Færsluflokkur: Mannréttindi
1.2.2009 | 22:19
Alþingi götunnar mun halda vöku sinni eftir sem áður!!
Þá er Ríkisstjórnin komin á koppinn. Ég er viss um að stór hluti þjóðarinnar er nú þegar búinn að lesa stjórnarsáttmála þessarar Ríkisstjórnar. Svo mun þjóðin fylgjast með og haka við uppfyllt loforð eftir því sem dagarnir líða. Væntingarnar eru mjög miklar og refsingin við vanefndum verður kolbrjáluð þjóð á Austurvelli. Því tel ég að stjórnarandstöðunni verði ekki kápan úr klæðunum ef þau ætla að reyna að eyðileggja fyrir Jóhönnu. Ef Alþingi Íslendinga hefur ekki manndóm í sér til að verja almenning fyrir holskeflu kreppunnar verðum við Austurvellingar að spúla dekkið í eitt skipti fyrir öll.
Steingrímur er skemmtilegur karl og ótrúlegur í tilsvörum. Þegar blaðamaður spurði hann út í sjávarútveginn, og var að velta fyrir sér mannréttindabrotum og framsali kvóta, þá fer hann að tala um fullvinnslu sjávarafurða. Maður sér fyrir sér fínan pinnamat sem engin hefur efni á kaupa, hvorki hér eða erlendis. Spillingin í kringum kvótann, framsal hans og veðsetning hefur verið þjóðinni hugleikin í allt haust. Þjóðin mun ekki sætta sig við neitt annað en að þessi spilling verði krufin og leiðrétt. Vonandi skilur Steingrímur það. Þar sem Steingrímur studdi framsal á sínum tíma á Alþingi má segja að hann sé upphafsmaður að þeirri spillingu sem að lokum leiddi til bankahrunsins nú í október. Nú er gullið tækifæri fyrir Steingrím að snúa við blaðinu og verða minnst sem maður að meiri fyrir vikið.
31.1.2009 | 23:07
Hvað gerir þjóðin?
Við erum stödd í leikhléi. Sumir eru farnir að skrifa ritdóma um verkið án þess að hafa séð verkið til enda. Í raun fór maður á sýninguna sem óskrifað blað. Það hvarflaði aldrei að manni að boðið yrði upp á blóðug mótmæli, táragas, rúðubrot, stjórnarslit, nýja Ríkisstjórn, afsögn stjórnenda FME, kosningar og síðast en ekki síst, Íslendingar tala um lýðræði, lýðveldi og mannréttindi öllum stundum. Allt þetta fyrir hlé.
Ef enginn átti von á þessum ósköpum í fyrri hluta, hvernig verður þá seinni hlutinn. Sumar sýningar eiga það til að klúðrast eftir hlé. Þar sem áhorfendur voru virkir þátttakendur í sýningunni fyrir hlé gæti verið að sumir munu reyna að koma böndum á slíkt stjórnleysi. Framsóknarmenn eru greinilega að stýra skútunni eftir sýnu höfði. Þeir fengu kosningadaginn og stjórnlagaþing. Þrátt fyrir að verklag við efnahagsstjórn næstu vikna var ekki fullunnið, skipti það ekki máli. þeir gáfu SteinJóhönnu stjórninni sitt samþykki. Ég tel að tvennt hafi vakað fyrir Framsóknarmönnum. Að gæta þess að röngum steinum verði ekki velt við fram að kosningum og að kosið verði sem fyrst. Á þann hátt vonast þeir til að nýta sér nýfengnar vinsældir til að komast til valda á nýjan leik, með hverjum sem er.
Samfylkingin ætlast til þess að við fyrirgefum þeim að hafa veðjað á vonlausa Ríkisstjórn þegar við þurftum mest á hinu gagnstæða að halda. Samfylkingin fær þó hrós fyrir að hafa siglt samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn snyrtilega í strand. Gaman væri að fá skýringu á því hvers vegna Ágúst Ólafur gufar allt í einu upp. Ætli Solla hafi eimað hann. Frekar lágt í honum suðumarkið. Væntingar til Jóhönnu eru miklar, vonandi reynast þær á rökum reistar.
Hvað gera Sjálfstæðismenn núna? Þeir munu beita öllum sínum mætti til að ná völdum á ný. Þeir kunna því mjög illa að vera ekki í stjórn. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í raun regnhlífasamtök nokkurra ætta á Íslandi er spurningin meir hvaða ætt hefur sigur innan flokksins. Það mun ákvarða viðmót og stefnu flokksins til framtíðar. Hvort Sjálfstæðismönnum muni takast að heilla þjóðina skal ósagt látið, aftur á móti skal maður aldrei vanmeta Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur mikil völd víðsvegar og getur því auðveldlega gert öðrum lífið leitt sér til framdráttar.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við hvað flokkarnir gera, sama og síðast-halda völdum. Í raun er stóra spurningin hvað gerir þjóðin. Þjóðin er í raun mun stærra spurningarmerki en flokkarnir. Þjóðin hefur fengið í vetur að narta í sætleika valdsins. Ég tel að þjóðin hafi komist upp á bragðið og því til alls líkleg. Eins og maðurinn sagði,, vald spillir.
26.1.2009 | 21:22
Valdasýki þingmanna.
Ég er að hlusta á Kastljósið. Ömurleiki flokkræðisins er æpandi. Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki sætt sig við að Samfylkingin fengi Forsætisráðuneytið. Niðurstaðan er stjórnarslit og kosningar. Sökum mikilmennsku Sjálfstæðisflokksins þá vill hann frekar upplausn og óvissu en stöðugleika. Flokkurinn sem seldi sig sem málsvara stöðugleika. Sjálfstæðisflokkurinn velur frekar upplausn en að vera ábyrgur aðili að Ríkisstjórn. Völd Davíðs Oddsonar eru með ólíkindum. Honum tekst með þrásetu sinni í Seðlabankanum að bola Sjálfstæðismönnum frá völdum. Margir Sjálfstæðismenn sem ég þekki hafa verið furðu lostnir hvers vegna maður sem er kominn á mjög góð eftirlaun segi ekki af sér og geri þannig gömlum félaga lífið léttara. Ég heyrði einn segja í dag,"hvernig getur hann gert þetta félaga sínum Geir". Manni er nú spurn líka.
Það var mjög merkilegt að hlusta á Samfylkingarmenn koma út úr skápnum í dag. Þeir höfðu haft ýmsar tillögur í Ríkisstjórninni. Geir tafði fyrir með málalengingum. Allt til að verja Davíð kallinn. Tilfinningin að valdhafar séu staddir í allt annarri tilveru en almenningur verður æ sterkari. Að valdhafar búi í glerhúsi öðlast merkingu.
Að það skipti einhverju máli í dag að Sjálfstæðismenn gefi frá sér Forsætisráðuneytið er þvílík firra að leitun er að öðru eins. Sjálfstæðismenn komu okkur í þessi vandræði með frjálshyggjunni. Ef þeim er einhver alvara með slagorðinu "stöðugleiki" þá hefðu þeir að sjálfsögðu átt að samþykkja Samfylkinguna í Forsætisráðuneytið. Við það hefði skapast stöðugleiki. Sýn Sjálfstæðismanna á stjórn landsins eru eftirfarandi; að þeir stjórni, að þeir gæti hagsmuna ættanna í flokknum, því Sjálfstæðisflokkurinn er bara regnhlífasamtök valdasjúkra ætta, Davíð sé óskaddaður o.sv.fr. Að þjóðin sé einhver staðar með í spilum þeirra er misskilningur.
Stefna Sjálfstæðisflokksins er að mörgu leiti ágæt. Það sama gildir um aðra flokka. Aftur á móti eru fulltrúar þeirra einstaklingar sem eru að hugsa um völd og sérhagsmuni. Þingmenn eru í sýndarveruleika sem hjákátlegir embættismenn hefða og venja. Allir með hálsbindi í þingsal. Á einhverjum tímapunkti glötuðust tengsl við umbjóðendur sína. Þeir gleymdu því að þeim var falið af meirihlutanum að sinna þörfum hans. Ekki þeirra, þ.e. minnihlutanum.
Því er bráðnauðsynlegt að stofna nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá. Skuldirnar munum við borga hvort eð er.
26.1.2009 | 19:08
Íslensk veðrátta á Alþingi, eða árátta...
23.1.2009 | 23:45
180° snúningur löggæslunnar.
Að Geir sé sjúkur er mjög sorglegt. Ég sendi honum baráttukveðjur og ósk um góðan bata. Það er skammur tími sem hann hefur til að undirbúa sig fyrir skurðaðgerðina. Sá undirbúningstími getur verið jafn mikilvægur og aðgerðin. Það er mjög nauðsynlegt að undirbúa sig vel andlega.Geir gangi þér allt í haginn í veikindum þínum.
Ástandið er skelfilegt í landsmálum okkar. Alþingi götunnar vinnur baki brotnu að koma vitinu fyrir hina þingmennina sem eru í grjótinu. Það er ekki skrítið að mótmælin hafi komið þeim í opna skjöldu. Meðan þeir voru í mánaðarlöngu jólafríi vorum við hin að vinna þingstörfin okkar. Krafan um nýtt Ísland, nýja stjórnarskrá, Stjórnlagaþing, útrýmingu spillingar, kosningar og alþrif í Seðlabanka og FME mun bara aukast. Á endanum munu lögreglumennirnir snúa sér í 180 gráðu hring og setja rimla í gluggana á Alþingishúsinu og læsa dyrunum.Vonandi kjósum við áður en að því kemur.
22.1.2009 | 23:20
Framtíðin?
Stjórnarslit? Ný Ríkisstjórn? Kosningar-hvenær? Ný stjórnarskrá? Aukið lýðræði?
Ríkisstjórnin hefur gert minnst lítið sem dugar venjulegu fólki. Almenningur fer á hausinn. Almenningur tapar stórfé vegna verðhækkana íbúðarlána. Almenningur tapar stórfé vegna verðfalls eigna þeirra. Almenningur tapar stórfé vegna svæsinnar rýrnunar á lífeyri þeirra. Almenningur tapar stórfé vegna síhækkandi verðlags. Almenningur tapar stórfé vegna þess að fjármunir þeirra gufuðu upp í bönkunum við hrunið. Almenningur tapar stórfé því hann missir vinnuna. Eigendur fyrirtækja tapa stórfé því almenningur getur ekki keypt eitt né neitt. Hvorki frjálshyggja né nokkuð annað virkar við þessar aðstæður. Reyndar virka svik og prettir.
Hvað knýr núverandi Ríkisstjórn til að lafa fram að kosningum í vor? Hvers vegna er Ingibjörg Sólrún reiðubúin til að verja stjórnina falli fram að óhjákvæmilegum kosningum. Er það ESB. Ég dreg það er í efa. Hvers vegna mega ekki Vinstri Græn ekki komast í valdastöðu. Er það andstaðan við AGS og ESB. Ég dreg það í efa. Það er ekkert ráðrúm til að leiða slík mál til lykta fyrir kosningar, enda hefur þingheimur öðrum hnöppum að hneppa.
Er hugsanlegt að margir þingmenn og Ráðherrar hafi eitthvað óhreint í pokahorninu? Er samtrygging með vanhæfum Seðlabanka og Fjármálaeftirliti ástæða. Er daður ýmissa við spillt auðmannagengi ástæðan. Er hugsanlegt að flest allir þingmenn okkar þoli ekki dagsljósið. Er því svona mikilvægt að grafa skömmina svo tryggilega að flest allir eigi möguleika að valdastólunum aftur eftir kosningar. Viljum við það??
Almenningur er valdalaus nema eitt andartak í kjörklefanum. Eftir hæfilegan heilaþvott kostaðan af fjársterkum aðilum kjósum við örugglega "rétt".
Hvernig bregðumst við þessari stöðu? Almenningur fær engar upplýsingar frá valdhöfum. Því grunum við valdhafa um græsku. Við verðum að breyta þjóðfélaginu okkar. Í raun þurfum við byltingu-friðsamlega nota bene.
Við verðum að færa völd frá flokkunum til almennings. Við verðum að uppræta alla spillingu. Við verðum að margfalda völd Alþingis. Minnka völd Ráðherra. Auka sjálfstæði dómara. Banna vinavæðingu.
Hvernig?? Við þurfum að koma okkur saman um leið og aðferð sem virkar fljótt og vel.
22.1.2009 | 20:55
Lögreglumenn...
..og makar þeirra og börn-við segjum takk fyrir vel unnin störf.
Hvernig ætli það sé að einbeita sér í vinnunni í 100+ decibela hávaða allann tímann, einhver að banka í hausinn á manni með sleif, slettir á mann landbúnaðarafurðum, bæði hráum úr iðrum mótmælenda eða fullunnum úr ísskápnum hennar mömmu. Þegar það dugar ekki til eru opinberir starfsmenn grýttir með grjóti og gangstéttarhellum svo þeir stórslasast. Ætla sömu einstaklingar að hrækja og berja aðra opinbera starfsmenn sem eru þeim ekki að skapi, kennara, lækna, presta eða tollverði.
Að lögreglumenn hafi ekki alltaf gert allt rétt að mati ótilkvaddra dómara er vel hugsanlegt. Ég segi nú bara, er einhver hissa miðað við vinnuæðstæður. Hvernig ætli skurðlækni gengi að snara úr manni gallblöðrinni niðrá Austurvelli, sennilega dræpist sjúklingurinn.
Ég hef mótmælt í allt haust-mjög friðsamlega. Ef einhverjir fimmtíu ofbeldisfullir einstaklingar ætla að beita sínu fátæklega tjáningaformi, ofbeldi, þá bið ég þá allra bæna að halda sig heima framvegis. Við hin viljum fá að mótmæla áfram, friðsamlega.