Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Mótmæli bera árangur

Síðustu tvær vikur hafa verið nokkuð merkilegar. Daglega hefur verið mótmælt, fyrst fyrir utan Seðlabanka Íslands og síðan fyrir utan skrifstofu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er staðsett fyrir ofan Stjórnarráðið. Flesta daga hefur verið einhver umræða um þessi mótmæli í fjölmiðlum. Ég hef fundið það glöggt að AGS er að komast inn í umræðuna. Tekist hefur að draga athyglina að sjóðnum og starfaðferðum hans. Almenningur er farinn að vefengja góðmennsku sjóðsins gagnvart almenningi. Með dómi hæstaréttar og viðbrögðum opinberra aðila kristallast vel að starf AGS snýst um að slá skjaldborg um banka og þess háttar fyrirtæki.

Þetta kennir okkur að það eina sem virkar gegn AGS eru mótmæli. Þau vekja umræðu og blaðaskrif. Mótmælendur koma fram með sjónarmið sem fjölmiðlar verða að kynna sér og umræðan breytist þannig almenningi til hagsbótar. Það dugar skammt að ræða málin í góðra vina hópi heldur verða allir að sameinast um að sýna sig þegar mótmæli eru höfð í frammi gegn AGS. Auk þess er nauðsynlegt að leggja af alla sérvisku hvort einhver sé þess verður að taka þátt í mótmælum með viðkomandi. Við erum öll ólík en verðum að geta sameinast gegn AGS ef við viljum að Ísland verði byggilegt land fyrir börnin okkar.


Hvers vegna ræður hugmyndafræði AGS á Íslandi

Grein sem birtist eftir mig á Smugunni 28 maí 2010.

Á stjórnmálaumræða dagsins að snúast um ísbirni og snjó í Bláfjöll eða á umræðan að snúast um hvers vegna Ísland virðist vera að glata sjálfstæði sínu, eigum sínum og sjálfu sér?

Hverjar eru áhyggjur fjölmiðlamanna/almennings í dag? Í raun er ekki hægt að greina hvor hópurinn hefur frumkvæðið í umræðu dagsins sökum getuleysis fjölmiðlanna. Algengt er að umræða fjölmiðlanna snúist um það sem skjólstæðingum viðkomandi fjölmiðils kemur best í umræðunni. En spurningarnar snúast um skoðanakannanir, hverjum þú vilt vinna með, og einhverjar spurningar um einstök mál sem skipta ekki öllu máli í stóru myndinni.

Ef við könnum það sem að öllum líkindum skiptir þjóðina mestu máli, og þar með talin sveitafélögin, er að þann 7. apríl síðastliðinn skrifuðu Jóhanna, Steingrímur, Gylfi og Már undir viljayfirlýsingu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Viljayfirlýsingin og skýrsla AGS eru aðgengileg á netinu. Þar kemur fram að viðkomandi ráðamenn lofa fyrir hönd Íslands að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum AGS. Auk þess lofa þau, að bera allt sem þeim kynni að detta í hug að framkvæma, fyrst undir sjóðinn til að vita hvort sjóðurinn sé sammála þeim.

Hér finnst mér vera verðugt efni í umræðu við fulltrúa VG og Samfylkingarinnar í Reykjavíkurborg. Ástæða væri að spyrja út í afstöðu þeirra til þessa valdaafsals á fullveldi Íslands. Þetta er í raun stórpólitískt mál. Þegar við síðan upplifum að HS Orka er seld erlendu fyrirtæki í óþökk Íslendinga er spurningin hver ræður för.

Mjög athyglisvert var að fylgjast með fréttum af fundi sem haldinn var í New York daginn eftir að skrifað er undir viljayfirlýsinguna , þ.e. 8 apríl. Í fréttum kemur fram að á fundi íslensk-ameríska viðskiptaráðsins var rætt um mögulegar fjárfestingar í orkugeiranum á Íslandi. Á fundinunum voru mættir Gylfi ráðherra, Flanagan yfirmaður áætlunar AGS á Íslandi, Árni Magnússon frá Íslandsbanka og Ásgeir Margeirsson frá Magma. Þessi samkoma hafði alla höfuðgerendurna við sölu á HS Orku, allt undir handleiðslu AGS.

Sporin hræða, saga sjóðsins er ekki falleg. Nýleg rannsókn á vegum Center for Economic and Policy Research í Whasington sýndi fram á að af 41 landi sem sjóðurinn skipti sér af versnaði kreppan hjá 31 landi vegna ráðstafana sjóðsins. Joseph Stiglitz hefur varað við sjóðnum lengi og bent á hversu kostnaðarsamt er taka mikið af lánum. Sá kostnaður sé oft jafn mikill og niðurskurðurinn á velferðinni.

Í frægu viðtali við Greg Palats segir Joseph frá því að sjóðurinn sendi alltaf sama lyfseðilinn án tillits til aðstæðna. Í viðtalinu segir han: „Step One is Privatization - which Stiglitz said could more accurately be called, 'Briberization.' Rather than object to the sell-offs of state industries, he said national leaders - using the World Bank's demands to silence local critics - happily flogged their electricity and water companies. "You could see their eyes widen" at the prospect of 10% commissions paid to Swiss bank accounts for simply shaving a few billion off the sale price of national assets“.

Í skýrslu AGS dagsett 8. Apríl 2010 kemur fram á bls 7 óánægja AGS með þær hindranir sem eru á Íslandi við að færa auðlindir landsins úr eigu hins opinbera yfir til einkaaðila. Það kemur greinilega fram í skýrslunni að ef ekki verði mikil fjárfesting í auðlindum okkar sé mjög hæpið að áætlun sjóðsins gangi upp á Íslandi.

Núna er frumvarp til afnáms vatnalaganna frá 2006 í nefnd. Talið er að lögin frá  2006 séu mjög haldlítil til að verjast ásælni einkaaðila í eina stærsu og verðmætustu auðlind okkar Íslendinga, vatnið. Þess vegna er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að vatnalögin frá 2006 öðlist gildi þann 1 júlí. Það mun verða lærdómsríkt að fylgjast með þeirri lagasetningu.

Stjórnmálahreyfingin Vinstri grænir er það stjórnmálaafl sem barist hefur mest gegn sölu auðlinda okkar til einkaaðila. Öruggt má telja að allir kjósendur VG séu á þeirri skoðun að auðlindirnar skulu vera í eigu þjóðarinnar. Viðkomandi stjórnmálaafl er í ríkisstjórn. Þeir sem voru mest áberandi í búsáhaldarbyltingunni voru VG. Þegar skipta þurfti út ríkisstjórn Geirs Haarde vantaði ekki kraftinn í ungliðahreyfingu VG. Þetta veit ég því ég var á staðnum.

Eftir að Steingrímur komst til valda varð ég mjög einmanna á Austurvelli, VG-liðar fóru heim að grilla. Við vorum nokkur eftir á Austurvelli sem bíðum enn eftir gagnsæi, heiðarleika og siðbót. Við höfum mótmælt Icesave en síðast en ekki síst höfum við reynt að mótmæla AGS. Vinstri menn á Íslandi mótmæla ekki AGS, það er heimsundur því allir vinstri menn eru á móti AGS. Grikkir eru brjálaðir. Allar verkalýðshreyfingar eru á móti AGS, ekki ASÍ, það er líka heimsundur.

Næsta vetur verða skuldugar fjölskyldur á Íslandi að standa í skilum, á eigin spýtur. Frestun á nauðungarsölum verður hætt. Afleiðingin verður að hundruðir fjölskyldna lenda í verulegum vandræðum, missa heimilin. Þeir sem hafa neitað að borga bönkunum til að eiga fyrir mat þurfa að fara greiða húsaleigu og sleppa mat. Það kemur skýrt fram í skýrslu AGS frá 8 apríl sl. að þetta er vilji AGS og kvarta þeir undan linkind ríkisstjórnarinnar við að halda almenningi volgum og bíðandi eftir lausn, sem aldrei var fyrirhuguð eins og sjóðurinn bendir á.

Vinstri menn hafa dregið sig niður í sófana til hugmyndafræðilegra rökræðna eftir að þeir óðu táragasið fyrir Steingrím. Ef vinstri menn eða bara allir hugsandi Íslendingar ætla sér að láta stjórnvöldum eftir að stjórna, má það ljóst vera af framan sögðu að það stefinr í mikið óefni hjá íslenskri þjóð. Íslenska ríkisstjórnin er millistjórnandi milli okkar og AGS. Ef þjóð, landi og auðlindum á að verða bjargað verður þessi þjóð að horfast í augu við raunveruleikann, láta afréttara eins og Jón Gnarr eiga sig og einbeita sér að því að koma landinu undan stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

 


Núna hefst slátrunin í boði velferðarstjórnarinnar

Ýmsir sáu þetta fyrir. Þeir sem hafa kynnt sér sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vita að velferðin fer illa út úr samstarfi við hann. Rannsóknir hafa sýnt að misrétti í velferð og aukning á sjúkdómum fer eftir því hver lánar löndum peninga sem eru í kreppu. Þegar AGS lánar eru skilyrðin óvægin og dánartíðni ýmissa sjúkdóma verður hærri en ef einhver annar lánar.

Einnig er það vel þekkt að þau lönd sem veita sjóðnum viðnám koma betur út úr kreppum en rassasleikjurnar.

Ástandið á Íslandi er kolklikkað og virðist brautin vera lárétt niður á nýlendustig á nýjan leik.

Samfylkingin er til í að fylgja AGS því þá komumst við frekar inn í ESB.

Steingrímur vill fylgja AGS því þá heldur hann völdum. Sennilega heldur hann líka að hann sé skástur.

Fjölmiðlar hafa lítið kynnt sér AGS og samskipti sjóðsins við Ísland. Oftast éta þeir upp fréttatilkynningar ráðuneytanna hér heima eða af heimasíðu AGS. Stundum viðtal við ráðherra sem segja það sem þeim sýnist og engar gagnrýnar spurningar fylgja. Það virðist ekki vera nein fagmennska ráðandi hjá fjölmiðlum því ekki hefur komið fram neinn fréttamaður sem sérhæft hefur sig í AGS. Ef slíkt myndi gerast myndi viðkomandi gera harða hríð að ráðamönnum sökum þeirrar ógnar sem okkur stafar af sjóðnum.

Það segir mér að flestir fréttastjórnendur styðja ríkisstjórnina.

Almenningur sem treystir þessum máttarstólpum lýðræðisins er leiddur til slátrunar eins og hvurt annað sláturfé.


mbl.is Velferðarþjónustan skorin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneykslaðir besservisserar gleyma AGS eftir pöntun

Það sækir að manni vonleysi þessa dagana. Í skjóli hrunskýrslunnar eru tvö vond mál fyrir vinstri stjórnina send til almennings. Hrunskýrslan er notuð til þess að enginn taki eftir vondu málunum. Fyrra dæmið er skýrsla Seðlabankans um fátækt á Íslandi og að aðgerðir stjórnvalda hafa nánast engu breytt fyrir skuldsetta einstaklinga. Seinna dæmið er viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda við AGS. Þar kemur fram, eins og í þeim fyrri, að ekkert á að gera í raun fyrir skuldsett heimili landsmanna. Þeir sem lifa ekki af með lengingu lána fara bara á hausinn, málið dautt. Skýrsla Seðlabankans staðfestir þetta verklag.

Þjóðinni virðist ekki umhugað um þessi mál, fréttamenn reyna ekkert til að varpa ljósi á þessa hluti. Við erum blekkt í sífellu, spunameistarar ráða tilverunni. Hvort skiptir grátkór Samfylkingarinnar, tárvot Þorgerður, fúll forseti meira máli, eða afsal lands og þjóðar kæru landsmenn?


Hvenær byrjar að gjósa?

Sérkennileg vika. Á mánudaginn rannsóknarskýrslan og fjöldi einstaklinga afhjúpaðir sem vanhæfir og sviptir ærunni. Ætli menn fari bara ekki í meiðyrðamál? Á þriðjudaginn kemur Seðlabanki Íslands með skýrslu um stöðu landsmanna, fátækt, og að mjög mörg heimili séu í miklum erfiðleikum við að ná endum saman. Falleinkunn fyrir núverandi stjórnvöld. Elskum við vanhæfa stjórnendur, hvað er þetta með okkur. Síðan ætlar enginn að axla ábyrgð og segja af sér.

Fyrirgefið, gerðist nokkuð í þessari viku annað en það fór að gjósa undir jökli, að minnsta kosti gýs ekkert hjá þjóðinni.


Rotþrær, flatskjár og skýrslur

Þvílík veröld sem við lifum í! Núna er stólpípan hjá rannsóknarnefndinni farin að virka og saurinn rennur yfir okkur almenning. Hægðir eru í raun spegill fortíðarinnar því fæðan var mun lystugri á sínum tíma. Eins og öllum má vera ljóst er til lítils að velta sér upp úr saurnum eins og svín, mun mikilvægara er að kanna hvað er á matseðli dagsins.

Seðlabank Íslands birti skýrslu í gær sem gefur til kynna hvað almenningi er boðið upp á í dag. Sú skýrsla er mun mikilvægari fyrir núið en hrunskýrslan. Þessi skýrsla hverfur vegna umfjöllunar um hrunskýrsluna og er það miður, báðir eiga fullan rétt á að fá að njóta sín.

Í skýrslu SÍ kemur fram að 35-60% heimila ná varla endum saman um hver mánaðarmót. 40% heimila eru tæknilega gjaldþrota, þ.e. fasteignin dugar ekki fyrir lánunum. Staðan er enn verri hjá ungu barnafólki en þar eru 60% heimila tæknilega gjaldþrota.

Með öðrum fréttum um biðraðir eftir mataraðstoð er greinilegt að fátækt er að aukast hröðum skrefum á Íslandi. Millistéttin minnkar og stétt fátækra eykst. Börnin eru mjög útsett og sérstaklega þau ungu því mjög stórt hlutfall barnafjölskyldna á í verulegum vanda.

Hrunskýrslan segir okkur að valdstéttin á Íslandi skapaði þetta ástand með glæpsamlegri hegðun í bönkunum. Hinn hluti valdstéttarinnar sem átti að fylgjast með fyrir okkar hönd var með kjaftinn fullann af seðlum, hroka eða greindarskorti og gat því ekki veitt þjóð sinni neina björg. Nú sitjum við í skítnum, full af sektarkennd því við keyptum okkur flatskjá.

Í skýrslu SÍ kemur fram að valdstéttin á Íslandi í dag hefur af miklu örlæti sínu brugðist við ástandinu með aðgerðum fyrir illa stadda samlanda sína. Árangurinn er ein heil 4-5% minnkun á hópum í vanda. Það gerir um 15% árangur af meðferðinni. Sem læknir hrekk ég í kút. Ég myndi aldrei bjóða sjúklingi upp á meðferð sem hefði 15% árangur í för með sér. Sjúklingurinn teldi mig sjálfsagt galinn að bjóða sér upp á lyf sem væri 85% gagnslaust.

Valdstéttin á Íslandi í dag hrósar sér af þessum árangri. Ég er loksins að skilja hvað Steingrímur á við þegar hann talar um að moka flórinn. Hann er að moka honum á okkur. Þvílík þjóð sem þegjandi tekur við úrgangi yfir sig úr gömlu og líka nýju rotþrónni.


Og hvað svo, kæra þjóð?

Þeir sem hafa velt sér upp úr hruninu s.l. 18 mánuði fengu staðfestingu í dag á því sem þeir vissu. Hinir sem vilja ekki fylgjast með fréttum en kjósa frekar sápuóperur eru undrandi. Ef allir hefðu verið eins og fyrrnefndi hópurinn árin fyrir hrun, hefði ekki orðið neitt hrun.

Því er það nærtækast að þjóðin ákveði að gefa valdstéttinni aldrei aftur möguleika á því að fara með allt þjóðfélagið til fjandans meðan við grillum.


mbl.is Skýrslan kom þjóðinni á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsþing Frjálslynda flokksins

Við í Frjálslynda flokknum héldum landsþing núna um helgina. Þar sem allir voru vinir höfðu fjölmiðlar landsins lítinn sem engan áhuga á okkur. Því má segja að gæði á samkundum landsmanna séu í öfugu hlutfalli við fjölmiðlaathygli. Sem dæmi er útspil ríkisstjórnarinnar í vikunna um aðstoð við skuldsettan almenning. Tómur pakki sem fékk mikla umfjöllun, um umbúðir að sjálfsögðu því ekki er hægt að hafa umræðu um innihald sem er ekki til staðar. Grátlegast af öllu er sú staðreynd að lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur fékk ekki náð fyrir augum valdhafanna. Það segir manni að almenningur á enga raunverulega fulltrúa inn á Alþingi, nema þá Lilju.

Við slíkar aðstæður er þörf á breytingum og ef fólk kynnir sér málefni Frjálslynda flokksins mun það sjá að þar er margt gott og til framfara. Að málefnin verði að raunveruleika byggist á hversu spilltir menn eru því að öðrum kosti svíkja menn ekki kosningaloforð. Svikin byggjast á fyrirfram samningum við hagsmunaaðila, á bak við luktar dyr, sem almenningur hefur ekki aðgang að. Við þekkjum svikasögu Fjórflokksins. Það er komin tími til að senda Fjórflokkinn í aflúsun. 

Sjá nánar á XF.IS


Ísland, Icesave og Haítí; er réttlæti mögulegt?

Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í dag:

 

Í Icesave umræðunni hafa menn fært rök fyrir því að óæskilegt sé að setja Íslendinga í skuldafangelsi. Bent hefur verið á að siðaðar þjóðir hafi afnumið skuldafangelsi úr löggjöfum sínum fyrir löngu. Sumir Íslendingar telja Icesave lítið mál. Jón Daníelsson hagfræðingur í London metur afleiðingarnar þær, að um verulega lífskjaraskerðingu verði að ræða á Íslandi, ef allt fer á besta veg. Enn mikilvægari athugasemd Jóns er sú, að til að Ísland geti yfir höfuð staðið í skilum með greiðslurnar þurfi allt að ganga upp. Hvernig er hægt að segja að Icesave sé smámál í þessu samhengi? Hvernig er hægt að leggja slíkar byrðar á samlanda sína vegna þess að maður er fullur sektarkenndar vegna hátternis nokkurra útrásarvíkinga. Sérstaklega þegar líkur eru á greiðslufalli Íslands, dýr syndaaflausn til handa alþjóðasamfélaginu það.

 

Þegar varað er við því að heil þjóð lendi í skuldafangelsi hafa menn í huga m.a.  land eins og Haítí. Árið 1804 brutust þeir undan yfirráðum Frakka. Frakkland hafði áður auðgast vel á auðlind landsins, „svarta gullinu“, þ.e. þrælunum,  íbúum Haítí. Frakkar voru að vonum ekki sáttir. Þess vegna settu þeir ásamt vinum sínum Bandaríkjamönnum,  Spánverjum og Bretum verslunarbann á Haítí. Í dag er slíkt ástand kallað; „að vera ekki hluti af alþjóðasamfélaginu“. Þess vegna neyddist Haítí til að skrifa undir samning við Frakka árið 1825. Þeir samþykktu að borga bætur til franskra þrælaeigenda, þ.e. þrælarnir sem brutust undan þrældómnum voru neyddir til að greiða bætur til þrælahaldaranna! Upphæðin var risastór, 150 milljónir franka í gulli, sem tekin var að láni hjá bönkum í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Þeir samþykktu að borga kröfuna í þeirri von að verða gjaldgengir á mörkuðum heimsins. Það tók þá 122 ár að borga skuldina. Um aldamótin 1900 fór um 80% af ráðstöfunarfé þeirra í afborgun af þessari skuld.

 

Síðan frönsku skuldinni lauk, 1947, hafa vesturveldin, alþjóðasamfélagið, haldið áfram að kúga Haítí. Skuldsetning Haítí er gífurleg. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar endurheimtum skuldanna. AGS krafðist afnáms verndartolla á hrísgrjónum og þar með flæddu bandarískt ríkisstyrkt hrísgrjón yfir Haítí. Hrísgrjónabændur á Haítí fóru þá á hausinn og landið er ekki sjálfbært með mat lengur. Atvinnuleysi er um 75%. Laun duga varla fyrir mat. Einræðisfeðgarnir Papa Doc og Baby Doc stofnuðu til 45% af skuldum Haítí og megnið lenti í einkabankabókum þeirra, með góðfúslegu leyfi alþjóðasamfélagsins. Í þessu tilfelli er alþjóðasamfélagið sammála um að skuldir sem vanhæfir stjórnendur Haítís stofnuðu til skulu greiddar af skattgreiðendum.

 

Íslendingar sem hluti alþjóðasamfélagsins, ennþá, berum ábyrgð á neyð Haítí. Við getum sjálfsagt samþykkt að við höfum ekki farið vel með Haítí. Sjálfsagt fórnarkostnaðurinn af því að vera þjóð meðal þjóða. Núna er röðin komin að Íslandi, okkur er boðið inn í sama klefa og Haítí hefur verið í frá 1825. Sömu lönd hóta okkur verslurnabanni og einangrun. Er uppgjöf valmöguleiki þrátt fyrir ofurefli, ekki ef örlög Haítís verða okkar.


Joly er nagli en hlustið samt líka eftir skröltinu í skriðdrekunum...

Joly er nagli, það er augljóst. Alltaf þegar hún talar til okkar Íslendinga finnst mér eins og hana langi til að segja eftirfarandi. Þið Íslendingar eru svo sundurþykk þjóð sem virðist ekki geta staðið saman og eltist við hagsmunaklíkur endalaust. Sjáið það sem skiptir máli. Sameinist. Þið eruð gáfum gædd, það er bara þessi einbeitti vilji að una engum neins, það sem rak okkur frá Noregi á sínum tíma. Eða við vorum rekin burt.

Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Tja...ekki beint en þó...

Ef fjórflokknum tekst ekki að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu munum við eiga þess kost að ákveða okkur sjálf, að vel athuguðu máli og vel meðvituð um ábyrgð okkar. Þ.e. upplýst ákvörðun. Það er reyndar eitur í beinum fjórflokksins. Þau vilja bara kosningar á fjögurra ára fresti, kosningaloforð sem síðan er hægt að svíkja. Þjóðaratkvæðagreiðslur á kjörtímabilinu setja þessari hegðun skorður og þau túlka það sem skerðingu á frelsi sínu til athafna, þ.e að svíkja kosningaloforð.

Ef við viljum vera þjóð meðal þjóða, þá meina ég langtum lengra aftur í tímann en tilvist Evrópusambandsins nær, verðum við að standa í lappirnar og fá okkar kosningu.

Ef við fellum lögin þá er samningsstaða okkar mun sterkari.

Samningsstaða okkar er sterk því öllum á óvart þá var þjóð gefin lýðræðislegur möguleiki á að segja skoðun sína á greiðslufyrirkomulagi lána. Lánadrottnar vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið enda er allt vitlaust eins og fólk hefur orðið vart við.

Svar lánadrottna hingað til við slíku nöldri er að senda skriðdrekana fram á völlinn.

Leggið við hlustir, skröltið leynir sér ekki og jafnvel innanlands.

Sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.

http://jazzroc.files.wordpress.com/2008/10/quislingblix1.jpg


mbl.is Joly harðorð í garð Hollendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband