Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
25.12.2007 | 15:32
JÓLAHUGLEIÐING.
Jólin eru merkilegur tími. Sjálfsagt hafa jólin ýmsar birtingarmyndir hjá mismunandi einstaklingum. Mjög sennilega hefur æska og uppeldi mikið að segja, eða eins og erfðamengið í mannskepnunni. Þar á móti kemur ætlun okkar um hvernig við höldum okkar jól. Hvernig við höndlum hefðirnar eða nýtum okkur þær til að gera jólin okkar.
Sameiginlegt er þó flestum að jólin eru vegferð með vissum endi sem þó endurtekur sig í sífellu ár eftir ár. Í raun hefst vegferðin um leið og einum jólum er lokið. Annað sem er sameiginlegt flestum er að mikil samvinna á sér stað við undirbúning jólanna. Þessi sameiginlegi undirbúningur er mjög ríkjandi í hegðun flestra. Fjölskyldur eiga sér sameiginlegt markmið, jólin, þar sem undirbúningurinn veitir einna mesta gleði ekki síður en jólin sjálf. Fjölskyldumeðlimir taka höndum saman og hlutverkin skipast eftir því sem gagnast lokamarkmiðinu, gleðilegum jólum. Enginn einn reynir að krýna sig meistara því sigurinn felst í uppskerunni, að allir í fjölskyldunni eigi gleðileg jól. Jólagjafirnar endurspegla þetta vel því flestir eru að velja gjafir fyrir einhvern annan en sjálfan sig og setja sjálfan sig þar með í annað sætið. Því hafa allir í fjölskyldunni hlutverk, oft er það húsmóðirin sem leiðir starfið en reynir þó að gæta þess að allir fái hlutverk við hæfi. Ekki eingöngu vegna þess að margar hendur vinna létt verk heldur miklu frekar að þá finnst öllum að þeir eigi hlut í jólunum.
Ekki er víst að allir hafi sömu sýn eða reynslu af jólunum. Hvernig við breytum því er vandséð því margt kemur örugglega til. Erfið æska eða slæmar núverandi aðstæður í bland við vandamál. Best væri þó að sem flestir gætu átt góðar stundir í takt við umhverfið.
3.11.2007 | 21:24
Svik og samráð.
Það var athyglisverð frétt í Morgunblaðinu í dag. Hún var birting á nafnlausu bréfi. Morgunblaðsmenn báðu okkur afsökunar á því að birta nafnlaust bréf sem væri ekki vaninn á þeim bæ. Aftur á móti fannst þeim nauðsyn brjóta lög. Það væri það mikið sannleikskorn í þessu bréfi að það ætti að birtast. Bréfið fjallaði um samráð í smávöruverslun á Íslandi.
Þetta er í raun nokkuð merkilegt. Morgunblaðið ákveður að taka mikla áhættu og birta bréf um athæfi sem allir vita um og þekkja. Allir hafa vitað um samráðið en ekki gert neitt í því nema röfla einstaka sinnum við kassadömuna. Hvernig stendur á þessu með okkur Íslendinga, við virðumst elska að láta snuða okkur?
Svo er þar að auki auglýst vara svo ódýr að hún er hvergi finnanleg þegar maður kemur í búðina. Ég lenti í því í dag en áttaði mig ekki á svikunum fyrr en ég kom heim. Réttara sagt það var konan sem benti mér á mistökin. Ég hafði nefnilega ekki keypt ódýru kjúklingabringurnar sem voru auglýstar til sölu í dag.
Af þessu má ráða að smásalarnir eru miklir atvinnumenn en við erum áhugamenn í bransanum. Því hafa þeir alltaf vinninginn. Það er augljóst að það er ekki heiglum hent að versla í Bónus og hinum búðunum. Við verðum að fá atvinnumenn í lið með okkur til að versla hjá þeim. Einhverja sem nenna ekki að þrasa og eru fljótir að sannfæra mótaðilann um villu síns vegar.
Ef ég ætti að velja á milli Viðskiptaráðherra Íslands eða Vítisengla þá finnst mér þeir síðarnefndu líklegri til að ná árangri fyrr, amk eru þeir öllu vígalegri á velli.
13.9.2007 | 22:29
THE GUNS OF NAVARONE.
Við sem erum kominn á miðjan aldur munum vel eftir þessari kvikmynd. Hún rifjaðist upp fyrir mér um daginn. Þessi saga gengur út á að Þjóðverjar voru með tvær mjög öflugar og langdrægar fallbyssur á klettaeyju í Miðjarahafinu. Ef bandamenn reyndu að komast framhjá drundi umsvifalaust í þýsku fallbyssunum og sökkti mörgum skipum bandamanna. Þar að auki var stór herafli Breta innikróaður í Afríku og komst hvergi. Þrátt fyrir miklar loftárásir tókst ekki að þagga niður í þessum fallbyssum. Því var send inn í virkið sérsveit sem tókst að lokum að koma fyrir sprengjum og þagga endanlega niður í þessum fallbyssum og gera litla klettinn í hafinu hættulausan með öllu.
Þegar ég frétti af afdrifum Sigurjóns Þórðar og Magnúsar Þórs hjá Frjálslynda flokknum kom þessi gamla kvikmynd upp í hugann hjá mér. Þeir tveir hafa verið öflugustu fallbyssur flokksins á liðnu kjörtímabili. Ekki eyrt neinu og sökkt mörgum skipum fyrir andstæðingunum. Flokkurinn hefur kosið að nýta sér krafta þeirra í eins litlu mæli og hægt er á næstunni, einmitt þegar kvótaskerðing er í hámarki og virkilega er þörf fyrir kröftugar og langdrægar fallbyssur. Kletturinn er algjörlega hættulaus í augnablikinu. Ég vona að samlíkingunni við fyrrnefnda kvikmynd ljúki hér því illt væri til þess að hugsa að einhver sérsveit hafi komið sér fyrir í flokknum. Kannski er sérsveitin bara ranghugmyndir hjá forystunni og rangt stöðumat eða gamaldags stjórnunarhættir og skortur á tilfinningargreind.
'
9.9.2007 | 00:23
Sáttmáli Guðs og Jesús.
Ég var að mála heima í dag. Þegar maður málar inni eitthvert herbergið þá fyllist hugurinn ró og fer um leið í djúpa þanka.
Ég fór að velta fyrir mér Jesú Kristi. Hann var sendur af föður sínum til jarðarinnar. Hann fór frá öryggi föðurfaðmsins til þessarar jarðar. Þar átti Guðson ekki upp á pallborðið. Þeir sem fyrir voru höfðu mun sterkari aðstöðu en Jesú. Helstu liðsmenn hans voru hvorki fugl né fiskur. Enda fór svo að þrátt fyrir góðan boðskap og mikilvægan þá krossfestu þeir hann og hann dó.
Það var nú ekki endilega þetta sem ég var að velta svo mikið fyrir mér. Heldur það að Guð hafði lofað Jesú eilífu lífi ef hann færi til Jarðarinnar og fórnaði sér fyrir málstaðinn. Ef Jesú færi til Jarðarinnar og boðaði fagnaðarerindið í nafni Guðs myndi hann rísa upp frá dauðum á þriðja degi. Þrátt fyrir að þeir feðgar gerðu sér grein fyrir að framboð Jesú á Jörðinni yrði ekki vænlegt til árangurs þá afréðu þeir samt að haga málum sínum á þennan hátt. Auk þess vissi Jesú að hann myndi rísa upp á frá dauðum hvernig sem færi því Guð hafði lofað honum því.
Það sem ég var að velta fyrir mér meðan ég málaði veggina heima hjá mér sveppagráa var ef Guð hefði svikið loforð sitt við Jesú.
Það sló mig nefnilega að allt hefði orðið á annan veg við það. Þá hefði verkið bara verið hálfnað. Þá hefði engin Kirkja orðið og söfnuður. Meðlimir Kirkjunnar hefðu ekki fyllst heilögum anda sem gerði þeim kleift að boða trúna. Nýja Testamentið hefði ekki orðið til sem miðill fræðslu, útskýringa og trúarsetninga sem hinn almenni safnaðarlimur hefði getað nýtt sér í baráttunni.
Til allrar hamingju sveik Guð ekki son sinn. Guð vissi að án tilstuðlan Jesú hefði hann aldrei náð þeim árangri sem hann hefur náð. Þar að auki svíkur Guð ekki loforð. Betur væri að menn fylgdu fordæmi hans.
13.8.2007 | 23:31
Kennaralaun.
Var að heyra um vinkonu okkar. Hún kenndi 80% í fyrra, fékk fyrir það 150 þús í peningum. Núna ákvað hún að fara í Háskóla og mennta sig betur. Fær frá Lánasjóðnum 160 þús í peningum á mánuði.
Er ekki eitthvað bogið við kennaralaunin?
12.8.2007 | 23:04
Ríkasta líkið í garðinum.
Bráðum er ég búinn að lifa í hálfa öld. Ég á bara börn og skuldir. Jú eina eiginkonu líka. Verð sennilega ekki vel stætt lík í kirkjugarðinum. Hef ekki mikla trú á því að maður getið tekið mikið með sér. Bara að einhver minnist manns fyrir einhver góðverk. Vonandi að ég hafi framkvæmt einhver slík. Reyndar ef maður verður ríkt lík þá munu erfingjarnir hafa úr meiru að spila.
Sumir samferðamenn okkar virðast stefna að því með oddi og egg að verða ríkasta líkið í kirkjugarðinum. Sjálfsagt veitir það einhverja huggun.
Svo koma afkomendurnir og eyða öllu saman, síendurtekin saga. Til hvers er þetta allt saman. Erum við ekki bara hluti af náttúrunni. Erum við ekki bara til til að viðhalda stofninum. Þegar því er lokið þá getum við horfið. Indíánar lögðust út þegar þeir voru orðnir til trafala og dóu. Í dag eru amma og afi á fullu og njóta lífsins. Nauðsynlegur hlekkur í lífsgæðakapphlaupinu. Hver á að passa börnin og skutla þeim nema afi og amma svo við hin getum orðið ríkasta líkið í kirkjugarðinum. Eða þannig sko.
11.8.2007 | 23:25
"Lífið er yndislegt" í Eyjum.
Hér sjáum við reyktan Lunda sem allir gæddu sér á og þótti
mjög góður.
Hér er okkur boðið inní Hvítt tjald Eyjamanna. Dísa og Gunsi buðu okkur. Hún átti afmæli daginn eftir. Sennilega bara um þrítugt, þeir eldast vel þessir Eyjamenn.
Hér sjáum við þrjá ættliði í Brekkunni í Herjólfsdal. Tengdó, eiginkonan og yngsta dóttirin. Mikið stuð.
Flugeldasýningin var stórkostleg.
10.8.2007 | 23:03
Óvinurinn.
Ég er búinn að lifa næstum í hálfa öld, ég hef aldrei upplifað stríð enn sem komið er. Í æsku voru Rússarnir alltaf á leiðinni en komu aldrei. Í dag eru hryðjuverkamenn á ferðinni, vonandi koma þeir aldrei. Styrjaldir hafa fylgt mannkyninu alla tíð. Herveldi hafa komið og farið. Þetta er órjúfanlegur hluti mannlegrar menningar að eiga á hættu að vera sprengdur í loft upp af Óvininum.
Óvinurinn eru einhverjir tindátar sem hefur verið sagt að sprengja okkur í loft upp. Gegn þessari vá ætla Íslendingar að berjast gegn með því að reka hér ratsjárstöðvar, sem eru jafnvel orðnar úreltar. Ekki er hægt að sjá að ratsjárstöðvarnar muni vara okkur við innrás því önnur NATO ríki munu sjá það langt á undan okkur. Ég held að þetta brölt sé hálf tilgangslaust amk hvað viðkemur vörnum Íslands. Ef aðrir hafa rænu á því að láta okkur vita að innrás sé í vændum munum við vita það með nægum fyrirvara. NATO mun þá verja okkur ef það er talið borga sig annars ekki. Við breytum engu þar um.
Hvað viðkemur hryðjuverkjum þá höldum við áfram að gera flugfarþegum gramt í geð og vonandi með einhverjum árangri. Það sem er árangursríkast er að uppræta allar hvatir til að sprengja aðrar manneskjur í loft upp. Leysa vandamálin fyrir botni Miðjarahafs. Hjálpa Bandaríkjunum í gegnum gelgjuskeið hinna fullvalda ríkja. Þá vantar mikinn þroska enn sem komið er. Óvinurinn leynist víða.
10.8.2007 | 21:47
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Við vorum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Reyndar var ég að vinna frá föstudegi til föstudags. Samferða voru eiginkonan, dæturnar og tengdamamma. Ómissandi fyrir vel heppnaða útilegu. Synirnir voru svo á sjálfri Þjóðhátíðinni. Allir skemmtu sér konunglega og allir vilja koma aftur. Þjóðhátíð er svolítið merkilegur og sérstakur viðburður, engin venjuleg útihátíð. Það er erfitt að lýsa með orðum. Ef til vill eiga orð 11 ára dóttur minnar vel við. Við vorum búin að fylgjast með stemmingunni í Herjólfi á leið til Eyja, lífinu í Herjólfsdal, kvöldvöku í Herjólfsdal. Upplifa bekkjarbílana. Svo var okkur boðið í eitt af þessum landsfrægu hvítu tjöldum Vestamanneyinga inní Herjólfsdal. Þar var okkur strax boðið upp á samlokur, flatkökur með hangikjöti og LUNDA. Þessu var öllu skolað niður með viðeigandi drykkjum. Sú 11 ára fylgdist með öllu með galopin augun og af undrun. Svo kom að því að hún dró föður sinn að sér og hvíslaði í eyra hans,
"eru Vestamanneyingar líka Íslendingar?".
2.8.2007 | 22:41
Bullshit = BUS.IS
Drengurinn var að vandræðast vegna morgundagsins. Vildi ekki hjóla í vinnuna en vildi gjarnan fá bílinn. Bentum honum á BUS.is. Hann svaraði stutt og laggott"bullshit". Kom fram á moggablogginu í dag að 3% þjóðarinnar gengur til vinnunnar en eingöngu 2% nota strætó. Það er greinilegt að strætó er eingöngu afarkostum þeirra sem koma engum öðrum ferðamáta við. Þannig er börnunum mínum einnig innanbrjóst, strætó er algjört neyðarúrræði. Hnignun þessa kerfis er með eindæmum og fáa sinn líka. Fádæma hæfileikaleysi til að setja sig í spor þeirra sem hefðu áhuga á að nota strætó frekar en einkabílinn. Ef vottur af tilfinningargreind og metnaði hefði verið til staðar hefði kerfið blómstrað í dag.
Í raun er þetta svo einfalt. Geta greitt með þeim kortum sem maður er venjulega með í vasanum. Vita eingöngu hvaða leið taka skuli og vagninn komi það oft að ekki þurfi að bíða nema í mesta lagi 10 mínútur. Sökum þess hversu málið er auðleyst, en ekki hefur tekist að leysa það, er augljóst að aldrei hefur staðið til að hafa hér almennilegar almenningssamgöngur.