Færsluflokkur: Dægurmál

The Godfather prúttar ekki.

Niðurstaða þessa kjarasamnings er mjög sérkennileg. Ríkið hefur hér fullnaðarsigur. Ég er núna staddur í Tyrklandi og menn stunda mikið prútt í viðskiptum. Niðurstaðan verður alltaf sú að ef viðskipti takast eru báðir sáttir, einfalt og þægilegt. Því virðast menn ekki prúttað mikið á þeim nótunum í karphúsinu.

Þeir sem sáu myndina The Godfather í den muna sjálfsagt eftir senunni þegar hann gerði einum manni svohljóðandi tilboð; annað hvort fer undirskrift þín á skjalið eða heilinn þinn- hann beindi nefnilega skammbyssu að hnakkanum á náunganum. Í þessu dæmi er ekki mikið um prútt. Aftur á móti fellur slíkur viðskiptamáti frekar undir ofbeldi. 


mbl.is Samið til loka mars 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkland og hundar.

Hundurinn minn hugsar bara um um mat og tíkur. Tyrkneskir karlmenn eru mjög opinskáir með aðdáun sína á kvenfólki og minna mig því svolítið á hundinn minn. Á Íslandi erum við svolítið meira "dannaðir" í framkomu okkar við kvenfólk.

Það er í raun ekki mikil kúnst að temja hund svo hann hagi sér vel. Því minna íslenskir karlmenn mig meir á vel taminn hund en minn sem er illa taminn.

Eitthvað verða hundar að hafa fyrir stafni. Það er farið með þá í göngutúra, ratleiki og að finna falinn kjötbita. Þeir komast aldrei í tæri við tíkur því þeir eru í taumi.

Getur hugsast að mikill áhugi karla á golfi, laxveiði og skotveiði eigi sér þá skýringu að næst besta hvötin sé betri en engin.

Þetta "fittar" að minnsta kosti ekki nógu vel saman. 


Tyrkland-2.

Hér í Tyrklandi er fyrst og fremst gaman. Afslöppun, sól, hiti og góður matur-það er að minnsta kosti ekta. Tyrkir selja með bros á vör falsaða vöru til hægri og vinstri. Við prúttum pínulítið og kaupum síðan vöruna, vitandi að hún er fölsuð en ánægð samt. Hér get ég keypt heilt Rolex úr á verði einnar leðurólar á úrið mitt í Reykjavík.

Ég er að velta því fyrir mér hvort okkur heima á Fróni er ekki eins farið. Sjálfsagt rennur samskonar blóð í æðum tyrkneskra kaupmanna og íslenskra kaupahéðna. Á Íslandi kaupum við sí og æ falsaða verðlagningu með bros á vör. Að minnsta kosti kannast maður við röksemdir sölumannanna" only for you my frind....."

Skítt að Rússar töpuðu en Spánverjarnir voru miklu betri. 


Tyrkland-1.

Þá erum við komin aftur til Tyrklands. Marmari er það og aftur sama hotel-Foum. Við höfum aldrei áður farið tvisvar á sama stað og það segir nokkuð um hvað við kunnum að meta þennan stað. Íbúðirnar eru stórar og þægilegar, góð loftkæling og veðrið frábært. Sundlaugin hrein unun þegar sólarkremið er farið að krauma á kroppnum.

Í kvöld er stór dagur. EM í fótbolta. Tyrkland-Þýskaland. Nú ætlum við að gata þýska stálið. Ég er vel undirbúinn. Stórir flatskjár tilbúnir á sundlaugabakkanaum á hotelinu. Ég er búinn að kaupa eldrauða tyrkneska treyju sem ég verð í. Svo einn tyrkneskur öl og allt er redí. 

IMG_0375


Enginn er spámaður í sínu föðurlandi.

Það fjaðrafok sem væntanleg koma flóttafólks til Akraness hefur orsakað er allrar athygli verð. Björk Vilhelmsdóttir bendir á það að Íslendingar hafi bara tekið við 400 flóttamönnum á hálfri öld. Það geri minna en 10 á ári. Hún telur að bara vegna þessarar einföldu staðreyndar geti fólk ekki verið á móti komu flóttafólks til Íslands. Merkileg röksemdafærsla í sjálfu sér en heldur ekki vatni.

Björk ætlaði að leggja til að Reykjavík taki við flóttafólkinu ef Akranes dytti úr skaftinu. Aðspurð hvort það illi ekki lengingu á biðlistum eftir félagslegum íbúðum í Reykjavík svaraði hún því til að hann væri hvort er svo langur(800 manns)að það myndi ekki muna neinu. Ef Björk væri sjálf á þessum biðlista gæti maður reynt að taka mark á slíkum málflutningi, þar sem hún er það væntanlega ekki er þetta rökleysa.

Þegar Gísli S Einarsson svarar sömu spurningu í kastljósinu svarar hann að þörf eftir félagslegum íbúðum sé ekkert meiri á Akranesi en annarsstaðar, því sé í lagi að lengja biðlistann með flóttafólki. Hann tekur einnig fram að þeir sem séu á þessum biðlista "telji sig í þörf fyrir félagslega aðstoð" og slíkt fólk finnist í öllum sveitafélögum landsins. Þar með sé í góðu lagi að lengja biðlistann á Akranesi.

Samantekið get ég ekki betur séð en að fyrrnefndir biðlistar séu tilkomnir vegna meintrar þarfa einhverra Íslendinga á félagslegri hjálp að áliti fyrrnefndra fulltrúa. Ég get ekki betur séð en að fulltrúar fólksins séu ekki þess fullvissir að sú meinta þörf sé á rökum reist. Þau álíta að það sé í góðu lagi að lengja bið fólks eftir úrlausn sinna mála. Sjálfsagt er sú skoðun þeirra byggð á þeirri trú að flóttafólkið sé í meiri þörf á aðstoð en þeir sem eru fyrir á biðlistanum. Enginn er spámaður í sínu heimalandi. Ég gæti best trúað því að biðlistavandamál sveitafélaganna séu jafngömul flóttamannavandamálum heimsins. Eru ekki biðlistafólk á Íslandi "flóttafólkið" okkar. Það virðist að minnsta kosti hvergi eiga heima.

Þegar einhver stendur upp og imprar á því að ef til vill eigi þeir sem eru á biðlistunum einhvern rétt og tilverugrundvöll, verður fjandinn laus.  Að gefa skít í þarfir Íslendinga á íslenskum biðlistum er sennilega fordómar, eða má maður kalla þetta kultúrrasisma. Vandamál flóttafólksins frá Palestínu er mikil og full þörf á því að leysa þau. Aftur á móti að gjaldfella vandamál landans er ekki fögur iðja.


Það var og.

Stundum getur maður orðið svolítið þreyttur á þessari pólítík. Þetta endalausa pot og plott. Dæmi um það er flutningur á flóttamönnum til Akranesbæjar. Eftir því sem Magnús Þór segir þá er sú framkvæmd gerð á fljótfærnislegan og ólýðræðislegan hátt. Ekki það að Akurnesingar hafi eitthvað á móti þessu fólki heldur aðferðum stjórnvalda við að koma þessu á koppinn. Utanríkisráðuneytið er sjálfsagt orðið svo heimaríkt apparat að örlítill lýðræðislegur halli skiptir þá engu máli. Þá þyrstir í öryggisráðið og því hafa þeir ekki tíma til að ræða málin við lítið sveitarfélað á Íslandi.

Það væri óskandi að þessi framtakssemi væri alsráðandi í störfum ríkisstjórnarinnar. Því miður er ekki svo. Meðan krónan okkar er í frjálsu falli og heimalagaðir vextir bólgna eins og gerbolla gerir stjórnin ekki neitt. Krónan hefur sjálfsagt sitt frelsi til að falla. Ríkisstjórnin hefur sjálfsagt líka sitt frelsi til að gera ekki neitt. En ef frelsið skaðar okkur hin?

Ef kosið hefði verið núna til þings þá hefðu ráðherrar nýtt sér betur innanlandsflugið og ef til vill gert eitthvað meira í málinu, eða hvað? Það var og. 

 


FLORENCE NIGTHINGALE.

Image:Florence Nightingale 1920 reproduction.jpg

 

Hún var mjög ákveðin kona, lét ekki vaða yfir sig og einnig mjög stjórnsöm. Því var hún óvenjuleg kona. Stallsystur hennar í dag haga sér á svipaðan hátt, að minnsta kosti láta þær ekki vaða yfir sig.  Ef til vill er það skýringin á erfiðleikunum við að ná sáttum í deilu hjúkrunarfræðinga við stjórn LSH að frú Nigthingale situr beggja vegna samningsborðsins.

Við getum huggað okkur við að aðilar eru þessa stundina að ræða saman. Meðan er von um sátt. Ef ekki blasir við mjög alvarlegt ástand, sérstaklega ef einhver tími líður. Þá fer að koma fram þreyta og uppgjöf hjá þeim örfáu hjúkrunarfræðingum sem eftir standa.

Ég vona að þessi deila leysist sem fyrst. Ég vona einnig að menn læri af reynslunni og setji hlutina í ferli tímanlega næst þannig að ekki þurfi að koma til svona uppþota, það er ekki nokkrum manni til gagns. 


Hvernig endurlífgar maður TILFINNINGARGREIND?

Ég held án þess að ég viti það með neinni vissu að umræða um Landspítalann hafi verið mun meiri s.l. 10 ár en öll hin árin á undan. Hún hefur oftast verið neikvæð því annað er ekki fréttnæmt. Það hafa verið átök í tengslum við sameininguna, fyrst þegar Landakot var innlimað og lagt niður í fyrri mynd. Þá voru margir sem söknuðu gömlu góðu daganna. Núna í nokkur ár höfum við verið í tveim húsum en sem ein stofnun. Til allra hamingju hefur "húsasóttin" fjarað smá saman út og við upplifum okkur alltaf meir og meir sem "eitt hús".

Í öllu þessu umróti hefur verulega reynt á starfsmenn, aðlögunarhæfni þeirra og getu í mannlegum samskiptum. Eftir á getur maður sagt að betra hefði sjálfsagt verið að hafa við höndina sérfræðinga í mannlegum samskiptum, sálfræðinga og þess háttar fólk. Þeir hefðu leitt umbyltinguna og leyst úr þeim hnökrum sem mynduðust.

Gagnrýni á húsakost spítalans hefur verið vaxandi undanfarið. Ástæða þess er að fólk er að vakna upp við vondan draum. Sá húsakostur sem við búum við í dag hefði átt að vera endurnýjaður fyrir 30 árum síðan. Því á gangrýnin að beinast að foreldrum okkar sem sáu ekki þörfina á sínum tíma fyrir betri húsakosti. Til allra hamingju er þó nýtt hús handan við hornið.

Þann fyrsta maí stefnir í skipbrot í mannlegum samskiptum á Landspítalanum. Þá ætla meir en 100 hjúkrunarfræðingar og tugir geislafræðinga að hætta störfum. Um er að ræða ósætti um vinnufyrirkomulag eftir að hefðbundnum vinnutíma lýkur hjá starfsmönnum. Þegar maður fær drep í hjarta eða görn er kallað eftir viðkomandi sérfræðingi. Þegar tilfinningargreindin er í andarslitrunum sér engin ástæðu fyrir sérfræðingshjálp, en skrítið. Heill spítali stoppar, hverjum er ekki sama? 

 


TRUKKALÆTI.

Ætli ég verði ekki að blogga um trukkalætin í gær eins og allir. Það eru að minnsta kosti tvær hliðar á málinu, þess vegna mun fleiri. Niðurstaðan er samt mjög dapurleg og sérstæð. Það eitt sér er nægt tilefni til að fara gaumgæfilega yfir hvað gerðist. Svona ofbeldi má ekki endurtaka sig, amk þegar fólk er að rífast um smáhluti eins og peninga. Gandhi sat á bossanum á sínum tíma því þá voru mannréttindi í húfi.

Við getum gefið okkur að ef allir hefðu farið að einu og öllu eftir tilmælum lögreglunnar þá hefði þessi atburður ekki gerst. Ef lögreglan hefði beðið fram í myrkur þá hefðu allir verið komnir heim að horfa á sjónvarpið sitt, og þá hefði þetta aldrei gerst. Þannig er nú það.

Síðan er það spurningin um frelsi eins og frelsi hins. Hef ég frelsi til að stilla mér upp á vígvelli og ætlast til þess að ég skaðist ekki? Ef ég hefði verið þarna og séð tvær fylkingar fullar af testósteróni og eins og hana að undirbúa hanaslag hefði ég farið heim til mín. Það er í sjálfu sér heigulsháttur en skynsemi engu að síður.

Hef ég frelsi til að óhlýðnast lögreglunni, veifa fingri og fara með formælingar. Í fyrsta lagi er svarið nei, mín borgaralega skylda er að hlýða lögreglunni, það er regla sem við höfum öll samþykkt og verðum að fara eftir. Við getum ekki sniðgengið reglur eftir hentugleikum. Þá mætti ég fara yfir á rauðu ef ég væri að flýta mér. Í annan stað að vera með formælingar við samborgara okkar þó þeir séu lögreglumenn er galið. Þetta eru bara venjulegir menn með sínar tilfinningar eins og ég og þú. Þeir gætu verið þess vegna miklir stuðningsmenn bílstjóranna. En þegar menn eru svívirtir í orði og með grjót- og eggja kasti þá þykknar í öllum.

Það á að sjálfsögðu að gera miklar kröfur á lögregluna. Þeir eru sérmenntaðir í því að sinna svona uppákomum. Þeir hefðu vel getað beðið lengur og reynt að þreyta klárinn. Vera meira dipló. Horfa í gegnum fingur sér og leyfa mönnum aðeins að tjá sig. Fórnað minni hagsmunum fyrir meiri. Sá vægir sem vitið hefur meira er oft sagt.

Bófinn í dramanu er þessi liðónýta Ríkisstjórn. Ég er búinn að lifa í hálfa öld en ég held að þessi ríkisstjórn sé að slá öll met í vitleysu. Ég er farin að upplifa stóran hluta hennar sem geðsjúkling sem hefur ekkert sjúkdómsinnsæi. Á mínum starfsvettvangi þá eru slíkir sjúklingar oft sviptir sjálfræði. 

The image “http://finickypenguin.files.wordpress.com/2007/11/mahatma-gandhi-indian-hero1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.


STURLUNGAÖLD.

Það er margt sérkennilegt í fari okkar Íslendinga. Nýlega komst mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að því að við höfðum framið mannréttindabrot á samlöndum okkar. Vilhjálmur fyrrverandi borgarstjóri er uppvís af þvílíku pólitísku klúðri þessa dagana að hann mun komast á spjöld kennslubóka sem dæmi um hvernig stjórnmálamenn eiga ekki að haga sér. Augljóst er að hann var leikskoppur einhverra peningamanna. Heill haugur af gömlum varnarliðsíbúðum var seldur á slikk á Keflavíkurflugvelli, og kaupendur eru enn ekki búnir að borga þær. Opinberar stöðuveitingar fara eftir forskrift Sikileyskrar reglu sem er stundum kölluð mafían. Peningamenn ásælast orkuauðlyndir landsmanna og ekki er laust við kjörnir fulltrúar okkar styðji þá dyggilega við þá iðju. Dýralæknirinn hefur það helst sér til málsbótar að hvæsa á menntamálráðherra að henni komi ekkert við hvað hann ætli sér að skammta kennurum í laun. Sjálfsag vegna þess að hún er kona.

Ég er farinn að hallast að því að það sé röng söguskýring að Sturlungaöldin sé liðin. Ef það reynist rétt hjá mér mun Þorgerður ekki lána Árna sínum lokk úr hári sínu á ögurstund. Slíkt virðist að minnsta kosti vera of seint fyrir Vilhjálm.

Það sem er öllu merkilegra að ekkert hefur breyst frá Sturlungaöld því við leiguhjúin fylgjumst bara með og tautum eitthvað en höldum svo áfram að kemba ullina eins og ekkert hafi í skorist.

Er ekki orðið tímabært að fara að "praktísera" lýðræði á Íslandi.

 sturlunga3

 

Sturlungaöld er tímabil í sögu Íslands sem er venjulega látið ná frá 1220 þegar Snorri Sturluson kom út til Íslands frá Noregi og hóf mikla eignasöfnun, til 1264 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála. Tímabilið er kennt við Sturlunga, þá ætt sem var mest áberandi framan af. Það einkenndist af miklum átökum milli helstu höfðingjaætta Íslands um eignir og völd svo sumir höfundar hafa jafnvel gengið svo langt að tala um borgarastyrjöld í því samhengi

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband