Bankalandið

Það eru viss tímamót í uppsiglingu á Íslandi. Nýir kjarasamningar til þriggja ára voru samþykktir um daginn ásamt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Með þessum skjölum er kominn fram nálgun hvernig verður að búa á Íslandi á næstunni. Við skulum glugga aðeins í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Þau helstu eru að fjármálakerfið hefur verið endurreist, markmið um hjöðnun verðbólgu hafa náðst, vextir hafa lækkað umtalsvert og tekist hefur að koma jafnvægi á gengi krónunnar.“ Hér telur ríkisstjórnin upp afrek sín frá hruni. Verðbólgan hefur lækkað sökum þess að engir peningar eru í umferð og allir halda í þá með öllum tiltækum ráðum og við getum verið sammála því að vöxtum er handstýrt. Þeir þurfa að lækka mun meira ef fjármagn á Íslandi á að hætta að flatmaga á bankabókum landsmanna.  Þess vegna hefur handstýrð vaxtastjórn valdhafa stuðlað að góðri ávöxtun innistæðæðna en ekki aukið á framkvæmdir og þannig unnið bug á atvinnuleysinu. Að koma jafnvægi á gengi krónunnar er svipað og að hrósa sér af því að fangi í gæsluvarðhaldi sé til friðs. Það eina sem valdhafar haf gert frá hruni er að endurreisa bankakerfið með ærnum tilkostnaði fyrir okkur skattgreiðendur.

„Undanfarin tvö ár hafa stjórnvöld fylgt efnahagsstefnu sem tekið hefur mið af þeim áföllum sem riðu yfir íslenskt efnahagslíf haustið 2008......Brýnt er að tryggja að svo verði áfram og að framfylgt verði heildstæðri og árangursríkri áætlun í efnahagsmálum.“ Þar sem stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur fengið að finna það á eigin skinni hvernig hagstjórnin hefur verið þá vonum við svo innilega að sú stefna sem rekin er stöðvist og að ný stefna verði tekin upp. Þar er ég að vísa til atvinnuleysis, landflótta, gjaldþrot heimila og fyrirtækja, vaxandi fjölda fátækra og sveltandi einstaklinga. Samtímis horfum við upp á að bankakerfinu er bjargað og þeir auka hagnað sinn og einnig eykst rekstrarkostnaður bankanna á meðan öll önnur fyrirtæki í landinu skera sinn rekstrarkostnað niður með öllum tiltækum ráðum.

„Losun gjaldeyrishafta“ Lilja Mósesdóttir kom strax fram með tillögur um hvernig ætti að vinna á krónubréfunum en ekki var hlustað á hana en núna gerir Seðlabankinn tillögur hennar að sínum. Svolítið langur þráðurinn í sumum. Slík framkvæmd er einkennandi fyrir stjórnsýsluna okkar að hugmyndir verða að koma frá réttum innmúruðum aðilum til að teljast gildar. Þetta hefur stórskaðað almenning lengi og ekki minnst eftir hrun. En við megum ekki gleyma því að það sem skiptir stjórnmálamenn máli er að ná endurkjöri aftur og aftur og aftur...

„þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“ Mér er spurn, var það einhvern tíman möguleiki að þessir hópar fengju ekki kauphækkun eins og hinir?

„Breytingar á persónuafslætti“ Persónuafslátturinn hefur ekki breyst mikið lengi og er það fagnaðarefni að það sé komið á blað. EN.. „Ekki eru forsendur fyrir því að breyta persónuafslætti að öðru leyti þannig að það dragi úr heildartekjum ríkissjóðs vegna tekjuskatta einstaklinga á næstunni,“ Það má sem sagt ekki breyta afslættinum þannig að tekjur ríkissins minnki??

„tryggingagjaldið hækkað um 0,45% og gjald í Ábyrgðasjóð launa um 0,05% um næstu áramót með tímabundnu álagi til þriggja ára.“ Ég hélt að álögur á atvinnurekstur væri ekki til þess að auka vinnu en sennilega skil ég ekki fræðin rétt.

„Markmið sóknar í atvinnumálum er að atvinnuleysi verði ekki hærra en 4-5% af vinnuafli í lok samningstímans. Til að það markmið náist þarf að auka hagvöxt umfram horfur að óbreyttu.“ Það voru nokkrir þingmenn Vg sem andmæltu fjárlögum í desember s.l. á þeirri forsendu að hagvaxtaspár væru ekki líklegar að ganga eftir. Þessi orð virðast að nokkru leiti staðfesta ótta þeirra. Ríkisstjórnin ætlar sér að breyta hagvexti, þ.e. að auka hann. Það má skilgreina þörfina fyrir hagvöxt að mestu sem kostnað þjóðfélagsins af vöxtum. Í raun ættum við að getað lifað á jafn miklum tekjum í ár eins og í fyrra sérstaklega þar sem okkur fækkar á milli ára. Það sem liggur beinast við á Íslandi í dag er að draga sparifé úr bönkum og inn í atvinnulífið. Hitt sem er borðleggjandi er að við eigum að veiða mun meiri fisk. Vandamálið eru skuldir sjávarútvegsins hjá bönkunum þannig að arðurinn endar í hvelfingum bankanna en ekki hjá þjóðinni.

„Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar.“ Bein erlend fjárfesting eða „Foreign Direct Investments „ hefur ekki alltaf verið happadrjúg fyrir lönd sem þiggja slíkar heimsóknir. Nefnt hefur verið að stórfyrirtæki nýti sér neyð landa til að gera hagstæða samninga. Meðan íslenska krónan veikist stöðugt fá þeir stöðugt meira fyrir sína fjárfestingu og þess vegna liggur þeim ekki mikið á. Ef þeir fjármunir sem eru til í landinu nú þegar, t.d. lífeyrissjóðirnir eða krónubréf, eru notuð verður ekki um neytt nýtt fjármagn að ræða. Reynslan frá Kárhnjúkum er dæmigerð fyrir FDI að vinnuafl er oft flutt inn til að halda kostnaði niðri. Það sem einkennir þó FDI er að slík fjárfesting er ekki orsök uppsveiflu heldur kemur fjárfestingin þegar allt er komið á góðan snúning í viðkomandi landi. Að ætla sér að fjárfesta í landi sem á ekki einu sinni fyrir vöxtunum af skuldunum sínum er ekki harla líklegt.

„Bókun um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum“ Fyrst á að leggja fram frumvarp sem fer í fyrstu umræðu á Alþingi. Að því loknu munu fjórir einstaklingar meta áhrif frumvarpsins á sjávarútveginn. Spurningin er hvort þessi fjögurra manna hópur hafi meiri völd en Alþingi, til hvers að eyða tíma Alþingis í fyrstu umræðu? Grunsemdir eru um að hér verði farið eins að og þegar örlög skuldugra lántakenda voru ákveðin haustið 2010. Þá settu lánastofnanir leikreglurnar. Skuldir sjávarútvegsins hjá bönkunum mun vera stærsti einstaki þátturinn í afgreiðslu kvótamálsins í höndum núverandi valdhafa.

Hvergi er minnst á að samkvæmt áætlun AGS á að skera niður um 50 milljarða á næsta ári í ríkisfjármálum.

Að lokum þá finnst mér að höfundar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefðu átta að telja saman alla þá starfshópa sem á að stofna samkvæmt þessu skjali. Sá mannskapur sem þarf í alla þær nefndir mun sennilega minnka atvinnuleysi um prósentustig eða svo.

Því miður verðu að segjast eins og er að þessi tímamótaatburður mun ekki auka vilja Íslendinga til að búa á Íslandi. Áfram mun atvinnuleysi halda áfram að minnka á Íslandi sökum brottfluttra Íslendinga. Það kom einnig fram á fundi sem ég átti með AGS á sínum tíma að það væri bara gott og blessað og greinilegt að ríkisstjórnin hefur tileinkað sér flest allt hjá AGS.

Hversu mörgum þarf að sturta niður þangað til að þjóðin skilur að okkar örlög eru að óbreyttu klóakið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Gunnar Skúli; jafnan !

Þakka þér fyrir; afar glögga yfirsýn, á hina raunverulegu stöðu mála.

Bæta vildi ég þó við; að með stórauknum fiskveiðum - mætti reisa (eða taka í notkun húsnæði, sem fyrir er; víðsvegar) fjölda fullvinnzlu iðjuvera, fyrir sjávar fang, jafnframt landbúnaðar afurðum.

Þarf ekki; að lýsa fyrir þér, aukinheldur, þeirri gnótt ræktarlands, eins og hér heima á Suðurlandi - jafnframt Vesturlandi, sem fyrir norðan og austan, í þágu Korn- og Repju ræktunarinnar.

En; það byggist náttúrulega á því, að við mokum ofan af okkur, því dauðyfla stjórnarfari, sem öllu er að koma, á hina verstu vegu.

Með beztu kveðjum; sem áður og fyrri, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.5.2011 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband