Færsluflokkur: Evrópumál
31.1.2010 | 21:50
Mengunarslys forsetans
Það er ekki allt sem sýnist og tilveran hefur kennt manni margt, sérstaklega eftir að hrunið hófst. Kannski vegna þess að maður fór að horfa í kringum sig. Nú vilja allir semja um Icesave, sérkennilegt. Það eina sem hefur breyst er að þjóðin mun fá að segja skoðun sína á íslenskum lögum. Björn Valur bloggar um forsetann og telur að hann sé hluti af eitraðri blöndu fyrir Ísland. Því má draga þá ályktun að samningsviljinn hjá aðilum Icesave sé einhverskona mengunarslys af völdum Ólafs Ragnars. Ekki að furða að græningjunum sé illa við hann.
Er það hugsanlegt að forystumenn þjóðanna sem sömdu um Icesave séu eingöngu þessa dagana að hugsa um hvernig þeir geti bjargað andlitinu eftir að forsetinn þeytti tertunni í þá.
Ég tel best að við kjósum fyrst og tölum svo við sáttasemjara.
Kanadískur sáttasemjari? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2010 | 00:48
Sækir klárinn alltaf þangað sem hann er.....
Þvílík klemma sem íslenska þjóðin er komin í. Menn geta æpt sig hása hversu óhöndulega okkur hefur tekist til það sem af er. Flokkspólitískir hagsmunir hafa skaðað okkur mikið en þrátt fyrir það erum við komin hingað. Við skulum nýta okkur reynsluna en ekki drekkja okkur í henni. Núna þurfum við að spila rétt úr stöðunni. Þá fer best á því að gera það saman, ekki sundruð.
Ég tel mjög nauðsynlegt að við kjósum um Icesave-2 lögin. Undanfarinn getur orðið mjög fræðandi og þroskandi fyrir þjóðina. Hugsanlegt er að fólk gefi sér tíma núna til að kynna sér málið. Í raun er það borgaraleg skylda fólks.
Ef við samþykkjum Icesave-2 þá taka lögin gildi og málið er dautt. Ef við fellum Icesave-2 falla lögin úr gildi. Þar sem Bretar höfnuðu fyrirvörunum í Icesave-1 lögunum hafa þeir enga ríkisábyrgð og okkur er í sjálfu sér nokk sama um það.
Þar með er málið einfalt, þjóðin velur á milli þess að veita lánadrottnum sínum mikla ríkisábyrgð eða ekki.
Án veittrar ríkisábyrgðar léttir á landanum og lánshæfimatið fer upp, ekki satt?
Ekki einhliða innanríkismál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2010 | 21:44
Er Steingrímur spennufíkill?
Lilja vill sáttasemjara. Af því leiðir að óuppgerð mál liggja fyrir milli Íslands og hinna landanna. Steingrímur virðist sammála Bretum að samningur liggi fyrir og samkvæmt Dönum ætlar hann bara að fá hann samþykktan á Íslandi og þá er málið dautt. Þau tilheyra mismunandi sjónarmiðum um hag Íslands á næstu árum. Hefur í raun mun meiri tengsl við hagræna hagfræði en pólitík.
Margir eru sama sinnis og Lilja að það sé mikil óvissa hvort við getum staðið í skilum. Af þeim sökum sé það mjög óráðlegt að taka á sig frekari skuldir fyrr en þeirri óvissu sé eytt. Ein aðferð var að hafa fyrirvara til að minnka líkur á greiðsluþroti Íslands, því höfnuðu Bretar og Hollendingar.
Bretum og Hollendingum má vera vel ljóst hversu illa við stöndum og að byrðin er okkur mun þyngri en þeim. Ef við lendum í greiðsluþroti vegna skulda okkar þarf að gera róttækar ráðstafanir. Þær gætu falið í sér sölu á náttúruauðlindum okkar. Hvað gengur Bretum til? Eru þeir bara að hefna sín vegna Þorskastríðanna? Vilja þeir auðlindir okkar? Vilja þeir með ESB beygja okkur í duftið þannig að við dettum nær dauð inn fyrir þröskuldinn á ESB? Er einhver trygging fyrir endurlífgun?
Er Steingrímur spennufíkill?
Lilja og margir af okkar kynslóð höfum mikinn áhuga á því að búa áfram á Íslandi. Við kunnum ekki að meta þessa léttúð varðandi framtíð okkar.
Vill þýskan sáttasemjara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2010 | 22:13
Tökum við saman höndum eða mun þjóðin sundrast?
Ef við einföldum tilveruna þá getum við sagt að Samfylkingin vilji samþykkja Icesave til að komast inn í ESB. Vg vill samþykkja Icesave til að tolla í ríkisstjórn. Rökstuðningur fyrir samþykkt staðfestir þetta. Enginn(ESB) vill vera vinur okkar og stjórnin er fallin ef málið kemst ekki í gegn.
Það er ágætt að hugleiða þetta meðan Ólafur hugsar málið.
Sjálfstæðismönnum og Framsókn kitlar örugglega að gera núverandi stjórnvöldum skráveifu. Ég tel þó að þeir leggi ekki í stjórn strax því Austurvöllur myndi fyllast af fólki um leið.
Hvernig komst þjóðþing okkar í þessa heimskulegu klemmu?
Samningagerðin mistókst vegna vanhæfni og skorts á sérhæfðri aðstoð. Einnig gerðu menn sér enga grein fyrir því hversu stór skuldin væri og hversu þungbær hún yrði með öðrum skuldum okkar. Þar er þáttur stjórnsýslunnar stór sem átti að hafa það á hreinu hvað við skulduðum mikið. Sá þáttur brást. Það er ekki ennþá búið að tína til allar skuldir okkar íslendinga.
Vegna einstrengingsháttar ákvað Steingrímur að setja undir sig hausinn og koma þessu í gegn. Allir sem eru eldri en tvævetur vita hvernig hann hefði hagað sér ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu. Einnig vildi hann bjarga Svavari formanni samninganefndarinnar. Flumbrugangurinn með samninginn og afgreiðslu hans á þingi minnir meira á hreppapólitík en vandaða lagagerð hjá þjóðþingi.
Það sem gerði þetta mögulegt var afstað Samfylkingarinnar. Ef þau væru ekki á förum til útlanda myndu þau leggja meiri rækt við hreiðurgerðina. Tveir heimakærir flokkar hefðu örugglega hugsað sig betur um. Sú staðreynd að Samfylkingin stefnir leynt og ljóst að aðild að Evrópusambandinu gerir þau mjög höll undir Breta og Hollendinga.
Þjóðaratkvæðagreiðsla leysir sennilega ekki þennan þinglega vanda. Hún mun gefa okkur niðurstöðu sem þjóðin sjálf ber ábyrgð á. Þjóðin vildi þessa ríkisstjórn í vor en er ekki sátt við Icesave. Ef ríkisstjórnin vill ekki þjóðina vegna þess að hún vill ekki Icesave er okkur nokkur vandi á höndum. Ég held að þjóðin vilji þing sem vilji hvorki Icesave né ESB. Einhverstaðar er fleygur til staðar.
Ekkert við frestinum að gera | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.12.2009 | 23:17
Smáa letrið-bara fyrir Steingrím
Það kemur fram í kvöldfréttatíma RÚV að enn eru til skjöl um Icesave sem þingmenn hafa ekki fengið aðgang að. Kristján þór hefur óskað eftir þessum gögnum. Hann væntir þess að fá umbeðin gögn milli jóla og nýárs. Hugsanlegt er að Kristján lesi gögnin eftir að búið er að kjósa um Icesave.
Framganga núverandi ríkisstjórnar er með eindæmum í Icesave málinu. Fyrst áttum við ekki að fá að sjá sjálfan samninginn og síðan þurfti að draga öll gögn fram með töngum. Nú þetta, enn gögn sem þingmenn hafa ekki séð og málið á lokasprettinum á Alþingi. Það er eins og stjórnaliðum sé mest í mun að samþykkja Icesave án þess að hafa leyst heimavinnuna. Það er mjög í anda 2007 að skrifa uppá og lesa smáa letrið seinna. Höfum við ekkert lært?
Tók við af búskussa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.12.2009 | 00:33
Tilgangurinn helgar meðalið...
Steingrímur fjármálaráðherra Íslands virðist vera uppvís að ósannindum. Lögmannsstofan breska sér ástæðu til þess að svara Steingrími. Sennilega finnst þeim vegið að heiðri sínum. Þeir segja einfaldlega að íslenskur ráðherra fari með rangt mál, þ.e. Steingrímur lýgur að þeirra mati.
Ef um væri að ræða minniháttar mál eins og vegagerð í kringum búgarðinn hans þá stæði mér kannski á sama um ósannindi hans. Icesave er mál sem skerðir fullveldi Íslands, sem leggur skuldir á börnin okkar og líka börnin þeirra. Ef Steingrímur getur sagt ósatt við þjóð sína þá hefur ekki vafist fyrir honum að fóðra samflokksmenn sína í VG með heppilegum staðreyndum, bæði sönnum og ósönnum eftir atvikum.
Það verður alltaf augljósara að Steingrímur er staðráðinn í að troða Icesave ofaní þjóðina. Þar helgar tilgangurinn meðalið. Hann svíkur öll sín kosningaloforð, hann segir ósatt og hann bannar birtingu skjala svo að þjóðin sé ekki upplýst. Það getur ekki skýrst af því að Steingrímur sé ESB sinni, það getur ekki verið vegna ást á ráherrastól. Hver er skýringin? Gaman að stjórna eða hugguleg eftirlaun??
De Reya svarar Steingrími | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.12.2009 | 02:00
Tarfurinn Steingrímur
Sendir einhver barnið sitt í flugferð ef það eru 10% líkur á því að flugvélin farist. Sérstaklega ef völ væri á öruggari ferð.
Í þessu samhengi eru svör Steingríms algjörlega út í hött. Það vottar ekki fyrir efa né áhyggjum hjá ábyrgum ráðherra fjármála íslensku þjóðarinnar. Hugsið ykkur ef skurðlæknir tæki svona létt á svipuðum líkum hjá sjúklingi sínum. Það er engin samkennd né samsömun með þjóðinni eða áhyggjum hennar hjá Steingrími. Hann setur bara undir sig hausinn eins og tarfur, sennilega er það Jóhanna sem sveiflar rauða sjalinu sem tryllir hann.
Ég veit ekkert um IFS greiningu né hæfni þeirra en mér finnst að álit sem kemur inn á borð hjá fjárlaganefnd beri að meðhöndla með meiri alvöru hjá Steingrími. Hann hafnar ekki einu sinni niðurstöðum þeirra og samtímist finnst honum þær ekki efni í áhyggjur. Hér er um mikinn skort á tilfinningargreind hjá núverandi fjármálaráðherra okkar.
Ég verð nú að segja að nú tekur steininn úr.
Forsendur IFS-álits svartsýnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.12.2009 | 23:43
Það verður mjög sérstakt að vera búsettur á Íslandi eftir að Ivesave verður samþykkt á mánudaginn.
Það verður mjög sérstakt að vera búsettur á Íslandi eftir að Ivesave verður samþykkt á mánudaginn.
Allar kannanir á skoðunum Íslendinga sýna að 70% eru andvígir Icesave. 35000 manns skora á Ólaf Ragnar forseta að senda lögin til þjóðaratkvæðis. Þrátt fyrir þessar sterku vísbendingar, um að stjórnarmeirihlutinn sé ekki að ganga í takt við þjóð sína, skal þjösnast áfram. Fulltrúarlýðræðið skal nýtt til hins ýtrasta og ekki er það gert fyrir skattgreiðendur þessa lands. Að þjónkast erlendum hagsmunum sem skaða hagsmuni íslenskra borgara er ekki það sem kjósendur þessarar stjórnar kusu þá til. Því miður er töluverður skortur á virkri neytendavernd þegar kemur að gallaðri eða úreltri vöru á Alþingi Íslendinga.
Ein stærsta ástæðan fyrir því að margir Íslendingar telja það rétt að borga Icesave er samviskubit. Við erum flest alin upp við heiðarleika og skilvísi. Okkur finnst rangt að standa ekki í skilum. Þessi skoðun kemur fram í ýmsum myndum. Bæði beint og óbeint eins og þegar rætt er um að tilheyra aftur alþjóðasamfélaginu eða vera aftur þjóð meðal þjóða. Fyrir utan að þetta stenst ekki nánari skoðun þá er stærsta spurningin hversu mikið má leggja á eina þjóð, má rústa blómlegu þjóðfélagi bara vegna samviskubits?
Þetta samviskubit, þessi viðurkenning skuldar er meginorsök fátæktar í heiminum. Fátækustu lönd heimsins skulda langt innan við 1% af öllum skuldum heimsins. Í þessum löndum deyr fólk, 300 manns á hverjum 15 mínútum, vegna sjúkdóma sem hægt er auðveldlega að koma í veg fyrir. Ekki hefur verið tekið í mál að afskrifa þessar skuldir. Gordon Brown hefur þar verið ötull talsmaður lánveitenda við að koma í veg fyrir afskriftir. Hann kann sitt fag og ekki virðist núverandi Ríkisstjórn á Íslandi hafa þvælst mikið fyrir honum.
Það verður mjög sérstakt að vera búsettur á Íslandi eftir að Icesave hefur verið samþykkt á mánudaginn, að vera kominn í fátækragildru lánadrottnanna. Kannski mun Samfylkingunni takast að verða okkur út um fátækrahjálp, það er að segja, fyrir þá Íslendinga sem eftir verða á landinu.
Icesave tekið út úr nefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.12.2009 | 23:54
Frásögn af fundi í Seðlabanka Íslands 4 desember 2009
Frásögn af fundi í Seðlabanka Íslands 4 desember 2009.
Fundur með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Franek og Flanagan, með hóp Íslendinga sem sent hafa Strauss-Kahn bréf.
Fundinn sátu fyrir hönd íslenska hópsins: Gunnar Sigurðsson, Heiða B.Heiðarsdóttir, Ásta Hafberg, Einar Már Guðmundsson, Helga Þórðardóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Lilja Mósesdóttir, Elías Pétursson, Ólafur Arnarson.
Fundurinn sem stóð í tæpar tvær klukkustundir var að sumu leyti upplýsandi og þökkum við fulltrúum AGS fyrir hann.
Eftirfarandi grundvallaratriði voru tekin fyrir. Farið var kerfisbundið í gegnum neðantalin atriði á fundinum. Lögð voru fram gögn máli okkar til stuðnings. Reynt var með öllum ráðum að fá fram skýr svör byggð á staðreyndum.
1. Að vöruskiptajöfnuður Íslands verði jákvæður um það bil 160 milljarða á ári næstu tíu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum hvernig þetta gæti orðið að veruleika.
2. Að tekjur ríkisins aukist um 50 milljarða á ári næstu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum að þetta væri mögulegt.
3. Að landsframleiðsla aukist næstu árin. Flanagan tókst ekki að sýna fram á með rökum að þetta væri mögulegt.
4. Hversu hátt skuldaþol Íslands af vergri landsframleiðsu getur orðið? Flanagan snéri sig út úr því og gaf ekki skýrt svar.
Fyrrnefnd grundvallaratriði eru forsendur þess að áætlun AGS gangi upp. Okkar mat er að engar forsendur séu til staðar svo viðkomandi grundvallaratrið verði að raunveruleika. Af því leiðir að áætlun AGS er brostin. Flanagan tókst ekki að hnika til sannfæringu okkar. Því miður þá sjáum við ekki neina vitglóru í áætlun AGS.
Flanagan tókst ekki að hrekja gagnrýni okkar á sannfærandi hátt óþægilegar spurningar leiddi hann hjá sér.
1. Vöruskiptajöfnuður.
Við bentum á að í sögulegu samhengi væru engin fordæmi fyrir jákvæðum vöruskiptajöfnuði í þessu magni í svo langan tíma. Eini raunhæfi möguleikinn er að minnka innflutning verulega.
Flanagan taldi ekki gagnlegt að bera fortíðina saman við framtíðina. Flanagan telur fortíðina ekki í raun ekki marktæka vegna hinna miklu breytinga sem hrunið hefði í för með sér á tekjustoðum landsins. Við bentum honum á að fyrir bankabólu þá hefðum við verið með hagkerfi sem líktist því sem hann væri að lýsa, hann virtist ekki telja það eiga við. Hann taldi að kreppan myndi leiða til langvarandi jákvæðs viðskiptajöfnuðar, sem stenst ekki í sögulegu samhengi. Hann gat ekki bent á neinar áætlanir sem gætu skapað þennan vöruskiptajöfnuð. Hann ræddi ekki um minnkun á innflutningi. Hann taldi kvótakerfið koma í veg fyrir aukin útflutning á fiski í tonnum talið. Einhver óljós orð hafði hann um orkufrekan iðnað.
Niðurstaðan eftir að hafa hlustað á hann var sú að hann taldi þetta gerast, en gat ekki skýrt hvernig.
Síðar á fundinum hrökk upp úr Flanagan hvernig vöruskiptajöfnuðurinn er fenginn. Skuldir Íslands voru lagðar saman og síðan var vöruskiptajöfnuðurinn stilltur af þannig að Ísland gæti staðið í skilum. Þetta er vel þekkt aðgerð í Excel forritinu og kallast goalseeking"
2. Tekjur ríkisins.
Flanagan nefndi auknar skatttekjur. Við bentum honum á að árið 2008 hefði verið eitt besta skattaár Íslands sögunnar. Forsendur til að afla mikilla skatta á árinu 2008 voru einstaklega hagstæðar. Þær forsendur eru brostnar að okkar mati í dag. Bankarnir hrundu, laun hafa lækkað, atvinnustarfsemi í lágmarki o.sv.fr. Hvernig við getum gert ráð fyrir að fá jafngóðar skatttekjur árið 2010 og árið 2008? Þar að auki hvernig eiga skatttekjur að aukast um 50 milljarða á hverju ári í mörg ár. Flanagan hafði ekkert svar við því. Hann gat ekki skýrt út fyrir okkur hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu.
3. Landsframleiðslan.
Flanagan var spurður út í áætlanir þeirra varðandi vöxt landsframleiðslu, hann taldi þær varlegar. Hann var spurður út í hvernig þessar áætlanir voru gerðar, svör virðast benda til þess að þar sé um svipaða EXCEL" aðferðafræði og í öðrum áætlunum þeirra. Flanagan sagði einnig að ljóst væri að Ísland þyrfti að breytast úr þróuðu þjónustusamfélagi í framleiðslu þjóðfélag með áherslu á útflutning. Þessu mundi sjá stað á næstu misserum í mjög minnkandi hlut verslunar og þjónustu til innanlandsnota í veltu samfélagsins.
4. Skuldaþol sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
Var rætt nokkuð og taldi hann möguleika á að Ísland stæðist hærra skuldaþol að gefnum vissum forsendum. Sú forsenda var að eignir væru fyrir hendi, virtist í máli hans litlu skipta þó þær eignir væri ekki endilega í eigu þeirra sem skulda. Bentum við honum á að td eignir lífeyrissjóðanna væru ekki aðgengilegar, lífeyrissjóðirnir væru eignir fólksins en ekki eignir ríkis né fyrirtækja. Þessi ábending virtist skaprauna Flanagan. Hvort það er vegna þess að þetta voru nýjar upplýsingar fyrir honum eða þá að hann vissi að ekki væru til neinar eignir hjá lífeyrissjóðunum til ráðstöfunar upp í skuldir, var ekki ljóst. Hann taldi að erlendar eignir lífeyrissjóðanna væru gjaldeyrisskapandi, og virtist telja að sá gjaldeyrir væri til ráðstöfunar fyrir ríkið. Hvernig hann kemst að þessari niðurstöðu er óljóst.
Önnur atriði sem komu fram á fundinum:
Mjög mikil hætta á fólksflótta, Flanagan hafði áhyggjur af því. Hann telur að ekki sé hægt sé að gera mikið við því.
Flanagan sagði að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að skera ekki niður norræna velferðarkerfið. Það kom fram að það væri ekki stefna AGS.
Hann taldi að gengi íslensku krónunnar myndi ekki batna næstu tíu árin. Af því leiðir að lán Íslendinga í erlendum gjaldeyri munu ekki skána neitt næstu 10 árin. Af því leiðir líka að sú kjaraskerðing sem til er kominn vegna gengisfalls er kominn til að vera. Sem gæti leitt til þess að Ísland verði láglaunaríki sem framleiði hráefni og lítt unna vöru fyrir betur stæð lönd til fullvinnslu. Svolítið svona þriðja heims dæmi...
Það er á dagskrá stjórnar AGS að koma til Íslands.
Flanagan fullyrti það að niðurstaða Icesave deilunnar væri ekki forsenda aðstoðar AGS.
Bretar, Hollendingar og Norðurlöndin hafi krafist of hárra vaxta á of skömmum tíma. Flanagan hélt því fram að AGS hefði komið þar að málum og fengið þessa aðila til að stilla kröfum sínum í hóf.
Flanagan fullyrti einnig að Svíar væru í forsvari Norðulandanna þegar kemur að málefnum Íslands og að þeir hefðu sett lausn Icesave-deilunnar á oddinn sem forsendu lánafyrirgreiðslu og aðstoðar.
Flanagan fullyrti að ríkisstjórnin ákveði sjálf hvernig niðurskurði og skattahækkunum sé háttað. Einnig ákveður ríkisstjórnin sjálf hversu langan tíma hún tekur í skatta- og niðurskurðaraðgerðir.
Einnig kom fram á fundinum að ef hægt væri að hnekkja neyðarlögunum þá yrðum Íslendingar opinberlega gjaldþrota sem ríki.
Þegar Flanagan var spurður hvar áætlun AGS hefði gefist vel þá nefndi hann bara Tyrkland. Reyndar stjórnaði hann aðgerðum þar. Spurningunni er því ósvarað hvort það er Flanagan sem er svona klár eða stefna AGS.
Flananagan var spurður hvort hann myndi búa áfram á Íslandi eða ekki ef hann væri Íslendingur. Hann svarði því til að ef hann væri Íslendingur í dag og hefði kost á atvinnu erlendis myndi hann flytja.
Til skýringar er hér mynd sem sýnir áætlanir SÍ og AGS um vöruskiptajöfnuð í sögulegu samhengi síðustu tíu ára
6.12.2009 | 01:30
Það má reka RÚV 10 sinnum á ári fyrir vextina
Þrátt fyrir þetta vopnahlé milli stjórnar og stjórnarandstöðu þá segja talsmenn stjórnarinnar að Icesave málinu ljúki fyrir jól. Það er sérkennilegt að mönnum liggi svona mikið á. Ef við höfum í huga að bara vaxtagreiðslurnar á ári eru meira en rekstrarkostnaður Landspítalans. Einnig mætti reka RÚV 10 sinnum á ári fyrir vextina. Síðan á eftir að greiða sjálft lánið.
Einhvernvegin skil ég Samfylkingarmenn. Þau vilja bara fara inn í ESB hvað sem það kostar. Þeim hefur tekist að heltaka huga þjóðarinnar. Það eru tækifæri í kreppunni. Tækifæri Samfylkingarinnar var að komast í stjórn með VG. Ekki bara það, heldur féllst Steingrímur á það að sækja um ESB aðild. Allt kreppunni að þakka. Sökum yfirvofandi niðurskurðar kemur mjög hófleg gagnrýni frá RÚV á stjórnvöld. Hver vill missa vinnuna sína? Baugsveldið er í andarslitrunum og á allt sitt undir stjórnvöldum, ekki fer maður að gagnrýna lífgjafa sína. Í slíkum samanburði dansar Davíð sóló og kemur vel út.
VG dansar með því þau eru svo hrædd um að Samfó leggist með Sjálfstæðisflokknum. Krumla Samfylkingarinnar hefur læst þjóðina í fangelsi óttans. Kreppan var tækifæri þeirra til að koma Evrópusambandsaðild á koppinn. Það sérkennilega er að sennilega hefði verið betra að ganga inn þar fyrir nokkrum árum eða þá eftir einhver ár. Það hefði gagnast íslenskri þjóð betur. Er von að maður velti því fyrir sér hvað þeim gengur eiginlega til með þessu brölti sínu.
Þar að auki hefur ekkert verið gert í því að hreinsa til í spillingarbælinu. Vill Samfó lifa í spillingunni og deila henni með Evrópubúum. Er það það sem við viljum?