Færsluflokkur: Mannréttindi

Hreppsómagar og AGS

Ekki get ég sagt að ég sé hlutlaus í umfjöllun minni um frambjóðenda Frjálslynda flokksins til borgarstjórnarkosninganna í vor. Ég er kvæntur Helgu sem er í fyrsta sætinu. Í sumar verða 30 ár liðin frá brúðkaupinu og eins og eðalvínum er einum lagið þá batnar ávöxturinn með hverju árinu sem líður. Þar sem ekkert mark er á mér takandi vegna hagsmunatengsla ætla ég að ræða önnur mál.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið fyrirmæli um hvernig á að binda enda á óraunhæfar væntingar almennings um afskriftir skulda. Einhver ný lög sem samþykkja á fyrir lok júní munu setja þann ramma sem skuldugir einstaklingar þurfa að fylgja. Kjarninn í þeim lögum virðist eiga að vera sá að ef skuldarar geta ekki sýnt fram á trúverðugar afborganir lána þá munu lánadrottnar eiga alls kostar við þá.

Hér er átt við skuldirnar eins og þær hafa margfaldast vegna hrunsins, þeir sem geta borgað þær lifa af hinir ekki.

Í tillögum AGS er ekki gert ráð fyrir neinni leiðréttingu hvað þá lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur.

Að öllu óbreyttu munu mörg þúsund heimili verða gerð upp í haust. Heimilunum verður sundrað, hreppsómagar munu aftur öðlast tilveru á Íslandi. Er þetta sú framtíð sem við kjósum að sjá hér á landi?


mbl.is Helga leiðir Frjálslynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að borga skuldir sínar eða ekki .....

Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda kom um helgina í dagsljósið, á ensku, ekki búið að þýða hana á íslensku. Þrátt fyrir það er hún frá 7 apríl og þýðing ætti að vera löngu tilbúin. Skýrslan er 83 bls og þarfnast mikillar yfirlegu því margt er falið í henni með skrúðmælgi.

Gylfi ráðherra staðfesti í Kastljósinu í kvöld að nánast öll úrræði fyrir illa skuldsetta einstaklinga séu komin fram, núna. Í haust, október, þá verða engar frekari frystingar eða frestanir á lánum. Eftir það verða skuldugir einstaklingar að bjarga sér sjálfir, gagnvart lánastofnunum. Sjálfsagt harmómerar það mjög við stefnu VG um sjálfbærni...


mbl.is Gylfi: Jákvæð mynd frá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneykslaðir besservisserar gleyma AGS eftir pöntun

Það sækir að manni vonleysi þessa dagana. Í skjóli hrunskýrslunnar eru tvö vond mál fyrir vinstri stjórnina send til almennings. Hrunskýrslan er notuð til þess að enginn taki eftir vondu málunum. Fyrra dæmið er skýrsla Seðlabankans um fátækt á Íslandi og að aðgerðir stjórnvalda hafa nánast engu breytt fyrir skuldsetta einstaklinga. Seinna dæmið er viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda við AGS. Þar kemur fram, eins og í þeim fyrri, að ekkert á að gera í raun fyrir skuldsett heimili landsmanna. Þeir sem lifa ekki af með lengingu lána fara bara á hausinn, málið dautt. Skýrsla Seðlabankans staðfestir þetta verklag.

Þjóðinni virðist ekki umhugað um þessi mál, fréttamenn reyna ekkert til að varpa ljósi á þessa hluti. Við erum blekkt í sífellu, spunameistarar ráða tilverunni. Hvort skiptir grátkór Samfylkingarinnar, tárvot Þorgerður, fúll forseti meira máli, eða afsal lands og þjóðar kæru landsmenn?


Hvenær byrjar að gjósa?

Sérkennileg vika. Á mánudaginn rannsóknarskýrslan og fjöldi einstaklinga afhjúpaðir sem vanhæfir og sviptir ærunni. Ætli menn fari bara ekki í meiðyrðamál? Á þriðjudaginn kemur Seðlabanki Íslands með skýrslu um stöðu landsmanna, fátækt, og að mjög mörg heimili séu í miklum erfiðleikum við að ná endum saman. Falleinkunn fyrir núverandi stjórnvöld. Elskum við vanhæfa stjórnendur, hvað er þetta með okkur. Síðan ætlar enginn að axla ábyrgð og segja af sér.

Fyrirgefið, gerðist nokkuð í þessari viku annað en það fór að gjósa undir jökli, að minnsta kosti gýs ekkert hjá þjóðinni.


Rotþrær, flatskjár og skýrslur

Þvílík veröld sem við lifum í! Núna er stólpípan hjá rannsóknarnefndinni farin að virka og saurinn rennur yfir okkur almenning. Hægðir eru í raun spegill fortíðarinnar því fæðan var mun lystugri á sínum tíma. Eins og öllum má vera ljóst er til lítils að velta sér upp úr saurnum eins og svín, mun mikilvægara er að kanna hvað er á matseðli dagsins.

Seðlabank Íslands birti skýrslu í gær sem gefur til kynna hvað almenningi er boðið upp á í dag. Sú skýrsla er mun mikilvægari fyrir núið en hrunskýrslan. Þessi skýrsla hverfur vegna umfjöllunar um hrunskýrsluna og er það miður, báðir eiga fullan rétt á að fá að njóta sín.

Í skýrslu SÍ kemur fram að 35-60% heimila ná varla endum saman um hver mánaðarmót. 40% heimila eru tæknilega gjaldþrota, þ.e. fasteignin dugar ekki fyrir lánunum. Staðan er enn verri hjá ungu barnafólki en þar eru 60% heimila tæknilega gjaldþrota.

Með öðrum fréttum um biðraðir eftir mataraðstoð er greinilegt að fátækt er að aukast hröðum skrefum á Íslandi. Millistéttin minnkar og stétt fátækra eykst. Börnin eru mjög útsett og sérstaklega þau ungu því mjög stórt hlutfall barnafjölskyldna á í verulegum vanda.

Hrunskýrslan segir okkur að valdstéttin á Íslandi skapaði þetta ástand með glæpsamlegri hegðun í bönkunum. Hinn hluti valdstéttarinnar sem átti að fylgjast með fyrir okkar hönd var með kjaftinn fullann af seðlum, hroka eða greindarskorti og gat því ekki veitt þjóð sinni neina björg. Nú sitjum við í skítnum, full af sektarkennd því við keyptum okkur flatskjá.

Í skýrslu SÍ kemur fram að valdstéttin á Íslandi í dag hefur af miklu örlæti sínu brugðist við ástandinu með aðgerðum fyrir illa stadda samlanda sína. Árangurinn er ein heil 4-5% minnkun á hópum í vanda. Það gerir um 15% árangur af meðferðinni. Sem læknir hrekk ég í kút. Ég myndi aldrei bjóða sjúklingi upp á meðferð sem hefði 15% árangur í för með sér. Sjúklingurinn teldi mig sjálfsagt galinn að bjóða sér upp á lyf sem væri 85% gagnslaust.

Valdstéttin á Íslandi í dag hrósar sér af þessum árangri. Ég er loksins að skilja hvað Steingrímur á við þegar hann talar um að moka flórinn. Hann er að moka honum á okkur. Þvílík þjóð sem þegjandi tekur við úrgangi yfir sig úr gömlu og líka nýju rotþrónni.


Og hvað svo, kæra þjóð?

Þeir sem hafa velt sér upp úr hruninu s.l. 18 mánuði fengu staðfestingu í dag á því sem þeir vissu. Hinir sem vilja ekki fylgjast með fréttum en kjósa frekar sápuóperur eru undrandi. Ef allir hefðu verið eins og fyrrnefndi hópurinn árin fyrir hrun, hefði ekki orðið neitt hrun.

Því er það nærtækast að þjóðin ákveði að gefa valdstéttinni aldrei aftur möguleika á því að fara með allt þjóðfélagið til fjandans meðan við grillum.


mbl.is Skýrslan kom þjóðinni á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heildsalinn Steingrímur...

Það er þó nokkur áhugi á næstu viljayfirlýsingu sem íslensk stjórnvöld munu senda til AGS. Ekki að undra. Rannsóknarskýrslan sem verður birt á mánudaginn er reyndar mjög mikilvæg en hún fjallar þó um liðna atburði. Mesti fengurinn í henni verður vonandi sá að við vitum þá hvaða leið við eigum ekki að fara. Jafnframt gæti komið fram hverjum við eigum ekki að treysta fyrir framtíð okkar.

Viljayfirlýsingin segir okkur hvernig AGS ætlar að stjórna litla Íslandi. Með viljayfirlýsingunum sem koma fram fyrir hverja endurskoðun kemur fram stefna AGS. Þar sem AGS er mekka nýfrjálshyggjunnar er ekki nema von að Kristján Þór vilji fræðast.

Aðrir Íslendingar hafa þó enn meiri áhyggjur af því að Steingrímur J Sigfússon fyrrverandi róttæklingur sé orðinn heildsali nýfrjálshyggjunnar hér á landi fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Whasington.

Þannig hefur farið fyrir mörgum.


mbl.is Fjárlaganefnd fundi um AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hverra þágu er samið ?

Núna er að hefjast mjög spennandi áratugur. Tímabil þar sem lántakendur og lánveitendur takast á. Icesave er dæmi, fasteignaeigendur eru dæmi og þjóðir eru dæmi. Allir aðilar skulda mjög mikið, í raun það mikið að ekki er nokkur möguleiki að standa í skilum. AGS er innheimtustofnun lánveitenda, stærri útgáfa af Intrum. Reyndar lána þeir líka til að tryggja starfsemi sína til framtíðar.

Gylfi ráðherra telur að lánshæfismat Íslands sé vandamál, að lánveitendur séu óttaslegnir vegna þess. Lánveitendur stjórna matsfyrirtækjunum og beita þeim í sína þágu. Lækka matið til að fá hærri vexti af fjárfestingum sínum eða hræða líftóruna úr íslenskum ráðamönnum. Fundurinn í New York bar þess augljóslega merki að á vogaskálunum voru auðlindir okkar annars vegar gegn tregðu fjárfesta til að lána okkur, allt með blessun og stjórn AGS. 

Sú viljayfirlýsing sem nú virðist tilbúin verður kvíðvænleg lesning. Mun verri en rannsóknarskýrslan því viljayfirlýsingin segir til um framtíðina en hin er bara liðin tíð.

Ég reikna með að í viljayfirlýsingunni verði hæfileg blanda af eftirfarandi: niðurskurður á þjónustu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, einkavæðingu þar sem almenningur þarf að greiða fyrir allt eins og vegatollarnir bera vitni um. Þjónustan sem við áður fengum fyrir skattinn okkar, þá þjónustu munum við þurfa að greiða fyrir í hvert sinn. Skatturinn fer til lánadrottna til að borga skuldir.

Niðurstaðan er verri lífskjör, styttra og verra líf.

Er þetta það sem við viljum?

 


mbl.is Fjárfestar hafa áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta embættismenn samið sig fram hjá þjóðarvilja?

Hið sanna andlit alþjóðasamfélagsins sínir sig þessa dagana. Það er þetta samfélag sem margir á Íslandi vilja tilheyra sem fullgildir meðlimir. Gott að vera í klúbb sem kúgar minnimáttar.

AGS ætlar að þjóna eigendum sínum vel. Þeir ætla að verja lánadrottna okkar og skuldsetja okkur til helvítis. Því fyrr sem landsmenn gera sér grein fyrir því, því betra.

Núna er Gylfi í Washington, varla er hann að versla sér nýja skó. Mun frekar að semja við AGS. Það felst yfirleitt í að skrifa undir viljayfirlýsingu sem AGS hefur samið. Ætli Gylfi og Steingrímur semji um Icesave málið í þeirri viljayfirlýsingu? Geta embættismenn samið sig fram hjá þjóðarvilja?


mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2000 matargjafir og samningur Jesú Krists

Einhver presturinn sagði að við ættum að nota kyrrð páskahelgarinnar til að  hugsa. Þar reis guðsmaðurinn upp gegn sínum veraldlegu valdhöfum því ekki er það gæfulegt fyrir þá ef almenningur færi að hugsa. Almenningur er mjög önnum kafinn við að færa björg í bú og sest síðan örþreyttur fyrir framan heilaþvotta vél stórabróður. Ef almenningi gæfist kostur á því að hugleiða þá gæti margt farið á annan veg og sennilega hefðum við aldrei lent í bankahruninu ef við hefðum haft tækifæri til að hugsa.

Ég hef verið að hugsa núna um páskana. Um 2000 manns þurftu mataraðstoð á Íslandi um daginn. Það jafngildir um 32.000 Norðmönnum eða 60.000 Svíum eða 400.000 Bretum. Einnig þekki ég fólk sem fer ekki til hjálparstofnana heldur fær aðstoð hjá öldruðum foreldrum sínum með matarinnkaup, þetta 2-3 sinnum í mánuði. Því eru tölurnar frá hjálparstofnunum bara toppurinn á ísjakanum. Hjá fjölda fólks er allt í járnum.

Það er sérkennilegt að kreppan geti skapað þessu fólki slík örlög. Sjálfsagt áttu þau enga sök á núverandi kreppu. Við vitum nokkurn veginn hverjum er um að kenna og að þau hafa það gott og eru að koma sér vel fyrir á nýjan leik á Íslandi. Við krefjumst réttlætis, það er lágmarkskrafa að svokölluð vinstri stjórn hætti að dansa með elítunni og kannist við uppruna sinn.

Jesú vissi alla tíð að hann yrði krossfestur saklaus, hann hafði samið um það við föður sinn. Íslenskur almenningur hefur ekki samið um neitt slíkt, okkur var hrint ofaní ljónagryfjuna, það er óréttlæti og mannréttindabrot.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband