Færsluflokkur: Heimspeki

Gullfiskaminni okkar Íslendinga.

Það eru tímamót í dagatalinu í dag. Veturinn búin og sumarið hefst. Þegar horft er um öxl setur mann hljóðan. Þrír stjórnmálaflokkar, D-B og S bera ábyrgð á því hruni sem við upplifðum í haust. Þess vegna ættu kjósendur að refsa þeim öllum en það er bara Sjálfstæðisflokkurinn sem fær smá tiltal frá kjósendum. Þessir þrír flokkar bera ábyrgð á efnahagshruni heillar þjóðar. Gaddþrot þúsunda fyrirtækja. Atvinnuleysi þúsunda einstaklinga. Orðstír okkar er einskis virði. Manni er spurn hvernig þessir flokkar hafa kjark að bjóða sig fram aftur. Mér finnst þeir bara nokkuð bíræfnir. Síðan tekst þeim með mútupeningum sínum að véla þjóðina til að kjósa sig. Ekki ótrúlegt heldur sorglegt. Til hvers mætti maður á Austurvöll vikum saman-ég bara spyr. Til hvers vann maður alla þessa vinnu við Opna Borgarafundi í vetur.

Vinstri grænir njóta þess að menn taki ábyrga afstöðu í málinu. Aftur á móti þá virðist Borgarahreyfingin og sérstaklega Frjálslyndi flokkurinn ekki njóta þess að bera ekki ábyrgð á hruninu. Mér finnst að þessir þrír flokkar ættu að skipta fylginu á milli sín. Hvers vegna svo er ekki er mér hulin ráðgáta en það er svo margt sem maður skilur ekki.

http://blogg.visir.is/hermdarverk/files/2008/12/aparnir-c3berir.jpg


Hvaða flokkur gagnast mér?

Sjálfstæðisflokkurinn er vinsæll flokkur. Um það bil fjórði til fimmti hver Íslendingur kýs Sjálfstæðisflokkinn. Því ætti hann að hafa gert mörgum margt gott. Sjálfstæðisflokkurinn tók réttin til að veiða fiskinn frá fólkinu og færði þann rétt á silfurfati til fárra. Þeir leyfðu síðan mönnum að veðsetja óveiddan fisk. Þeir seldu bankana sem við áttum til örfárra manna-vina sinna. Þeir hafa endurtekið reynt að koma auðlindum okkar í einkaeigu. Þrátt fyrir greiðslur í sjóði sína frá hagsmunaaðilum hefur það ekki tekist enn. En áfram skal haldið. Helstu kosningaloforð Sjálfstæðismanna núna er að koma sem mestri orku fyrir kattarnef, helst í formi álbræðslu. Þeir gáfu fiskinn, síðan bankana, næst er það orkan.

Sjálfstæðisflokkurinn jók skatta á venjulega launamenn. Hann minnkaði eignaskatt. Hann tók af hátekjuskatt. Hann lækkaði skatt á fyrirtækjum. Hann lækkaði skatt af arði. 

Það er augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn gagnast best þeim tekjuhærri, stóreignamönnum og þeim sem meira mega sín í þjóðfélagi okkar. Það er vel hugsanlegt að fyrrnefndur hópur sé um fjórðungur þjóðarinnar, en ég dreg það stórlega í efa. Aðallega vegna þess að ég þekki svo marga sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn en hafa ekkert gagn af því. Ég tel það brýnt hagsmunamál að hinn almenni kjósandi geri virkilega "kost benifit analýsu" á því hvað hagnast honum best að kjósa.


Veruleikafirring Sjálfstæðisflokksins.

Á Alþingi Íslendinga er lítið frumvarp sem er 5 greinar og varla ein A4 síða. Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi. Sjálfstæðismenn eru arfavitlausir og hafa uppi málþóf. Í frumvarpinu er rætt um að við Íslendingar eigum okkar eigin auðlindir. Við eigum að nýta þær á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Síðan er rætt um rétt þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess stofnun Stjórnlagaþings sem semur nýja stjórnarskrá.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að við eigum okkar auðlindir. Hann vill að útvaldir gæðingar geti auðgast á  þjóðareign okkar. Afleiðing þessa er að Íslendingar verða leiguliðar í eigin landi.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslur né Stjórnlagaþing. Hann hefur setið að völdum í 18 ár og vill engar breytingar á því. Hann vill halda áfram að stjórna og stýra landi voru. Hann er valdasjúkur-fíkill.

Sjálfstæðisflokkurinn ber mesta ábyrgð á bankahruninu sem varð í október 2008. Hann hleypti út King Kong og kallaði það frelsi einstaklingsins. Hann gaf fiskikvótann sem menn síðan veðsettu. Þeir fjármunir settu rúllettuna í gang. The rest is history. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þá firringu sem á sér stað innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir röfla og rífast eins og fortíðin komi þeim ekki við. Þeir fara á Landsþing og Dabbi dópar liðið. Það er ekkert innsæi, engin ábyrgðarkennd algjör veruleikafirring bara ég um mig frá mér til mín. Vonandi vaknar þjóðin fyrir 25 apríl og áttar sig á orsökum og afleiðingum tilverunnar.

 


Aðgerðin tókst en sjúklingurinn dó.

Þar sem ég er læknir þekki ég til ýmissa ósiða sem fylgja starfinu. Sjálfsagt hafa ýmsir sem legið hafa inn á sjúkrahúsum upplifað þegar starfsfólkið talar yfir sjúklinginn um hann og batahorfur hans. Sjúklingurinn liggur flatur í rúminu og reynir að fylgjast með flókinni umræðu og skilja hana. Hann veit að þau eru að tala um sig en þau tala ekki við sig. Að lokum snýr doksi sér að sjúklingnum með flugfreyjubrosi og segir hughreystandi, þetta verður örugglega allt í þessu fína. Bætir jafnvel við,, vinurinn..Til allrar guðs lukku höfum við aðeins þroskast og erum byrjuð að fatta að sjúklingar eru fólk.

Ég held að atvinnulausum á Íslandi líði eins. Það eru allir spekingarnir sem tala kross og kruss í öllum fjölmiðlum, einhverja óskiljanlega latínu sem hinn atvinnulausi reynir að skilja. Þeir segja, við erum búin að skera upp kerfið og hreinsa ósóman út?? Hverju skiptir það hvort einhver ósómi sé kominn út í hafsauga eða ei-fæ ég vinnu já eða nei. Verðbólgan er að lækka-hitinn er að lækka. Lifi ég eða dey-fæ ég vinnu, já eða nei. 

Ég held að í öllu írafárinu hafi sjúklingurinn-hinn atvinnulausi ekki bara gleymst heldur steingleymst. Því verður að breyta. Það er slæmt að vera dissaður á banabeðinu, þ.e. vera sá síðasti sem vissi að maður væri að hrökkva upp af.


Grætt á daginn og grillað...

Fólkið brást en ekki stefnan segir Sjálfstæðisflokkurinn. Í raun stórmerkileg niðurstaða, augljóslega miklir gáfumenn þar á bæ. Boðorðin tíu eru góð og gild stefna. Sú stefna hefur líka liðið fyrir breyska einstaklinga. Biblían hefur löngum varað við því að við skulum ekki aðra Guði hafa. Einnig að mammons dýrkun og dans í kringum gullkálfum kunni ekki góðri lukku að stýra. Þrátt fyrir þessi grunngildi í okkar þjóðfélagi hafa Sjálfstæðismenn predikað ást á gullkálfinum. Græða á daginn og grilla á kvöldin. Ef maður græðir hlýtur einhver annar að tapa, ekki satt. Ekkert verður til úr öngvu. Ef maður boðar að hamingjan sé fólgin í því að græða sem mest, er maður þá ekki að segja að maður lifi á óförum annarra. Tilvera manns sé greidd af öðrum, maður sé á framfæri einhvurs. Er þetta ekki dæmigerður Sjálfstæðisflokkur-pilsfaldakapitalismi.Spurningin er hvar fólkið brást?

Frjálslyndi flokkurinn.

Helgin var jákvæð og góð. Við hjónin fórum á Landsþing Frjálslynda flokksins í Stykkishólmi. Það var gott þing í alla staði. Niðurstaða í formannskjörinu kom ekki á óvart, Guðjón er mjög vinsæll meðal sinna manna. Aðal spennan var hvort Ásgerður Jóna eða Kolbrún ynnu varaformanninn. Ásgerður vann og mun það því verða hennar verkefni að sinna erfiðri kosningabaráttu sem er framundan. Hanna Birna var sjálfkjörin ritari. Ég hef ekki frétt neitt annað en að menn hafi farið sáttir frá þinginu. 

Það hefur kvarnast úr hópnum, m.a. tveir mjög atkvæðamiklir þingmenn. Reyndar hafa ýmsir líka komið til baka. Kosningabaráttan sem fer núna í hönd verður mjög erfið fyrir Frjálslynda flokkinn. Hún verður stutt og því getur aðgangur að fjölmiðlum verið afgerandi. Þar hefur ætíð hallað á Frjálslynda flokkinn. Fjórflokkarnir virðast hafa ótæmandi fjársjóði til að koma boðskap sínum til skila en því er ekki að heilsa hjá Frjálslynda flokknum.

Hvað umræðan í flestum fjölmiðlum er keimlík og þegar venjuleg prófkjörsbarátta á sér stað er með ólíkindum. Hvernig er hægt að rabba við prófkjörskandídata fyrrverandi stjórnarflokka eins og kreppan hafi aldrei átt sér stað. Hefur einhver þessara verið spurður hvað viðkomandi gangi til að bjóða sig fram aftur til að stjórna landinu sem hinn sami ber ábyrgð á að hafa komið í gjaldþrot. Sjálfsagt er ég bara fáviti að spyrja á þennan hátt.


Hvers vegna mættu svona fáir á Austurvöll í dag?

Voru það bara Vinstri-grænir sem mættu í vetur. Sú gagnrýni virðist vera á rökum reist. Þegar Steingrímur var kominn í stól var tilganginum náð. Það snérist sem sagt ekki um bankahrun, spillingu né skort á lýðræði. Nei það gerði það ekki. Það snérist um að réttir menn sitji á réttum stólum. Það sem ég skil ekki er hvernig VG á Austurvelli í vetur gat dottið í hug að gjaldþrot okkar Íslendinga yrði eitthvað skárra við að þeir fylgdu okkur til botns. Gröfin verður jafn köld og vot þó þeir syngi Maísólina þar.

Hvers vegna mæta ekki þeir atvinnulausu, þeir sem eru ósáttir við aðdraganda bankahrunsins, þeir sem þola ekki spillingu, þeir sem vilja meira lýðræði eða eru allir bara voðalega sáttir. Þeir sem vita svarið vinsamlegast kjaftið frá!


Vonin.

Hvað viljum við að Jóhanna geri sem Forsætisráðherra?

Innst inni viljum við að hún reddi málunum þannig að við getum öll haldið áfram að vera smáborgarar. Þá er stærsta vandamál mitt hvort viðri svo vel næstu helgi að ég geti þrifið bílinn minn utandyra. Því miður verður mér ekki að ósk minni og ég verð að halda áfram að vera virkur borgari og bíllinn minn skítugur. Spurningin er nefnilega hvort börnin mín eiga að erfa hreinan óryðgaðan bíl eða land sem þó flýtur. Seinni kosturinn virðist öllu mikilvægari. Öllum þeim öflum í þjóðfélaginu sem er í nöp við gagnrýna hugsun borgaranna munu reyna að stefna almenningi að bílaþvotti um helgar eða að horfa á íþróttir eða önnur afþreyingarefni sem hafa enga pólitíska skírskotun. Ég tel að stór hluti þjóðarinnar sé sama um bílana sína þessa dagana. Flestir munu fylgjast vel með Jóhönnu og Companí.

Við viljum opið, gegnsætt þjóðfélaf Jóhanna. Við viljum vera með. Við viljum að ekki bara þingfundir séu opnir almenningi heldur einnig allir aðrir fundir þar sem örlög okkar eru ráðin séu opin öllum.

Við viljum getað raða upp frambjóðendum í kosningunum og það sé bindandi svo að flokkurinn sem við kjósum sé skipaður því fólki sem við höfum trú á en ekki flokkseigendafélagið.

Við viljum að þeir sem stofnuðu til skuldanna borgi þær-engar refjar.

Við viljum að birgðunum sé deilt eftir getu.

Við viljum spillinguna burt.

Við viljum nýtt Ísland með nýjum gildum.

Við viljum réttlæti.

Aldrei áður hefur nein Ríkisstjórn haft meiri möguleika á því að gera raunverulegar breytingar. Jóhanna, ekki klúðra þessu tækifæri.

Sjálfstæðismenn og aðrir kerfiskarlar, liggið lágt, Austurvöllur er á vaktinni.


Allir á Austurvöll í dag, erum enn föst í Framsóknarflórnum.

Því miður er baráttunni ekki lokið. Framsóknarmenn hafa algerlega misskilið hlutverk sitt við myndun nýrrar Ríkisstjórnar. Þeir lofuðu að verja hana falli. Þeir þurfa ekkert að vasast í málefnasamningnum. Minnihlutastjórn sem treystir á einn ákveðinn flokk eins og vel þekktan og Framsóknarflokkurinn er, er ekki að setja neitt á koppinn sem vitað er fyrirfram að fellur ekki í kramið. Framsóknarmenn hafa þar að auki mikil völd nú þegar. Því eru engar forsendur til að láta svona. Hugsanlegt er þó að Framsóknarmenn hafi hugsað sér frá upphafi að stjórna Ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar í einu og öllu, þ.e. að þeir væru Ríkisstjórnin án þess að vera í Ríkisstjórninni. Á þann hátt geta þeir talið allt hið góða sem hún kemur til leiðar sér til tekna án þess að taka ábyrgð á því sem miður fer. Framsókn hefur greinilega ekkert breyst, sami flórinn. Kæru Framsóknarmenn, hættið þessari sýndarmennsku, komið ykkur að verki, það er verk að vinna.

Frysting eigna hefur verið framkvæmd áður á Íslandi-á grunni gunsemda um afbrot á lögum.

Þvílík forréttindi að fá að upplifa þessa tíma sem við erum að upplifa. Þá er ég að meina hina miklu breytingu sem átt hefur sér stað í hugsun. Stór hluti þjóðarinnar er farin að beita gagnrýnni hugsun við úrlausn vandamála. Í því felst byltingin á Íslandi. Afleiðingin af gagnrýnni hugsun þjóðarinnar hafa verið skelfilegar fyrir flokksræðið. Ríkisstjórnin er fallin og hreinsað hefur verið í Fjármálaeftirlitinu. Jóhanna segir að bráðum komi röðin að Davíð og Seðlabankanum. Völd Jóhönnu í þessu máli eru komin frá þjóð sem mótmælti og mótmælti vegna þess að þjóðin hugsaði. Reyndar, til að gæta alls sannmælis, þá varð þjóðin neydd til þess að hugsa vegna kreppunnar. Það getum við þakkað Davíð og Co. Hitt er öllu verra að fórnarkostnaðurinn til að fá þjóðina að hugsa er fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot og miklar mannlegar hörmungar. En hér stöndum við í dag.

Fréttatímar eru að verða æsispennandi. Hvaða hneykslismál fáum við að vita um í dag? Það sem er óhugganalegast er að fréttamennirnir toppa sig daglega. Ef fram vindur sem horfir þá mun svarta bókin hans Davíðs, þar sem hann hefur skráð helstu þætti í lífshlaupi félaganna sem þola illa dagsljósið, verða eins og hver annar upplestur í sunnudagaskóla Þjóðkirkjunnar.

Vinkill dagsins á örugglega bloggfærsla Helga Jóhanns Haukssonar. Segið svo ekki að bloggið sé bara slúður og fúkyrði. Þar bendir Helgi á að hælisleitendur sem kyrrsettir voru í Njarðvíkum, meðan mál þeirra voru rannsökuð um landvistarleyfi, voru rannsakaðir vegna meintra grunsemda að þeir hefðu aflað sér peninga með ólögmætri vinnu. Viðbrögð yfirvalda voru að leggja hald á alla fjármuni þeirra á heimulum þeirra. Það var gert á grundvelli grunsemda um að þau hefðu hugsanlega, ef til vil, sennilega, að öllum líkindum, brotið íslensk lög. Eigur þeirra voru kyrrsettar af lögreglu á þeirri einu forsendu að grunur var um afbrot. Ekkert sannað fyrr en eftir á.

Ef hægt er að gera þetta mínum minnstu bræðrum þá krefst ég þess að það sama gildi um hina meintu stórglæpamenn í röðum okkar hinna- og hana nú.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband