Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Árið 2008, ESB og holræsin.

Uppgjör virðist mörgum hugleikið þessa dagana. Um er að ræða uppgjör við árið 2008. Ég mæli með pistli Rakelar Sigurgeirs bloggvinkonu minnar. Í þeim pistli er drepið á marga nytsama hluti og uppbyggilegar vangaveltur.

Í vefritinu AMX er deilt á nýjan ritstjóra Morgunblaðsins. Hann er ekki einarður andstæðingur ESB eins og Styrmir er. Hann vogar sér að taka undir hótanir Ingibjargar um aframhaldandi stjórnarsamstarf eða ESB. 

Ég verð nú að segja að þetta er nokkuð einfölduð mynd. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ESB eftir landsfundinn og Samfylkingin fer í fýlu þá geta Sjálfstæðismenn myndað nýja stjórn með Framsókn eða Vinstri grænum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun öll völd í hendi sér. Hann getur frestað kosningum út kjörtímabilið ef hann vill. Það skiptir engu máli hvað Samfylkingin vill eða vill ekki. Samfylkingin virðist bara vilja það heitast af öllu að liggja með Sjálfstæðisflokknum í bælinui. Síðan dreymir hana um að teyma okkur öll inn í ESB.

Þjóðin vill spillinguna burt og það stefnir í að bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur skolist einnig niður í það holræsi.   


SKORTSTAÐA-?!??

Ég á sætan rauðan jeppa. Nonni vinnufélagi minn fær hann lánaðan í 3 mánuði. Hann greiðir mér 50 þúsund krónur fyrir að fá bílinn minn lánaðan í 3 mánuði. Nonni selur svo bílinn minn strax á 3 milljónir, sem er sem sagt núvirði bílsins. Nonni ætlar að sjálfsögðu að skila mér aftur bílnum að þrem mánuðum liðnum, ÞVÍ ÉG Á BÍLINN ENNÞÁ. Það er að segja á milli mín og Nonna á ég bílinn ennþá, annars væri hann ekkert að hugsa um að afhenda mér bílinn MINN aftur. Auk þess er Nonni strangheiðarlegur maður, er reyndar örlítið gefinn fyrir skjótfenginn gróða. Hann hefur nefnilega hugsað sér að kaupa bílinn mitt aftur til baka áður en þriggja mánaða lánstímanum er lokið. Nonni er að vonast til að bíllinn minn hafi fallið í verði á þessum þremur mánuðum. Ef hann Nonni minn er heppinn þá kaupir hann sæta jeppann minn á 2 milljónir og græðir næstum því eina milljón á bröltinu. Sniðugt, ekki satt?

Bröltinu fylgir viss áhætta og í því felast vandamálin. Ef bíllinn minn hækkar í verði tapar Nonni. Það er ekki verst af öllu. Það sem er verra er ef allar bílasölur landsins fara á hausinn í einu. Þá getur Nonni ekki keypt aftur bílinn minn. Síðan munu lánadrottnar sem bílasölurnar skulduðu taka bílinn minn upp í skuldir bílasölunnar. Þá á ég 50 þúsund kallinn frá honum Nonna en engan bíl. Nonni er horfinn eins og jörðin hafi gleypt hann.

Ég vona bara að eins sé ekki komið fyrir lífeyrissjóðnum mínum og bílnum mínum því þá er ég virkilega í djúpum skít, eða þannig sko.

 

 

 

 


Hvert eigum við að sigla skútunni? Í örugga höfn að sjálfsögðu. Hvaða höfn?

Hvernig þjóðfélag bjuggum við í og hvernig viljum við hafa þjóðfélagið í framtíðinni. Við getum huggað okkur við að okkur mun ekki gefast mikið ráðrúm til að velta fyrir okkur gamla þjóðfélaginu okkar. Fyrir því eru tvær ástæður, við megum engan tíma missa við nýsköpunina og hitt að gamla þjóðfélagið hefur nú þegar á liðnum vikum rúllað í gegnum pappírstætarana og er því ekki til frásagnar.

Hvað viljum við, það er augljóst að mjög margir vilja breytingar. Sú pólitíska biðstaða sem þjóðinni er boðið upp á er hneyksli. Að bíða eftir því hvort þessi eða hinn armurinn í Sjálfstæðisflokknum verði undir er tímasóun. Að verða meðlimir í EU tekur minnst 3 ár og að ganga inn í myntbandalagið krefst aga og laga sem fyrirfinnast ekki á Íslandi. Því er öll umræða um EU eingöngu til að tefja tímann frá nauðsynlegri umræðu um það sem skiptir máli.

Það sem skiptir máli í öllum hamförum er að lágmarka skaðann. Annað hvort gerir maður það á staðnum eða forðar sér. Okkur liggur á því annars verður enginn eftir á strandstað til að taka til hendinni. Ýmsar hugmyndir eru ræddar manna á millum en fást ekki ræddar af viti því það þóknast ekki valdhöfum. Ein hugmynd er að taka upp evru einhliða. Enn hefur engum tekist að sannfæra mig um að við verðum ver staddir eftir slíkan gjörning en fyrir. Því finnst mér það vel þess virði að fara þá leið. Annar kostur er sá að þá hættum við að jarma um inngöngu í stóra sérhagsmunaklúbbinn EU.

Síðan þurfum við að endurskoða allan aðgang að upplýsingum í þjóðfélagi okkar. Allt á alltaf að vera upp á borðum, nema hernaðarleyndarmál Íslands sem komast fyrir á einni örk. Ef við óskum upplýsinga þá eigum við að fá þær strax og umbúðalaust. Þannig vil ég hafa nýtt Ísland.

Auk þess vil ég geta kosið flokk og raðað sjálfur upp listanum á þeim flokki sem ég kýs. Jafnvel kæmi til greina að kjósa Forsætisráðherrann sjálfan beinni kosningu. Samhliða myndum við leggja Forsetaembættið niður. 

Að lokum þetta, að Íslendingar séu á hraðferð, hugsunarlaust inn í EU með tilstuðlan Samfylkingarinnar er mér mjög á móti skapi. Ég vil ekki fara þangað inn vegna þess að ég verð, vegna þess að Samfylkingin var svo heppin að allt fór á hausinn og henni gefst þannig tækifæri á að leiða okkur þangað inn eins og hverja aðra þræla. Forfeður mínir herjuðu Evrópu, þannig kann ég bara betur við mig.

http://z.about.com/d/losangeles/1/0/x/-/-/-/2cruiseship-harbor-aerial1.jpg


The day after.

Tilfinningarnar eru æði sérkennilegar í dag. Það er margt og margvíslegt sem hrærist í kolli mínum. Best af öllu væri ef um draum væri að ræða og ég myndi vakna upp í gamla Íslandi þar sem allt lék í lyndi á "lánum". Hinn kosturinn er að haga sér eins og hver önnur skipsrotta og yfirgefa skerið og flytja til annarra landa og eyða ellinni þar.

Borgarafundurinn í gær markaði viss tímamót. Ef stjórnvöld hefðu bara iðrast og viðurkennt að þau hefðu getað staðið betur vaktina þá væru flest allar forsendur fyrir andófi brostnar. Þau gerðu það ekki. Þau voru hrokafull. Því er ég sorgmæddur í dag.

Við vitum öll að ástandið er mun alvarlegra en valdhafar hafa sagt okkur. Við sættum okkur ekki við að við séum sniðgengin. Það má treysta okkur fyrir sannleikanum. Við viljum vita sannleikann. Við þurfum að vita hið rétta því við þurfum að geta brugðist við á réttan hátt. Hvert foreldri ber ábyrgð á sinni fjölskyldu. Við þurfum að lámarka skaðann fyrir börnin okkar. þess vegna krefjumst við réttra upplýsinga. Fyrir börnin okkar. 

 

Image:Thedayafter.jpg


HÁSKÓLABÍÓ KL 20:00 Í KVÖLD.

 Nú mætum við öll í Háskólabíó í kvöld og eigum góða kvöldstund með ríkisstjórn og þingmönnum. Gefum þeim góð heilræði í bland við uppbyggilega gagnrýni-ef þau mæta.

Gasklefi verðtryggingarinnar.

 
Lán hafa þá náttúru að þau þarf að endurgreiða ef einhver hefur ekki fattað það.
 
Hvað skiptir mestu máli núna. ESB?, Oddson? Eftirlaun? Kosningar? Nei og aftur nei. Mál málanna er verðtrygging lána. Er lán Alþjóða gjaldeyrissjóðsins verðtryggt? Nei þar eru bara vextir.
 
Verðtrygging er bara á Íslandi. Verðtryggingin mun gera mikinn fjölda Íslendinga eignalausa. Íslendinga sem hafa alltaf staðið í skilum og ekki keypt sér flatskjá. Verðtryggingin mun éta upp sparnaðinn okkar. Íslendingar sem áttu 1/3 í eigninni sinni í fyrra eiga ekkert í dag. Ef fram heldur sem horfir mun verðtryggingin gera venjulega Íslendinga svo skulduga að enginn mannlegur máttur getur komið þeim úr skuldasúpunni. Við munum aldrei geta greitt upp skuldirnar við bankana/lífeyrissjóðina. Við munum ekki geta selt eignirnar okkar því þær duga engan veginn fyrir skuldunum. Við getum ekki leigt þær út því leigan dugar ekki fyrir afborgununum. Við getum því ekki flúið landið. Vegna verðtryggingarinnar erum við föst og borgum og borgum. Við borgum án þess að hafa neinn hvata til þess, enga ánægju, engin eignamyndun, við borgum bara í neikvæða leigu. Við verðum ofurseld lánadrottnum okkar. Við verðum leiguþý, hjáleigubóndi. Við eigum enga sök á þessu.
 
Gylfa formanni og ASÍ finnst þetta bara fínt og allt í besta lagi. Ríkisstjórnin lengir bara í hengingarólinni. Multimillarnir bíða með gullið sitt í útlandinu og ætla svo að kaupa okkur upp þegar við erum komin inn í gasklefann og allt er betra en dauðinn.
 
Hvar er ég? Undralandi, vakna ég á eftir? Eða mun ég bara heyra hvissið í Samfylkingargasinu rétt áður en ég dey.
 
Látum ekki leiða okkur til slátrunar eins og gyðinga forðum daga.

Strútarnir.

Mjög merkilegt. Allir vissu en enginn gerði neitt. Enginn sagði íslenskri þjóð sannleikann. Að Davíð hafi orðið hógvær og tileinkað sér samræðustjórnmál hefur greinilega komið íslenskri þjóð í koll. Hann var vanur því að menn gerðu eins og honum fannst. Honum fannst að Ísland gæti farið í gjaldþrot og hann muldraði bara út í horni. Öðruvísi mér áður brá. Allt þetta lið eru strútar með höfuðið á kafi í sandinum.

Annað mjög merkilegt. Davíð hefur leitt Geir upp á aftökupallinn og brugðið snörunni um hálsinn á honum. Hvenær opnar hann fallhlerann.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldulesning-ræða Viðars á Austurvelli í gær.

Sjá hér ræðu Viðars á Austurvelli í gær. Algjör skyldulesning, auk hinna ræðanna sem voru mjög góðar

 

Viðar Þorsteinsson flytur ræðu um stofnun nýs lýðveldis, 15. nóvember 2008.

.


Austurvöllur og Iðnó í dag.

Nokkrir einstaklingar tóku sig til og svívirtu Alþingishúsið okkar í dag. Það var miður. Það dróg athyglina frá innihaldi mótmælanna. Ræður fundarmanna komust ekki eins vel til skila fyrir vikið í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Vonandi hættir fólk þessu. Reyndar er þetta til marks um reiði fólks. Okkur er vorkunn að vissu marki.

Ég mætti í dag og fylgdist með, bæði í Iðnó og síðan á Austurvelli. Eggjakastið hófst eftir að formlegum útifundi  hafði verið slitið. Það er mikil undiralda í þjóðfélaginu. Mikil reiði. Hún brýst fram með ýmsu móti, ræðurnar í dag voru eldheitar, spurningar á fundinum í Iðnó voru beittar og klappið, stappið og undirtektirnar sýndu greinilega að hugur er í fólki. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var að tillaga Einars Más um að endurheimta kvótann fékk langbestar undirtektir fundarmanna á Austurvelli. Greinilegt var að fundarmenn telja fisk vera hluta af íslensku atvinnulífi.

Þær tilfinningar sem atburðir dagsins skilja eftir í huga mínum eru margs konar. Hvernig gátum við verið svona grandalaus og bláeygð? Einn fundarmanna hvíslaði að mér að það væru til svo margir Íslendingar sem kysu Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þó að þar væri hundur í fyrsta sæti, það væri hluti af skýringunni. Þetta bendir til þess að eitthvað mikið sé að í iðkun lýðræðis ef svo geti gerst. Ég held að fólk verði að fara að leggja svolitla stund á lýðræðisiðkun. Fylgjast vel með og mynda sér sína skoðun. Svo segir sagan að æðstu menn í Sjálfstæðisflokknum segi Ríkisfjölmiðlunum fyrir verkum. Ef satt er þá er erfitt að vera lýðræðisiðkandi ef Ríkisfjölmiðlarnir eru beintengdir pólitískum flokki.

Það er mikil nauðsyn að við stokkum upp spilin. Við verðum að skapa opið lýðræðisþjóðfélag. Við verðum að hafa óháða fjölmiðla, sem þora. Við verðum að hafa þjóð sem nennir að fylgjast með og skiptir sér af. Foreldrar sem láta börnin á vergang eru ekki að standa sig. Að lokum, við verðum að tína burt öll skemmdu eplin jafnvel þó það sé skítverk.


Krónan okkar er orðin latína.

Ef, ef, ef við bara hefðum gert þetta eða hitt þá væri allt í stakasta lagi.  Á bloggsíðu  Egils kemur fram að breskur fræðimaður vann skýrslu fyrir Landsbankann og kynnti fyrir þeim, mönnum úr Seðlabankanum og Fjármálaráðuneytinu s.l. sumar. Hann spáði fyrir um það sem við höfum upplifað þessa vikuna. Nokkrir vinnufélagar mínir hafa margoft rætt möguleikann á þeirri stöðu sem upp er komin í að minnsta kosti hálft ár. Því virðist sem almenningur og fræðimenn hafi gert sér fulla grein fyrir hvað gæti gerst. Því miður höfðu þessir aðilar engin völd til að rétta kúrsinn á skútunni.

Ég hef örlítinn skilning á spennufíkn bankamannanna, reyndar í dag er samúðin ekki upp á marga fiska. Ábyrgð þeirra er mjög mikil. Bretinn sem Egill vitnar í gaf tvær leiðir s.l. sumar. Halda krónunni og flytja bankana út eða taka upp evru og halda bönkunum innanlands. Að halda bæði krónunni og bönkunum var andvana fædd hugmynd. Hvaða grunnskólakrakki sem er sér það í hendi sér að bankakerfi sem skuldar 12 faldar þjóðartekjur getur ekki staðið í skilum.

Ef bankarnir hefðu flutt sig um set hefðu þeir lifað af og íslenska ríkið ekki lent í þessum hremmingum. Þá hefði íslenska ríkið misst af góðum tekjum ef bankarnir hefðu flutt sig erlendis. Davíð vildi ekki evruna og við að sat. Hann vildi ekki einu sinni baktryggja bankann með nægjanlegum varasjóði gjaldeyris því í dag getum við bara keypt inn lífsnauðsynjar frá útlöndum. Í dag eru bankarnir okkar rjúkandi rústir og fjöldi einstaklinga atvinnulaus. En við eigum þó krónuna okkar. Hún er reyndar komin á bás með Latínunni, hún er til en það notar bara hana enginn lengur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband