Kunna Íslendingar að prútta?

Það er merkileg niðurstaða að verðlag hefur ekki lækkað eins og til stóð. Þrátt fyrir lækkun á opinberum álögum hefur það ekki gengið eftir. Krónan er aldrei sterkari, ég meina gjaldmiðillinn ekki verslunin, því ætti verð í verslunum að lækka. Samt hækkar það, merkilegt.

Það eru gömul sannindi að vara selst meðan viljugur kaupandi er af henni. Verðlagið er alltaf eins hátt og nokkur kostur er, meðan varan selst er verðið ekki lækkað, annað væri hrein heimska. Ef ég væri kaupmaður myndi ég alltaf selja vöru eins dýrt og ég gæti, það er bara þannig í viðskiptum.

Svo rekur fólk í rogastans að verðlag hafi ekki lækkað eins og það gerði sér vonir um. Eðli viðskipta er ekki á þeim lögmálum byggt að kaupmenn lækki vöruverð vegna óskhyggju okkar kaupenda. Eðli viðskipta er prútt og ekkert annað. Meðan við kaupum lækkar ekki verðið. Ef við hættum að kaupa þá lækkar verðið.

Vandamálið er kaupgleði okkar Íslendinga og skortur á verðskyni. Auk þess er um nauðsynjavörur og þær vörur verðum við alltaf að kaupa hvort sem okkur líkar betur eða verr. 

Þegar þannig er í pottinn búið hafa söluaðilar mikla tilhneigingu til að stilla saman strengi. Það má glögglega sjá í sölu á bensíni og olíu sem allir þurfa á að halda. Þessi auramunur í smásölu er engin samkeppni, bara sýndarmennska. Raunveruleg samkeppni gengur út á að slátra samkeppnisaðilanum eða deyja sjálfur. Íslendingar eru langt frá því að upplifa slíkt því við bara kaupum og kaupum eins og okkur sé borgað fyrir það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband