18.3.2008 | 22:49
Frelsi hér og frelsi þar og Múhameð.
Frelsi er mikilvægt. Nú ætlum við Íslendingar að birta myndir af spámanninum Múhameð. Um er að ræða fræðigrein um spámanninn og er myndin viðbót við þá grein. Múslímar eru ekki sáttir. Samkvæmt þeirra trú má ekki birta neina mynd, hvorki grínmynd né venjulega mynd af spámanninum Múhameð. Að birta mynd af Múhameð særir múslima.
Ég var svolítið að velta þessu fyrir mér. Við vesturlandabúar viljum birta myndir af Múhameð. Við teljum okkur geta gert það sökum frelsis, tjáningarfrelsis. Frelsi er gott og mikilvægt. Við sem aðhyllumst frelsi vitum að það eru samt til aðstæður sem takmarka frelsi til frelsisiðkunar. Ef frelsi veldur skaða þá ber að setja takmarkanir á frelsið.
Ef frelsi okkar vesturlandabúa til að birta myndir af Múhameð veldur skaða og sorg í hjörtum múslima er þá ekki komin ástæða til að hugsa sig að minnsta kosti tvisvar um. Ofsafengin viðbrögð múslima vegna fyrri myndbirtinga á Múhameð eru þeim ekki til sóma. Sennilega eru þau mun frekar í ætt við pólitík en trú. Öll trúarbrögð hafa einhvern tíman iðkað pólitík.
Ég er mjög vilhallur hugsjónum frelsisins. Á sama tíma er ég alinn upp í kristnu þjóðfélagi. Ég finn engar andstæður í því. "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið þeim og gjöra." Þannig hljómar boðskapurinn í Biblíunni. Því kemst ég að þeirri niðurstöðu, bæði út frá trú minni í pólitík og í andlegum efnum að ég hefði sleppt því að birta þessa mynd af Múhameð. Sá gjörningur minn hefði veitt mér gleði og sátt í sinni. Bæði vegna þess að ég hefði haft hugrekki til að takmarka mitt eigið frelsi öðrum mönnum til framdráttar og ég hefði reynt að uppfylla stóra kærleiksboðorðið sem kristin trú á að snúast um. Mér fyndist ég meiri maður fyrir vikið.
Væru ekki múslímar þá að kúga mig? Mér finnst það ekki kúgun að sleppa mynd ef það veldur gleði margra. Tæplega veldur myndleysið mikilli sorg. Er ekki sælla að gefa en að þiggja? Er hugsanavilla í hugum okkar vesturlandabúa? Túlkum við frelsi sem réttinn; ég má, ég á. Kallaðist það ekki nýlendustefna hér áður fyrr?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Menning og listir, Trúmál og siðferði, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hjartanlega sammála.
Friðarkveðjur.
Aida., 18.3.2008 kl. 22:56
Góður punktur, sammála
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 18.3.2008 kl. 23:59
Ég get í sjálfu sé alveg verið sammála þessu. Hins vegar finnst mér við ganga allt of langt í því að breyta okkar siðum og laga að kröfum múslima, eins og til dæmis að hætta að bjóða svínakjöt í skólamötuneytum. Við þurfum að gæta að sjálfstæði okkar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.3.2008 kl. 08:43
Ég er þér alveg sammála. Það er einmitt í anda okkar trúarbragða og gildismats að sýna öðrum umburðarlyndi, skilning og virðingu. Það skaðar ekki okkar sjálfstæði þótt við látum það eiga sig að misvirða önnur trúarbrögð, eða jafnvel bjóða þeim mat sem þeir geta etið.
Ásthildur; Spurning: Segjum sem svo að siður væri að bjóða stundum hundakjöt í skólamötuneytum í Kína. Af tilliti til barna af öðrum uppruna en kínverskum væri svo einn daginn ákveðið að hætta að bjóða hundakjöt í skólamötuneytum, til þess að maturinn þar væri öllum notendum þeirra boðlegur. Fyndist þér að kínverjar væru með því að afsala sér sjálfstæði sínu eða væru þeir að sýna siðmenntað og gestrisið framferði?
Jonni, 19.3.2008 kl. 11:33
Sæll Skúli.
Ég er þér sammála.
Upphaflega bannaði Múhameð myndgerð af sér til að forðast persónudýrkun og sem mótvægi við landlæga skurðgoðadýrkun. Afmælisdagahald var bannað af sömu ástæðu, eða til að forðast sjálflægni og sjálfsdýrkun. Seinna urðu þessi boð einnig til að árétta mismuninn á afstöðu Múslíma til þess sem gat talist heilagt og afstöðu kristinna sem fylltu kirkjur sínar af myndum og styttum af Jesús, Maríu, Móses og dýrlingum. Lúter tók á þessum málum að lokum en kaþólikkar halda sinn enn við sín líkön, þrátt fyrir bann við slíku í GT. -
Það sem mér finnst einkennilegast við afstöðu margra vesturlandabúa er að þegar þeir koma augliti til auglitis við trúarsiði og hefðir múslíma, eru þeir að mörgu leiti að stara á eigin siðmenningu eins og hún var fyrir rétt um 1000 árum. Við teljum okkur nú vera að mörgu leiti laus undan oki fáfræði og hjátrúar og það er rétt. Samtímis höfum við líka glatað ýmsum þeim gildum sem mundu gagnast okkur ágætlega ennþá ef við héldum þeim til haga ásamt því að vera upplýst. Sjálfsdýrkun og sjálflægni eru meðal þeirra gilda.
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.3.2008 kl. 17:25
Sjálfsleysi og hógværð eru meðal þeirra gilda, átti þetta að vera :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.3.2008 kl. 17:27
Og svo má benda á til skemmtunar, og líka vegna þess að margir eru svo hallir undir lögmálið meðal oss krisinna, að samkvæmt lögmálinu er bannað að gera nokkrar myndir eða líkneskjur. Þeir sem fylgjandi eru lögmálinu eru því sammála Islam:
Önnur bók Móse 20:4 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.
Þríðja bók Móse 5:8 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðunni.
Það er að vísu svo, af einhverjum ástæðum, að lögmálsdýrkendur meðal okkar þykjast geta valið og hafnað fyrir sig og okkur hin. Sumt í lögmálinu vilja þeir að gildi og standi um alla eilífð og öðru hafna þeir. Allt eftir sínum hentugleik. Það er þeirra mál, ef þeir velja að lifa undir lögmálinu, en velja svo og hafna og brjóta með því gegn öllu lögmálinu!
Auðun Gíslason, 19.3.2008 kl. 17:35
Reyndar er ég alveg sammála því að óþörf er þessi myndbirting. Ágætis ábending hjá Svani. Ég held nefnilega að athyglisþörf ritstjóra tímaritsins ráði miklu um ákvörðun hans!
Auðun Gíslason, 19.3.2008 kl. 17:39
Takk fyrir athugasemdirnar öll. Svanur og Auðun, mjög fróðleg innlegg. Ég var búinn að gleyma þessum versum úr Mósebókum, enda bara tæp 40 ár síðan ég las Gamla Testamentið. Sannast ekki hér hið fornkveðna;
"Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum"
Gunnar Skúli Ármannsson, 19.3.2008 kl. 18:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.