Eva Joly kveður sér hljóðs á siðum dagblaðanna í dag. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hún er reyndur lögfræðingur. Slíkir einstaklingar hripa ekki eitthvað á blað og senda síðan um víða veröld. Hvert orð, hver hugsun er hugsuð í þaula og sannreynd. Með því hugafari skal lesa grein hennar. Margt er stórmerkilegt í málflutningi hennar en ég vil draga fram þessi atriði.
1. Hún fullyrðir að Íslendingar geta ekki borgað IceSave hvað svo sem þeir reyna með niðurskurði og skattahækkunum.
Í raun er þetta kjarnaatriðið sem snýr að okkur Íslendingum. Hún telur einsýnt að með samþykkt ríkisábyrgðar á IceSave sé Ísland orðið þrotabú. Þeir sem eftir verða "munu eiga meira undir þeim sem hæst býður". Ísland verður boðið upp á markaði. Íslendingar verða fyrst að svara þeirri spurningu hvort þeir eru borgunarmenn fyrir þessum víxli. Þeir sem gerast ábekingar-þingmenn-vitandi að það getur ógnað þjóðaröryggi eru landráðamenn. Spurningin er hvort einhver afbrigði finnast í Stjórnarskrá íslenska Lýðveldisins fyrir auðtrúa handaruppréttingarþingmenn Samfylkingarinnar.
2. Hún tekur það skýrt fram að Íslendingar beri ekki ábyrgð á IceSave, " sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða".
Þetta er annað kjarnaatriðið, að við berum ekki ábyrgð á IceSave. Eins og margsinnis hefur komið fram, en jafnharðan er reynt að fela af ýmsum misvitrum kvíslingum, þá er ríkisábyrgð bönnuð á einkabönkum innan EES svæðisins. Eina undantekningin er sú Ríkisábyrgð sem Íslendingar eiga að samþykkja með góðu eða illu núna. Þessi undantekning er eingöngu til þess að upp komist ekki um meingallað regluverk ESB." gríðarlegir hagsmunir sem afmarkast síður en svo af strandlengju Íslands".
3.Hún fullyrðir að um nauðungarsamning sé að ræða-að við höfum verið beitt ofríki af hálfu Breta.
" með þessu setti Bretland Íslendinga, bandamenn sína í NATO, í sama flokk og hryðjuverkasamtök á borð við al-Qaeda..." Það er greinilegt að Evu finnst framganga Breta ekki stórmannleg. Þar sem um nauðungarsamning er að ræða hefur hann ekkert gildi og á þess vegna ekkert erindi inn á hið háa Alþingi Íslendinga. Samningurinn á heima í pappírstætaranum að mínu mati.
4. Hún telur að Bretar beri mikla ábyrgð sem þeir neita að axla í skjóli stærðar sinnar.
5. Hún telur áætlun AGS gjörsamlega úr takt við raunveruleikann.
Eva segir beinum orðum að áætlun AGS geti ekki, eigi enga möguleika að ganga upp á Íslandi. Niðurskurðurinn sem þarf að framkvæma er svo gríðarlegur að hann er óframkvæmanlegur og eins og Eva bendir á algjörlega tilgangslaus. Hvers vegna vill AGS að við rústum innviðum samfélagsins. Hvers vegna á að rústa hinu "Norræna velferðasamfélagi" Henni finnst það glórulaust athæfi að rústa því án þess einu sinni að hafa tryggingu fyrir því að við getum greitt skuldir okkar þó við myndum færa slíkar fórnir. Niðurstaðan verður sú að þjóðfélagið er í rúst en skuldar samt. Hver er tilgangurinn??
6. Eva er eitursnjall lögfræðingur.
Undir millifyrirsögninni " ÆTLAR EVRÓPA OG AGS AÐ KOMA ÍSLANDI Á VONARVÖL?" kemur fram eftirfarandi "Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi. Lega Íslands er hernaðarlega mikilvæg og landið ríkt af náttúruauðlindum. Ef svo fer sem horfir mun aldurssamsetning íbúanna breytast og ungt, menntað fólk flytja úr landi. Þeir sem eftir verða munu eiga meira undir þeim sem hæst býður. Engum dylst aukinn áhugi Rússa á svæðinu".
Eva dregur hér saman aðalatriði málsins. Við getum ekki borgað. Samfélaginu verður rústað. Þeir flytja sem geta. Skuldirnar verða eftir sem áður ógreiddar enda er það tilgangurinn. Niðurstaðan gefur alþjóðafjármagninu tækifæri til að kaupa eigur okkar Íslendinga á brunaútsölu.
Þeir sem eftir verða á íslandi verða þeir sem geta ekki flutt sig um set. Alþjóðlegir auðhringir munu ráða lögum og lofum hér á landi. Selja okkar eigin auðlindir ofaní okkur á uppsprengdu verði.
"ÆTLAR EVRÓPA OG OG OG OG AGS AÐ KOMA ÍSLANDI Á VONARVÖL??"
Ef við samþykkjum IceSave þá verður þetta niðurstaðan, það er nú eða aldrei að snúa við, að feta braut sjálfstæðis.
Munum að fíkn fjármagnseigenda er ávöxtun, fíkn er ólæknandi sjúkdómur honum er bara hægt að halda í skefjum.