AGS og sjálfstæði íslenskrar þjóðar

Það hríslast um mann ónot.

Stöðuleikasáttmálinn er ekki að fæðast og Jóhanna boðar meiri niðurskurð og hækkanir skatta. Sagt er að þeir sem munu hagnast mest á nýjum lögum félagsmálaráðherra séu útrásavíkingarnir. Einhver talar um að leysa megi gjaldþrot án aðkomu dómstóla með nýjum lögum. Össur svara öllum ESB spurningunum fyrir okkur og sendir til Brussel. Allt fer eftir forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslandi. Þessa dagana eru þeir í Wasinthon að skrifa fyrir okkur nýtt prógramm sem verður mun strangara en það gamla, vegna þess að við erum búin að kyngja Icesave.

Icesave, ESB og AGS sinna þörfum fjármagnseigenda. Íslensk alþýða skal borga og blæða. Þetta er innrás. Ekki vegna aðferðanna við innrásina því við hefðum frekar búist við venjulegum hermönnum. Miklu frekar munu afleiðingarnar vera keimlíkar hefðbundinni innrás. Við lok innrásarinnar mun íslensk þjóð hafa glatað sjálfstæði sínu. Þjóðin mun glata sjálfstæði sínu vegna gríðarlegra skulda. Skulda sem munu taka megnið af fjárlögum okkar til að endurgreiða. Mjög lítið ef nokkuð verður eftir til velferðamála. 

Þjóðin er sundruð. Hluti hennar heldur að himnaríki sé í Brussel. Þau fórna öllu til að komast í eilífa sælu. Þeim er í raun vorkunn. Eru þessir friðelskandi bændabörn reiðubúin til að munstra sig í samevrópskan her og berja á einhverjum sem hafa sjálfstæða skoðun. Sennilega ekki því þeim dreymir sennilega frekar um leðurklædda skrifstofustóla. Síðan eru allir sérhagsmunahóparnir sem sundra þjóðinni.

Hvernig væri nú að þjóðin vakni og standi saman. Við getum ekkert verið að rífast um pólitík né sérhagsmuni fyrr en AGS er komin af landi brott.


Skuldasúpan

Icesave, ESB eða AGS. Icesave tengir þessar yfirþjóðlegu stofnanir svo nett saman í dæmi okkar Íslendinga. Lánadrottnar er lykilatriðið í þessu samhengi. Ef við samþykkjum Icesave þá munu fleiri lánadrottnar fylgja á eftir og á endanum verðum við verksmiðja sem framleiðir eins mikið og hún getur eingöngu til að borga af lánum. Þetta er framtíðarsýn núverandi stjórnvalda. Ef við segjum nei við Icesave, AGS og ESB munum við komast einhverft annað en í skuldasúpuna. Hvernig munum við skilja það án algjörrar uppstokkunar í núverandi flokkakerfi með sinni spillingu. Þurfum við umbyltingu eða bara byltingu?

Ekki segir Seðlabankinn ósatt?

Það vill enginn í stjórnsýslunni kannast við að skuldastaða þjóðarbúsins sé slæm. Ráðherra viðskipta kemur fram og segir að áhyggjur séu ekki á rökum reistar. Ef farið er á vef Seðlabankans og inn á hagtölur eru þar athyglisverða upplýsingar. Þar finnst tafla sem heitir Greiðslujöfnuður við útlönd. Þar er fram kominn nýr dálkur, hann birtist núna nýlega og kallast vanskil. Vanskil á vöxtum og afborgunum hefur verið að aukast allt þetta ár. Um mitt þetta ár eru vanskil 386 milljarðar. Í hagtölum Seðlabankans er önnur tafla sem heitir erlend staða þjóðarbúsins . Þar er einnig kominn fram nýr dálkur frá síðustu áramótum. Sá heitir fjármögnun vanskila og eru bara vanskil. Þar er talan 1000 milljarðar og hefur hækkað hratt frá áramótum.

Ef Seðlabankinn er farinn að gera grein fyrir vanskilum þjóðarinnar og það er ný starfsemi hjá Seðlabankanum þá er ekki nema að fólk bregði.

Gunnar Tómasson ræðir þessi mál af mikilli yfirvegun og þekkingu. Greinilegt er af viðbrögðunum að ummæli hans eru hættuleg og því að öllum líkindum rétt. Hann bendir á að ekki sé til nein greiðsluáætlun hjá hinu opinbera hvernig eigi að nýta þann litla gjaldeyri sem þjóðin aflar til greiðslu á erlendum skuldum okkar. Því er ekki hægt að horfast í augu við raunverulegan vanda. Við óttumst að þjóðin geti lent í vanskilum. Að mótmæla því án gagna er áróður og því illa til þess fallinn að draga úr kvíða okkar.


Liðhlauparnir á Alþingi

Staðan fyrir íslenskt fullveldið er ískyggileg í dag en ekki vonlaus. Samfylkingin er reiðubúin að ganga í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum ef VG eru ekki hlýðnir. S og S eru tilbúin að fórna Landsvirkjun í gin lánadrottna. Landsvirkjun tók kúlulán sem er að falla á gjalddaga og það er ekki til peningur til að borga það lán. VG eru í þeirri stöðu að kljúfa stjórnina eða kyngja Jóhönnu á þeim rökstuðningi að það sé skárra en S og S stjórn.

Samtímis vita allir að við erum ekki borgunarmenn fyrir öllum þeim skuldum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Sjálfstæðismenn vilja selja auðlindir vorar upp í skuldir. Samfylkingin vill það líka og þar að auki ganga í ESB til að verða gólftuska lánadrottnaranna. Klofningurinn í VG vonast til að við setjum punkt við frekari lántökur, framleiðum okkur úr vitleysunni, eigum auðlindirnar og borðum slátur á meðan. Steingrími finnst það greinilega ekki nógu fínt fyrir sig.

Það er algjörlega augljóst að þeir 63 þingmenn sem sitja núna á Alþingi Íslands eru algjörlega ófærir um að leysa þau vandamál sem steðja að þjóð okkar. Þeim er fyrirmunað að varðveita fullveldi lítillar þjóðar. Við slíkar aðstæður verður að gera byltingu. Annað hvort förum við sem getum og skiljum hina eftir í skítnum eða við stöndum saman og berjumst.

Krefjumst greiðslustöðvunar á lánum sem ógna fullveldi okkar. Semjum, okkur til hagsbóta. Öflum, spörum og stöndum í lappirnar-vér mótmælum öll-fyrir börnin okkar.


Viðtal við mig á Bylgjunni.

Ef ykkur langar til að hlusta á mig á Bylgjunni s.l. föstudagsmorgun þá er upptakan hér.

Greiðslustöðvun strax!!

Það er mjög sérstakt að ríkisstjórn sjái sér fært að greiða Icesave skuldina þegar það er nokkuð ljóst að við ráðum ekki við að standa í skilum með skuldir þjóðarinnar í heild. Í stað þess að leggja spilin á borðið og reyna að minnsta kosti að sýna fram á að við getum borgað skuldir okkar þá velur stjórnin leynimakk og blekkingu. Marga grunar að við stefnum hratt í greiðsluþrot ef fram heldur sem horfir. Mun betra væri að lýsa yfir greiðslustöðvun á nokkur ár. Semja upp á nýtt við alla lánadrottna. Nota síðan tímann til að framleiða okkur út úr vitleysunni. Ekki vera í þessu 2007, borga lán með lánum.

Fréttin í kvöld um samning embættismanna er þvílík sprengja ef satt reynist vera. Það verður mjög spennandi að heyra rökstuðning parsins á morgun. Síðan verður mjög fróðlegt að fylgjast með spunameisturunum.


mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS og Landspítalinn okkar

Grein sem birtist eftir mig í Mogganum í morgun;

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er byrjaður að setja klærnar í holdið. Boðaður er niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og þar með á Landspítalanum. Rætt er um 9% niðurskurð á LSH og það gæti þýtt að segja þyrfti upp 4- 500 manns um leið og fjárlög landsins öðlast gildi. Hvíslað hefur verið um frekari niðurskurð næsta sumar. Ljóst er að árin 2011 og 2012 þarf að skera jafn mikið niður og árið 2010, eða meira. Það stefnir í að 700-1000 manns verði sagt upp á LSH fyrir lok árs 2013. Það er nærri 20% af 5000 manna liðsafla Landspítalans. Meðan Ísland fer eftir prógrammi AGS mun þetta gerst.

Ef við könnum sögu AGS þá er hún ekki góð. Þau lönd sem hafa lotið stjórn hans hafa upplifað mikinn niðurskurð á velferðakerfinu. Stefna þeirra hefur leitt af sér lækkun launa, atvinnuleysi og gjaldþroti heimila og fyrirtækja. Hagur almennings í þessum löndum hefur versnað verulega, sjúkdómar og dauðsföll aukist.

Við skulum líta til nágranna okkar í Lettlandi. Þeir fengu, eins og við, auðveldan aðgang að lánsfé. Aðallega frá sænskum bönkum. Úr varð mikil bóla sem síðan sprakk. Núna er þar kreppa og sænsku bankarnir vilja fá skuldirnar endurgreiddar með vöxtum. AGS er mættur á staðinn til að sjá til þess að skuldirnar séu greiddar til baka með niðurskurði og skattpíningu. Laun kennara voru lækkuð um 25% 1. september síðastliðinn. Skattar hafa hækkað. Nú þegar er búið að loka 36 skólum og 13 sjúkrahúsum. Komugjöld hafa aukist. Heilbrigðisráðherrann hefur jafnvel stungið upp á því að greiða eingöngu fyrstu tvo legudagana en síðan greiða sjúklingarnir afganginn. Forstjóri gas félagsins er búinn að gefa það út að ef reikningar verði ekki greiddir verði lokað fyrir gasið í vetur. Ríkisstjórn Lettlands reynir eftir bestu getu þessa októberdaga að slást við AGS. Lettar eru reiðubúnir að skera niður um 275 milljónir latta en AGS krefst 500 milljóna niðurskurðar á næsta ári. Lettar hafa staðið upp í hárinu á AGS nokkrum sinnum en ekki haft erindi sem erfiði.

Ísland á ekki fyrir skuldum sínum og því mun koma til meiri lán frá AGS í náinni framtíð. Afleiðingin af því verður afnám þeirrar heilbrigðis- og félagsþjónustu sem við höfum þekkt hingað til. Í öðrum löndum sem AGS hefur stjórnað hefur millistéttin snarminnkað, fátækt aukist og örfáir verið ríkir. Er þetta það sem við viljum? Er svona mikilvægt að greiða skuldir óreiðumanna, skuldir sem þú og ég vissum ekkert um fyrr en þær fóru fram yfir eindaga.

Nei segi ég. Lýsum yfir einhliða greiðslustöðvun í 5-10 ár. 27 ríki hafa gert það á síðustu 30 árum. Ræðum við lánadrottnana og semjum um skuldirnar til langs tíma og niðurfellingu á hluta þeirra. Notum andrýmið til að byggja upp heilbrigt atvinnulíf sem skilar afgangi í kassann og er að öðru leiti sjálfbært.


Mun samstarf okkar við AGS valda varanlegum skaða?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt línurnar hjá okkur Íslendingum. Ríkistjórnin gerir ekkert án leyfis AGS. Því erum við í raun ekki fullvalda. Lán AGS duga fyrir jöklabréfunum margfrægu. Þegar gjaldeyrishöftin fara þá munu þessi bréf hverfa úr landi. Til að eigendur þessara bréfa fái þau á sem bestu gengi mun AGS láta okkur nota lánið til að styrkja gengið. Þar með klárast lánið og íslenskur almenningur hefur þar með borgað jöklabréfin. Sniðugt, ekki satt?

When I give food to the poor, they call me a saint. When I ask why the poor have no food, they call me a communist.

Ein og hálf milljón barna deyr vegna niðurgangs. Það deyja 10 milljón börn yngri en fimm ára á ári. Það deyja 20 börn á mínútu allan ársins hring. Flest þessara barna deyja að nauðsynjalausu, þau deyja vegna niðurgangs, sjúkdómur sem er auðmeðhöndlaður eins og flest allir foreldrar á vesturlöndum vita. Þau deyja úr mislingum, sem hægt að bólusetja við. Þau deyja úr berklum sem hægt er að fyrirbyggja og meðhöndla. Þau deyja í fæðingu því það er engin ljósmóðir. Þau deyja úr næringarskorti vegna skorts á mat. Það virðist ekki skipta neinu máli hvað mörg hjálparsamtök reyna að forða þeim frá bana það gengur minnst lítið.

Þessi börn, foreldrar þeirra, landið þeirra er fátækt, blásnauð. Það er ástæðan. Fátæktin skapast af mjög mikilli skuld, þjóðarskuldum. Til að standa í skilum við lánadrottnana þá er minnst lítið eftir fyrir ungbarnaeftirlit, mat og þess háttar.

Þessar þjóðir skulda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stórum bönkum í hinum ríka hluta veraldarinnar. Skuldir þessara þjóða eru sennilega um eitt prósent af öllum skuldum heimsins, þrátt fyrir það er ekki hægt að afskrifa þær-ath 1%. Ef skuldirnar væru afskrifaðar væri hægt að bjarga flest öllum þessum börnum.

Ef við þiggjum öll þau lán sem AGS vill lána okkur munum við lenda í mikilli skuldasúpu og þar með er hið norræna velferðamódel horfið að eilífu.

Er þetta það sem við viljum?


mbl.is 1,5 milljón barna deyr vegna niðurgangs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar, AGS og Austurvöllur

Ég tel vera ögurstund á Íslandi í dag. Ef við fylgjum prógrammi AGS þá munu skuldirnar vaxa okkur yfir höfuð. Því mun Ísland komast í vanskil. Þá verður Ísland að taka meiri lán og enn strangari skilyrði af hálfu AGS. Þar með erum við algjörlega föst og auðlindirnar okkar seldar erlendum kröfuhöfum.

Margir Íslendingar vilja ekki trúa þessu, annars væri Austurvöllur þéttsetinn. Sumir Íslendingar eru þeirrar skoðunar að við eigum að borga Icesave og þá muni AGS opna faðminn og vandamál okkar séu þar með leyst. Þetta stenst illa nánari skoðun. Til að greiða vexti af lánum okkar þurfum við gjaldeyri. Hann fæst með því að selja mikið út úr landinu og kaupa lítið inn. Jafnvel þó að björtustu vonir okkar um jákvæðan vöruskiptajöfnuð yrðu að raunveruleika mun dæmið ekki ganga upp. Við lendum fyrr eða síðar í vanskilum.

Sumir Íslendingar sem stöðu sinnar vegna ættu að vita um stöðu okkar vilja samt borga Icesave. Það eru yfirleitt Íslendingar sem vilja ganga inn í ESB. Þessir Íslendingar eru reiðubúnir að samþykkja auknar álögur á íslenska þegna þrátt fyrir að engin sátt sé um það í þjóðfélaginu. Þessir Íslendingar eru einnig reiðubúnir að dansa með AGS þrátt fyrir að saga sjóðsins sé hryllileg. AGS er rétt að byrja núna að sína sitt rétta andlit á Íslandi. Kröftugur niðurskurður er boðaður og grunsemdir um enn meiri niðurskurð næsta sumar. Spurningin er hversu miklu Samfylkingin er reiðubúin að fórna af landsins gagni og gæðum bara til þess að komast inn í ESB. 

Örlög VG eru sérkennileg. Þeir virðast vera eini flokkurinn sem sé tilbúinn að hjálpa Samfylkingunni inn í ESB. Jafnvel þó að þeir myndu slíta stjórnarsamstarfinu með samfó vill enginn hlaupa í skarðið. Því telur Steingrímur að hann verði að sýna ábyrgð.

Sennilega væri Íslandi fyrir bestu að VG myndu slíta stjórnarsamstarfinu og lýsa yfir að þeir taki ekki þátt í plat-vinstri stjórn. Það er engum til góðs að halda þessari vitleysu áfram. Síðan þurfum við öll sem unnum landi voru, hvort sem við erum í VG eða ekki, að sameinast í mótmælum á Austurvelli og byrja á því að krefjast þess að AGS verði vísað til síns heima. Síðan einhliða greiðslustöðvun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband