10.10.2008 | 22:15
Krónan okkar er orðin latína.
Ef, ef, ef við bara hefðum gert þetta eða hitt þá væri allt í stakasta lagi. Á bloggsíðu Egils kemur fram að breskur fræðimaður vann skýrslu fyrir Landsbankann og kynnti fyrir þeim, mönnum úr Seðlabankanum og Fjármálaráðuneytinu s.l. sumar. Hann spáði fyrir um það sem við höfum upplifað þessa vikuna. Nokkrir vinnufélagar mínir hafa margoft rætt möguleikann á þeirri stöðu sem upp er komin í að minnsta kosti hálft ár. Því virðist sem almenningur og fræðimenn hafi gert sér fulla grein fyrir hvað gæti gerst. Því miður höfðu þessir aðilar engin völd til að rétta kúrsinn á skútunni.
Ég hef örlítinn skilning á spennufíkn bankamannanna, reyndar í dag er samúðin ekki upp á marga fiska. Ábyrgð þeirra er mjög mikil. Bretinn sem Egill vitnar í gaf tvær leiðir s.l. sumar. Halda krónunni og flytja bankana út eða taka upp evru og halda bönkunum innanlands. Að halda bæði krónunni og bönkunum var andvana fædd hugmynd. Hvaða grunnskólakrakki sem er sér það í hendi sér að bankakerfi sem skuldar 12 faldar þjóðartekjur getur ekki staðið í skilum.
Ef bankarnir hefðu flutt sig um set hefðu þeir lifað af og íslenska ríkið ekki lent í þessum hremmingum. Þá hefði íslenska ríkið misst af góðum tekjum ef bankarnir hefðu flutt sig erlendis. Davíð vildi ekki evruna og við að sat. Hann vildi ekki einu sinni baktryggja bankann með nægjanlegum varasjóði gjaldeyris því í dag getum við bara keypt inn lífsnauðsynjar frá útlöndum. Í dag eru bankarnir okkar rjúkandi rústir og fjöldi einstaklinga atvinnulaus. En við eigum þó krónuna okkar. Hún er reyndar komin á bás með Latínunni, hún er til en það notar bara hana enginn lengur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ljóð, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.