Færsluflokkur: Bloggar
28.6.2007 | 20:01
Líknandi meðferð.
Þegar sjúklingur á enga von um bata er hann settur á líknandi meðferð. Það er siðferðilega rangt að beita meðferð sem dregur dauðastríð einstaklingsins á langinn. Innan heilbrigðiskerfisins eru til vinnureglur hvernig eigi að standa að þessum málum.
Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að hafa hlustað á fréttir undanfarna daga um ástandið á Vestfjörðum. Vestfirðir eru eins og sjúklingur sem fær hvorki að njóta þess að vera á fullri meðferð né að vera á líknandi meðferð. Þetta hálfkák í kjölfar lokana vinnustaða fólksins á Vestfjörðum er til skammar. Við verðum að fara að ákveða okkur. Sjúklingurinn skaðast meðan beðið er.
Einkenni huglausra lækna er að taka taka ekki ákvörðun og vona að almættið klári dæmið fyrir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2007 | 21:58
Susie Rut og þorskarnir.
Lífið er undarlegt, núna eru prestar að deila um hvernig maður á að koma fram við Þjóðkirkjuna í Kastljósi. Margt er manns bölið.
Það er mér þó öllu ofar í huga hvað faðirinn ritaði um dóttur sína gengna á miðopnu Morgunblaðsins í gær. Það er til marks um alvöru málsins ,hvar greinin er birt í Morgunblaðinu.
Ég á fjögur börn, ég dáist að foreldrunum að geta skrifað slíka minningargrein um barnið sitt. Að vera foreldri gerir mann svo gjörsamlega varnarlausan fyrir sorg þeirra. Það svíður, eins og við djúpt brunasár, grær seint og illa. Börnin eiga að fylgja okkur, ekki öfugt.
Með fullri virðingu fyrir þorskum, hvort sem þeir búa í hafinu, hagfræðideild HÍ eða ríkisstjórninni þá er greinilegt að þorskarnir í fíkniefnaheiminum hafa ekki fengið nægjanlega athygli okkar.
Það var óneytanlega sérstök tilviljun, að ég var nýbúinn að lesa bókina Sigur, um hetjulega baráttu föður fyrir dóttur sína sem ánetjaðist fíkniefnum þegar Susie Rut andaðist. Sú bók á að vera skyldulesning allra Íslendinga. Við erum algjörlega varnarlaus gagnvart ofurafli fíkniefnasalanna. Þeir hafa tök á því að buffa okkur eða stúta eftir behag. Ef það skyldi ekki duga þá ráðast þeir gegn því sem okkur finnst dýrmætast, maki eða börn. Gegn slíku erum við varnarlaus eins og málum er háttað í dag. Hvað er til ráða?
Alveg sama hversu vitlaus og firrt við erum gerum við okkur alltaf okkar mat á stöðunni, kost benfit analýsu. Þess vegna fara ekki venjulegir foreldrar og buffa eiturlyfjabaróna upp á sitt einsdæmi. Eina leiðin er að koma hlutunum þannig fyrir að það borgi sig ekki að selja eiturlyf á Íslandi.
Ekki dugar að aflífa eiturlyfjasalana með köldu blóði, það gæti verið barnið manns, sem seinna meir kemst úr viðjum eitursins og lifir síðan innihaldsríku lífi. Lögreglan virðist í besta falli vera "ónæði" fyrir starfsemi eiturlyfjasala eins og hlutirnir eru framkvæmdir í dag. Öll höfum við sagt börnunum okkar að eiturlyf séu lífshættuleg en samt verða þau að prófa. Um leið og ein smyglleið er uppgötvuð er fundin upp ný. Er þetta þá bara náttúrulögmál og fórnirnar bara hluti af lífinu?
Meðan okkur finnst það verður það þannig. Ef við ákveðum að breyta því þá breytist það. Við erum nefnilega menn en ekki dýr. Við getum með samtakamætti breytt þessu ef við viljum. Afskiptaleysið er samt algjört, hraði og tímaleysi er gróðrarstía fyrir eiturlyfjanotkun barna. Við verðum að verða meðvituð og stíga á bremsuna. Þjóðfélagsgerðin verður að breytast, við verðum að hætta að flýta okkur svona mikið. Í því liggur fórnarkostnaðurinn.
Fíkniefnalögreglan þarf að fá mun meiri völd, stuðningsaðilar barna verða að hafa úrræði löngu áður en ástandið eru komið í óefni.
En hvernig getum við komið hlutunum þannig fyrir að það sé svo óhagstætt að selja eiturlyf að engum detti það í hug?
Ég held að við verðum að aflétta friðun þessara þorska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2007 | 18:16
Kann þorskur hagfræði.
Ætli þorskar kunni mikið í hagfræði? Sjálfsagt ekki, eftir því sem við best vitum. Hafró hefur að minnsta kosti ekki stundað neinar vísindarannsóknir á því.
Ef við veiðum engan þorsk þá deyr allur sá þorskur sem deyr, í hafinu. Þá verður hafsbotninn ein stór fjöldagröf eða hvað? Þetta kallast sjálfsagt þorskahagfræði, eða hagfræði fyrir þorska.
Blessaðir hagfræðingarnir virðast þó reikna rétt þegar þeir spá fyrir um þá "hagsæld" sem bíður Vestfirðinga. Sjálfsagt munu þeir allir fara á hausinn þegar þeim verður meinað að veiða fisk. Það þurfti margra mánaða vinnu okkar færustu sérfræðinga til að komast að þessari niðurstöðu. Hvaða 10 ára krakki á vestfjörðum hefði geta sagt þeim það.
Það sem er þó mest eftirtektarvert er að öllum virðist vera slétt sama. Það vilja allir að sjómenn fari að vinna eitthvað allt annað á meðan þeim er bannað að fiska. Hver eignast aflaheimildirnar þegar fyrirtækin fara á hausinn? Verður ekki niðurstaðan sú að enginn útgerð verður rekinn nema á örfáum stöðum af örfáum.
Verður það þannig að örfáir veiða sem mest þeir mega, flytja sem mest sem minnst unnið út úr landi, framhjá mörkuðum fyrir sem mestan gróða fyrir sig.
Það er ekki mikil rómantík í þessari þorskahagfræði enda á sú tík ekki upp á pallborðið hjá þorskum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2007 | 00:11
Che Guevara og þorskurinn.
Jón Kristjánsson fiskifræðingur var í Speglinum í kvöld og fékk að tjá sig um Hafró og þau fræði. Það er gleðileg nýbreytni að RÚV skuli leita álits annarra en löggiltra og vel fyrirfram samþykktra sérfræðinga í tilvistarkreppu þorsksins.
Jón er svolítill Che Guevara, byltingamaður, verður sennilega ekki metinn fyrr en eftir sína daga að verðleikum. Verst að allur þorskurinn verður allur dauður úr hungri áður.
Hvernig stóð eiginlega á því að byltingarmaðurinn komst upp á dekk hjá m RÚV? Er það merki um nýja tíma, meiri víðsýni eða er Hafró að fara úr tísku. Skyldi gagnrýn hugsun vera endurfædd hjá RÚV í fiskifræðum.
Við þurfum örugglega ekki að þjást í vafa lengi, þessi mistök verða örugglega ekki endurtekinn aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2007 | 22:23
Virkt lýðræði-Borgari.
Hér sit ég og sötra gott hvítvín ásamt því að brenna gamla þakkantinum mínum í Mexíkanska ofninum. Það er hlýtt í veðri, þurrt og sól-sjaldgæft fyrirbæri hér á höfuðborgarsvæðinu.
Þá fer ég allt í einu að velta fyrir mér lýðræðinu, hálfgert rugl við þessar aðstæður. Ég er að velta fyrir mér hinu virka lýðræði. Það ku víst birtast í kosningum og kosningarétti þegnanna. Síðan virðist vald okkar dvína hratt að þeim loknum. Hið virka lýðræði á að koma fram stöðugt, í sífelldum athugasemdum okkar borgaranna við hina kjörnu þingmenn. Það er að vera Borgari, skylda Borgarans er að veita aðhald, ekki bara í kosningum.
Ég var að gera mér grein fyrir því að e.t.v. er blogg Borgaranna svar nútímans við fyrrnefndri skyldu Borgaranna sem virkur meðlimur í lýðræðisþjóðfélagi.
Það sem stendur virku lýðræði mest fyrir þrifum er tímaleysi nútímamannsins. Að halda heimili, vinna, ná frama á vinnustað, sinna börnunum o. sv.fr. gerir það að verkum að lýðræðisiðkun verður harla lítil hjá venjulegu fólki. Því er um að gera hjá stjórnmálamönnum að lengja vinnutímann og á allan hátt halda okkur uppteknum svo við förum örugglega ekki að skipta okkur af störfum þeirra.
Ég hef alltaf litið svo á að einstaklingar sem hafa haft tíma fyrir lýðræðisiðkun samfara venjulegu lífi, þ.e. haft tíma til að fylgjast með fréttum og þess háttar og haft ráðrúm til að mynda sér skoðun hljóta að vera stikkfrí einhverstaðar annar staðar.
Svo kom bloggið. Þar lékum við á ykkur. Nú getur maður sest niður eftir að börnin eru komin í ró og hakkað í okkur pólitíkusana, bara að einhver lesi það sem maður skrifar. Maður er að minnsta kosti búinn að gera skyldu sína sem Borgari. Auk þess hefur maður létt á sér og líður eitthvað betur. En kannski er blogg ekki virkt lýðræði, bara dóp fyrir okkur almúgann-hver veit.
Hvað sem öllu líður þá er best á Íslandi því hvítvínið helst alltaf kalt á íslenskum síðkvöldum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2007 | 21:22
Þorskastríð.
Hér á árum áður voru háð þorskastríð. Þau voru endurtekin og háð af miklum hetjuskap. Sérstaklega var framganga varðskipsmanna glæsileg og lögðu þeir oft líf sitt í hættu við sín skyldustörf. Sigur Íslendinga í þorskastríðunum varð þess valdandi að við réðum yfir okkar fiskimiðum. Við gátum skammtað öðrum þjóðum veiðiheimildum innan lögsögu okkar. Breskir sjómenn voru ekki kátir með niðurstöðuna.
Nú hafa Bretar tekið kæti sína á nýjan leik. Næsta vetur mun vera leyfilegt að flytja óunninn fisk frá Íslandsmiðum. Forystumenn íslenskra fiskverkenda telja að þá muni fiskur verða unninn á breskri grund-eins og í den.
"Höfum við gengið veginn til góðs" orti hann um árið.
Ég held að sigur Bretanna sé fullkominn. Þeir sitja heima í rólegheitum en við hoppum og skoppum á miðunum og veiðum fiskinn fyrir þá.
Hver er orsökin fyrir því að það er orðið svo "púkó" í dag að vinna fisk á Íslandi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2007 | 20:12
Kvennabolti.
Það hefur verið umræða um hversu mikið kvenna vs karlalandsliðið í fótbolta fái greitt. Merkileg umræða í sjálfu sér. Ef ég ræki þessi tvö lið og annað klúðraði öllu og hitt ynni alla leikina sína væri ég ekki lengi að gera upp hug minn hvoru ég myndi launa betur og frekar. Þ.e.a.s. ef bæði liðin væru karlalið. En nú vill svo vel til að betra liðið er kvennalið og þær eru bara svo glaðar að vinna og finnst boltinn svo voðalega skemmtilegur að ég slepp við að borga þeim nokkuð sem heitið getur. Að sjálfsögðu nýti ég mér slíka aðstöðu, annars væri ég ekki bísnismaður.
Þegar stúlkurnar fatta að þetta er bísnis en ekki bolti þá fara þær kannski að fá laun alls erfiðisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2007 | 18:09
Neskaupsstaður-IV.
Núna er ég kominn úr útlegðinni á Neskaupsstað. Hef orðið margs vísari. Ekki voru svæfingarnar margar, bara örfáar, veit ekki hvort tilvist mín skipti einhverjum sköpum. Gerðum þó einn keisara, sennilega hefði það verið verra að þurfa senda hana frá okkur. Hvað veit ég, kemur ekki í ljós fyrr en krakkinn tekur stúdentspróf að 20 árum liðnum hvort nærvera mín skipti einhverju máli. Þá verða börnin mín sennilega að reyna að hola mér niður á einhverft hjúkrunarheimilið.
Svo lærði ég annað skondið og sorglegt. Ef þú vilt fá ýsu í soðið, ég tala ekki um ferska, þá þurfa íbúar í Neskaupsstað á Norðfirði að aka 75 km. til Egilsstaða og kaupa ýsuna þar í Bónus. Neskaupsstaður er ÚTVEGSSTAÐUR þ.e. þar er bryggja, sjómenn, apparöt sem fljóta á vatni og veiða fisk, kallast bátar eða togarar eftir atvikum en það er ekki hægt að fá ýsu í soðið. Þetta er klikkun!!!!! Þegar ég bjó á Patró í den þá voru það stór hlunnindi að hafa fisk 3-4 x í viku, þess vegna eru börnin mín svona gáfuð. Að fara niður í fiskverkunarhús og velja mátulega litla Lúðu, feita og í andarslitrunum úr hrúgunni voru lífsgæði. Hlaupa svo með hana spriklandi á pönnuna var nautn. Að borða hana var unun.
Hvað er að gerast? Er firringin orðin algjör? Ef ekki er hægt að fá ferskan fisk í Íslensku sjávarplássi án þess að fara í Bónus þá er eitthvað mikið að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2007 | 19:50
Strætó.
Nú ætlar Gunnar í Kópavoginum að gefa öllum frítt í strætó í eitt ár. Mjög gott framtak, en ég er svolítið svartsýnn á árangurinn. Hugmyndin er að allir hópist í vagnana. Til þess að hinn venjulegi Íslendingur noti strætisvagn í stað einkabíls þarf kerfið að uppfylla viss skilyrði. Í fyrsta lagi þarf annað hvort að vera ókeypis eða hægt að borga með venjulegu bankakorti, því við höfum aldrei á okkur strætómiða né smápeninga. Í annan stað verður að duga að taka einn vagn, það er allt of flókið fyrir Íslendinginn að skipta um vagn. Að lokum, þetta skiptir höfuðmáli, strætó á aka svo þétt að við þurfum ekki að ath hvað klukkunni líður. Þá er ég að tala um vagn á 5 til 10 mín. fresti.
Sem sagt, bara vita númer hvað, hvaða stoppistöð, ekkert að borga og hvenær sem er, þá á strætó smá möguleika að keppa við einkabílinn.
Þangað til að kerfið getur fullnægt þessum frumþörfum okkar eru allar tilraunir svo til dauðadæmdar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2007 | 22:20
Neskaupsstaður-Egilsstaðir.
Nú þetta er búið að vera góður tími það sem af er. En eiginkonan fór til Reykjavíkur í dag. Flogið er frá Egilsstaðarflugvelli og því þarf að taka rútu fyrsta áfangann. Hafði ég hringt í Austfjarðarleið í fyrradag og kynnt mér málin. Mikið rétt rúta kl 1545 frá Neskaupsstað og alla leið upp á flugvöll, heila 75 km. Hentað þar að auki mjög vel því rútuferðin passaði akkúrat við brottför vélarinnar.
Ég kem konunni tímanlega á Olís bensínstöðina þar sem rútan átti að koma, en eins og ykkur er nú þegar farið að gruna kom engin rúta. Alls engin. Konan hringir í Austfjarðarleið og svörin voru hálf vandræðaleg,, ee héldum að enginn ætlaði að fara,, ee sorry ee,,. Þegar konan mín benti viðkomandi á að hún þyrfti að ná flugvél suður, ja, þá gæti hugsanlega verið komin rúta eftir í fyrsta lagi hálfa klukkustund.
Niðurstaðan varð sú að ég þurfti að hendast úr vinnunni og fá lánaðan bíl og keyra í einu hendingskasti með konuna 75 km út á flugvöll.
Þeir hjá Austfjarðaleið ættu nú að skammast sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)