Færsluflokkur: Vefurinn

Kvennabolti.

Það hefur verið umræða um hversu mikið kvenna vs karlalandsliðið í fótbolta fái greitt. Merkileg umræða í sjálfu sér. Ef ég ræki þessi tvö lið og annað klúðraði öllu og hitt ynni alla leikina sína væri ég ekki lengi að gera upp hug minn hvoru ég myndi launa betur og  frekar. Þ.e.a.s. ef bæði liðin væru karlalið. En nú vill svo vel til að betra liðið er kvennalið og þær eru bara svo glaðar að vinna og finnst boltinn svo voðalega skemmtilegur að ég slepp við að borga þeim nokkuð sem heitið getur. Að sjálfsögðu nýti ég mér slíka aðstöðu, annars væri ég ekki bísnismaður. 

Þegar stúlkurnar fatta að þetta er bísnis en ekki bolti þá fara þær kannski að fá laun alls erfiðisins. 


Neskaupsstaður-IV.

Núna er ég kominn úr útlegðinni á Neskaupsstað. Hef orðið margs vísari. Ekki voru svæfingarnar margar, bara örfáar, veit ekki hvort tilvist mín skipti einhverjum sköpum. Gerðum þó einn keisara, sennilega hefði það verið verra að þurfa senda hana frá okkur. Hvað veit ég, kemur ekki í ljós fyrr en krakkinn tekur stúdentspróf að 20 árum liðnum hvort nærvera mín skipti einhverju máli. Þá verða börnin mín sennilega að reyna að hola mér niður á einhverft hjúkrunarheimilið.

Svo lærði ég annað skondið og sorglegt. Ef þú vilt fá ýsu í soðið, ég tala ekki um ferska, þá þurfa íbúar í Neskaupsstað á Norðfirði að aka 75 km. til Egilsstaða og kaupa ýsuna þar í Bónus. Neskaupsstaður er ÚTVEGSSTAÐUR þ.e. þar er bryggja, sjómenn, apparöt sem fljóta á vatni og veiða fisk, kallast bátar eða togarar eftir atvikum en það er ekki hægt að fá ýsu í soðið. Þetta er klikkun!!!!! Þegar ég bjó á Patró í den þá voru það stór hlunnindi að hafa fisk 3-4 x í viku, þess vegna eru börnin mín svona gáfuð. Að fara niður í fiskverkunarhús og velja mátulega litla Lúðu, feita og í andarslitrunum úr hrúgunni voru lífsgæði. Hlaupa svo með hana spriklandi á pönnuna var nautn. Að borða hana var unun.

Hvað er að gerast? Er firringin orðin algjör? Ef ekki er hægt að fá ferskan fisk í Íslensku sjávarplássi án þess að fara í Bónus þá er eitthvað mikið að. 


Strætó.

Nú ætlar Gunnar í Kópavoginum að gefa öllum frítt í strætó í eitt ár. Mjög gott framtak, en ég er svolítið svartsýnn á árangurinn. Hugmyndin er að allir hópist í vagnana. Til þess að hinn venjulegi Íslendingur noti strætisvagn í stað einkabíls þarf kerfið að uppfylla viss skilyrði. Í fyrsta lagi þarf annað hvort að vera ókeypis eða hægt að borga með venjulegu bankakorti, því við höfum aldrei á okkur strætómiða né smápeninga. Í annan stað verður að duga að taka einn vagn, það er allt of flókið fyrir Íslendinginn að skipta um vagn. Að lokum, þetta skiptir höfuðmáli, strætó á aka svo þétt að við þurfum ekki að ath hvað klukkunni líður. Þá er ég að tala um vagn á 5 til 10 mín. fresti.

 Sem sagt, bara vita númer hvað, hvaða stoppistöð, ekkert að borga og hvenær sem er, þá á strætó smá möguleika að keppa við einkabílinn.

Þangað til að kerfið getur fullnægt þessum frumþörfum okkar eru allar tilraunir svo til dauðadæmdar.


Neskaupsstaður-Egilsstaðir.

Nú þetta er búið að vera góður tími það sem af er. En eiginkonan fór til Reykjavíkur í dag. Flogið er frá Egilsstaðarflugvelli og því þarf að taka rútu fyrsta áfangann. Hafði ég hringt í Austfjarðarleið í fyrradag og kynnt mér málin. Mikið rétt rúta kl 1545 frá Neskaupsstað og alla leið upp á flugvöll, heila 75 km. Hentað þar að auki mjög vel því rútuferðin passaði akkúrat við brottför vélarinnar.

Ég kem konunni tímanlega á Olís bensínstöðina þar sem rútan átti að koma, en eins og ykkur er nú þegar farið að gruna kom engin rúta. Alls engin. Konan hringir í Austfjarðarleið og svörin voru hálf vandræðaleg,, ee héldum að enginn ætlaði að fara,, ee sorry ee,,. Þegar konan mín benti viðkomandi á að hún þyrfti að ná flugvél suður, ja, þá gæti hugsanlega verið komin rúta eftir í fyrsta lagi hálfa klukkustund.

Niðurstaðan varð sú að ég þurfti að hendast úr vinnunni og fá lánaðan bíl og keyra í einu hendingskasti með konuna 75 km út á flugvöll.

Þeir hjá Austfjarðaleið ættu nú að skammast sín.


Neskaupsstaður.

Nú er ég kominn á Neskaupsstað. Ég leysi þar af sem svæfingalæknir. Þeim hefur ekki tekist enn að fá fastan svæfingalækni þannig að við svæfingalæknarnir frá þéttbýlisstöðunum höfum verið hér til skiptis í fríiunum okkar. Veðrið er það sem kallast ofboðslega gott, sól 20 stiga hiti og allt of lítil gola. Þetta gleður marga en mér finnst þetta fullheitt, erfitt að gleðja gaura eins og mig. Þetta er þó mun betra en vetrarófærð og hríðabyljir og er ágætis sárabót fyrir öll skiptin sem ég hef verið hér í endalausri þoku og rigningu. Reyndar kannast enginn heimamaður við slíkt veðurfar hér þannig að annað hvort eru þeir eða ég haldnir einhverri skynvillu.

Kjölturakkinn minn.

Hundar eru sérkennilegar skepnur. Þeir eru í raun mjög húsbóndahollir. Þeir vilja þóknast manni. Því er svo auðvelt að þjálfa þá og láta þá fylgja settum reglum. Þeir vefengja ekki forystu mína. Því er forysta mikil ábyrgð. Ég verð að vera traustsins verður. Hundurinn reiðir sig á mig. Ef ég bregst eða brýt trúnað við hundinn þá getur samstarf okkar farið algjörlega í vaskinn. Þetta er því gagnkvæmt. Þannig er það í daglega lífinu líka. Þeir sem eru foringjar verða að gæta sín að bregðast ekki trúnaði við sína liðsmenn. Ef það gerist getur hundurinn dáið og breyst í varúlf.

Sigurjón Þórðar Framkvæmdarstjóri FF.

Það er gott til þess að hugsa að Sigurjón Þórðar verði næsti framkvæmdastjóri FF. Hann er öflugur talsmaður helstu baráttumála flokksins. Mjög öflugur sendiherra hinna dreifðu byggða landsins. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Sjaldan hefur verið sótt jafn hart að sjávarplássum landsins og nú. Svona feikivinsæll maður og Sigurjón er, jafnvel langt út fyrir raðir flokksins, mun koma þar sterkur inn. Í raun ómissandi fyrir framtíð FF flokksins. Fyrir utan hans almennu vinsældir þá hefur hann ásynd hins ákveðna stjórnmálamanns sem hefur jafnframt ekki átt í illdeilum innan flokks og barist mikinn fyrir mörgum góðum málum án þess að festa sig í neinum öfgum.

Því geta íbúar sjávarbyggða landsins treyst áfram á að Sigurjón verði áfram þeirra sendiherra þrátt fyrir að hann komst ekki inn á þing. 


Hafró og Bónus

Mér skilst að Hafró kanni fiskinn sem sjómenn koma með að landi og noti hann til að meta fiskinn í sjónum. Soldið merkilegt. Ég hefði haldið að sá fiskur segði okkur eingöngu hvað viðkomandi sjómenn velja til að koma með að landi. Eins og það sem ég kem með úr Bónus er fyrst og fremst lýsing á mínum smekk, þarf alls ekki að sýna dæmigerðan þverskurð á vörum Bónusar.

Ef þetta er nú allt rétt skilið hjá mér þá verð ég að segja að aðferðir Hafró eru ákaflega frumstæðar. Þær hljóta að vera misvísandi, það sér það hver heilvita maður. 


Lystarstol þorskanna.

Ég held að þetta með glorhungraða matvanda þorska sé að koma hjá mér. Ég er aftur á móti að velta fyrir mér öðrum þorskum. Eftir lýsingum að dæma þá eru þeir álíka matvandir og glorhungraðir og þorskarnir í hafinu. Þeim finnst litlir og meðalstórir útvegsstaðir á landinu okkar ekki kræsilegir. Þessi sótt hefur ágerst svo í seinni tíð að helst má líkja við lystarstol á háu stigi. Þeir hafa sótt mun meir í stærri staðina. Sumir segja að þessi sjúkdómur sé eðlileg þróun stofnsins. Það hljóta að vera ríkar andstæður sem gera stofni eðlilegt að þróast sökum sjúkdóms. Hér þrýtur mig allan skilning þrátt fyrir langskólanám. Hef ég í hyggju á næstunni að ganga um eins og betlandi maður og reyna að fá botn í þetta, læt vita þegar ég verð fróðari.

Glorhungraðir fiskar.

Kenningin um vanveidda glorhungraða þorska virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Ef hún er rétt, hvað þá?

Jú, eftir því sem við veiðum færri fiska því fleiri verða um fæðuna í hafinu. Þá drepast enn fleiri úr hungri og færri hafa þrek til að auka stofnstærðina. 

Ef hún er röng þá er næg fæða í sjónum en við veiðum of mikið. Þá er lausnin að veiða minna svo fiskurinn hafi tækifæri til að fjölga sér.

Vesalings Einar K. að þurfa ákveða hvora leiðina við skulum fara. Hann er sjálfsagt búinn að ákveða sig fyrir löngu, því niðurstaða Hafró var ekki óvænt, a.m.k. ekki fyrir innvígða. Þegar rætt er um "þverpólitískt samráð" á hann ekki þá við að niðurstaðan verði samsuða sem muni geðjast sem flestum hagsmunaaðilum sem eitthvað mega sín. Það er pólitík. Ef ákvörðunin er alltaf pólitísk hvers vegna að reka þessa vesalings vísindamenn á haf út til að telja fiska. Í stað "þverpólitísks samráðs" er þá ekki nær að fá fjölda vísindamanna með ólíka sýn á vandamálinu og lausnir til að koma saman og ræða málin. Þetta er í raun líffræði fyrst og fremst. Halda almennilega vísindaráðstefnu, þær hafa nú verið haldnar af minna tilefni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband