Færsluflokkur: Dægurmál

FISKAR Á ÞURRU LANDI.

Sigurjón mágur var að skrifa um reiknikúnstir Hafró. Þar er stuðull sem kallast náttúrlegur dauðdagi fiska. Hann er víst skilgreindur sem sá dauðdagi sem veldur dauða fiska annar en sá dauðdagi sem stafar af veiðum manna. Sem sagt 18 % fiska deyja af náttúrulegum ástæðum.

Við erum í vandræðum með mannskepnuna að átta okkur á ástæðum þess hvers vegna hún lætur lífið. Hvernig er þá hægt að fullyrða að 18% fiska látist á hverju ári af náttúrulegum ástæðum. Við sjáum aldrei alla þessa fiska, vitum ekkert um þá, þeir sökkva allir til botns eða eru veiddir.

Það má segja að þrír möguleikar séu í stöðunni. Þeir lifa og synda. Þeir deyja og eru þá annað hvort veiddir eða sökkva til botns í einu eða öðru formi. Ef 18% deyja og sökkva til botns og við veiðum bara lítinn hluta þá hljóta mjög margir fiskar að hafa það ansi gott og fjölga sér. Þrátt fyrir að veiðar hafi minnkað ár frá ári þá bara minnkar stofninn. Eitthvað er ekki að virka.

Tilgangur fiska er að éta, fjölga sér og deyja. Hljómar kunnuglega ekki satt? Í okkar kerfi virðast þeir bara deyja. Þeir fiskar sem finnast eru horaðir og virðast því ekki éta. Annað hvort er að setja Viagra eða mat í sjóinn.


Leiðtoginn-Ólafur F Magnússon.

The image “http://www.legacee.com/Assets/Assets_Services/Assets_Leadership/Assets_Workshops/washdel.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Ólafur F Magnússon er orðinn leiðtogi okkar Reykvíkinga. DV í dag reynir að veita okkur óbreyttum borgurum innsýn inn í persónuleika Ólafs. Maðurinn er að sjálfsögðu ýmsum kostum búinn. Hlýr, viðkvæmur, hreinskiptinn, góður félagi og samkvæmur sjálfum sér. Ókostirnir geta verið að hann er einrænn, dulur og þver. Honum er illa við málamyndanir og forðast þær eins og pestina. Það heitir á fínu máli að vera fylginn sér. Vonandi gangi honum nú allt í haginn, þrátt fyrir allt.

Enda er það augljóst þegar horft er til stefnumála nýs meirihluta. Ólafur hefur nánast ekki gert neinar málamiðlanir við stærsta og sterkasta stjórnmálaafl landsins, Sjálfstæðisflokkinn. Auk þess er það bersýnilegt að þeir ætla að leyfa honum að stjórna, milljarði kastað í fúaspýtur á Laugaveginum. Reyndar kom það sér ákaflega vel fyrir Þorgerði Katrínu, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði eitthvað upp úr krafsinu.

Þegar haft er í huga háðsglósur og hlátur Sjálfstæðismanna þegar Ólafur F gekk af vettvangi þess flokks auk niðurlægingarinnar fyrir Ólaf þegar Villi sveik hann er þetta mál allt hið sérkennilegast. Þegar sterkasta stjórnmálaafl landsins drýpur niður í duftið fyrir gömlum liðhlaupa, þá hlýtur eitthvað mikið að hanga á spýtunni. Það getur varla verið bara hefnd og völd. Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir mun fínni takttík en svo.

Reyndar finnst okkur Reykvíkingum þær orðnar allar frekar illa lyktandi, hvaða nafni þessar tíkur eru svo sem kallaðar. 

 


PÓLITÍK-meirihlutinn jarðaður í "kyrrþey".

Skáksnillingurinn var jarðaður í kyrrþey, sóknarpresturinn vissi ekki einu sinni um það. Eins fór fyrir meirihluta Borgarstjórn Reykjavíkur. Þau voru jörðuð í kyrrþey- eða þannig sko. Þau vissu ekkert af sinni eigin jarðarför. Það má segja að þau voru kviksett.

Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Borgarbúar eru fullir hneykslan og undrun. Trú almennings á pólitík fer hraðminnkandi þessa dagana.Guðjón Ólafur er alsettur hnífsstungum eftir Börn Inga. Bingi segir að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að stinga bróður sinn á hol í aðdraganda prófkjörs. Síðan eigi menn að gleyma öllu eins og ekkert hafi í skorist. Ólafur F skellir sér í samstarf með Sjálfstæðisflokknum samtímis sem samflokksmanneskja hans Margrét Sverris er enn í samtarfi með R-listanum. Hvað á almenningur að halda. Sjálfsagt munu flestir túlka þetta þannig að menn hafi sameinast um stóla en ekki málefni. Er ekki Ólafur í algjörum minnihluta í þessu meirihlutasamstarfi. Ég bara spyr?

Sjálfsagt er hægt að óska Ólafi til hamingju, hann hefur komist í oddaaðstöðu. Vonandi kemur hann góðum málum áfram. Það sem veldur mér mun meiri áhyggjum er tiltrú almennings á fulltrúarlýðræðinu. Eigum við ekki að hafa kosningar í sveitastjórnum þegar meirihlutar falla?  Hvernig virkar það á fólk að vera í ákveðnum stjórnmálaflokk í kosningum en ekki í honum síðar við meirihlutamyndun?  

Það er greinilega margt sem er enn órætt í okkar lýðræðisþjóðfélagi. 


Mikið veikur eða lítið veikur-einn spítali eða tveir.

 Sæl öll sömul,

þetta er grein sem birtist eftir mig í dag í Morgunblaðinu. 

 

Mikið veikur eða lítið veikur-einn spítali eða tveir.

Nokkur gagnrýni hefur beinst að nýbyggingu Landspítalans. Bent hefur verið á að nýja sjúkrahúsið verði hið mesta ferlíki. Það verði eini vinnustaður mjög margra heilbrigðisstarfsmanna og setji starfsmennina í stöðu þrælsins. Það sé betra að hafa tvö sjúkrahús, þau sé hægt að bera saman og samkeppni myndist á milli þeirra sem myndi leiða af sér betri kjör bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga. Auk þess er nýbyggingunni stillt upp á móti þjónustu við aldraða.
Sem starfsmaður Landspítalans fellur maður oft í þá gryfju að taka það sem gefið að fólk skilji og viti hvernig hlutirnir eru á Landspítalanum. Sjálfur hrærist maður í þessu umhverfi daglega og finnst, ranglega, að allir ættu að skilja eðli þeirrar starfsemi sem þar er. Það er ekkert rangt við að gagnrýni komi fram, aftur á móti finnst mér skorta andsvör.
Síðustu áratugir hafa einkennst af stefnuleysi í uppbyggingu á góðu sjúkrahúsi fyrir alla Íslendinga. Þau sjúkrahús sem voru notuð hér í bænum voru allt of lítil og þröng.Til að gera eitthvað voru menn að byggja við og gera upp gamlar einingar.Þegar tillit er tekið til þess að kostnaður við að gera upp gamla einingu er 80% af því að byggja nýtt er þessi stefna mjög heimskuleg.
Spurningin um eitt eða tvö sjúkrahús er mun athyglisverðari. Til allrar hamingju höfum við flest öll verið ekki mikið veikir sjúklingar. Ég vil kalla þann stóra hóp sjálfbjarga sjúklinga. Sjálfbjarga sjúklingar, komast til og frá þjónustinni að mestu leyti á eigin vélarafli. Sem dæmi getum við tekið göngudeildarþjónustu, skurðaðgerðir út í bæ eða einfalda gallblöðrutöku þar sem sjúklingurinn er kominn heim um kvöldmat. Okkur finnst við í raun ekki vera miklir sjúklingar því við erum að mestu sjálfbjarga og oftast vel læknanleg. Sjálfbjarga sjúklingar skipta umræðuna um Landspítalann sára litlu máli, því þessa sjúklinga má meðhöndla í hvaða skemmu sem er. Þeir hafa þrek og þrótt til að fara á staðinn, krefjast þjónustu, eða rífa kjaft ef svo ber undir. Eðli Landspítalans er ekki meðhöndlun sjálfbjarga sjúklinga heldur ósjálfbjarga. Það sem hrjáir umræðuna um Landspítalann er að flestir sem taka þátt í henni hafa verið sjálfbjarga sjúklingar og meta síðan þörf Íslendinga fyrir nýjan Landspítala út frá sinni reynslu. Í raun ósköp skiljanlegt. Fæstir hafa verið mikið veikir til allrar hamingju. Mín reynsla er svolítið önnur. Sem Svæfinga-og Gjörgæslulæknir þá sinni ég mest ósjálfbjarga sjúklingum. Mikið veikum einstaklingum. Allir sem verða mikið veikir eru fluttir á Landspítalann, því er það spítali allra landsmanna. Flest allir sjúklingar Landspítalans eru „aldraðir“ eða veik börn. Sjálfbjarga sjúklingum má mín vegna skipta niður á eins mörg sjúkrahús og spekingar kjósa.
Hvað með ósjálfbjarga sjúklinga. Tökum dæmi. Sá fjöldi hjartaskurðaðgerða sem framkvæmdar eru á Íslandi eru ekki til skiptanna. Hann er rétt nægjanlega mikill til að halda skurðlæknum og öðru starfsfólki okkar í æfingu. Ef við skiptum þeim á tvö sjúkrahús þá fengjum við tvær hjartaskurðdeildir sem hefðu allt of fáa sjúklinga til að halda starfsfólkinu í góðri æfingu. Svo bærum við þær saman. Við myndum bera tvær lélegar deildir saman. Úr yrði einhverskonar aumingjabandalag, tossabekkur. Eina skynsemin fyrir okkur er að efla þá deild sem er til staðar núna. Sú deild yrði síðan borin saman við bestu erlendu sjúkrahúsin í sömu grein. Metnaður okkar á Landspítalanum er að standast slíkan samanburð, sem dúx. Sama á við um fleiri sérgreinar svo sem heilaskurðlækningar.
Nefna má tvö atriði til viðbótar. Það hlýtur að vera dýrara að halda úti tveimur vaktalínum lækna og hjúkrunarfræðinga en einni, launakostnaður er nú einn stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri allra fyrirtækja. Þar að auki eru það gömul sannindi í hagfræði að allir sem að rekstri koma, vita að heppilegast er að ákvarðanir í þeim efnum, séu teknar af þeim sem þurfa síðan að búa við ákvarðanirnar. Því ætti að spyrja þá sem hafa verið mjög veikir sjúklingar hvernig þeir vilja hafa hlutina og okkur sem sinnum þeim.

Hvers eiga veikustu sjúklingarnir að gjalda? Þeir hafa aldrei átt eitt gott sjúkrahús þar sem þeir geta fengið alla þjónustu. Vandamálið með mannskepnuna er að hún veikist ekki í pörtum. Ef maður lendir í miklu slysi þá brotna ekki bara beinin. Lungun, hjarta og nýrun geta líka bilað. Ætli það sé notalegt að ferðast um Reykjavík á milli sjúkrahúsa mölbrotinn. Stundum hafa sjúklingarnir verið nær dauða en lífi eftir flutninginn.
Mikið veikir sjúklingar eru ekki til skiptanna. Þeir henta mjög illa fyrir einkarekstur. Þeir hafa búið við slæmar aðstæður á nokkrum sjúkrahúsum í Reykjavík áratugum saman. Þetta er vanræktur hópur sem hefur ekki hátt. Það getur verið að ég verði þræll eins atvinnurekanda en ég vil þá láta sjúklinginn njóta vafans.
Það er mál að linni. Spekingar, setjið ykkur í spor þessara sjúklinga og okkar sem sinnum þeim áður en þið bregðist þeim endanlega. Byggjum eitt gott sjúkrahús fyrir okkar veikustu meðbræður, því þeir eru líka Íslendingar eins og við hin.


TRÚFRÆÐI Í GRUNNSKÓLUM.

Þorgerður Katrín leggur til að gefinn verði smá slaki á tengslum Þjóðkirkjunnar og Grunnskólum landsins. Þar með var fjandinn laus eða þannig sko. Ég hélt að þessi umræða myndi lognast fljótt útaf en svo virðist ekki ætla að verða raunin. Út frá þessu hafa síðan spunnist umræður um tengsl ríkis og kirkju.

Ég er skráður í Þjóðkirkjuna og er mjög sáttur við það. Í skoðanakönnun myndi ég vera í þeim helmingi þjóðarinnar sem telur sig kristinn. Hinn helmingurinn telur sig vera eitthvað annað. Mér er nokk sama því ég aðhyllist frelsi og líka trúfrelsi. Það virðist sem margur hafi fengið hland fyrir hjartað þegar þessi umræða kom upp á yfirborðið. Menn keppast við að telja þjóðinni trú um að ríkisrekin kirkja sé
það eina í stöðunni. Þeir virðast halda að allir haldi það líka. Þeir vilja telja öllum trú um að þeir haldi það líka. Bara svo að enginn haldi að þeir séu á móti Þjóðkirkjunni.

Að kirkjan sé ríkisrekin samræmist ekki frelsi, trúfrelsi og jafnrétti. Því ber að skilja þessar tvær stofnanir að. Að auki og ekki síður mikilvægt væri það mjög gott fyrir kristna kirkju að vera ekki lagskona ríkiskassans. Kirkjan yrði mun sjálfstæðari og meira lifandi, eins og í frumkristninni. Ég held að það yrði Þjóðkirkjunni til góðs að einkavæða hana.

Annað við þessa umræðu er fáránleikinn. Þegar skortur er á kennurum. Kennarar kvarta sáran yfir kjörum sínum. Allt of margir nemendur í bekk. Samanburðakannanir sýna að íslenskir nemendur standa sig illa. Um hvað snýst umræðan-SMJÖRKLÍPU-hvort og hvernig eigi að kenna kristinfræði í skólum. Ég held að þjóðin sé ekki með öllum mjalla.

Brettið nú upp ermarnar og sköpum góða skóla fyrir börnin okkar. 


15 MILLJARÐAR KRÓNA.

 Það kom fram í Kastljósi í gær að landbúnaðurinn á Íslandi fær 15 milljarða á ári í opinbera styrki. Hlutfall af tekjum bænda er um 66% og er eitt það hæsta sem um getur. Ég hrökk við því ég hafði ekki gert mér grein fyrir að um svo stórar fjárhæðir væri að tefla. Rekstur Landspítalans er um 33 milljarðar á ári þannig að niðurgreiðslur til landbúnaðarins eru u.þ.b. hálfur Landspítali á ári. Það er búið að leggja til hliðar 18 milljarða til að byggja nýjan Landspítala fyrir landsmenn og hafa sumur farið á límingunum yfir þeirri upphæð. Enginn virðist æsa sig jafn mikið yfir 15 milljörðum á hverju ári til landbúnaðarins.

 Ég fór aðeins að reyna að finna út á netinu hvert þessir 15 milljarðar fara. Mjólkurframleiðsla fær um 5 milljarða. Sauðfjárræktun fær 3,6 milljarða. 15-5-3,6 er 6,4 milljarðar sem virðast vanfundnir. Sjálfsagt fer eitthvað í menntun, eftirlit og þess háttar. Ég auglýsi samt eftir mismuninum. Er hugsanlegt að milliliðir séu afætur á Ríkinu? Ekki lifa bændur neinu bankastjóralífi. Hvar eru peningarnir okkar?? 

Athugum aðeins hvað Sjálfstæðisflokkurinn segir um Landbúnaðarmál. 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stundaður sé fjölbreyttur landbúnaður á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna.

Íslenski Sjálfstæðisflokkurinn dælir peningunum okkar í landbúnaðinn, er það einkaframtak? Jafnvel er hugsanlegt að allir aðrir en bændur fái alla þessa peninga.

Ég tel að sleppa eigi einkaframtaki bænda lausu og losa um þessa fjötra ríkisafskipta sem viðgangast núna. Ég treysti íslenskum bændum vel til að reka landbúnað, eða hverjir ættu að kunna það betur?

Það virðist ekki vera slíku trausti til að dreifa hjá íslenska Sjálfstæðisflokknum. 

Aftur á móti treystir hann einkaframtakinu til að selja erlenda landbúnaðarframleiðslu í formi áfengis í Bónus. 


 

 


 

 

 

T



Fólk sem hugsar um fólk en ekki fjármuni.

 Nú hafa skólastjórar tjáð sig. Oft hefur ástandið verið slæmt en nú er það verra en nokkru sinni fyrr. Þeir kennarar sem eru í vinnu eru látnir vinna eins mikið og hægt er því auglýsingum er ekki svarað. Kennaraskortur er staðreynd og þeir sem sinna börnunum okkar eru yfirhlaðnir vinnu svo kerfið hökti einhvernvegin.

Sama staða er í leikskólamálum og hefur verið mikið í fréttum í töluverðan tíma.

Skortur á hjúkrunarfræðingum er vel þekktur og er hver dagur á sjúkrahúsum barátta stjórnenda í því að ná að manna næstu vakt.

Umönnunar- og menntastéttir eru á skammarlega lágum launum, vinna allt of mikið og það er stöðugt verið að þrýsta þeim í meiri vinnu gegn vilja þeirra. Á þann hátt tekst að halda uppi því þjónustustigi sem við höfum í dag.


Þegar haft er í huga að hægt er í vissum verslunum að fá kaup fyrir að draga strikamerkingar yfir skynjara fyrir sama kaup og kennari eða hjúkrunarfræðingur fær eftir 25 ára starf þá er eitthvað að. Það er ekkert rangt við það á fá þokkalega greitt fyrir að vinna í verslun, það er hið besta mál og ekki víst að allir sem vinna við það prísi sig svo sæla af sínu kaupi.

Það sem er að er verðmætamat okkar Íslendinga.

                                              Ef ég sel einhverjum eitthvað þá er það gott. Um leið og ég sel þá verður til fjárhagslegur gróði, að öðrum kosti ganga viðskiptin ekki upp. Í dag er þessi gróði orðin aðalsmerki, sá sem græðir sem mest er flottastur. Ef einhver græðir þá hlýtur einhver annar að tapa, það hlýtur þá líka að vera flott.  Einu sinni fór maður inn í guðshús og velti um borðum slíkra gróðrarpunga. Honum fannst þeir ekki neitt flottir. Hann varð síðan krossfestur og dó.     

 The image “http://health.tau.ac.il/Prev/nurs-kol.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

 Í dag í okkar þjóðfélagi er ekki flott að vera kennari eða hjúkrunarfræðingur ef mið er tekið af launum. Hvernig breytum við því?

Oftast þegar rætt er um þessar stéttir eru framlög þeirra flokkuð sem kostnaður og byrði á þjóðfélaginu sem er að sliga heiðvirða skattgreiðendur. Tilvist þeirra er nánast bruðl. Þegar enn ein Kringlan rís úr jörðu er hún snjöll fjárfesting.

Hvað er til ráða?

Er það ekki fjárfesting að koma fólki aftur til betri heilsu? Er það ekki fjárfesting að mennta börnin okkar?

Er ekki heilsan og börnin okkar það dýrmætasta sem við eigum, ég bara spyr. 

 


mbl.is Skólastjórar segja ekki lengur hægt að halda úti lögboðinni kennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuveita Reykjavíkur im memorian.

Einu sinni datt ég í sjóinn. Mér brá mjög, ég man enn þegar ég rýndi upp í gegnum grænan sjóinn og sá birtuna nálgast þegar ég reyndi að komast úr kafi. Hvað er að gerast, lifi ég af?

Þannig líður okkur eigendum Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Við vitum ekki neytt. Fulltrúum okkar var hent í sjóinn og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Sumum að minnsta kosti. Það kom nefnilega fram hjá borgarstjóranum "okkar" í kastljósinu í gær að mikil og "hreinskiptin" umræða hefði farið fram innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins áður en honum var falið að "klára"málið. 

Sjálfstæðismenn fengu að minnsta kosti að melta málið. Það virðist sjálfmelt í borgarstjórnarflokki Framsóknarflokksins.

Fulltrúar minnihlutans, sem er nú bara um helmingur kjósenda, fékk örfáar klukkustundir til að ákveða sig. Þetta er nú þvílík og önnur eins heimska að það nær ekki nokkurri átt, þetta mál er fullorðnu fólki innan meirihlutans til þvílíks vansa að leitun er að öðru eins. Fjölmiðlafælni þeirra ber því glögglega vitni.

Kæru fulltrúar, maður kaupir ef til vill gamla bíldruslu á staðnum en maður ráðstafar bara ekki annarra manna fjármunum án þess að ræða um það við eigendur þeirra fyrst. 

Hvar sem maður kemur í dag eru allir ævareiðir, hvar sem í flokki menn eru, fólki er stórlega misboðið. Eftir því sem menn reyna að tefja málið verður aldan bara stærri. Kæru meirihlutamenn það getur verið kalt á toppnum en það er bæði kalt og blautt í sjónum, tala af reynslu. 


Lýðræðið.

Það er skrítið þetta lýðræði. Við kjósum með jöfnu millibili. Á þann hátt ákveðum við hvaða einstaklingar munu fylgja hugsjónum okkar eftir á Alþingi. Svo gerist það að úrslit kosninganna eru okkur ekki að skapi. Sá sem við höfðum mestar mætur á nær ekki kjöri heldur einhver annar. Það ákvarðast í raun af kosningalögum, hvernig atkvæðin eru meðhöndluð, svona tæknilega séð. Á þann hátt nær lýðræðið ekki tilgangi sínum, að ákveðinn hópur velur sér fulltrúa til að bera fram sín mál. Kosningalögin gera það mögulegt að einhver allt annar en við höfðum í hyggju næði kjöri. Hvað er þá til ráða?

 

 


Hátæknisjúkrahúsið okkar allra eða góður kamar.


Þetta er myndin sem flestir sjá þegar rætt er um nýbyggingu Landspítalans. Einhver fékk þá hræðilegu hugmynd að kalla sjúkrahús allra landsmanna "hátæknisjúkrahús". Ég lýsi hér með eftir viðkomandi svo við starfsmenn Landspítalans getum tjargað og fiðrað viðkomandi. Þetta orð "hátæknisjúkrahús" hefur valdið okkur mjög miklum búsifjum og er þá ekki mikið sagt. Það hefur virkað mjög neikvætt á alla umræðu og margir Íslendingar hafa sett sig upp á móti nýbyggingunni eingöngu á þeirri forsendu sem þetta orðskrípi gefur þeim. Við sem störfum á Landspítalanum höfum þurft að eyða mikilli orku í að sannfæra fólk um nauðsyn nýs spítala vegna þessa orðs.

Árið 1930 var Landspítalinn opnaður. Þá höfðu íslenskar konur safnað peningum hjá þjóðinni fyrir honum. Á þeim árum var ekki mikill skilningur á því að reisa sjúkrahús, stórt og fullkomið fyrir Íslendinga hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Til allra hamingju fyrir íslenska þjóð voru langömmur okkar framsýnni en þeir. Ég ætla rétt að vona að sagan þurfi ekki að endurtaka sig að þessu leitinu aftur.

Árið 1930 var Landspítalinn búinn fullkomnustu tækni sem Íslendingar höfðu völ á þeim tíma. Þannig er því farið enn þann dag í dag. Þannig ætlum við að hafa það framvegis, því Íslendingar vilja ekki hafa það öðruvísi. Landspítalinn hefur alltaf verið hátæknisjúkrahús. Það er öllum augljóst sem velta málunum fyrir sér í smá stund. Því er það tóm tjara að fara að kalla Landspítalann í dag hátæknisjúkrahús.

Þegar horft er á þessa tölvugerðu mynd er gott að hafa í huga að aðeins hluti bygginganna fer undir spítala. Stór hluti er fyrir starfsemi Háskólans og rannsóknarstofuna á Keldum. Auk þess er verið að sameina tvö sjúkrahús í eitt.

Sumum finnst hann dýr. Sama sögðu menn 1930. En í dag vilja allir Lilju kveðið hafa. Langt mál um skammsýni.

Að lokum tek ég einfalt dæmi sem allir ættu að skilja. 6 sjúklingar saman á stofu með einn kamar til sameiginlegra nota. Allir nýskornir, áætluð vist 4-8 dagar á spítala. Einn sem er töluvert veiklaður fyrir kemur sér upp slæmri sýkingu í skurðsári af spítalabakteríu. Hann smitar hina. 3 sem eru sterkir og komast heim "aðeins" 3-5 dögum of seint. Reyndar tefur þetta þá um 1-2 vikur að komast í vinnu aftur. 2 veikjast mjög mikið og annar er á gjörgæslu í 10 daga og á sjúkrahúsinu í 3 mánuði. Hann og sá veiklaði verða aldrei aftur vinnufærir.

Að allir séu á einbýli með sinn kamar hver á nýja sjúkrahúsinu okkar mun spara þennan kostnað. Sá sparnaður mun greiða upp kostnaðinn við nýbygginguna. Þetta er nú öll hátæknin. Góður kamar.

Að lokum sá sjötti dó vegna sýkingarinnar, því er öll umræða um nýja Landspítalann dauðans alvara.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband