Liðhlauparnir á Alþingi

Staðan fyrir íslenskt fullveldið er ískyggileg í dag en ekki vonlaus. Samfylkingin er reiðubúin að ganga í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum ef VG eru ekki hlýðnir. S og S eru tilbúin að fórna Landsvirkjun í gin lánadrottna. Landsvirkjun tók kúlulán sem er að falla á gjalddaga og það er ekki til peningur til að borga það lán. VG eru í þeirri stöðu að kljúfa stjórnina eða kyngja Jóhönnu á þeim rökstuðningi að það sé skárra en S og S stjórn.

Samtímis vita allir að við erum ekki borgunarmenn fyrir öllum þeim skuldum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Sjálfstæðismenn vilja selja auðlindir vorar upp í skuldir. Samfylkingin vill það líka og þar að auki ganga í ESB til að verða gólftuska lánadrottnaranna. Klofningurinn í VG vonast til að við setjum punkt við frekari lántökur, framleiðum okkur úr vitleysunni, eigum auðlindirnar og borðum slátur á meðan. Steingrími finnst það greinilega ekki nógu fínt fyrir sig.

Það er algjörlega augljóst að þeir 63 þingmenn sem sitja núna á Alþingi Íslands eru algjörlega ófærir um að leysa þau vandamál sem steðja að þjóð okkar. Þeim er fyrirmunað að varðveita fullveldi lítillar þjóðar. Við slíkar aðstæður verður að gera byltingu. Annað hvort förum við sem getum og skiljum hina eftir í skítnum eða við stöndum saman og berjumst.

Krefjumst greiðslustöðvunar á lánum sem ógna fullveldi okkar. Semjum, okkur til hagsbóta. Öflum, spörum og stöndum í lappirnar-vér mótmælum öll-fyrir börnin okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega sammála þér og borða slátur glöð í bragði í suma daga og pasta aðra daga fái þjóðin að halda landinu sínu.

Helga (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 01:10

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.10.2009 kl. 01:34

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Seðgu mér að þetta með SS sé martröð! Að mig hafi dreymt það að ég hafi lesið þetta

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.10.2009 kl. 01:36

4 identicon

Heill og sæll; Gunnar Skúli - sem og, þið önnur, hér á síðu !

Þörf; sem þýðingarmikil grein, inn í umræðuna, á þessum ógnar tímum, Gunnar.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 01:37

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Algerlega sammála. 

Magnús Sigurðsson, 19.10.2009 kl. 10:49

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Bíddu aðeins, hvað er að því að vera í samstarfi við aðrar þjóðir. Þetta eru að því er virðist aðkenning af Bjarts í Sumarhúsum heilkenni. Svelta frekar en vinna með öðrum Evrópuþjóðum. Ég er sem betur fer ekki með þessa pest og þið megið hneykslast á því eins og þið viljið. Ég ánetjast ekki þeim dómsdagsspám sem nú dynja yfir okkur og þannig er það bara. 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.10.2009 kl. 16:17

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég get bara ekki á mér setið Hólmfríður. Það er greinilegt að þú ert sannfærð um það að greinarhöfundur og þeir fimm sem taka undir með honum hafa rangt fyrir sér en þú ein rétt. Þú bendir á að við séum haldin Bjarts í Sumarhúsum heilkenninu. Hvaða heilkenni ert þú þá haldin? Mér þykir yfirlætið í því hvernig þú kemur viðhorfum þínum á framfæri minna mig svolítð á það sem einnkennir Útirauðsmýrarmaddömuna í þeim sömu bókmenntum og þú vísar til.

Þessi eilífðarvísanir í heimsku Bjarts (þá er ég ekki að tala bara um þínar hér að ofan) eru reyndar orðnar svo útjaskaðar og klisjukenndar að þær eru reyndar farnar  að missa marks ekki síst þegar það er haft í huga að Bjartur er svo langt frá því að vera heimskasti einstaklingurinn í bókinni! Hann er þrjóskur og það er það sem heldur honum uppi. Hann er svo þrjóskur og staðfastur að hann neitar að láta valdastéttina murka úr sér lífið.

Það er styrkur hans og óbilandi lífsvilji sem heldur honum á löppunum út alla söguna. M.a.s. í lok sögunnar þegar yfirstéttinni hafði tekist að leggja á hann sitt Iceslave þá stóð hann enn uppi styrkum fótum og tók bar Ástu Sóllilju í fanginu í áttina að nýjum heimkynnum. Það var sama þó það væri búið að rýja hann inn að skinninu þá fann hann leið til að sjá fyrir sér og sínum. Staðurinn var reyndar enn harðbýlari en sá sem hafði verið rænt af honum með okurlánabyrði yfirstétta og fjármálavalds þess tíma.

Lífsvilji Bjarts var óbilaður samt. Hann horfði bara beint fram á veginn. Hann hafði hvorki forsendur úr uppvexti eða skóla til að kunna að bregðast við valdníðslu yfirstéttarinnar sem ætlaði honum ekki að komast til bjargálna fyrir eigin rammleik. Þess vegna er það aðeins hin kristaltæra þrá eða þörf til að lifa sem knýr hann áfram. Þessi sterka lífsþrá sem gefur mannskepnnunni og öðrum dýrum hæfileikann til að aðlagast vonlausum aðstæðum til að halda áfram að berjast fyrir á meðan það dregur andann getur vissulega virst heimsk í grunneðli sínu.

Það er engin hætta á að við Íslendingar sveltum nema ef við komum ekki hrægömmunum af okkur. Þessir hrægammar vaka yfir okkur íslenskri þjóð eins og valdastéttin vomir yfir öllu sem þeir gátu tekið af Bjarti. Spurning hvort við, íslenskur almenningur, höfum staðfestu hans og þrek til að standast það. Hvort við höfum sömu aðlögunarhæfileikana og hann en mér sýnist að það sé full ástæða til að temja sér tortryggni hans í sambandi við bæði AGS og ESB!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.10.2009 kl. 20:56

8 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Hólmfríður,

ég tek það sem hrós að vera líkt við Bjart. Vonandi mun þrjóska hans heltaka heilabú mitt til eilífðarnóns.

Samstarf getur verið með ýmsu móti Hólmfríður. Ríkidæmi hins vestræna heims byggir á einangrunarstefnu fyrri tíma. Afríka, Asía o. fl. hafa alltaf þurft að greiða tolla til að geta selt okkur eitthvað. Þess vegna er Evrópa rík í dag. Þegar A-Þýskaland sameinaðist vestur hlutanum fengu þeir mikla aðstoð til að aðlaga sig markaðskerfinu. Slíkt hefur aldrei verið í boði fyrir vanþróuðu ríkin. Þau fara halloka og eru mjög skuldsett og verða að framleiða hrávöru fyrir okkur með barnaþrælkun.

Ástand Íslands í dag er á pari við vanþróað ríki að mörgu leiti. Við erum gríðarlega skuldsett og stefnum í vanskil. Afleiðingin af því verður þjóð sem notar mest af sínum tekjum til að endurgreiða lán til vestrænna lánadrottna. Til að geta það verðum við að framleiða eins mikið og við getum með eins litlum tilkostnaði og mögulegt(barnaþrælkun). Með verðlausa krónu kaupa erlendir aðilar af okkur vöruna fyrir "skid og ingenting" .

Ég játa það Hólmfríður að ég hef engan sérstakan áhuga á slíku "samstarfi" við aðrar þjóðir.

Gunnar Skúli Ármannsson, 19.10.2009 kl. 21:38

9 identicon

Vel að orði komist Gunnar.  Við hjónin fluttum til Íslands í lok 2007, eftir 5 ára dvöl í Danmörku, til að gera börnin að Íslendingum.  Það verkefni er nú á leið með að mistakast.  Því miður stefna margir minna jafnaldra úr landi ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum núna.  Hver mun þá borga skuldirnar? 

Hér verður að standa í lappirnar - ef ekki fyrir okkur, þá fyrir börnin okkar.

Sveinn Margeirsson (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband