Færsluflokkur: Bloggar
6.7.2007 | 21:36
Iðnbylting á röngum forsendum.
Nú á að skera niður þorskvótann svo rækilega að margir munu skaðast verulega. Það er staðreynd. Mikið hefur verið fjallað um málið og því er ljóst að fyrirtækin sem veikust eru munu leggja upp laupana. Kvótinn mun safnast á enni færri hendur. Allt þetta er fyrirséð. Allt þetta gerir ríkisstjórn Íslands sér grein fyrir.
Ríkistjórn Íslands sér þetta sem óumflýjanlega hagræðingu innan sjávarútvegsins.
Hrærigrautur hugmyndafræðanna er orðinn svo mikill að manni sundlar. Frjálshyggjuflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn tekur völdin af markaðnum með boðum og bönnum. Setur inn fátækrahjálp, ríkisstyrki sem kallast mótvægisaðgerðir. Samfylkingin sem á að vera málsvari frjáls framtaks og sérstaklega smærri fyrirtækja rústar þeim innan sjávarútvegsins. Eflir stórfyrirtækin.
Hér er á ferðinni handstýrð byggðaröskun. Það á að færa kvótann til þeirra stóru í nafni hagræðingar. Samtímis á að reyna að skapa einhver ný störf, alls óskyld sjómennsku, fyrir þá sem missa vinnuna. Þeir sem kunna ekki að meta verða sennilega bara að flytja á mölina eða austur í álver.
Þetta verður örugglega erfitt að skilja fyrir þann sem hefur dreymt um að vera sjómaður, kannski á eigin smábát, ráða sér svolítið sjálfur og hafa unun að því að stússast í kringum bátinn sinn og veiðafæri. Reykjavíkurliðið fattar það ekki að nokkrum manni geti þótt gaman af sjómennsku. Ég held að þessi misskilda hagfæði sjái bara hamingju bak við skrifborð og tölvuskjái.
Það sem verst er að grundvöllur þessara ákvarðana er mjög umdeildur og í raun upplifi ég að enginn trúi í raun á framtíðasýn Hafró. Hvað sem öllu líður þá gagnast þessi ákvörðun í dag eins fáum og hugsast getur og er þá þorskurinn meðtalinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 20:16
Kastljós-II
Nú get ég ekki bara orða bundist. Þegar ríkisstjórn Íslands tekur eina stærstu og afdrífaríkustu ákvörðun seinni tíma um sjávarútvegsmál þá fjallar kastljós um fótbolta. Það er fyrst rætt örstutt um sjávarútvegsmál og meðal annars er íþróttafréttamaður fyrir svörum, með fullri virðingu fyrir honum. En augljóst var að ekki átti að ræða sjávarútvegsmál að neinu ráði. Eftir örfár mínútur var farið að ræða eitthvað mark í knattspyrnuleik sem olli því að fullorðnir menn fóru að haga sér eins og smástrákar. Enda varð öll umræðan sem fylgdi eins og hjá krökkum sem eru að saka hvert annað um mismunandi ódæði og röksemdafærslan á svipuðu plani.
Knattspyrna er leikur og skemmtun. Sjávarútvegur og þær ákvarðanir sem teknar voru í dag eru dauðans alvara.
Kastljós á ekki lengur að tilheyra fréttastofu sjónvarpsins heldur vera hluti af skemmtidagskrá þess eins og spaugstofan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 23:11
STRÆTÓ-enn og aftur.
Ég er með strætó á heilanum og í kvöld í Kastljósi voru þessi mál rædd. Mest var rætt um slæma afkomu strætó. Kom þar fram að allt færri noti sér þjónustu strætó. Nú er svo komið að farþegar greiða fyrir um 25% af rekstrarkostnaði strætó en afgangurinn komi frá sveitafélögunum þ.e. útsvarið okkar.
Ég held að fólk verði að fara að gera upp við sig hvort og hvernig við ætlum að hafa strætó.
Á strætó að vera einhverskonar óhagkvæm neyðarlausn fyrir þá sem geta ekki átt almennilegan einkabíl, eða eru svo illa settir að hafa ekki bílpróf. Ef strætó á að vera fyrir undirmálsfólk eða kolgræna hugsjónamenn þá getum við svo sem haldið áfram á þessari braut.
Ef fólk meinar eitthvað með því að það vilji hafa almennilegar almenningssamgöngur þá held ég að tími sé kominn til að menn fari að bretta upp ermarnar.
Ef farþegar standa undir eingöngu 25% þá getum við alveg eins sleppt því að vera að rukka farþegana. Sparast mikill peningur sem fer í allt umstangið að rukka fólk. Auk þess sparast mikill tími fyrir vagnstjórana ef þeir þurfa ekki að rukka fólk.
Þar að auki myndi ef til vill fleiri nýta sér strætó. Ég held þó að fæstir hafi sett fyrir sér kostnaðinn heldur hversu óhægt er um vik að greiða í strætó. Fæstir eru með peninga á sér og eingöngu innvígðir eiga strætókort. Því hefði eini raunhæfi möguleikinn verið að geta greitt fyrir með sínu venjulega debet/kredit korti. Hvers vegna ekki við notum þau kort als staðar annarstaðar.
Meginvandinn er sá að það er allt of langt á milli ferða. 30 mínútur allan daginn nær náttúrulega engri átt. Það hentar engan veginn fyrir nútímafólk.
Aftur á móti er það staðreynd að vinsældir strætó eru ekki svipur við sjón miðað við áður. Það er EKKI vegna þess að margir eiga einkabíl í dag. Það er bara hluti af skýringunni. Aðalástæðan er sú að fólk upplifir ekki strætó sem raunverulegan valkost heldur sem neyðarlausn.
Háu herrar og frúr, leysið það vandamál og strætó mun lifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.7.2007 | 21:21
Kastljós.
Það er merkilegt þetta Kastljós í sjónvarpinu. Það er orðið svolítið poppað, að minnsta kosti fyrir minn smekk. Mér finnst skorta tilfinnanlega í ríkissjónvarpið góðan fréttaskýringaþátt þar sem fólki gefst ráðrúm til að ræða máli. Núna er yfirleitt viðtal við tvo einstaklinga og mjög ströng tímamörk. Yfirleitt er rætt um mál sem eru ofarlega á baugi en það skortir tíma og að málin séu krufin almennilega til mergjar.
Að ræða til dæmis neyðarpilluna í tvígang þegar mun stærra mál er í gangi en það er væntanlegur niðurskurður á aflaheimildum til að veiða þorsk. Mér finnst að Kastljós ætti að reyna að gera þeim málum betur skil. Þá vildi ég sjá marga aðila kallaða til og að viðkomandi fréttamenn væru vel að sér í málinu og fengju gott tækifæri til að kynna sér málin í þaula. Það er ekki nóg að draga bara fram tvo hauka sem við vitum fyrirfram að munu klóra augun úr hvor öðrum, svipað og hver annar hanaslagur, ekki nokkrum manni til gagns.
Vonandi hverfur Kastljós af braut "skemmtidagskrá" yfir í að verða aftur meiri fréttaskýringaþáttur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2007 | 21:02
Hagstofa sjávarins.
Gestur Guðjónsson bloggar í dag um Norðuratlandhafsfiskveiðiráðið. Þeir eru að velta fyrir sér mælingum okkar Íslendinga á fjölda þorska. Niðurstaða þeirra er að við vitum ekki neitt með vissu. Niðurstaða þeirra er að okkur hafi ekki tekist að svara grundvallarspurningum um stærð þorskstofnsins. Við vitum ekki aldursdreifingu hans. Vitum lítið hvaða áhrif fylgifiskar þorsksins hafa á lífslíkur hans.
Ef við vissum ekkert hversu margir Íslendingar fæðast og deyja á ári. Hversu margir eru kynþroska né hversu margir eru öldungar. Ef svo væri komið fyrir Hagstofu vorri, en hún myndi ÁÆTLA allar fyrrnefndar stærðir, tækjum við sennilega mátulega mikið mark á henni.
Samt trúir fólk þessu sem nýju neti sem frá Hafró kemur. Til allrar hamingju fyrir mannkynið eru ekki allir sem ganga á jörðinni flatri. Vandamálið er að þeir sem eiga að taka ákvarðanir um aflaheimildir landsmanna vilja ekki hlusta á aðra en Hafró. Þeir hafa undanfarið fundað með fjölda fólks sem hefur aðrar skoðanir en Hafró. Enn stærri hópur hefur haft sig í frammi á opinberum vettvangi en ekki fengið áheyrn.
Augljóst er að farið verður að óskum Hafró, aldrei hefur skort á viljann til þess. Til hvers þessar málalengingar? Er þetta ekki bara spurningin í hvers vasa ágóðinn fer.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 23:48
UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ HIÐ ÍSLENSKA.
Mér fannst ég heyra það í útvarpsfréttunum um helgina að Utanríkisráðuneytið væri þyngst á fóðrum af öllum ráðuneytum íslenska ríkisins. Mig rak í rogastans. Hvernig getur það kostað meira að kenna öllum Íslendingum að lesa eða halda heilsu allra Íslendinga við en að reka eitt Utanríkisráðuneyti.
Utanríkisráðuneytið sér um samskipti við útlönd. Mörg stórfyrirtæki, sum mun stærri en Ísland, sjá um slíka hluti bara með einni netsíðu. Hvað er því til fyrirstöðu að Utanríkisráðuneytið sé bara ein netsíða eða svo? Til þess þarf ekki nema örfáa starfsmenn og öngvan ráðherra. Hvað er allt hitt fólkið að gera? Sjálfsagt bara að senda póst á milli sín.
Ég held að við Íslendingar þurfum að komast niður á jörðina. Mér er mjög minnisstætt þegar Ráðuneytisstjóri í Utanríkisráðuneytinu var spurður hvort ekki þyrfti að spara þar eins og annars staðar í blöðunum hér um árið. Flestir ráðuneytisstjórar hefðu farið í varnarstöðu en viðkomandi svaraði fullum hálsi að " ef við í utanríkisráðuneytinu sjáum einhverja þörf í náinni framtíð að spara þá munum við hugleiða það".
Ég held að Utanríkisráðuneytið sé orðið Ríki í Ríkinu. Þá fellur það undir skilgreiningu á krabbameini, það vex án tillits til heildarinnar. Þá þarf að skera það burt eins og aðrar meinsemdir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 22:59
Unaðsleg helgi.
Helgin hefur verið frábær. Veðrið unaðslegt. Íslenskt sumar er toppurinn, það jafnast ekkert á við það.
Maður hefur verið að sýsla í garðinum og fór á Kaffi Reykjavík á laugardagskvöldið með frúnni. Borðuðum góða máltíð, hittum vini okkar á eftir og settumst inn á Litla ljóta Andarungann. Fengum okkur léttvín og bjór. Spjölluðum margt gott og skemmtilegt. Dásamlegt að umgangast fólk, framkvæma mannleg samskipti og njóta.
Samt sem áður þá hafa sumir það ekki jafn gott hér Íslandi. Sumir hafa ekki efni á góðum mat. Sumir eiga engan garð til að sýsla í. Sumir eiga kvóta sem þeir vita að þeir munu missa. Sumir munu eignast þann kvóta sem þeir munu þurfa að hafa áhyggjur af hvernig eigi að nota. Sumir eiga hitaveitu sem þeir eiga ekki. Það er ekki víst að sumir hafi notið helgarinnar sem skyldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 21:15
AgnesarRALL-II
Ég var kannski full dómharður um daginn gagnvart væntanlegum greinarflokki Agnesar um sjávarútvegsmál. Meginniðurstaðan er engu að síður sú sama. Það stefnir allt í að greinarflokkur hennar verði MINNINGARGREINARFLOKKUR um sjávarútveg í hinum dreifðu byggðum landsins.
Það má vel vera að greinarflokkur Agnesar sé góður og gefandi þá kemur hann allt og seint. Nú þegar er orðið nokkuð ljóst að veruleg skerðing verður á aflaheimildum. Því má ætla að margir smærri spámenn í faginu munu einfaldlega fara á hausinn. Oft hefur verið rætt um að hafa fjölbreytni í atvinnuvegum okkar. Skerðingin er bein atlaga að hinum smærri plássum landsins. Stórlaxarnir kaupa kvótann sem af gengur og flytja hann burtu.
Sjálfsagt munu ýmsir segja að um góða hagræðingu sé að ræða. Ég hlýt að vera með rafsuðublindu því ég á bágt með að sjá þá hagræðingu.
Fjöldi fólks sem vill búa úti á landi, vill veiða fisk, vill vinna fisk er gert atvinnulaust. Svo á ríkið að búa til einhverja atvinnubótavinnu fyrir það svo það svelti ekki í hel. Vinnu sem það hefur kannski ekki neinn áhuga á. Það sættir sig kannski við hana svo það geti búið áfram úti á landi. Þvílík hagræðing kæri Össur. Nú hinn möguleikinn er sá að það flytji á mölina hingað suður.
Hagræðingin er greinilega fyrir einhverja aðra en fólkið sem vinnur við sjávarútveg. Hagræðingin er fyrst og fremst fyrir fyrirtækin og eigendur þess. Eigendurnir virðast hafa úr vöndu að ráða á næstu misserum. Tveir möguleikar virðast vera upp á borðinu fyrir þá. Þeir geta safnað að sér kvóta hérna fyrir sunnan og grætt í nafni hagræðingar. Hinn möguleikinn er að selja kvóta og lifa praktúlega það sem eftir er. Vandinn í sjávarútvegi okkar Íslendinga er greinilega mikill og flókinn og ekki furða að ráðherrar vorir þurfi að hugsa sig um vel og lengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 19:12
Strætó-II
Ég er svolítið með strætó á heilanum þessa dagana. Ástæðan er sú að ég og konan höfum þurft að skutla krökkunum út og suður. Eldri krakkarnir þurfa alltaf að fá bíl lánaðan. Ástæðan er að strætó fullnægir ekki einu sinni þörfum barnanna minna. Það er orðið ansi hart þegar krakkarnir geta ekki notað strætó, hvað þá að fullorðnir geti nýtt sér kerfi strætó.
Ef ekkert verður gert til að gera strætó sem raunhæfan möguleika við einkabílinn þá getum bara pakkað saman strætisvögnunum og nýtt peningana í eitthvað annað. Það er alveg út í bláinn að hafa þessa strætisvagna akandi út um allan bæ nánast MANNLAUSA fyrir utan bílstjórann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 22:14
"Að efla almenningssamgöngur"
Gvöð hvað ég er orðinn þreyttur á þessum farsa. Í 35 ár eða lengur erum við búin að hlusta á okkar kjörnu fulltrúa tyggja á þessu endurtekið eins og tannlaust gamalmenni. Og tuggan er enn upp í kjaftinum á þeim og því ekki orðin að neinu gagni.
Nú var Siglfirðingurinn góði enn að ræða þetta með Dalvískum tónum í Speglinum í útvarpinu í kvöld.
Síðastliðna áratugi hafa almenningssamgöngur bara versnað hér á höfuðborgarsvæðinu, það er í sjálfu sér afrek því ekki voru þær góðar fyrir.
Við höfum aldrei tekið afstöðu til þess hvort Strætó eigi að vera raunverulegur valkostur við einkabílinn. Í raun má segja að framkvæmd þessara mála hingað til bendi eindregið til þess að Strætó sé ekki hugsaður sem raunverulegur valkostur við einkabílinn. Þar á móti speglast orðagjálfur stjórnmálamanna við framkvæmdina í því að almenningssamgöngur séu æskilegar, nauðsynlegar og fólk eigi að nýta sér þær. Hér er greinilega misræmi milli orðs og æðis. Góður sálfræðingur kæmist sennilega að þeirri niðurstöðu að stjórnmálamennirnir hafi hugsað sér að við hin tökum Strætó meðan þeir rúnta um á sínum einkabílum. Að minnsta kosti ef þeir væru háðir Strætó væru hlutirnir öðruvísi.
Margar þjóðir og sumar mun ríkari en við hafa almenningssamgöngur sem virka. T.d. í Sviss þar sem hver fjölskylda á einn Bens og einn BMV, af dýrustu sort, taka allir Strætó. Í Genf gengur Strætó á 5 mín fresti allan daginn, um kvöldmat fer tíminn upp í 10-12 mín á milli ferða. Eftir sem líður á kvöldið tognar á tímatöflunni og seint á kvöldin er orðnar heilar 20 mínútur á milli ferða. Auk þess þarf vagnstjórinn ekki að taka við greiðslum og við það sparast mikill tími. Allir hafa greitt fyrirfram á stoppistöðvunum, en eftirlitsmenn koma í vagnana og sektin er það stór að fáir svindla.
Svisslendingar hafa tekið þá afstöðu að almenningssamgöngur eigi að vera valkostur. Við Íslendingar höfum aldrei tekið þá afstöðu. Vinstri menn hafa reynt að koma þeim á, í hálfgerðum feluleik því aldrei hefur orðið nein mynd á því. Hægri menn hafa reynt allt til að stöðva þróun almenningssamgagna til hagsbóta fyrir einkabílinn. Það er ekki mikið mál að gefa öllum frítt í Strætó þegar enginn notar hann. Þannig að með sameiginlegri vinnu hefur stjórnmálamönnum allra flokka tekist að drepa niður allar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)