Færsluflokkur: Matur og drykkur

Núna er ég ekki lengur "Kommúnistadrullusokkur" heldur....

Viðbrögð Evrópusinna við hugsanlegri neitun forseta á Icesave-II lögunum vekur upp gamlar minningar. Ég batt vonir við að búsáhaldabyltingin hefði urðað slíkan þankagang.

Þannig var það að eftir hrun tók ég virkan þátt í grasrótarstarfinu. Mætti á Austurvöll, vann með Opnum Borgarafundi, Lýðveldisbyltingunni, tók þátt í stofnun Borgarahreyfingarinnar ofl ofl. Þá kölluðu þáverandi stjórnarsinnar mig, skríl, útsendara VG og síðan var það toppað með því að ég væri ekki þjóðin. Skárra er þá að vera kommúnistadrullusokkur, mun meira lýsandi og fúnktíónelt hugtak. Þið skiljið hvað ég á við, ég var drullusokkurinn sem losaði um stífluna þannig að kommúnisminn flæddi óhindrað.

Er orðspor mitt betra í dag?

Núna míg ég utan í Sjálfstæðisflokkinn, er gengilbeina hans eða ég hef selt sálu mína Framsóknarflokknum. Allt vegna þess að ég vil ekki samþykkja Icesave-II og mætti á Bessastaði. Ég er semsagt íhaldsdrullusokkur og voðinn er vís.

Þeir flokkar sem ég hef kosið hingað til hafa aldrei lent í ríkisstjórn að loknum kosningum. Sá síðasti sem ég kaus þurrkaðist út. Því ber ég að enga ábyrgð, samkvæmt viðtekinni skilgreiningu, á öllu sem gerst hefur á Íslandi.

Það er mér nokkuð þungbært að fá ekki að vera þjóðin, hversu oft sem við skiptum um ríkisstjórn. Það er erfitt að vera gegnsýrður skítlegu eðli að mati stjórnvalda á hverjum tíma. 

Byltingin breytti þessu ekki enda át byltingin börnin sín sem kalla mig í dag "ekki þjóðin". Þess vegna næ ég sennilega ekki þessum frasa að vera þjóð á meðal þjóða. Hvað veldur, að þeir sem voru ekki þjóðin með mér í fyrra, skilja þetta svona vel í dag og virðast vera þjóðin í dag.

http://decker.typepad.com/photos/uncategorized/2007/04/10/plumber.jpg

 

 

 


mbl.is Segir forsetann taka undarlegan pól í hæðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig nýtir maður þorskhausa?

Kosningabaráttan hófst í sjónvarpinu í kvöld. Að sjálfsögðu fannst mér minn maður flottastur, þ.e. Addi Kiddi frá Frjálslynda flokknum. Bjarni Ben og Sigmundur voru ekki neinar stjörnur. Tengdamamma sem horfði á þetta með mér skaut því að að feður þeirra tveggja ættu N1 saman. Silvurskeiðastrákar í pólitík. Greinilegt var á málfari þeirra að þeir hafa ekki í saltan sjó migið um langa hríð ef nokkurn tíman. Þeir gera sér enga grein fyrir hvað fólk er að berjast við. Þeir vilja álver þegar enginn vill kaupa ál. Halda þeir að vel menntaðir viðskiptafræðingar sem hafa misst vinnuna hjá bönkunum vilji endilega bræða ál. Þeir eru ekki í sambandi þessir guttar.

Guðjón vill veiða meiri fisk og er það fljótlegasta leiðin til að afla þjóðinni gjaldeyris. Við höfum allt til alls. Við þurfum bara leyfi til að veiða meira, fiskurinn bíður eftir að breytast í gjaldeyri. Sjálfdauður fiskur á hafsbotni gerir engum gagn.

http://www.sams.ac.uk/sams-news/Media%20releases/Members/aham/COD.jpg


Hvað gerum við nú?

Fékk útreikning frá Lífeyrissjóðnum mínum í dag. Gerðum ráð fyrir 15% verðbólgu. Liðlega tuttugu milljónir eru orðnar rúmlega fjörutíu milljónir 2014, þ.e. eftir bara fimm ár. Miðað við þetta verð ég orðinn eignalaus maður árið 2014. Þessi fórn mín vegna bankahrunsins bætist ofaná allar skuldirnar sem við Íslendingar erum að taka á okkur. Ég á ekki að vera að kvarta, það eru margir í þessari stöðu í dag. Mitt dæmi bendir þó til þess að mjög margir verði komnir í algjör þrot eftir nokkur ár. Hækkun á bensíni og áfengi eykur enn á vandann, en það var samþykkt í gærkvöldi á Alþingi.

Verkalýðsforustan segir að það sé ekki sitt hlutverk að taka pólitíska afstöðu til málanna!! Það er eins og allir séu sammála um það að valta yfir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það er eins og það sé stjórnvöldum ofviða að finna sanngirni í stöðunni. Þau geta ekki einu sinni sett á hátekjuskatt þeirra sem þó gefa upp réttar tekjur. Ég hefði verið sáttur við að lenda í slíkum skatti miðað við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu.

Hvernig er staðan hjá okkur núna? Það eru ekki kosningar í vændum því stjórnarflokkarnir hafa ekki hug á því og meðan þeir sammælast um að halda stjórnmálasamstarfinu áfram, verða engar kosningar. Jafnvel þó að Sjálfstæðismenn gefi skít í Evrópusambandið mun Samfylkingin liggja utan í þeim því aðrir flokkar ætla ekki inn í EU. Verkalýðsforustan ætlar ekki að taka afstöðu, bara að jarma, því hún er sammála Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að láta þá sem minna mega sín borga kreppuna og Samfylkingin ætlar að ganga inn í EU. Niðurstaðan er sú sama. Við borgum alltaf að lokum, eða hvað? 

Spurningin er hvort maður eigi að skrá sig í VinstriGræna eða flytja bara til útlanda og gleyma því að maður hafi verið Íslendingur.

http://www.gayecameron.com.au/images/Dominos%2002.jpg


Er STRÚTA lýðræðinu lokið?-Burt með spillingaliðið.

Vel heppnaður mótmælafundur. Við getum verið þakklát fyrir þá einstaklinga sem standa að þessum fundum. Hörður Torfa að sjálfsögðu alveg sérstaklega. Góðar ræður sem þakka ber fyrir. Það er nefnilega ekki gefið að fólk leggi allt þetta á sig og ekki sjálfsagt. Borgara-legt lýðræði krefst virkni ef það á að skila árangri. Hitt lýðræðið að kjósa á 4 ára fresti og stinga hausnum svo í sandinn hefur gefist frekar illa. Það má kalla það lýðræði STRÚTA. Núna erum við strútarnir að umbreytast. Hvar sú umbreyting endar eða ber oss er óljóst en umfram allt mjög spennandi. Nokkuð er það víst að hausunum sem enn eru á kafi í sandinum hefur fækkað. Mjög ósennilegt að við stingum þeim þangað aftur, í því felst mikil breyting.

http://www.hedweb.com/animimag/ostrich-hotlinks.jpg


mbl.is Þúsundir mótmæla á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásmundur.

Það er þetta með einstaklingsframtakið. Það getur verið á stundum svolítið fallvalt. Tökum sem dæmi. Marteinn Lúter stóð upp og sagðist ekki geta neitt annað. Jón Sigurðsson stóð upp og sagðist mótmæla í kór þó hann væri einradda þá. Núna er einhver kvótalaus trillukarl sem heitir Ásmundur að veiða fisk úr sjó án leyfis. Allt ætlar um koll að keyra, þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir karli eins og hann sé í bráðri lífshættu.

Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindunni. Að minnsta kosti er Ásmundur að reyna að draga björg í bú, það er meira en hægt er að segja um Ríkisstjórn Íslands. 


GESTIR OG "TÚRISTANIÐURGANGUR".

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera gestkomandi á framandi slóðum. Í mínu tilfelli virðist meltingarvegurinn hafa fengið óvelkomna gesti. Síðan í morgun hef ég einbeitt mér að losa mig við þá, endurtekið. Í sjálfu sér get ég lítið gert til að hindra að þetta gerist. Þegar slík padda kemst í gegnum allar varnir mínar og kemst alla leið í meltingarveginn minn þá fer í gang sjálfvirkt ferli sem sér um að tæma görnina og paddan fer burt þannig. Í sjálfu sér eru þessir gestir ekki sérstaklega hættulegir í sjálfu sér. Veikindi mín stafa mun frekar af ofsafengnum viðbrögðum líkama míns sem byggja á þeirri hugmyndafræði að allir framandi gestir séu mér hættulegir. Meltingarvegur mannsins er talinn frekar vanþróaður því hann er þróunarlega gamalt fyrirbæri.

Því er það ákaflega sorglegt þegar Útlendingastofnun Íslands og Dómsmálaráðherra haga sér eins og frumstæð görn og fá bullandi niðurgang þegar gestir eru ekki alveg þeim að skapi.

Ferlega "primitíft" enda er öll æðri hugsun ekki í þörmunum okkar. 

 

 


Sjómannadagurinn.

Það er sjómannadagurinn í dag. Mikill merkisdagur. Ég vil óska öllum sjómönnum innilega til hamingju með daginn. Einnig mökum og fjölskyldum. Þessi dagur skipar stóran sess í mínu lífi. Ekki það að ég sé sjómaður, hef ekki migið í saltan sjó svo neinu nemi. Aftur á móti tók ég þátt í kappróðrakeppni sem stýrimaður hjá kvennaliði sjúkrahússins á Patreksfirði 1987. Við unnum. Fyrir vikið á ég eina medalíu, þá einu sem mér hefur hlotnast enn sem komið er. Þar að auki fleygðu stelpurnar mér í sjóinn.

Það ber vissan skugga á daginn í dag. Íslendingar eru dæmdir sem mannréttindaníðingar af mannréttindadómstóli Sameinuðu Þjóðanna. Við brjótum mannréttindi á sjómönnum. Dómstóll SÞ hefur óskað eftir því að við látum af mannréttindabrotunum og fer fram á að við gerum grein fyrir því hvernig við hyggjumst gera það. Svar okkar er að við "ætlum að pæla í því" Við gætum alveg eins ullað á Sameinuðu Þjóðirnar.

Til allra hamingju voru nokkrar hugrakkar konur frá Landsambandi kvenna í Frjálslynda flokknum sem mótmæltu í dag. Þær klæddu sig upp í sjóstakka og báru mótmælaspjöld. Þær skiptu ekki þúsundum en vöktu engu að síður mikla athygli. Fjölmiðlar tóku eftir þeim og höfðu við þær viðtöl, teknar myndir. Nærvera þeirra undir ræðu sjávarútvegsráðherra gerði ræðu hans að hjómi einu, slæm var hún nú fyrir.

Hvar voru allir menningarvitarnir sem mega aldrei vita af neinu óréttlætinu í útlandinu? 


FISKAR Á ÞURRU LANDI.

Sigurjón mágur var að skrifa um reiknikúnstir Hafró. Þar er stuðull sem kallast náttúrlegur dauðdagi fiska. Hann er víst skilgreindur sem sá dauðdagi sem veldur dauða fiska annar en sá dauðdagi sem stafar af veiðum manna. Sem sagt 18 % fiska deyja af náttúrulegum ástæðum.

Við erum í vandræðum með mannskepnuna að átta okkur á ástæðum þess hvers vegna hún lætur lífið. Hvernig er þá hægt að fullyrða að 18% fiska látist á hverju ári af náttúrulegum ástæðum. Við sjáum aldrei alla þessa fiska, vitum ekkert um þá, þeir sökkva allir til botns eða eru veiddir.

Það má segja að þrír möguleikar séu í stöðunni. Þeir lifa og synda. Þeir deyja og eru þá annað hvort veiddir eða sökkva til botns í einu eða öðru formi. Ef 18% deyja og sökkva til botns og við veiðum bara lítinn hluta þá hljóta mjög margir fiskar að hafa það ansi gott og fjölga sér. Þrátt fyrir að veiðar hafi minnkað ár frá ári þá bara minnkar stofninn. Eitthvað er ekki að virka.

Tilgangur fiska er að éta, fjölga sér og deyja. Hljómar kunnuglega ekki satt? Í okkar kerfi virðast þeir bara deyja. Þeir fiskar sem finnast eru horaðir og virðast því ekki éta. Annað hvort er að setja Viagra eða mat í sjóinn.


HELGA FIMMTUG.

helga prag.

 Konan er fimmtug í dag. Því er mikið um dýrðir. Fátt finnst henni skemmtilegra en mannamót og ekki er það síðra að vera sjálft afmælisbarnið. Fæstir hafa sloppið ósnortnir við kynni sín af Helgu. Hún berst ekki mikið á en eftir henni er tekið engu að síður. Aftur á móti þekki ég ekki til nokkurs sem skaða hefur hlotið í viðkynningum sínum við hana.

Hún ákvað snemma að verða kennari og uppalandi. Á hún nú stóran útskrifaðan hóp vítt og breitt. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu síðast liðin 30 ár hefur henni ekki tekist að útskrifa mig. Með góðum vilja má segja að hún hafi náð vissum árangri en enn er nokkuð í útskrift. Helgu til málsbótar má segja að lærlingurinn hefur haft ósköp litla tilburði sjálfur til útskriftar. Sjálfsagt líkar honum vistin vel.  

Börnin eru fjögur og hefur hún alið þau upp sem ljónynja. Vei þeim sem snerti þau, það yrði hans bani. Enda nýtur hún takmarkalausrar virðingu þeirra allra og er það töluvert afrek á þessum tímum. Í raun er þetta eitt af megineinkennum konu minnar, umhirða og varsla fjölskyldunnar.  

Þetta eru stór tímamót í lífi okkar allra. Í kvöld mun fjölmenni streyma að og samgleðjast Helgu með áfangann. Við sem höfum verið að tölta með henni Helgu í gegnum lífið munum ekki vera svo mikið að rifja um gamla tíma. Við vitum sem er að ballið er bara rétt að byrja hjá henni og um að gera að reyna að missa ekki af neinu. 


Svik og samráð.

Það var athyglisverð frétt í Morgunblaðinu í dag. Hún var birting á nafnlausu bréfi. Morgunblaðsmenn báðu okkur afsökunar á því að birta nafnlaust bréf sem væri ekki vaninn á þeim bæ. Aftur á móti fannst þeim nauðsyn brjóta lög. Það væri það mikið sannleikskorn í þessu bréfi að það ætti að birtast. Bréfið fjallaði um samráð í smávöruverslun á Íslandi.

Þetta er í raun nokkuð merkilegt. Morgunblaðið ákveður að taka mikla áhættu og birta bréf um athæfi sem allir vita um og þekkja. Allir hafa vitað um samráðið en ekki gert neitt í því nema röfla einstaka sinnum við kassadömuna. Hvernig stendur á þessu með okkur Íslendinga, við virðumst elska að láta snuða okkur?

Svo er þar að auki auglýst vara svo ódýr að hún er hvergi finnanleg þegar maður kemur í búðina. Ég lenti í því í dag en áttaði mig ekki á svikunum fyrr en ég kom heim. Réttara sagt það var konan sem benti mér á mistökin. Ég hafði nefnilega ekki keypt ódýru kjúklingabringurnar sem voru auglýstar til sölu í dag.

Af þessu má ráða að smásalarnir eru miklir atvinnumenn en við erum áhugamenn í bransanum. Því hafa þeir alltaf vinninginn. Það er augljóst að það er ekki heiglum hent að versla í Bónus og hinum búðunum. Við verðum að fá atvinnumenn í lið með okkur til að versla hjá þeim. Einhverja sem nenna ekki að þrasa og eru fljótir að sannfæra mótaðilann um villu síns vegar.

Ef ég ætti að velja á milli Viðskiptaráðherra Íslands eða Vítisengla þá finnst mér þeir síðarnefndu líklegri til að ná árangri fyrr, amk eru þeir öllu vígalegri á velli.



Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband