Færsluflokkur: Mannréttindi
15.3.2009 | 20:34
Frjálslyndi flokkurinn.
Helgin var jákvæð og góð. Við hjónin fórum á Landsþing Frjálslynda flokksins í Stykkishólmi. Það var gott þing í alla staði. Niðurstaða í formannskjörinu kom ekki á óvart, Guðjón er mjög vinsæll meðal sinna manna. Aðal spennan var hvort Ásgerður Jóna eða Kolbrún ynnu varaformanninn. Ásgerður vann og mun það því verða hennar verkefni að sinna erfiðri kosningabaráttu sem er framundan. Hanna Birna var sjálfkjörin ritari. Ég hef ekki frétt neitt annað en að menn hafi farið sáttir frá þinginu.
Það hefur kvarnast úr hópnum, m.a. tveir mjög atkvæðamiklir þingmenn. Reyndar hafa ýmsir líka komið til baka. Kosningabaráttan sem fer núna í hönd verður mjög erfið fyrir Frjálslynda flokkinn. Hún verður stutt og því getur aðgangur að fjölmiðlum verið afgerandi. Þar hefur ætíð hallað á Frjálslynda flokkinn. Fjórflokkarnir virðast hafa ótæmandi fjársjóði til að koma boðskap sínum til skila en því er ekki að heilsa hjá Frjálslynda flokknum.
Hvað umræðan í flestum fjölmiðlum er keimlík og þegar venjuleg prófkjörsbarátta á sér stað er með ólíkindum. Hvernig er hægt að rabba við prófkjörskandídata fyrrverandi stjórnarflokka eins og kreppan hafi aldrei átt sér stað. Hefur einhver þessara verið spurður hvað viðkomandi gangi til að bjóða sig fram aftur til að stjórna landinu sem hinn sami ber ábyrgð á að hafa komið í gjaldþrot. Sjálfsagt er ég bara fáviti að spyrja á þennan hátt.
12.3.2009 | 23:18
Hvað er í gangi.
Alveg hræðilega hefðbundin leikatriði. Maður er farinn að klípa sig í handlegginn í þeirri von að maður vakni. Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli eins og ekkert hafi í skorist. Geir er með meiningar um þinglok. Frjálslyndi frjálshyggjupostulinn Geir vill alls ekki að við kjósendur fáum aukið frelsi í kjörklefanaum Páfinn, þe Bjarni Ben talar um sátt og traust. Gleymum fortíðinni og horfum fram á veginn. Hvar var samviska Bjarna Ben meðan Geir neitaði að viðurkenna staðreyndir lífsins. Hann kóaði með Geir og er því samábyrgur-hann vill heldur ekki persónukjör né Stjórnlagaþing.Bjarni Ben vill bara völd. Því er leikritið svo hræðilega hefðbundið og farsakennt. Og við kokgleypum það eins og atvinnumella.
Það er ekki margt til ráða. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins skilja ekki hvernig venjulegt launafólk á samleið með flokki auðmanna og sérhagsmuna. Þetta er svolítið sérstök ráðgáta í íslensku samfélagi. Meðan þessi tvöfeldni er ekki leyst held ég að fátt breytist.
10.3.2009 | 22:03
Ellefti Opni Borgarafundurinn í Iðnó.
Annað kvöld-miðvikudagskvöld kl 20:0-verður Opinn Borgarfundur. Hann mun fjalla um fjármálagjörninga eins og til dæmis 500 milljarða króna straum af peningum úr íslenskum banka til eigenda hans. Var um eðlilegan gjörning að ræða eða voru líkræningjar á ferð. Ef til vill fáum við svör við því. Skora á sem flesta að mæta.
Mannréttindi | Breytt 11.3.2009 kl. 06:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2009 | 22:38
Hvers vegna mættu svona fáir á Austurvöll í dag?
Voru það bara Vinstri-grænir sem mættu í vetur. Sú gagnrýni virðist vera á rökum reist. Þegar Steingrímur var kominn í stól var tilganginum náð. Það snérist sem sagt ekki um bankahrun, spillingu né skort á lýðræði. Nei það gerði það ekki. Það snérist um að réttir menn sitji á réttum stólum. Það sem ég skil ekki er hvernig VG á Austurvelli í vetur gat dottið í hug að gjaldþrot okkar Íslendinga yrði eitthvað skárra við að þeir fylgdu okkur til botns. Gröfin verður jafn köld og vot þó þeir syngi Maísólina þar.
Hvers vegna mæta ekki þeir atvinnulausu, þeir sem eru ósáttir við aðdraganda bankahrunsins, þeir sem þola ekki spillingu, þeir sem vilja meira lýðræði eða eru allir bara voðalega sáttir. Þeir sem vita svarið vinsamlegast kjaftið frá!
27.2.2009 | 23:02
E.D.(eftir Davíð)
Nú hafa Íslendingar fengið nýtt tímatal. Fyrir og eftir Davíð. Kristin trú kennir að Kristur hafi verið krossfestur saklaus fyrir syndir mannanna. Ástandið í Valhöll er svipað í dag. Saklaus maður hefur verið hrakinn út og það fyrir einhvern útlending. Er mögulegt að Stjórnaskrá okkar sé haldin kynþáttarfordómum. Er rasismi meitlaður í stein í okkar gömlu Stjórnarskrá. Agnes Braga og kompaní munu syrgja fallinn foringja en þeim til huggunar er endurrisan eftir. Hvítasunnan er skammt undan og ef Davíð stofnar nýtt framboð þá má kalla það Hvítasunnuflokkinn.
Fyrir utan að hafa áhyggjur af timburmönnum áhangenda Davíðs þegar heilagur andi rennur af þeim með tímanum hef ég mest verið að hugsa um hversu erfitt er að storka fjórflokkunum. Það virðist sem við Íslendingar hugsum fyrst og síðast í fjórum meginrásum í pólitík. Viðhald þessarar einhæfni er að sjálfsögðu 5% reglan sem bælir niður alla fjölbreytni. Það er augljóst að sú regla hugnast fjórflokkunum. því er það mjög nauðsynlegt að henni verði hafnað á Stjórnlagaþingi. Ég óttast að sameiginlegur ótti fjórflokkanna við það að Stjórnlagaþing afnemi þessa reglu muni sameina þá í því að koma í veg fyrir Stjórnlagaþing.
12.2.2009 | 22:13
Hvers vegna á að afnema verðtryggingu á Íslandi.
Heimilin á hrakhólum. Núna er borgarafundur hjá Akureyringum um vandamál heimilanna í kjölfar kreppunnar. Sökum þess að hitastig umhverfisins lækkaði hér fyrir sunnan og hríðarkófið hóf sinn dans varð manni hugsað norður fyrir heiðar. Aftur á móti tel ég fólki sé heitt í hamsi núna fyrir norðan. Verðtryggingin verður sjálfsagt aðalmálið. Hún verður sjálfsagt meðhöndluð með hefðbundnum skotgrafahernaði. Unga fólkið losnar við verðtrygginguna og setur gamla fólkið út á guð og gaddinn. Þvílík heimtufrekja og óskammfeilni af þessu ofdekraða liði. Bara svona í framhjáhlaupi ætla ég minna á það að þeir sem hafa verið að fara á eftirlaun á liðnum árum byggðu sín hús með lánum sem brunnu upp til agna í verðbólgunni á sínum tíma.
Ég tel að nauðsyn þess að afnema verðtrygginguna sé ekki fyrst og síðast budda húseigenda og lífeyrisþega. Mun mikilvægara er að afnema verðtrygginguna vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem hún hefur á allar lánastofnanir landsins og stjórnendur þeirra. Þeir sem stunda lánastarfsemi á Íslandi þurfa aldrei að hafa áhyggjur af afkomu stofnana sinna. Þeir geta bara grætt en aldrei tapað, lántakandinn er einn um þá hlið mála. Mjög sérkennilegt og óeðlilegt fyrirkomulag. Þegar reynir aldrei á hæfni manna að reka lánastofnun þá er augljóst að vanhæfir einstaklingar geta setið þar tryggir í sínum stólum. Meðan ég bjó í Svíþjóð fékk ég húsnæðislán á föstum vöxtum til ákveðins tíma, 1 til 10 ára. Lánið sjálft var til 30 til 40 ára en nýir vextir með jöfnu árabili. Verðbólgan gat verið hærri og þá tapaði bankinn en ég græddi. Því þurftu sænskir bankamenn virkilega að gæta hófs og sýna mikla skynsemi við rekstur fyrirtækja sinna.
Því hefur íslenska verðtryggingin alið af sér óhæfar lánastofnanir á Íslandi. Stjórnendur hafa aldrei þurft að takast á við stjórnunarlega ábyrgð eins og starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum. Ætli yfirbygging og flottheit hjá viðkomandi lánastofnunum væri eins ef þeir þyrftu að reka sín fyrirtæki eins og aðrir þegnar þessa lands. Þetta er svipað ef að læknir meðhöndlar sjúklinga sem geta ekki dáið hvaða vitleysu sem lækninum dettur í hug. Þess vegna er nauðsynlegt að afnema þessa verðtryggingu. Þar fyrir utan er það algjör geggjun að verðlag á bílum sem ekki seljast á Íslandi í dag hækki lánin á húsinu mínu. Amen
9.2.2009 | 20:54
BORGARFUNDUR Á AKUREYRI Í GÆR.
Borgarafundurinn í gær í Ketilhúsinu á Akureyri var mjög góður. Húsið er skemmtileg umgjörð um slíka fundi og virkaði mjög vel á mig. Frummælendur voru góðir og skelegir. Mikið spurt svo að fundurinn varð töluvert lengri en ráð var fyrir gert. Það kom ekki að sök því spurningarnar voru góðar.
Hér sést yfir fundasalinn, það var vel mætt og nánast húsfyllir. Finnst það mjög gott á miðjum sunnudegi samtímis og skíðafærið í fjallinu gæti ekki verið betra.
Sigurjón mágur er óþreytandi að segja fólki frá ranglátu kvótakerfi og þeirri spillingu sem það hefur skapað.
Þarna er panellinn. Sennilega átti Vilhjálmur Bjarna skúbb fundarins þar sem hann upplýsti að afskifti hans gætu komið í veg fyrir að háskóladeild sú sem hann starfar fyrir fengi frekari styrk frá ákveðnum fyrirtækjum.-Kúgun??
Það kom fram á fundinum að það gæti verið örðugt að dæma menn fyrir landráð. Ég sé ekki að það ætti að vera svo slæmt því það er augljóst að hægt er að fá menn dæmda fyrir þjófnað, svindl og óheiðarleika.
Lokaorð fundarins átti hin stórglæsilega þingkona og fyrrum bankamálaráðherra Valgerður. Þegar Andrés Magnússon geðlæknir spurði Valgerði hvort það hefði aldrei komið fram í stjórnsýslu ráðuneytanna að Ísland væri búið að vera eitt skuldugasta ríkið í heiminum í áraraðir og að skuldirnar jukust allt góðærið, þá svaraði Valgerður, "þið skiljið ekki hvernig Ríkisstjórnir starfa" Nú við þessi venjulegu gátu ekki annað en tekið heilshugar undir þessi orð. Við nefnilega skiljum alls ekki hvað þessu fólki hefur gengið til undanfarin ár. Geðlæknirinn hefur örugglega dýpri skilning á þessari mannlegu hegðun og sjálfsagt koma honum til skila við annað tækifæri.
Nú er maður kominn á Krókinn til Sigurjóns mágs. Borgarar úr höfuðstaðnum eru á leið til höfuðstaðar norðurlands, Akureyri. Tilefnið er Borgarafundur á Akureyri. Hann mun vera haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri. Kl 15:00. Efni fundarins er Landráð af "gáleysi". Góðir ræðumenn eru á boðstólnum. Sigurjón mágur mun ræða um kvótann og spillinguna. Margrét Heinriksdóttir mun ræða um lög tengd landráði. Andrés Magnússon geðlæknir ræðir um möguleikana að ná fjármunum landráðamannanna til baka. Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur ætlar að hella úr skálum reiði sinnar, eða að ég vona það að minnsta kosti. Síðan verður almenn umræða. Vonandi munu norðanmenn taka vel við sér og gera fundinn líflegan og skemmtilegan.
Landráð af gáleysi. Hvað er það í raun og veru. Landráð er sjálfsagt eitthvað flókið fyrirbæri lagalega séð. Fyrir okkur hinum dauðlegum þá snýst það um að afhenda fjöregg þeirrar þjóðar sem þú tilheyrir til einhverra annarra. Ef til vill verður einhverjum slíkum spurningum svarað á morgun á borgararfundi á Akureyri.
6.2.2009 | 23:56
Jón Magnússon og Frjálslyndi Flokkurinn.
Jón Magnússon mun ekki bjóða sig fram fyrir Frjálslynda flokkinn aftur. Þetta segir hann í DV og einnig í öðrum miðlum. Undanfarna mánuði hafa margir flokksmenn í FF verið að hópast í björgunarbátana. Langlundargeð Jóns vekur í raun eftirtekt því flest allir sem störfuðu í kjördæmi hans, Reykjavík, eru hættir í flokknum eða hættir að taka þátt í starfi hans. Það var blandaður hópur af fólki sem kom til starfa fyrir flokkinn hér í Reykjavík eftir síðustu kosningar. Stefnuskrá flokksins er góð og þessi hópur vildi vinna mikið starf með þingmanni sínum í Reykjavík. Grunnhugmyndin var sú að þar sem flestir kjósendur væru í Reykjavík væri mjög mikilvægt að efla flokkinn í Reykjavík. Með öflugu starfi í Reykjavík væri hægt að stækka flokkinn verulega. Því miður þá tókst yfirstjórn flokksins aldrei að tileinka sér þessa stefnu. Við sem störfuðum í Reykjavík komumst ekkert innan flokksins, tilvist okkar virtist vera ógn við ráðandi öfl í flokknum. Eftir þessa lífsreynslu þá er niðurstaða mín sú að kjarnamarkmið flokksins sé að eiga að minnsta kosti einn þingmann frá Ísafirði og þá sé markmiðinu náð.
Í raun er þessi niðurstaða mjög sorgleg. Stefna Frjálslynda flokksins er góð að mörgu leyti. Reyndar svo góð að meginstef hennar hafa verið meginkröfur mótmælenda um allan bæ eftir að kreppan hófst. Því er það með hreinum ólíkindum að stjórnmálaflokkur sem virðist eiga mikinn og góðan samhljóm meðal allra mótmælenda vetrarins minnki fylgi sitt í skoðunarkönnun eftir skoðunarkönnun. Í dag mælist flokkurinn í kringum 2% í könnunum. Flestum ætti að vera ljóst að eitthvað mikið er að þegar flokkur við slíkar aðstæður minnkar og meginstarf formannsins alla sína starfstíð hefur verið að stilla til friðar innan flokksins. Sem grasrót get ég ekki tekið ábyrgð á slíku. Hversu seint Jón Magnússon yfirgefur hið sökkvandi skip ber merki þess að hann sé séntilmaður, því konur og börn fara alltaf fyrst í björgunarbátana.
3.2.2009 | 21:55
HJÁLP, ÞARF TALNAGLÖGGAN MANN ÞVÍ ÞETTA SKIL ÉG EKKI.
Erlendar skuldir okkar samkvæmt Seðlabanka Íslands þann 4 des 2008 eru samtals
11 þúsund milljarðar og 500 milljónir (11.490.606)
Það er 800% af vergri þjóðarframleiðslu.
Það er 2000% af útflutningstekjum.
Afsakið mig en þetta eru upplýsingar sem eru öllum aðgengilegar á heimasíðu Seðlabankans. Ég hlýt að vera að misskilja eitthvað. Þetta eru svo geggjaðar tölur að við getum aldrei borgað þetta. Ég óska eftir einhverjum sem getur huggað mig og sagt mér að þetta sé bara slæmur draumur og ég muni vakna á nýjan leik í borg Davíðs.