Færsluflokkur: Vefurinn

Núna er ég ekki lengur "Kommúnistadrullusokkur" heldur....

Viðbrögð Evrópusinna við hugsanlegri neitun forseta á Icesave-II lögunum vekur upp gamlar minningar. Ég batt vonir við að búsáhaldabyltingin hefði urðað slíkan þankagang.

Þannig var það að eftir hrun tók ég virkan þátt í grasrótarstarfinu. Mætti á Austurvöll, vann með Opnum Borgarafundi, Lýðveldisbyltingunni, tók þátt í stofnun Borgarahreyfingarinnar ofl ofl. Þá kölluðu þáverandi stjórnarsinnar mig, skríl, útsendara VG og síðan var það toppað með því að ég væri ekki þjóðin. Skárra er þá að vera kommúnistadrullusokkur, mun meira lýsandi og fúnktíónelt hugtak. Þið skiljið hvað ég á við, ég var drullusokkurinn sem losaði um stífluna þannig að kommúnisminn flæddi óhindrað.

Er orðspor mitt betra í dag?

Núna míg ég utan í Sjálfstæðisflokkinn, er gengilbeina hans eða ég hef selt sálu mína Framsóknarflokknum. Allt vegna þess að ég vil ekki samþykkja Icesave-II og mætti á Bessastaði. Ég er semsagt íhaldsdrullusokkur og voðinn er vís.

Þeir flokkar sem ég hef kosið hingað til hafa aldrei lent í ríkisstjórn að loknum kosningum. Sá síðasti sem ég kaus þurrkaðist út. Því ber ég að enga ábyrgð, samkvæmt viðtekinni skilgreiningu, á öllu sem gerst hefur á Íslandi.

Það er mér nokkuð þungbært að fá ekki að vera þjóðin, hversu oft sem við skiptum um ríkisstjórn. Það er erfitt að vera gegnsýrður skítlegu eðli að mati stjórnvalda á hverjum tíma. 

Byltingin breytti þessu ekki enda át byltingin börnin sín sem kalla mig í dag "ekki þjóðin". Þess vegna næ ég sennilega ekki þessum frasa að vera þjóð á meðal þjóða. Hvað veldur, að þeir sem voru ekki þjóðin með mér í fyrra, skilja þetta svona vel í dag og virðast vera þjóðin í dag.

http://decker.typepad.com/photos/uncategorized/2007/04/10/plumber.jpg

 

 

 


mbl.is Segir forsetann taka undarlegan pól í hæðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ísland hernumið?

Allt er ekki komið fram um samning Ríkisstjórnarinnar við Breta og Hollendinga. Það er skömm að við séum ekki upplýst. Það eru svik að við sem eigum að borga vitum ekki alla málavexti. Þessi staðreynd er sorgleg. Það sem við vitum er að álögur á íslenska þjóð munu aukast um 40 milljarða á ári næstu 7 árum. Ef eignir Landsbankans eru lítils virði munum við skulda 1000 milljarða eftir 15 ár. Þetta er mjög sorglegt. Ég var reiðubúinn til að berjast gegn ofureflinu til síðasta manns. Við rýtingstungu þeirra skötuhjúa setur mig hljóðan. Það er í raun í fyrsta skiptið síðan kreppan skall á sl haust. Ég ætlaði að berjast og sigra. Við héldum að Steingrímur myndi standa við stóru orðin.

Ef þetta er niðurstaðan þá er ekki mikið sem venjulegt fólk getur gert. Ég vil ekki borga, það særir réttlætisvitund mína. Eina leiðin er að flytja úr landi. Það er í raun eðlilegt framhald því við höfum verið hernumin.

http://graphics.ucsd.edu/~iman/images/Braveheart.jpg


Vonin.

Hvað viljum við að Jóhanna geri sem Forsætisráðherra?

Innst inni viljum við að hún reddi málunum þannig að við getum öll haldið áfram að vera smáborgarar. Þá er stærsta vandamál mitt hvort viðri svo vel næstu helgi að ég geti þrifið bílinn minn utandyra. Því miður verður mér ekki að ósk minni og ég verð að halda áfram að vera virkur borgari og bíllinn minn skítugur. Spurningin er nefnilega hvort börnin mín eiga að erfa hreinan óryðgaðan bíl eða land sem þó flýtur. Seinni kosturinn virðist öllu mikilvægari. Öllum þeim öflum í þjóðfélaginu sem er í nöp við gagnrýna hugsun borgaranna munu reyna að stefna almenningi að bílaþvotti um helgar eða að horfa á íþróttir eða önnur afþreyingarefni sem hafa enga pólitíska skírskotun. Ég tel að stór hluti þjóðarinnar sé sama um bílana sína þessa dagana. Flestir munu fylgjast vel með Jóhönnu og Companí.

Við viljum opið, gegnsætt þjóðfélaf Jóhanna. Við viljum vera með. Við viljum að ekki bara þingfundir séu opnir almenningi heldur einnig allir aðrir fundir þar sem örlög okkar eru ráðin séu opin öllum.

Við viljum getað raða upp frambjóðendum í kosningunum og það sé bindandi svo að flokkurinn sem við kjósum sé skipaður því fólki sem við höfum trú á en ekki flokkseigendafélagið.

Við viljum að þeir sem stofnuðu til skuldanna borgi þær-engar refjar.

Við viljum að birgðunum sé deilt eftir getu.

Við viljum spillinguna burt.

Við viljum nýtt Ísland með nýjum gildum.

Við viljum réttlæti.

Aldrei áður hefur nein Ríkisstjórn haft meiri möguleika á því að gera raunverulegar breytingar. Jóhanna, ekki klúðra þessu tækifæri.

Sjálfstæðismenn og aðrir kerfiskarlar, liggið lágt, Austurvöllur er á vaktinni.


Silfur EGILS.

Stundum hefur mér fundist Egill bara vera bergmál. Í dag hafði hann unnið heimavinnuna vel. Eftir þáttinn er maður hugsi og finnur þörf hjá sér að hlusta á hann aftur á netinu. Ég mæli með því að sem flestir gefi sér tíma til að hlusta á þáttinn og sýni þannig að þeir séu virkir meðvitaðir borgara.

Sjálfshól eða jákvæð samvinna.

Það eru allir svo uppteknir af sjálfum sér þessa dagana. Í endalausum viðtölum eru allir borgarfulltrúar okkar svo góðir og vammlausir og allir hinir svo ómögulegir. Ef allir eru svona góðir og allir svo slæmir þá er spurningin hver er vondi karlinn. Það er ekki nema von að við séum rugluð í ríminu. Það er sennilega best að fara að dæmi þessara borgarfulltrúa og segja alltaf að hinir séu vondir, amk verri en við. Það er þó hugsanlegt að lausnin felist í öðru. Hvernig ætli það virki að upphefja náungann með jákvæðu umtali. Klappa viðkomandi á öxlina og hrósa honum. Ætli það gæti virkað. Vandamálið er að þá lendir maður sjálfkrafa í öðru sæti og sumum finnst það óviðunandi. Aftur á móti geta flestir haft gagn af smá samvinnu.

http://www.tailored.com.au/uploaded_images/monkeys-grooming-749185.jpg


Orkuveita Reykjavíkur im memorian.

Einu sinni datt ég í sjóinn. Mér brá mjög, ég man enn þegar ég rýndi upp í gegnum grænan sjóinn og sá birtuna nálgast þegar ég reyndi að komast úr kafi. Hvað er að gerast, lifi ég af?

Þannig líður okkur eigendum Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Við vitum ekki neytt. Fulltrúum okkar var hent í sjóinn og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Sumum að minnsta kosti. Það kom nefnilega fram hjá borgarstjóranum "okkar" í kastljósinu í gær að mikil og "hreinskiptin" umræða hefði farið fram innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins áður en honum var falið að "klára"málið. 

Sjálfstæðismenn fengu að minnsta kosti að melta málið. Það virðist sjálfmelt í borgarstjórnarflokki Framsóknarflokksins.

Fulltrúar minnihlutans, sem er nú bara um helmingur kjósenda, fékk örfáar klukkustundir til að ákveða sig. Þetta er nú þvílík og önnur eins heimska að það nær ekki nokkurri átt, þetta mál er fullorðnu fólki innan meirihlutans til þvílíks vansa að leitun er að öðru eins. Fjölmiðlafælni þeirra ber því glögglega vitni.

Kæru fulltrúar, maður kaupir ef til vill gamla bíldruslu á staðnum en maður ráðstafar bara ekki annarra manna fjármunum án þess að ræða um það við eigendur þeirra fyrst. 

Hvar sem maður kemur í dag eru allir ævareiðir, hvar sem í flokki menn eru, fólki er stórlega misboðið. Eftir því sem menn reyna að tefja málið verður aldan bara stærri. Kæru meirihlutamenn það getur verið kalt á toppnum en það er bæði kalt og blautt í sjónum, tala af reynslu. 


Lýðræðið.

Það er skrítið þetta lýðræði. Við kjósum með jöfnu millibili. Á þann hátt ákveðum við hvaða einstaklingar munu fylgja hugsjónum okkar eftir á Alþingi. Svo gerist það að úrslit kosninganna eru okkur ekki að skapi. Sá sem við höfðum mestar mætur á nær ekki kjöri heldur einhver annar. Það ákvarðast í raun af kosningalögum, hvernig atkvæðin eru meðhöndluð, svona tæknilega séð. Á þann hátt nær lýðræðið ekki tilgangi sínum, að ákveðinn hópur velur sér fulltrúa til að bera fram sín mál. Kosningalögin gera það mögulegt að einhver allt annar en við höfðum í hyggju næði kjöri. Hvað er þá til ráða?

 

 


Harmleikur í Portúgal.

Mikið eru þetta sorglegar fréttir frá Portúgal. Ef rétt reynist að foreldrarnir hafi í raun átt þátt í hvarfi dóttur sinnar er um ákaflega sorglegan fjölskylduharmleik að ræða. Hvers vegna öll þessi sérkennilega hegðun eftir hvarf hennar með öllu þessu fjölmiðlafári er nokkuð merkileg. Best að fullyrða sem minnst að svo komnu máli en óneitanlega hefur málið tekið óvenjulega stefnu.

Gróa á leiti og Frjálslyndi flokkurinn.

Það er lenska þegar maður þekkir ekki til staðreynda né réttrar atburðarrásar að hlustirnar verða einkar móttækilegar fyrir Gróusögum. Það er sterk tilhneiging að fylla upp í tómarúmið, hálfgerð gúrkutíð.

Þannig hafa hlutirninr æxlast hjá Frjálslynda flokknum. Nánast algjör þögn frá körlunum í brúnni í allt sumar. Við á dekkinu förum því að reyna að skálda í eyðurnar.

Inn í eyrnahlustir mínar hafa ýmsar sögur flögrað sem erfitt er að meta sökum fyrrnefndar þagnar.

Meðal annars hvað kostaði kosningabaráttan og hvernig stendur flokkurinn fjárhagslega, var ekki einhver að tala um opið bókhald hjá flokkunum? Hvar verður húsnæði í vetur fyrir flokkstarf, eru einhverjir möguleikar í stöðunni og höfum við almennir félagsmenn einhver tök á því að segja hvað okkur finnst í því máli. Hver verður næsti framkvæmdastjóri flokksins. Hvernig verður vetrarstarfinu háttað? Hvaða mál ætla þingmenn vorir að leggja áheyrslu á í vetur, getum við komið að því á einhvern hátt, getum við leiðbeint þeim? Hvað er toppstykkið að pæla?

Heimasíðan hefur verið dauð frá kosningum. Enginn netpóstur. Við á dekkinu erum farin að krunka saman nefjum. Þetta er að verða nokkuð gott sumarfrí hjá þein finnst mér, sjálfur fékk ég bara 2 vikur. 


Mr. Bormann og Vestmannaeyjar.

Ég var í Vestmannaeyjum sl viku. Ræddi og skrafaði við heimamenn. Samgöngumál brenna á Eyjamönnum eins og búast má við, þetta er nú einu sinni eyja umlukin hafi. Ekki beint einfalt mál að bruna í bæinn. Göngin eru komin út af borðinu, ég segi nú til allra hamingju því ég hefði þá aldrei þorað til eyja aftur. Síðan eru eftir tveir kostir. Annar er að byggja bryggju á sandi. Samkvæmt heilagri ritningu og heilbrigðri skynsemi lofar það ekki góðu. Þar að auki felst í þeirri leið fjallvegur, þe Hellisheiði sem getur oft verið leiðigjörn, ófærð eða mikil þoka. En samtals er tíminn frá Eyjum til byggða uþb 2-2,5 klst. Það gerir ávinning upp á 1 klst miðað við núverandi ástand. Hvað sandbryggjan á að kosta veit ég ekki en gefins er hún ekki.

Hinn kosturinn er að kaupa nýjan Herjólf, ekki bara einn heldur tvo. Hafa þá hraðskreiðari þannig að tíminn milli lands og Eyja verði 2 klst. Þá verður heildarferðartíminn um 2,5 klst. Aftur sparnaður um eina klst miðað við núverandi ástand. Ef þessi kostur verður fyrir valinu vinnst margt. Ferðum fjölgar. Það gefur Eyjamönnum möguleika á því að ákveða með stuttum fyrirvara að skreppa upp á land en núna þurfa þeir að panta far með Herjólfi með löngum fyrirvara um helgar. Þetta er í raun óþolandi. Ef við veltum fyrir okkur að aðrir landsmenn geta skroppið eftir sínum þjóðvegum þegar þeim dettur í hug ef veður leyfir. Því myndi þetta  leiða til jöfnunar. Annar kostur er að höfnin í Þorlákshöfn myndi nýtast og þær fjárfestingar sem í henni liggja. Auk þess sleppa menn við fjallveg-Hellisheiðina. Einnig þarf ekki að betrumbæta vegakerfið í kringum Bakka sem óneitanlega þarf að gera. Kolefnisjöfnun er í tísku þessa dagana. Í staðin fyrir að allir Eyjamenn séu að aka um Suðurland þá eru allir bílarnir þeirra kyrrstæðir í ferju og menga því  mun minna.

Því er það algjörlega óskiljanlegt að Mr Bormann ætlar að byggja framtíð samgöngumála Eyjamanna á sandi. Þar að auki gat ég ekki betur heyrt en að flestir Eyjamenn sem ég ræddi við væru mér sammála. Mr Bormann ætti kannski að gera eina létta skoðanakönnun í Eyjum. Eða er hann að hugsa um einhverja aðra en þá? 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband