Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.6.2008 | 05:06
The Godfather prúttar ekki.
Niðurstaða þessa kjarasamnings er mjög sérkennileg. Ríkið hefur hér fullnaðarsigur. Ég er núna staddur í Tyrklandi og menn stunda mikið prútt í viðskiptum. Niðurstaðan verður alltaf sú að ef viðskipti takast eru báðir sáttir, einfalt og þægilegt. Því virðast menn ekki prúttað mikið á þeim nótunum í karphúsinu.
Þeir sem sáu myndina The Godfather í den muna sjálfsagt eftir senunni þegar hann gerði einum manni svohljóðandi tilboð; annað hvort fer undirskrift þín á skjalið eða heilinn þinn- hann beindi nefnilega skammbyssu að hnakkanum á náunganum. Í þessu dæmi er ekki mikið um prútt. Aftur á móti fellur slíkur viðskiptamáti frekar undir ofbeldi.
Samið til loka mars 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.6.2008 | 00:33
Get ég forðað börnum frá nauðgun?
Hvað fær heilan ráðherra til að rífa sig upp, fresta ferðalagi erlendis og ferðast norður í land? Er það hrun íslensku krónunnar um fjórðung? Er það alkul íslensk fasteignamarkaðar? Er það stöðvun í nýbyggingum og yfirvofandi atvinnuleysi fjölda byggingaverkamanna? Er það mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda á sjómönnum? Er það megn óánægja kvennastétta með kjör sín? Nei það er ekki svo heldur ísbjörn. Ísbjörn sem vilst hefur yfir hafið til Íslands frá Grænlandi.
Ég er svo gamaldags og óendanlega nýtinn að fyrir mér er ísbjörn bara matur. Þar sem hann getur verið mönnum hættulegur finnst mér það sjálfsagt að aflífa hann sem fyrst. Sjálfsagt má reyna að gera það fljótt og án mikilla þjáninga fyrir dýrið. Að standa í einhverju veseni til að forða Norðlendingum frá góðri búbót finnst mér út í hött.
Mitt vandamál er að sjá glóruna í því að elska bjarndýr meira en menn. Í Darfur héraði í Súdan er búið að nauðga svo til öllum konum af óvinahermönnum. Þegar fyrrum kvennalistakona, Þórunn, hleypur út um víðan völl til að bjarga gömlu lífsþreyttu bjarndýri í stað þess að sinna því umhverfi sem er okkur kærast, þ.e. dætrum okkar sem verið er að nauðga á skipulegan hátt í Súdan er manni nóg boðið
Meðan íslenskur ráðherra reynir að hlaupa upp grænlenskt bjarndýr bjargar hann ekki dætrum okkar frá nauðgunum í Súdan. Mér er spurn, finnst Samfylkingarfólki hefðbundinn grænlenskur matur mikilvægari en meydómur dætra okkar? Komumst við ekki í Öryggisráðið fyrr en við höfum bjargað einu bjarndýri?
Svona eru sögurnar frá Sudan:
Hundreds of people in Khartoum have been rounded up because they are from Darfur, and brutally beaten and thrown into overcrowded jails where some have died. The Sudanese authorities should account for every individual and charge them with a cognizable crime or immediately release them.
21.5.2008 | 20:25
Gleymd börn.
7.5.2008 | 22:14
Ballet.
Í gær var árleg balletsýning Klassíska listdansskólans. Dóttir mín hún Guðlaug Anna stóð sig með prýði eins og sjá má á myndinni. Sýningin var hin besta skemmtun og unaðslegt að geta notið hennar afslappaður án þess að þurfa að sinna öðrum kvöðum. Að lokinni sýningu var farið á matsölustað og fiturík og góð máltíð etin án þess að gallblöðrunum okkar yrði meint af.
1.4.2008 | 20:20
24 000 000 000 Evra X 120
Skuldir bankanna næstu 3 árin er víst þessi summa, reikni nú hver sem betur getur. Eins og ég skil þetta þá er verið að tala um að "bjarga" bönkunum. Ég sakna umræðu um hluthafana sem eiga bankana. Ef maður á fyrirtæki á maður ekki líka skuldir fyrirtækisins. Ég á mitt heimili með öllum þeim hlunnindum sem þar kunna að finnast en einnig þeim fjárskuldbindingum sem leynast þar. Þannig er það bara. Ætli ég geti breytt heimili mínu í banka?
20.3.2008 | 22:02
Biblíustiklur.
Um daginn vitnaði Auðun Gíslason í Biblíuna í athugasemd hjá mér. Þetta vakti forvitni mína og ég náði í gömlu Biblíuna mína og fór að lesa.
II Mósebók 20:4 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrurar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnum undir jörðunni; þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær.
Það virðist sem sama bann ríki hjá okkur kristnum við myndbirtingum og er hjá múslimum. Hvernig ætli standi á því að við séum svona miklir slóðar í þessum efnum?
II Mósebók 20:5 því að ég Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitjar misgjörðir feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata; en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.
Hér virðist bara vera um tvo kosti að ræða, annað hvort ertu með mér eða á móti mér. Refsingin er mikil, ekki bara á þér heldur afkomendum þínum ef þú ert á móti mér.
III Mósebók 19:26 Þér skuluð ekkert með blóði eta.
Ætli þetta ákvæði sé ekki til komið af heilsufarsástæðum á þeim tíma sem það er ritað. Það færi lítið fyrir kjötmenningu okkar ef allt væri etið mauksoðið.
III Mósebók 19:27 né heldur skaltu þú skerða skeggrönd þína....... né heldur gera hörundsflúr á yður.
III Mósebók 19:33 Og ef útlendur maður býr í hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð. Útlendan mann sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egiptalandi.
Þetta sannar það að Frjálslyndi flokkurinn er kristilegur flokkur. Þetta er stefna hans í hnotskurn. Greinilegt er af fréttum liðinna ára að við höfum ekki farið eftir þessum orðum Biblíunnar í umgengni okkar við útlendinga. Þeir hafa verið sviknir og prettaðir. Samkvæmt Biblíunni munu þeir hinir sömu hljóta slæm örlög í marga ættliði sem frömdu þau svik.
Það sem gerir þetta vers sérstaklega merkilegt er að við eigum að elska útlendinga eins og okkur sjálf þrátt fyrir að illa hafi verið komið fram við Ísraelsmenn í Egiptalandi, þe launa illt með góðu.
V Mósebók 13:10 .. þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drotni, Guði þínum...... Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,-þá skalt þú rækilega rannsaka það, grenslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal, þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum.....
Svei mér þá, nú verða farandtrúboðar að fara vara sig, best að koma sér upp steinahrúgu í anddyrinu.
Það hvarflar ekki að mér að reyna í einhverri alvöru að týna þessar tilvitnanir úr samhengi sínu. Fræðimenn geta skýrt mest allt þetta með hliðsjón af tíðarandanum á viðkomandi tíma. Allt þetta á sínar skýringar eflaust. Aftur á móti geta bókstafstrúarmenn fallið í þá gryfju að fylgja þessu út í æsar. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er sú að ég var að skoða heimasíður sem túlka Kóraninn mjög þröngt. Ef kristnir og múslímar hefðu fylgt sínum reglum út í æsar þá væri mannkynið löngu útdautt.
19.3.2008 | 23:26
Múhameð, myndir og Highway 105.
Ég er enn að hugsa um myndina af Múhameð. Mér finnst þessar vangaveltur mjög skemmtileg heilaleikfimi. Það er ekki auðvelt að komast að einfaldri niðurstöðu. Mannleg samskipti eru bæði einföld og flókin.
Það virðist vera til hópur af mönnum sem álíta að þeir sem aðhyllast Íslam séu vondir. Þeir eru vissir í sinni sök, Íslam snýst um heimsyfirráð. Þeir sem eru á móti verða drepnir af Íslamistum. Þeir sem ekki trúa þessu eru einfeldningar. Þegar maður les skrif þessara einstaklinga þá finnst mér þeir líkjast mjög þeim sem þeir lýsa. Er einhver munur á kúk og skít?
Er ekki lífið flóknara en svo. Eru ekki til vondir einstaklingar all staðar í öllum trúarbrögðum. Sökum þess að við búum í kristnu þjóðfélagi verðum við ekki að taka mið af þeim kennisetningum. En nú er það þannig að margir í okkar kristna þjóðfélagi eru ekki kristnir. Þeir eru trúlausir eða eitthvað annað. Þeir telja sig óbundna af öllum trúarsetningum. Þeir styðjast frekar við sína eigin heimsmynd eða pólitíska skoðun. Hver er munurinn á réttlætingu gjörða okkar út frá pólitík eða trú.
Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér er ein setning: MÉR FINNST!!.
Mér finnst þetta og hitt. Ef mér finnst þá er það rétt. Mörgum finnst það sem þeim finnst þungamiðja alheimsins. Þegar þú ekur þjóðveg 105 inn í Los Angeles, átta akreinar út og aðrar átta inn, samtals 16 akreinar þá gerir þú þér fulla grein fyrir því að þú verður að taka tillit til nágrannans.
Þannig er bara lífið.
18.3.2008 | 22:49
Frelsi hér og frelsi þar og Múhameð.
Frelsi er mikilvægt. Nú ætlum við Íslendingar að birta myndir af spámanninum Múhameð. Um er að ræða fræðigrein um spámanninn og er myndin viðbót við þá grein. Múslímar eru ekki sáttir. Samkvæmt þeirra trú má ekki birta neina mynd, hvorki grínmynd né venjulega mynd af spámanninum Múhameð. Að birta mynd af Múhameð særir múslima.
Ég var svolítið að velta þessu fyrir mér. Við vesturlandabúar viljum birta myndir af Múhameð. Við teljum okkur geta gert það sökum frelsis, tjáningarfrelsis. Frelsi er gott og mikilvægt. Við sem aðhyllumst frelsi vitum að það eru samt til aðstæður sem takmarka frelsi til frelsisiðkunar. Ef frelsi veldur skaða þá ber að setja takmarkanir á frelsið.
Ef frelsi okkar vesturlandabúa til að birta myndir af Múhameð veldur skaða og sorg í hjörtum múslima er þá ekki komin ástæða til að hugsa sig að minnsta kosti tvisvar um. Ofsafengin viðbrögð múslima vegna fyrri myndbirtinga á Múhameð eru þeim ekki til sóma. Sennilega eru þau mun frekar í ætt við pólitík en trú. Öll trúarbrögð hafa einhvern tíman iðkað pólitík.
Ég er mjög vilhallur hugsjónum frelsisins. Á sama tíma er ég alinn upp í kristnu þjóðfélagi. Ég finn engar andstæður í því. "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið þeim og gjöra." Þannig hljómar boðskapurinn í Biblíunni. Því kemst ég að þeirri niðurstöðu, bæði út frá trú minni í pólitík og í andlegum efnum að ég hefði sleppt því að birta þessa mynd af Múhameð. Sá gjörningur minn hefði veitt mér gleði og sátt í sinni. Bæði vegna þess að ég hefði haft hugrekki til að takmarka mitt eigið frelsi öðrum mönnum til framdráttar og ég hefði reynt að uppfylla stóra kærleiksboðorðið sem kristin trú á að snúast um. Mér fyndist ég meiri maður fyrir vikið.
Væru ekki múslímar þá að kúga mig? Mér finnst það ekki kúgun að sleppa mynd ef það veldur gleði margra. Tæplega veldur myndleysið mikilli sorg. Er ekki sælla að gefa en að þiggja? Er hugsanavilla í hugum okkar vesturlandabúa? Túlkum við frelsi sem réttinn; ég má, ég á. Kallaðist það ekki nýlendustefna hér áður fyrr?
16.3.2008 | 20:10
Tíkin og hundurinn.
Það kom tík inn á heimilið í dag. Til allra hamingju er hún á förum fyrir nóttina. Hundurinn okkar hefur ekki verið mönnum sinnandi síðan tíkin kom. Það eina sem hann hefur hugsað um er þessi tík. Hann hefur gert allt sem honum dettur til hugar til að ganga í augun á henni. Hann er búinn að missa þvag um allt hús og þar að auki hefur hann skitið einu sinni á borðstofugólfið. Þetta er hann vanur að iðka utanhúss á venjulegum degi. Þrátt fyrir allar þessar hundakúnstir hefur tíkin ekki litið við honum, eina sem hún hugsar um er matur og aftur matur.
Er þetta ekki dæmigert, við gefum konunum okkar allt, við skítum kannski ekki á gólfið en þær fá hjá okkur allt annað, líf, heilsu, tímann okkar og VISA kortið. Öllu þessu fórnum við bara í þeirri von að þeim þóknist að lyfta bossanum örlítið frá gólfi, svona stöku sinnum. Gvöð hvað ég vorkenndi hundinum mínum.
Þessir eiginleikar eru mjög ríkjandi í mannlegum samskiptum, svona almennt.
Sem dæmi þá situr Sjálfstæðisflokkurinn sem fastast á bossanum en Samfylkingin hugsar bara um Evrópusambandið. Samfylkingin telur að margt muni leysast úr læðingi við inngöngu í Evrópusambandið, sama heldur hundurinn minn. En í raun vitum við ekki hvernig króinn spjarar sig fyrr en hann er fæddur. Sjálfstæðisflokkurinn er svo hræddur um hið óþekkta að hann þorir ekki og hugsar bara um um mat, eða að fullnægja augnabliks þörfum sínum. Því situr hann á bossanum.
Sumir myndu segja að sjálfsagt fari Sjálfstæðisflokkurinn á lóðarí fyrr eða síðar. Ég er hræddur um að svo sé ekki. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo aldraður að hann sé hættur að hafa á klæðum. Hægt er að ásaka Samfylkinguna fyrir að vera með maddömu en þegar ég upplifði hegðun hundsins míns þá skildi ég í raun að allt er hey í harðindum.
28.12.2007 | 17:59
HELGA FIMMTUG.
Konan er fimmtug í dag. Því er mikið um dýrðir. Fátt finnst henni skemmtilegra en mannamót og ekki er það síðra að vera sjálft afmælisbarnið. Fæstir hafa sloppið ósnortnir við kynni sín af Helgu. Hún berst ekki mikið á en eftir henni er tekið engu að síður. Aftur á móti þekki ég ekki til nokkurs sem skaða hefur hlotið í viðkynningum sínum við hana.
Hún ákvað snemma að verða kennari og uppalandi. Á hún nú stóran útskrifaðan hóp vítt og breitt. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu síðast liðin 30 ár hefur henni ekki tekist að útskrifa mig. Með góðum vilja má segja að hún hafi náð vissum árangri en enn er nokkuð í útskrift. Helgu til málsbótar má segja að lærlingurinn hefur haft ósköp litla tilburði sjálfur til útskriftar. Sjálfsagt líkar honum vistin vel.
Börnin eru fjögur og hefur hún alið þau upp sem ljónynja. Vei þeim sem snerti þau, það yrði hans bani. Enda nýtur hún takmarkalausrar virðingu þeirra allra og er það töluvert afrek á þessum tímum. Í raun er þetta eitt af megineinkennum konu minnar, umhirða og varsla fjölskyldunnar.
Þetta eru stór tímamót í lífi okkar allra. Í kvöld mun fjölmenni streyma að og samgleðjast Helgu með áfangann. Við sem höfum verið að tölta með henni Helgu í gegnum lífið munum ekki vera svo mikið að rifja um gamla tíma. Við vitum sem er að ballið er bara rétt að byrja hjá henni og um að gera að reyna að missa ekki af neinu.