9.10.2009 | 21:48
Mætum öll í MÍR salinn á morgun!!
Baráttudagar í Október
- Grasrótahreyfingar funda um nýtt Ísland
Á morgun (laugardag 10. okt.) ætla grasrótahreyfingar úr öllum flokkum að funda í MÍR salnum á Hverfisgötu (við hliðina á lögreglustöðinni) í tilefni af bankahruninu.
1. málstofa byrjar kl. 10:00 með yfirskriftinni
"Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar"
Þórarinn Hjartarson
Þórður Björn Sigurðsson
Davíð Stefánsson
2. málstofa kl 13:00 til 15:00
"Hver fer með völdin á Íslandi?"
Jakobína Ólafsdóttir...Hver stjórnar Íslandi
Gunnar Skúli Ármannsson ...Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Haraldur Líndal...Skuldastaða Íslands
3. málstofa kl 16.00 til 18.00
"Átök og verkefni framundan"
Andrea Ólafsdóttir
Lilja Mósesdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson.
Ráðstefnan mun standa fram á sunnudag.
Ný stefna fyrir Ísland
4. málstofa kl 11.00 til 13.00
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Helga Þórðardóttir
Vésteinn Valgarðsson
Þorvaldur Þorvaldsson
4.10.2009 | 22:46
Silfrið, Guðfríður Lilja og AGS
Mér fannst Silfrið í dag bara nokkuð merkilegt. Átakalínur komu betur fram. Samkvæmt Guðfríði Lilju þá er sterk tilhneiging að koma Icesave í gegnum bakdyrnar. Hún og fleiri ætla að reyna að koma í veg fyrir það leynimakk. Þorvaldur Gylfa prófessor taldi slíka lýðræðisiðkun bara framkvæmdavaldinu til trafala. Maðurinn er ekki tækur í lýðræðislega umræðu, ætli hann sé enn á launum hjá AGS? Jarðfræðingurinn góði jarðaði stóriðjudrauma landsmanna. Orkan er ekki endalaus né eilíf.
Umræðan um skaðleg áhrif AGS á land og þjóð verður stöðugt háværari. Menn klæða orð sín ýmsum klæðum en sameiginlegt er öllum óttinn að sjóðurinn skilji Ísland eftir sem rjúkandi rúst. Það er reglan hjá sjóðnum þannig að full ástæða er til að óttast. Því er okkur ráðlegast að senda hann til baka, því fyrr því betra.
3.10.2009 | 20:51
Örlög Samfylkingarinnar
Samfylkingin virðist vera komin í blindgötu. Leggur af stað sem rödd hins almenna borgar, hinna vinnandi stétta og einnig hinna sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Hugmyndin var að mynda sameinað afl gegn hægri mönnum og einokun þeirra á völdum landsins. Í kjölfar atkvæðagreiðslu meðal Samfylkingarmanna var aðild að Evrópusambandinu gert að einu helsta stefnumáli flokksins. Nú er svo komið að þjóðin upplifir að Samfylkingin sé reiðubúin að fórna öllu fyrir það eitt að komast inn í ES. Það skapraunar þjóðinni og Samfylkingarmenn eru farnir að skynja það. Því setur Össur upp skúespil fyrir framan sofandi fulltrúa á alsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna.
Hvenær fór Samfylkingin út af sporinu, eða var þetta ætlunin allan tímann. Völdin sem allir töldu að væri forsenda fyrir bættum hag hins breiða hóps vinnandi stétta og þeirra sem minna mega sín, þau völd tilheyra núna hinni rauðu fylkingu sem söng Maístjörnuna forðum. Völdin eru ekki hinna "vondu" hægri manna. Þau segja að þetta væri allt verra ef þau væru ekki við stjórn. Spákúluvísindi.
Rætur vinstri hreyfinga Íslands eru í hungri, atvinnuleysi, Gúttóslag, niðurlægingu og afneitun pólitískra skoðana til að geta brauðfætt börnin sín. Þau ætluðu að vinna á, vinna gegn auðvaldinu en ekki með því. Að pólitískur skollaleikur, leynd, klækjastjórnmál og hræðsluáróður yrðu örlög Samfylkingarinnar eru svik við hina öldnu kempur. Byltingin át ekki börnin sín, auðvaldið át Samfylkinguna.
1.10.2009 | 00:30
Ögmundur, Árni Páll og sjálfstæði landsins
Ég held að ég sé orðinn eitthvað meir, sjálfsagt aldurinn.
Horfði á Ögmund í Kastljósinu. Fékk bara gæsahúð. Þegar Ögmundur sagði að plan B væri að standa í fæturna risu bara hárin. Svolítil þjóðremba, afsakið. Framsókn reddar norsku láni, sá norski kvarta yfir því að engin FORMLEG beiðni hafi enn komið frá Íslendingum. Ef hún kæmi vilja allir nossararnir ólmir lána okkur. Árni Páll dissar svo algjörlega framtak Framsóknar og telur Norðmanninn ábyrgðarlausna með öllu. Þau hafi margoft "rætt" við Norðmenn og ekki fengið lán, segir Árni. Kunna ekki Íslendingar að óska eftir láni á FORMLEGAN hátt. Að ræða um lán í einhverjum kokteilpartíum er ekki formleg beiðni Árni minn.
Andstæðurnar eru að kristallast fram þessa dagana. Jóhanna er þekkt fyrir að vera frekja og gribba, afsakið orðbragði, en þetta segir almanna rómur. Í dag kom fram að hún krafðist þess að allir væru sammála henni í Icesave málinu. Ögmundur er það ekki og sagði því af sér. Af því leiðir að Jóhanna trúir því að við eigum að borga Icesave. Hún trúir því að við berum ábyrgð á Icesave. Enginn okkar sem erum væntanlegir greiðendur Icesave trúum því. Þess vegna er trú hennar á skjön við trú þjóðarinnar. Af því leiðir einnig að Steingrímur trúir því sama og Jóhanna.
Jóhanna trúir þessu til að komast inn í Evrópusambandið. Hvers vegna Steingrímur trúir þessu er mér hulin ráðgáta, ekki vil ég trúa því að honum finnist stóllinn svona mjúkur.
Eftir að hafa hlustað á Arna Pál og Jóhönnu í dag þá fallast manni hendur. Hvaða gagn gerir Samfylkingin íslenskri þjóð í dag, ég bara spyr. Þau vilja AGS og þann niðurskurð sem þeir mæla fyrir. Þau vilja borga Icesave þó okkur beri ENGIN skylda til þess. Þau leggjast í duftið fyrir fjármálavaldinu bara til þess að komast inn í ESB.
Þess vegna vakti það von að Ögmundur skyldi rísa upp og segja "ég er ekki sammála".
30.9.2009 | 18:29
Takk Ögmundur-það er von!
Í raun er þetta bara nokkuð merkilegt. Í fljótu bragði man ég ekki til þess að ráðherra hafi sagt af sér fyrir jafn litlar sakir og Ögmundur. Hann er ósammála stefnunni í Icesave málinu og segir því af sér ráðherraembætti. Hann verður við kröfu Jóhönnu sem vill ekki hafa neina í liðinu sem hafa aðra skoðun en hún. Þar sem ein skoðun er bara leyfð þá varð hann að ákveða sig hvort hann skipti um skoðun eða segi af sér og hann ákvað að segja af sér.
Ég verð að taka ofan hattinn fyrir Ögmundi. Hann lætur hjá líða að njóta valds og hárra launa og stendur með sannfæringu sinni. Það er bara stórmerkilegt. Auk þess má segja Ögmundi til hróss að hann skynjar straumana í þjóðfélaginu. Það er að verða mjög mikil breyting á afstöðu fólks til Icesave og AGS. Raunar er staðan að verða sú að Ögmundur gæti leitt hér raunverulegan Sjálfstæðisflokk gegn AGS og Icesave.
Takk Ögmundur-það er von!
![]() |
Styðja áframhaldandi samstarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.9.2009 | 09:58
Webster Tarpley í kvöld kl 20 JL húsinu.
Í kvöld kl 20 verður Webster með fyrirlestur sem væntanlega mjög athyglisverður. Hann var í viðtali hjá Agli í Silfrinu í gær. Hann kom þar skemmtilega á óvart. Mæli með þessu.
27.9.2009 | 13:33
MH STÚDENTAR 1978 OG 1979, 30 ÁRA STÚDENTAR
Í gær héldum við upp á 30 ára stúdentsafmælið okkar. Ótrúlegt hvað tíminn líður bla bla....
Hittingurinn var mjög vel hepnaður og þau sem undirbjuggu hann eiga mikla þakkir skyldar. Það var mjög gaman og vonandi eigum við eftir að hittast aftur seinna. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í gær.
24.9.2009 | 20:35
Davíð, landráð og endurheimt fullveldis Íslands
Þá mun Davíð okkar Oddsson koma til starfa á ný, sem ritstjóri Morgunblaðsins ef einhver skyldi hafa misst af því. Það er ekki laust við blendnar tilfinningar. Þar sem ég er karlkyns og frekar praktískur í eðli mínu hafa hugsanir mínar snúist mest um þá hugsanlegu gagnsemi sem má hafa af DO sem ritstjóra. Hugsa sér má að hollusta við kvótaeigendur og andstaða við Evrópusambandið muni verða ráðandi. Við vitum þetta svo sem og ekki óvænt. Því mun Mogginn verða lesinn eins og við lásum flokksblöðin í denn, þ.e. með sérstökum gleraugum. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera ókostur því í raun eigum við aldrei að lesa nokkuð gagnrýnislaust.
Ég tel þó ábyrgð Davíðs vera gríðarlega mikla. Ísland berst nú fyrir tilveru sinni. Stór hluti heimila og fyrirtækja landsins er á barmi gjaldþrots. Bankar og orkufyrirtæki eru að hverfa úr eigu okkar í hendur erlendra aðila. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur uppi stýrivöxtum sem setur fyrirtækin í þrot, hann smyr landið með óborganlegum skuldum sem mun færa allt vald frá Reykjavík til Washington og skylda okkur til að selja auðlindir okkar erlendum aðilum á tombóluprísum.
Því er það stóra spurningin hvort Davíð muni taka þátt í landvörnum Íslands sem sannur sjálfstæðismaður eða skemmta skrattanum með því að ná sér niður á fornum fjendum. Tækifæri Davíðs til að reka óværur af landi brott er einstakt, að misnota slíkt er nánast landráð. Við ætlumst til þess að hver maður geri skyldu sína, ef ekki, þá verður það aldrei fyrirgefið.
21.9.2009 | 21:16
Vangaveltur um getu Svínaflensunnar í að heltaka heila fréttamanna.
19.9.2009 | 23:24
784 milljarðarnir, the case is all yours...
Ég stal þessu frá pressunni, án leyfis að sjálfsögðu.
Dómstólaleiðin er Íslendingum enn opin - einungis 16 milljarðar í tryggingasjóðnum
Ef við göngum ekki frá IceSave samningnum við Breta og Hollendinga þá falla 800 milljarðar á íslenska tryggingasjóðinn. Í íslenska tryggingasjóðnum eru bara 16 milljarðar, þannig að Bretar og Hollendingar munu sakna sárlega uþb 784 milljarða. Hvað gera Rotschildarnir þá?
Þeir geta farið að siðaðra manna háttum og sótt rétt sinn til dómstólanna í Reykjavík. Íslenski tryggingasjóðurinn er eins og hvert annað prívat fyrirtæki í Reykjavík. Íslenska ríkið hefur engar skyldur við íslenska tryggingasjóðinn.Evrópusambandið bannar til og með ríkisábyrgð á einkabönkum svo því sé haldið til haga.
Bretar og Hollendingar hafa hingað til ekki komið fram af neinni hógværð, mun frekar hafa taktar þeirra svarið sig meira í ætt við nýlendutaktík. Þess vegna er harla ólíklegt að þeir muni sætta sig við dómstólaleiðina, og þar að auki með tapað mál í farteskinu.
Mun sennilegra er að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði beitt áfram eins og hingað til. Því munu Jóhanna og Steingrímur hlýða og keyra málið í gegn fyrir 23 október. Íslenska ríkisstjórnin hefur hingað til farið í einu og öllu að óskum AGS. Því er ekki að vænta neinna breytinga á því háttalagi skötuhjúanna.
Nýlendutaktík er hvimleið tík, við erum rétt búin að losna við dönsku nýlenduherrana og þá eru komnir nýir á þröskuldinn. Hverjir hleypa þeim uppí er spurning, en er ekki kominn tími til að draga ákveðin mörk, standa í fæturna með sjálfsvirðingu sína að veði og segja;
we won't pay-sorry....