Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Bréf frá Gunnari Tómassyni um núverandi gjaldþrot Íslands.

Ágætu bloggvinir, fékk sendan tölvupóst sem Gunnar Tómasson hagfræðingur sendi upp á Íslands strendur. Gunnar hefur verið mjög gagnrýninn á að stjórnvöld hafa þverskallast við að horfast í augu við vandann og hagað sér að hætti okkar 2007.

Í þessu bréfi tjáir einn virtasti hagfræðingur Bandaríkjanna sig um stöðu Íslands. Hann segir blákalt að við séum gjaldþrota. Þrátt fyrir að allar helstu fréttastofur landsins hafi fengið bréfið frá Gunnari s.l nótt sjá þau enga ástæðu til að fræða okkur almenning um það. Þetta kallast þöggun og stríðir gegn upplýstri umræðu sem er almenningi nauðsynleg. Hverjum gagnast þessi þöggun?

Hér er bréf Gunnars;

 

Ágætu alþingismenn.
Í fyrradag spurði ég James Galbraith, einn virtasta hagfræðing Bandaríkjanna, um álit hans á því mati AGS (sjá IMF Survey 21. október sl.) að erlend skuldsetning Íslands að jafngildi 310% af vergri landsframleiðslu væri þjóðarbúinu ekki ofviða.
Galbraith svaraði um hæl (í minni þýðingu; enskur texti að neðan):
„Það segir sig sjálft: það er fáránlegt að ímynda sér að Ísland eða eitthvað annað land geti tekið á sig gjaldeyrisskuldir sem jafngilda 300 eða 400 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) og forðast greiðsluþrot.  Ef skuldir væru 400 prósent og vextir aðeins þrjú prósent þyrfti afgangur á viðskiptajöfnuði og hliðstæður samdráttur innlendrar neyzlu að vera 12 prósent af VLF án nokkurrar greiðslu af höfuðstól.  En auðvitað myndi enginn vilja eiga lágvaxta íslenzk skuldabréf vegna áhættunnar á vanskilum.

Ef stjórnvöld reyndu að axla slíka skuldabyrði myndu vinnufærir einstaklingar flytja af landi brott.  Útkoman yrði lýðfræðileg eyðilegging Íslands að viðbættu greiðsluþroti.  Staðan er því ekki síður alvarleg en sú sem kom upp vegna stríðsskaðabóta í Versalasamningnum eða Morgenthau áætluninni fyrir Þýzkaland 1945.  Samningurinn leiddi til óðaverðbólgu en áætlunin var ekki lögð til hliðar fyrr en ljóst varð að hún myndi leiða til brottflutnings eða útrýmingar mikils hluta þjóðarinnar sem lifði af stríðið.

Eins er það augljós skrípaleikur að leggja slíka skuldabyrði á litla þjóð, fyrst með svikum og síðan með hótunum.

Eins og málum er háttað er það siðferðileg skylda Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu að sækja svikahrappana til saka eftir því sem landslög leyfa.  Hitt er fyrir stjórnvöld erlendra ríkja, sem brugðust skyldum sínum við bankaeftirlit, að ákveða hvernig deila skuli tapinu sem af því hlaust milli reikningshafa og skattborgara sinna.

Þér er heimilt að koma þessum skoðunum mínum á framfæri við aðra.”
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur


Davíð, landráð og endurheimt fullveldis Íslands

Þá mun Davíð okkar Oddsson koma til starfa á ný, sem ritstjóri Morgunblaðsins ef einhver skyldi hafa misst af því. Það er ekki laust við blendnar tilfinningar. Þar sem ég er karlkyns og frekar praktískur í eðli mínu hafa hugsanir mínar snúist mest um þá hugsanlegu gagnsemi sem má hafa af DO sem ritstjóra. Hugsa sér má að hollusta við kvótaeigendur og andstaða við Evrópusambandið muni verða ráðandi. Við vitum þetta svo sem og ekki óvænt. Því mun Mogginn verða lesinn eins og við lásum flokksblöðin í denn, þ.e. með sérstökum gleraugum. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera ókostur því í raun eigum við aldrei að lesa nokkuð gagnrýnislaust.

Ég tel þó ábyrgð Davíðs vera gríðarlega mikla. Ísland berst nú fyrir tilveru sinni. Stór hluti heimila og fyrirtækja landsins er á barmi gjaldþrots. Bankar og orkufyrirtæki eru að hverfa úr eigu okkar í hendur erlendra aðila. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur uppi stýrivöxtum sem setur fyrirtækin í þrot, hann smyr landið með óborganlegum skuldum sem mun færa allt vald frá Reykjavík til Washington og skylda okkur til að selja auðlindir okkar erlendum aðilum á tombóluprísum.

Því er það stóra spurningin hvort Davíð muni taka þátt í landvörnum Íslands sem sannur sjálfstæðismaður eða skemmta skrattanum með því að ná sér niður á fornum fjendum. Tækifæri Davíðs til að reka óværur af landi brott er einstakt, að misnota slíkt er nánast landráð. Við ætlumst til þess að hver maður geri skyldu sína, ef ekki, þá verður það aldrei fyrirgefið.


Vangaveltur um getu Svínaflensunnar í að heltaka heila fréttamanna.


Blaðamenn.

Það var viðtal við útlending í Kastljósinu í vikunni. Hann ræddi um mistök blaðamanna í aðdraganda og í kjölfar hrunsins í haust. Þessi mistök voru ekki á neinn hátt einskorðuð við Ísland. Það virðist vera um alþjóðlegt vandamál að ræða. Mistökin felast í því að stunda ekki heiðarlega og nákvæma blaðamennsku. Skýringanna var að leita í ýmsu. Meðvirkni, því allir voru á eyðslutrippi og þar með blaðamennirnir líka. Menn vildu ekki rugga bátnum því það gæti komið eigendum miðlanna illa og þar með blaðamannanna. Allt mjög skiljanlegt og í takt við mannlegt eðli.

Því miður virðist sem blaðamenn hafi ekki lært mikið af mistökum sínum. Kannski er óttinn við atvinnuleysið sem heldur þeim niðri. Er sparnaður í kjölfar kreppunnar sem kemur niðurá góðri blaðamennsku? Hvað um það. Það skortir mikið á góða blaðamennsku enn í dag. Það sem við viljum sjá eru blaðamenn sem kafa vel og grafa upp staðreyndir. Staðreyndir sem eiga erindi við alþjóð en einhverjir vilja halda leyndu fyrir okkur. Það væri góð tilbreyting ef blaðamenn skúbbuðu meira í stað þess að flytja eingöngu fréttir af liðnum atburðum. 


Íslenskir blaðamenn!?

Hvað er hægt að gera til að bjarga íslenskum blaðamönnum frá glötun? Hvernig geta þeir eytt hálfum fréttatímum í að spyrja parið hvort og hvenær þau verða búin að mynda stjórn. Hvort og hvernig þau muni semja um ESB. Til að spara tíma okkar landsmanna er mun æskilegra að blaðamennirnir bíði bara eftir tölvupósti frá Jóhönnu þegar niðurstaða er komin í málið. Það vita allir að þau svara aldrei neinu sem skiptir máli fyrr. Ég verð að hrósa Kastljósinu að fjalla ekki þráðbeint um málið hjá hjónaleysunum.

Mikið væri nú gott fyrir íslenska þjóð að blaðamenn myndu fá botn í skuldir okkar Íslendinga. Virkilega sökkva sér í góða rannsóknarblaðamennsku. Reikna síðan út hægstæðustu aðferðina til að greiða skuldirnar. Hvernig við komumst hjá því að frysta allt atvinnulíf á Íslandi meðan við greiðum skuldirnar. Væri það ekki munur-ha? Hætta þessu djöf... dægurþrasi.

http://tyrfingsson.files.wordpress.com/2008/04/oretrucka.jpg


Borgarafundur RÚV-"ég er mættur"

Mikið var gaman að fylgjast með borgarafundi í beinni á RUV. Spillingarmál gömlu flokkanna voru gerð full ítarleg skil. Meiri tími hefði mátt fara í mistök fyrri ríkisstjórna og stefnu flokkanna til framtíðar. Þegar kemur að greiðslum til flokkanna og frambjóðenda er málið einfalt í mínum huga. Ég styrki ekki nokkurn mann með 2 milljónum án þess að ætlast til greiða á móti, það er bara þannig.

Aftur að þættinum. Sturla, minn maður, var lang bestur. Stulli var lang ferskastur og með bestu tilsvörin. Auk þess alvarlegur og í sömu stöðu og margir aðrir atvinnulausir. Hann þekkir það á sínu eigin skinni hvað það er að vera atvinnulaus og gjaldþrota. Því er hann hæfastur til að leysa vandamál einstaklinga í slíkri stöðu. Allar þær hugmyndir sem hann hefur að nýsköpun munu fara langleiðina að leysa atvinnuleysið. Að mínu mati eru það stór mistök ef Stulli kemst ekki á þing.

http://www.raggim.is/stulli.jpg


Skrítin skepna þetta frelsi.

Ég var að velta fyrir mér frelsinu í dag. Ríkisrekstur og frelsi eru oft sett upp sem andstæður. Þessar hugsanir hófust í höfði mínu þegar ég reyndi að fara frá einni útvarpsstöð til annarrar til að losna undan auglýsingum. Hérna í gamla daga var bara ein útvarpsstöð og við greiddum fyrir það með afnotagjöldum. Síðan kom frelsið. Þá kom fullt af nýjum útvarpsstöðvum. Samkvæmt kenningum frelsissinna þá áttu þær að vera miklu betur reknar og allt að því ókeypis.

Þá koma þessar auglýsingar aftur upp í hugann. Auglýsingar eru afnotagjöld útvarpsstöðva. Auglýsingar kosta peninga. Sá kostnaður er greiddur af almennum neytendum. Hvers á heyrnalaus maður að gjalda, hvert er frelsi hans?

Sá maður sem hlustar ekki á útvarp, sá sem vill ekki hlusta á útvarp þurfti bara að að borga fyrir eina útvarpsstöð gegn vilja sínum í gamla daga. Í dag þarf slíkur maður að borga afnotagjöld af mörgum útvarpsstöðum þegar hann verslar inn. Það er skrítin skepna þetta frelsi.


Búsáhaldabylting númer tvö??

Það er verið að auglýsa á netinu mótmæli á morgun kl. 18. Fyrirhugað er að mæta fyrir utan Alþingishúsið og berja búsáhöld. Þetta er gert til að mótmæla málæði Sjálfstæðismanna. Þrástaða þeirra í ræðustóli Alþingis kemur í veg fyrir að önnur mál komist að. Þeir vilja ekki stjórnlagaþing né þjóðaratkvæðagreiðslur. Þeim er greinilega í nöp við valddreifingu. Ætli maður skelli sér bara ekki í bæinn.

Fréttamat RÚV.

Nú er SPRON og fleiri fjármálafyrirtæki komin á hausinn. Sennilega mun fjöldi manns missa vinnu sína. Ráðherrann var einn fyrir svörum í sjónvarpsfréttunum. Hann tjáði okkur að SPRON hefði verið byrjaður að tapa fyrir kreppu og síðan enn meira eftir kreppu. Fréttastofa sjónvarpsins fann enga þörf hjá sér til að greina vandamálið neitt frekar. Ekki ver rætt við neinn hjá SPRON. Ekki ver rætt við skuldunauta SPRON og hvers vegna þeir gátu ekki gefið sparisjóðnum grið. Ekki einu sinni hverjum SPRON skuldar svona mikla peninga. Ekki heldur rætt við neinn sem hugsanlega mun missa vinnuna.

Aftur á móti var löng og ýtarleg frétt um líkfund í nágrenni Reykjavíkur. Þar voru ýmsir teknir tali sem komu að þeim fundi og hvernig leitin var uppbyggð og skipulögð. Að öllum líkindum er um að ræða mjög sorglegan atburð, fráfall konu á besta aldri-móður. Að fréttastofa sjónvarpsins sé að velta sér upp úr persónulegum sorgum meðborgara minna finnst mér ósmekklegt og skammarlegt. Að skora keilur á þennan hátt á ekki að þekkjast. Mun nauðsynlegra er að greina til mergjar hvers vegna blómleg fyrirtæki okkar fara á hausinn hvert af öðru. Þeir sem vilja velta sér upp úr persónulegri óhamingju annarra geta lesið Se og hör.


Geiri glópal og hauspokinn.

Skoðunarkönnun dagsins þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sækir á er með ólíkindum. Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn leiði næstu ríkisstjórn. Er nokkuð hægt að fjasast út í það ef fólk vill hafa það þannig. Samt nokkuð merkilegt sökum þess að Sjálfstæðisflokkurinn ber fyrst og síðast ábyrgð á stjórn landsins síðastliðin 18 ár. Síðan getur maður ekki einu sinni flutt frá landinu sökum óseljanlegra eigna. Því er maður fangi Sjálfstæðisflokksins,"untill death do us apart" Þetta hljómar ekki vel.

Erlendis opnar enginn seðlaveskið fyrir okkur fyrr en Oddsson er kominn úr Seðlabankanum. Við erum álitin bananalýðveldi því enginn hefur sagt af sér og Haarde brosir á BBC og segist ekki vera neitt sorry. Meðan þetta hrjáir okkur þá snyrta þeir hjá sér neglurnar í efnahagsbrotadeildinni því það er ekkert hjá þeim að gera, Baugsmálið búið svo fátt er að fást við. Krónan er föst og einskis virði. Skuldasúpa Sjálfstæðisflokksins dugar okkur í 1-200 ár. Flest öll fyrirtæki landsins gjaldþrota. Atvinnuleysi eykst með hraða ljóssins. Þingmenn fara með gamanmál úr ræðustól alþingis og Sjálfstæðismenn gera allt sem í þeirra valdi er til að trufla störf minnihlutastjórnar Jóhönnu. Svo ætlar fólk að kjósa þá aftur. Er ég eitthvað bilaður, hef ég misskilið eitthvað. Af hverju er ég með aulahroll. Á ég bara ekki að sætta mig við þetta, ég hlýt að vera minnihlutahópur. Það er samt að þvælast fyrir mér hvers vegna mér finnst ég samt þurfa hauspoka ef ég fer erlendis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband