á maður ekki líka skuldir fyrirtækisins. Ég á mitt heimili með öllum þeim hlunnindum sem þar kunna að finnast en einnig þeim fjárskuldbindingum sem leynast þar. Þannig er það bara. Ætli ég geti breytt heimili mínu í banka?
24.3.2008 | 00:48
Ísland og Titanic.
Ég hlustað á kvöldfréttatímann áðan og fréttirnar af ofbeldinu í Breiðholtinu voru þar fyrirferðamiklar. Það er reyndar mjög skiljanlegt því þetta er nokkuð nýtt á Íslandi að 12 manns ryðjist inn á heimili fólks.
Reyndar var önnur frétt sem vakti einnig athygli mína. Hún var um þann ótta og skelfingu sem gripið hefur um sig vegna efnahagsástandsins hér á landi. Margs konar vangaveltur um FL grúppu og hugsanlega vaxtarhækkun Seðlabankans. Þetta hljómar eins og sökkvandi skip. Þá kom upp í huga minn Titanic því hroki og dramb varð því góða skipi að falli.
22.3.2008 | 21:17
THE QUEEN.
Ég horfði á þessa mynd í gær með fjölskyldunni. Var hálfneyddur til þess því mér finnst lífið of stutt til þess að horfa á sjónvarp. Myndin var aftur á móti hreint afbragð. Myndinni tókst mjög vel að lýsa hversu mikil gjá er á milli kóngafólksins og almúgans. Okkur öllum finnst allt svo gott og fullkomið á Íslandi þannig að varla getur slíkt komið fyrir hér. Var samt hugsi. Breska kóngafólkinu fannst engin þörf á því að láta það trufla sig sem olli bresku þjóðinni mikilli angist og sorg. Það þurfti miklar fortölur svo þau kæmu sér til höfuðborgarinnar. Þegar þau gengu loks á meðal þegna sinna skynjuðu þau alvöru málsins. Spurningin er hvort Geir og Solla ættu að fá sér spássitúr í staðinn fyrir að vera þvælast út um víðan völl-og láta ekki trufla sig.
Th
11.3.2008 | 23:21
Sendiherrar, tollarar og Björgólfur.
Mikið erum við þessir almennu borgarar eitthvað miklu skyni skroppin. Þetta er algjörlega augljóst. Eftir því sem sendiherrunum fjölgar þurfum við færri tollverði. Sendiherrar þurfa ekki tollskoðun bara við hin. Ríkisstjórnin er með samhengi hlutanna á hreinu. Að við skulum vera að fárast yfir þessu.
Aftur á móti hvíslaði ólyginn því að mér að Actavis væri á förum, með manni og mús. Við það missa 90 lyfjafræðingar vinnu sína. Ég vona svo sannarlega að ólyginn sé lyginn í þetta sinn. Það ku víst vera hagstæðara að reka slík fyrirtæki erlendis.
Hvert ætli Björgólfur Thor myndi flytja utanríkisráðuneytið?