Færsluflokkur: Sjónvarp

Blaðamenn.

Það var viðtal við útlending í Kastljósinu í vikunni. Hann ræddi um mistök blaðamanna í aðdraganda og í kjölfar hrunsins í haust. Þessi mistök voru ekki á neinn hátt einskorðuð við Ísland. Það virðist vera um alþjóðlegt vandamál að ræða. Mistökin felast í því að stunda ekki heiðarlega og nákvæma blaðamennsku. Skýringanna var að leita í ýmsu. Meðvirkni, því allir voru á eyðslutrippi og þar með blaðamennirnir líka. Menn vildu ekki rugga bátnum því það gæti komið eigendum miðlanna illa og þar með blaðamannanna. Allt mjög skiljanlegt og í takt við mannlegt eðli.

Því miður virðist sem blaðamenn hafi ekki lært mikið af mistökum sínum. Kannski er óttinn við atvinnuleysið sem heldur þeim niðri. Er sparnaður í kjölfar kreppunnar sem kemur niðurá góðri blaðamennsku? Hvað um það. Það skortir mikið á góða blaðamennsku enn í dag. Það sem við viljum sjá eru blaðamenn sem kafa vel og grafa upp staðreyndir. Staðreyndir sem eiga erindi við alþjóð en einhverjir vilja halda leyndu fyrir okkur. Það væri góð tilbreyting ef blaðamenn skúbbuðu meira í stað þess að flytja eingöngu fréttir af liðnum atburðum. 


Borgarafundur RÚV-"ég er mættur"

Mikið var gaman að fylgjast með borgarafundi í beinni á RUV. Spillingarmál gömlu flokkanna voru gerð full ítarleg skil. Meiri tími hefði mátt fara í mistök fyrri ríkisstjórna og stefnu flokkanna til framtíðar. Þegar kemur að greiðslum til flokkanna og frambjóðenda er málið einfalt í mínum huga. Ég styrki ekki nokkurn mann með 2 milljónum án þess að ætlast til greiða á móti, það er bara þannig.

Aftur að þættinum. Sturla, minn maður, var lang bestur. Stulli var lang ferskastur og með bestu tilsvörin. Auk þess alvarlegur og í sömu stöðu og margir aðrir atvinnulausir. Hann þekkir það á sínu eigin skinni hvað það er að vera atvinnulaus og gjaldþrota. Því er hann hæfastur til að leysa vandamál einstaklinga í slíkri stöðu. Allar þær hugmyndir sem hann hefur að nýsköpun munu fara langleiðina að leysa atvinnuleysið. Að mínu mati eru það stór mistök ef Stulli kemst ekki á þing.

http://www.raggim.is/stulli.jpg


Hvernig nýtir maður þorskhausa?

Kosningabaráttan hófst í sjónvarpinu í kvöld. Að sjálfsögðu fannst mér minn maður flottastur, þ.e. Addi Kiddi frá Frjálslynda flokknum. Bjarni Ben og Sigmundur voru ekki neinar stjörnur. Tengdamamma sem horfði á þetta með mér skaut því að að feður þeirra tveggja ættu N1 saman. Silvurskeiðastrákar í pólitík. Greinilegt var á málfari þeirra að þeir hafa ekki í saltan sjó migið um langa hríð ef nokkurn tíman. Þeir gera sér enga grein fyrir hvað fólk er að berjast við. Þeir vilja álver þegar enginn vill kaupa ál. Halda þeir að vel menntaðir viðskiptafræðingar sem hafa misst vinnuna hjá bönkunum vilji endilega bræða ál. Þeir eru ekki í sambandi þessir guttar.

Guðjón vill veiða meiri fisk og er það fljótlegasta leiðin til að afla þjóðinni gjaldeyris. Við höfum allt til alls. Við þurfum bara leyfi til að veiða meira, fiskurinn bíður eftir að breytast í gjaldeyri. Sjálfdauður fiskur á hafsbotni gerir engum gagn.

http://www.sams.ac.uk/sams-news/Media%20releases/Members/aham/COD.jpg


Fréttamat RÚV.

Nú er SPRON og fleiri fjármálafyrirtæki komin á hausinn. Sennilega mun fjöldi manns missa vinnu sína. Ráðherrann var einn fyrir svörum í sjónvarpsfréttunum. Hann tjáði okkur að SPRON hefði verið byrjaður að tapa fyrir kreppu og síðan enn meira eftir kreppu. Fréttastofa sjónvarpsins fann enga þörf hjá sér til að greina vandamálið neitt frekar. Ekki ver rætt við neinn hjá SPRON. Ekki ver rætt við skuldunauta SPRON og hvers vegna þeir gátu ekki gefið sparisjóðnum grið. Ekki einu sinni hverjum SPRON skuldar svona mikla peninga. Ekki heldur rætt við neinn sem hugsanlega mun missa vinnuna.

Aftur á móti var löng og ýtarleg frétt um líkfund í nágrenni Reykjavíkur. Þar voru ýmsir teknir tali sem komu að þeim fundi og hvernig leitin var uppbyggð og skipulögð. Að öllum líkindum er um að ræða mjög sorglegan atburð, fráfall konu á besta aldri-móður. Að fréttastofa sjónvarpsins sé að velta sér upp úr persónulegum sorgum meðborgara minna finnst mér ósmekklegt og skammarlegt. Að skora keilur á þennan hátt á ekki að þekkjast. Mun nauðsynlegra er að greina til mergjar hvers vegna blómleg fyrirtæki okkar fara á hausinn hvert af öðru. Þeir sem vilja velta sér upp úr persónulegri óhamingju annarra geta lesið Se og hör.


Frelsi til athafna, flugeldar, bankar og afleiðingar alls þessa.

Meðan ég fylgdist með flugeldum springa og kökur tætast í kvöld fór ég að velta fyrir mér frelsinu til athafna. Það er almennt viðurkennt að einstaklingar eigi að hafa frelsi til athafna meðan þær skaða ekki aðra. Þrátt fyrir þessa meginreglu er hún brotin. Við vitum vel að um hver áramót slasast einhverjir sökum þessa háttalags. Við sættum okkur við að fólk skaði sig vegna ofneyslu áfengis. Við vitum að margur íþróttamaðurinn skaddast við íþróttaiðkun sína. Við ökum bílum alla daga þrátt fyrir að sú iðja kosti mörg mannslíf á ári hverju. Því virðist reglan vera frekar þannig að við höfum frelsi til athafna svo fremi að bara fáir skaðist af háttalaginu. Það sem hins vegar er augljóslega hættulegt fyrir einstaklinginn, einn eða fleiri, er bannað. Svona oftast eða þannig sko.

Þjóðin finnst að frelsi ákveðinna einstaklinga til athafna brjóti meginregluna um að eingöngu fáir skulu skaðast af verkum þeirra, sem nýta sér frelsið til athafna sinna. Almenningur er mjög ósáttur við að frelsið var nýtt til að gera bankana 12 sinnum stærri en þjóðarheimilið. Einnig það frelsi sem stjórnvöld tóku sér til að bregðast rangt við aðsteðjandi vanda. Að þegja þunnu hljóði um hvað er að gerast innanbúðar hjá stjórnsýslunni. Að taka sér það frelsi að sitja áfram, að afnema frelsi okkar til að hafa kosningar. Nýting valdhafa á frelsinu miðast við að þau komist sem best undan vetri. Slík notkun á frelsinu til athafna skaðar allt of marga til að þjóðin sætti sig við það.

Þegar mótmælendur trufluðu og komu í veg fyrir útsendingu hjá sjónvarpsstöð hér í bæ urðu viðbrögðin slík að skaði hlaust af. Að mótmæla samrýmist meginreglunni, að athafnirnar valdi litlum ásættanlegum skaða, eins og við umgöngumst frelsið á öðrum sviðum þjóðlífsins. Til samanburðar má geta þess að margir hafa orðið blindir vegna frelsisiðkunar þeirra sem elska flugelda og annað stórhættulegt dót um áramót.

Hvað um það, það sem ég ætlaði að segja var þetta; ef allir þessir lögreglumenn hefðu frekar takmarkað frelsi bankanna á sínum tíma hefði margt farið á annan veg.


Áramótaskupið var frábært.

Þetta fannst öllum á mínu heimili, mikil ánægja og skemmtun.

Gúttó-Þjóðin og Palestína.

Ekki er laust við að maður verði hugsi vegna atburða dagsins og viðbrögðum við þeim. Það er greinilegt að mótmælin eru að stigmagnast. Ofbeldi var beitt. Að það takist að fá 250 manns til að stöðva útsendingu Stöðvar2 og leggja á sig slagsmál og piparúða er til marks um algjört virðingaleysi á valdhöfum. Þar sem margir landsmenn hafa misst traust á valdhöfum þessa lands eftir atburði liðinna mánaða hafa margir skilning á mótælunum. Kryddsíldin er tákn fyrir vald fjölmiðla, þingmanna og ráðherra. Einnig er síldin tákngerfingur flokkanna. Kryddsíldin hefur verið eintal þessara valdastofnana til þjóðarinnar. Hugmynd Steingríms að bjóða mótmælendunum inn í Kryddsíldina og taka þátt í umræðunni var góðra gjalda verð. Það hefði verið í anda lýðræðis að fólkið og valdhafarnir hefðu rætt málin milliliðalaust. Því miður voru liðlega 60 lögreglumenn á milli svo hugmynd Steingríms komst ekki á koppinn.

Gúttóslagurinn 1932 afsannar að atburðurinn í dag sé nýung á Íslandi. Aftur á móti er um tímamót að ræða í seinni tíma sögu landsins. Allir erlendir fjölmiðlamenn sem komið hafa til Íslands hafa lýst undrun sinni á að enginn hafi sagt af sér. Auk þess hafa þeir bent á að í öðrum löndum væru mótmælin mun harðari en hér og sum staðar væri búið að brenna borgir af minna tilefni.

Ekki tel ég að mótmælendur séu að svara kalli umheimsins um aukin mótmæli. Hitt er líklegra að algjört sinnu- og stefnuleysi stjórnvalda sé orsök harðnandi mótmæla. Ef Ingibjörg hefur samúð með Palestínumönnum ætti hún ef til vill að geta skilið bröltið í þjóðinni sem er enn jafn ósamþykkt sem þjóð og Palestínumenn.


mbl.is Fólk slasað eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löðrungur Göran Perssons.

 Göran Persson fyrrum fjármála og síðar forsætisráðherra Svíþjóðar var boðið að halda fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag. Síðan var viðtal við kappann í Speglinum í útvarpinu í kvöld.Ég var búsettur í Svíþjóð á þessum árum. Kannast vel við kreppu af þeim sökum. Aftur á móti leið mér aldrei neitt sérstaklega illa í Svíþjóð í kreppunni þar. Aftur á móti er ég með mikið óbragð í sálinni vegna kreppunnar okkar. Það var mjög sérkennilegt að heyra rödd Görans úr útvarpinu í kvöld. Allt í einu var maður kominn til Svíþjóðar í einni svipan. Aftur "heim". Það rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna hlutirnir gengu vel fyrir sig í Svíþjóð, það var nagli í brúnni sem sagði okkur umbúðalaust hvað hann ætlaði að gera. Í Svíþjóð er miklu meira gegnsæi en á Íslandi. Þar geta allir fengið aðgang að gögnum sem myndu valda heilablóðfalli hjá hvaða embættismanni á Íslandi.

Þar gaf hann íslenskum ráðamönnum á kjaftinn í dag. Göran sagði að allt ætti að vera upp á borðum, allar upplýsingar sem skipta máli. Hann tiltók sérstaklega fjármálafyrirtækin. Í meir en tvo mánuði hafa fjölmiðlar reynt að fá einhverjar upplýsingar en skrápurinn á leynimakkinu hefur varla rispast.

Allt traust á milli þjóðar og valdhafa er horfið. Allt traust milli þjóðar og eftirlitsstofnana er horfið. Þjóðin er orðin sannfærð um að verið sé að hlunnfara hana á bak við tjöldin. Aldrei fékk ég þessa tilfinningu í kreppunni í Svíþjóð. Það er margt og mikið að hjá okkur Íslendingum og Göran benti á margt í dag, ætli einhver taki mark á honum. 

 

http://www.landskronadirekt.com/bilder_nyheter/goran_persson060829.jpg


Silfur EGILS.

Stundum hefur mér fundist Egill bara vera bergmál. Í dag hafði hann unnið heimavinnuna vel. Eftir þáttinn er maður hugsi og finnur þörf hjá sér að hlusta á hann aftur á netinu. Ég mæli með því að sem flestir gefi sér tíma til að hlusta á þáttinn og sýni þannig að þeir séu virkir meðvitaðir borgara.

Ísland að athlægi.

Það er ekki gaman að vera Íslendingur í dag. Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi frelsi athafnamanna og einkavæddi bankanna. Sami flokkur lagði niður frelsið og innleiddi Ráðstjórn á Íslandi. Því má segja að við fáum bæði peninga og verklagsreglur frá gamla góða Rússlandi.

Þrátt fyrir varnaðarorð færustu manna hafa embættismenn og ráðherrar gert minnst lítið, fyrr en núna og þá í algjöru pati. Enda er umheiminum skemmt. Seðlabankinn hefur sent "ekki nægjanlega vel skilgreinda ósk" til Bandaríska seðlabankans. Spurningin er hvort umsóknin var páruð á pappírsþurrku í Seðlabankanum. Norski og sænski Seðlabankinn hafa ekki fengið neina formlega ósk um aðstoð. 

Davíð er í Kastljósinu og hvítþvær sig af glæsibrag, enda enginn viðvaningur. Samt gott að fá að hlusta á hann milliliðalaust. Sannfæringarkraftur hans er svo mikill að manni líður strax mikið betur. 

Vandamálið er bara að það eru svo fáir sem skilja íslensku í heiminum og fá ekki notið orða Davíðs eins og við hér heima.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband