Núna er ég komin norður í Skagafjörð, raunar á Sauðárkrók. Dvel hjá mági mínum í góðu yfirlæti. Þegar vinnufélagarnir kvöddu mig í dag þá báðu þau mig að nota tíman hér fyrir norðan til að leysa vandamá Íslands. Sem sagt kippa kreppunni í liðinn. Vandamálið er í raun mjög hefðbundið. Við vitum nokkurn vegin hvaða leiðir eru í boði. Vandamálið er að velja sér leið til árangurs. Sá á kvölina sem á völina. Þannig er það bara.
Sú leið sem núna er mörkuð er að taka ný stór lán hjá AGS. Þau á að geyma í banka í Bandaríkjunum. Sú vissa að við Íslendingar höfum annarra manna fé á bankabók þar ytra á okkar kennitölu á víst að liðka fyrir því að útlendingar vilji versla við okkur. Þannig, fyrir þá sök að peningar liggja á bankabók, eiga hjól atvinnulífsins á Íslandi að fara að snúast á ný. Málið er víst þannig vaxið að ef við höfum bankabók í USA fulla af peningum sem við höfum fengið að láni þá séu enn aðrir til í að lána okkur enn meiri pening til að atvinnustarfsemi á Íslandi geti þrifist. Til að við komust yfir þennan Lottóvinning verðum við líka að borga IceSave, sennilega til að gulltryggja það að við sjáum örugglega ekki til sólar fyrir skuldum. Síðan hefur Samfylkingin komið því svo haganlega fyrir, sennilega af umhyggju fyrir lánadrottnum okkar, að koma okkur inn í ESB. Þá þurfa lánadrottnar okkar ekki að vera að þvælast til Íslands til að rukka okkur heldur geta stýrt öllu saman frá Brussel.
Eins og hverjum Íslendingi mætti vera ljóst þá hugnast engum Íslendingi þessi leið. Við erum nýbúin að stunda mikið lánafyllerí undanfarin ár. Miklu frekar eigum við að hverfa af þeirri braut og reyna að þurrka okkur upp. Það er nú ekki einfalt, því róninn á það til að komast ekki úr ræsinu nema láréttur.
Hin leiðin og sú sem ég tel vænlegri er leið sjálfstæðis, frelsis og án miðstýringar heimsins. Sú leið er eitur í beinum alheimslánveitenda. Sú leið felur í sér að hafna öllum lánum frá AGS. Borga IcesaVe að því marki sem lög skylda okkur til. Skera niður kostnað á Íslandi á okkar eigin forsendum fyrir okkur. Auka útflutningstekjur með auknum veiðum. Hækka rafmagnsverð til stóriðju. Nurla og spara fyrir okkur sjálf, ekki AGS. Þetta er vel gerlegt en flestir Íslendingar með meðalgreind hafa áttað sig á að hún er ófær.
Ástæðan er einföld. Sú kvislingaríkisstjórn sem situr við völd er ekki reiðubúin að taka slaginn. Hefur ekki þann manndóm sem þarf. Þannig er staðan í dag. Þá er alltaf möguleiki, ef menn eru ekki sáttir, að gera byltingu. Ég tel þennan möguleika nánast útilokaðan. Til þess að framkvæma byltingu þarf pening og þá höfum við ekki. Lenín og Hitler fengu peningastyrki frá austurströnd Bandaríkjanna á sínum tíma. Sennilega njótum við ekki slíkrar fyrirgreiðslu í dag á Íslandi.
Því er bara ein lausn eftir. Flytja þangað sem það er skárra að búa. Það hefur mannskepnan alltaf gert. Þannig mun það einnig verða á íslandi. Útrásarvíkingarnir og ríkisstjórnin munu búa í vellystingum á erlendri grund en við hin munum vinna þar sem við höfum það skaplegt.