Færsluflokkur: Lífstíll
22.2.2008 | 18:18
11. boðorðið og mannát.
Þetta er grein sem birtist eftir mig í Fréttablaðinu í dag.
11. boðorðið og mannát.
Málefni tengd fiskveiðum og vinnslu hafa fjarlægst daglega umræðu okkar Íslendinga. Þessi þróun hefur gerst hratt á síðustu áratugum. Sennilega hefur afli, spretta og veður verið forfeðrum okkar hugleikin s.l. þúsund ár eða svo. Á mannamótum í dag eru þeir sem ræða um sjómenn eða bændur í þaula álitnir svolítið skrítnir. Aðrir hlutir þykja fínni umræðuefni svo sem bankar, peningar og viðskipti.
Ég veit ekki hvort þessi þróun í samfélaginu sé ástæðan fyrir því að líffræðingarnir á Hafrannsóknarstofnun fóru að beita hagfræði við fiskeldi. Hvað sem því líður þá stöndum við frammi fyrir því að hagfræði þeirra hefur skilað okkur hörmulegum árangri í fiskeldi. Hagfræði Hafró gengur út á það að banna mönnum að veiða fisk. Þetta er orðið eins og 11. boðorðið í íslensku þjóðlífi. Meðan við höfðum eingöngu 10 boðorð virkaði þetta vel. Þá sá náttúran um sig sjálf. Ef það var bræla var ekki farið á sjó, það er eins í dag. Ef netin voru hálftóm flutti flotinn sig til. Þegar menn gátu veitt þá veiddu þeir hvað þeir gátu. Samt var alltaf fiskur í hafinu.
Svo kom 11. boðorðið. Bannað að veiða fisk og sérstaklega ekki lítinn ungan fisk. Hver er niðurstaðan? Vægast sagt hörmuleg. Það er ekki mikið af fiski í hafinu. Sá fiskur sem veiðist er horaður með magafylli af afkvæmum sínum. Fiskurinn er ekki bara horaður heldur mun minni en jafnaldrar hans voru þegar menn veiddu eins og þeir gátu.
Þegar við sjáum fréttamyndir af manneskjum sem hafa lent í hungursneyð, rýr, sljó og með þaninn maga vegna eggjahvítuskorts, hvað gerum við þá? Sendum þeim mat ekki satt. Nú ef þessar manneskjur fá engan mat þá deyr stærsti hlutinn og þeir sem lifa af verða vel nærðir og sterkir. Ef mannát væri viðurkennd iðja hjá mannskeppnunni þegar ekkert annað væri á boðstólnum þá kæmi hungursneyðin mun síður fram ekki satt?
Ég læt öðrum eftir að hártogast frekar með hagfræðikenningar Hafró, enda botnar enginn neitt í þeim. Meginniðurstaðan er sú að takmörkun veiða hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Það er ekki ásættanlegt að það sem við höfum haft úr býtum sé horaður, vanþroska fiskur fullur af sjálfum sér.Við ætlumst til betri árangurs þegar mestu mannvitsbrekkur landsins eiga í hlut. Borið saman við almennt hyggjuvit forfeðra okkar þá er árangurinn ansi rýr.
Ég tel að í þessu máli sé brýn þörf á uppstokkun og endurskoðun allra málavaxta. Það er ekki ásættanlegt að bæði þorskurinn og mannlíf út á landi sé nánast að engu orðið. Í þúsund ár beyttu forfeður okkar hyggjuvitinu í umgengni sinni við náttúruna en ekki hagfræði. Hagfræði á vel heima á öðrum sviðum mannlífsins. Að lokum tel ég nauðsynlegt að innleiða sjálfbæra þróun bæði í fiskveiðistjórnun og Hafrannsóknarstofnun ríkisins.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2008 | 20:38
NORÐFJARÐARFLUGVÖLLUR-BÆTUM HEILSUNA MEÐ MALBIKI.
Sæl öll sömul, þetta er grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið um daginn.
Austurland er fjarri Reykjavík eins og alkunna er. Ekki það að hvorugur aðilinn sýti það sérstaklega. Sjálfsagt er sú staða kostum hlaðin í flestu tilliti að mati beggja. Við sem búum hér fyrir sunnan erum sjálfsagt hér því við kunnum því vel eða þekkjum ekkert annað. Sömu sögu má sjálfsagt segja um þá fyrir austan.
Nútíma tækni hefur fært fjarlægar byggðir nær hver annari. Tæknin hefur gert okkur kleift að hafa samskipti mun hraðar og örar en áður, án tillits til búsetu. Hægt er að senda gögn á rafrænu formi á sekúndum. Framþróunin hefur einnig sett auknar kröfur á þjóðfélagið. Þessi krafa um hraða og skilvirkni hefur einnig sett mark sitt á heilbrigðiskerfið. Alltaf hafa snör handtök skipt miklu þegar um bráðasjúkdóma eða slys er að ræða. Áður fyrr skipti kannski ekki svo miklu máli hvar þú varst búsettur, svipuð meðferð var í boði á flestum stöðum. Með sívaxandi tækni hefur mismunun aukist með tilliti til búsetu.
Viss meðferð er eingöngu í boði í Reykjavík við bráðum veikindum. Sem dæmi er hægt að nefna bráða kransæðastíflu. Hægt er að meðhöndla hana með blóðþynningarlyfjum hvar sem er. Aftur á móti næst bestur árangur við kransæðastíflu ef sjúklingurinn kemst inn á Landspítalann innan 4-6 klst í hjartaþræðingu. Í henni opnar hjartalæknirinn kransæðina og setur í fóðringu ef þarf. Því hafa þeir einstaklingar sem búa næst Landspítalanum ákveðið forskot. Einnig má nefna nýbura. Það gerist einstaka sinnum að jafnvel eftir eðlilega meðgöngu og fæðingu þarf nýburi gjörgæslumeðferð á Landspítalanum eftir fæðinguna.Til að árangur verði svipaður og hjá Reykvíkingum þarf sjúklingurinn að komast sem fyrst að austan. Vandamálið er að ekki er hægt að senda sjúklinga jafn hratt og tölvupóst á milli landshluta.
Þar með er ég loksins kominn að efninu. Það er flugvöllur rétt hjá Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Ekki tekur nema nokkrar mínútur að aka sjúklingi þangað. Galli er samt á gjöf Njarðar því þetta er malarvöllur og oft ekki hægt að lenda vegna aurbleytu. Þá þarf að flytja sjúklinginn á Egilstaðarflugvöll, ferð sem tekur um klukkustund. Um er að ræða fjallvegi sem geta verið viðsjárverðir að vetrarlagi.
Þar sem ég hef oft leyst af á Neskaupstað sem læknir þekki ég þetta á eigin skinni. Þegar kunnugir tjáðu mér að kostnaðurinn við að leggja bundið slitlag á flugvöllinn í Neskaupstað hlypi á 20-30 milljónum gat ég bara ekki orða bundist. Þetta eru þvílíkir smáaurar að það tekur því varla að ræða um það. Þetta malbik verður búið að greiða sig upp á örfáum árum bara í minnkuðum kostnaði við akstur sjúklinga til Egilsstaða. Þegar við bætist betri árangur af meðferð sjúklinga vegna minni tafa við að komast í meðferð þá erum við að tala um endurgreiðslutíma í mánuðum.
Ég skora hér með á ábyrg stjórnvöld að sýna skynsemi í ráðstöfun skattpeninga okkar og malbika Norðfjarðarflugvöll sem allra fyrst, að öðrum kosti eru menn að henda krónunni en spara aurinn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2008 | 07:49
STURLUNGAÖLD.
Það er margt sérkennilegt í fari okkar Íslendinga. Nýlega komst mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að því að við höfðum framið mannréttindabrot á samlöndum okkar. Vilhjálmur fyrrverandi borgarstjóri er uppvís af þvílíku pólitísku klúðri þessa dagana að hann mun komast á spjöld kennslubóka sem dæmi um hvernig stjórnmálamenn eiga ekki að haga sér. Augljóst er að hann var leikskoppur einhverra peningamanna. Heill haugur af gömlum varnarliðsíbúðum var seldur á slikk á Keflavíkurflugvelli, og kaupendur eru enn ekki búnir að borga þær. Opinberar stöðuveitingar fara eftir forskrift Sikileyskrar reglu sem er stundum kölluð mafían. Peningamenn ásælast orkuauðlyndir landsmanna og ekki er laust við kjörnir fulltrúar okkar styðji þá dyggilega við þá iðju. Dýralæknirinn hefur það helst sér til málsbótar að hvæsa á menntamálráðherra að henni komi ekkert við hvað hann ætli sér að skammta kennurum í laun. Sjálfsag vegna þess að hún er kona.
Ég er farinn að hallast að því að það sé röng söguskýring að Sturlungaöldin sé liðin. Ef það reynist rétt hjá mér mun Þorgerður ekki lána Árna sínum lokk úr hári sínu á ögurstund. Slíkt virðist að minnsta kosti vera of seint fyrir Vilhjálm.
Það sem er öllu merkilegra að ekkert hefur breyst frá Sturlungaöld því við leiguhjúin fylgjumst bara með og tautum eitthvað en höldum svo áfram að kemba ullina eins og ekkert hafi í skorist.
Er ekki orðið tímabært að fara að "praktísera" lýðræði á Íslandi.
Sturlungaöld er tímabil í sögu Íslands sem er venjulega látið ná frá 1220 þegar Snorri Sturluson kom út til Íslands frá Noregi og hóf mikla eignasöfnun, til 1264 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála. Tímabilið er kennt við Sturlunga, þá ætt sem var mest áberandi framan af. Það einkenndist af miklum átökum milli helstu höfðingjaætta Íslands um eignir og völd svo sumir höfundar hafa jafnvel gengið svo langt að tala um borgarastyrjöld í því samhengi
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2008 | 20:37
Hauspokaútsala.
Magnús Thoroddsen hæstaréttalögmaður var í Silfri Egils í dag. Þar er fjallað um niðurstöðu mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Í sjálfu sér er niðurstaða mannréttindanefndar SÞ ekki óvæntur atburður. Þar eru færustu lögfræðingar í heimi að fjalla um hornstein mannréttinda-sanngirnina. Niðurstaða þeirra er að ósanngirni ráði ríkjum á Íslandi. Ósanngirnin er svo alvarleg hér á landi að menn eru bótaskyldir að mati lögfræðinga Sameinuðu þjóðanna. Ekki bara að ríkið sé bótaskylt heldur á íslenska ríkið að breyta sínum egin lögum að mati lögfræðinga Sameinuðu þjóðanna. Þeir sem hafa verið vel lesnir í þessari sögu hafa alla tíð vitað þetta.
Aftur á móti kemur óskammfeilni íslenskra ráðamanna á óvart. Greinilegt er að þeir ætla að beita öllum brögðum til að komast hjá því að fara eftir niðurstöðu SÞ. Nokkrir þverhausar eru í hópi þjóða sem hunsa Sameinuðu þjóðirnar og ef Ísland á að fara í þann flokk verðu maður sjálfsagt að ferðast um heiminn með hauspoka. Sjálfsagt mun Ingibjörg Sólrún sitja með hauspoka í Öryggisráðinu þegar fram líða stundir. Einar K situr sjálfsagt og föndrar við að klippa út 300 þús hauspoka.
Rökfærsla Magnúsar í Silfrinu í dag var skotheld, á því leikur enginn vafi. Ef EKG losar ekki strengina af sér og sínir af sér manndóm mun það verða íslenskri þjóð til ævarandi skammar. Við höfum verið þekkt fyrir eitthvað annað Íslendingar en að vera fulltrúar ósanngirnis í mannréttindum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.1.2008 | 22:27
Leiðtoginn-Ólafur F Magnússon.
Ólafur F Magnússon er orðinn leiðtogi okkar Reykvíkinga. DV í dag reynir að veita okkur óbreyttum borgurum innsýn inn í persónuleika Ólafs. Maðurinn er að sjálfsögðu ýmsum kostum búinn. Hlýr, viðkvæmur, hreinskiptinn, góður félagi og samkvæmur sjálfum sér. Ókostirnir geta verið að hann er einrænn, dulur og þver. Honum er illa við málamyndanir og forðast þær eins og pestina. Það heitir á fínu máli að vera fylginn sér. Vonandi gangi honum nú allt í haginn, þrátt fyrir allt.
Enda er það augljóst þegar horft er til stefnumála nýs meirihluta. Ólafur hefur nánast ekki gert neinar málamiðlanir við stærsta og sterkasta stjórnmálaafl landsins, Sjálfstæðisflokkinn. Auk þess er það bersýnilegt að þeir ætla að leyfa honum að stjórna, milljarði kastað í fúaspýtur á Laugaveginum. Reyndar kom það sér ákaflega vel fyrir Þorgerði Katrínu, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði eitthvað upp úr krafsinu.
Þegar haft er í huga háðsglósur og hlátur Sjálfstæðismanna þegar Ólafur F gekk af vettvangi þess flokks auk niðurlægingarinnar fyrir Ólaf þegar Villi sveik hann er þetta mál allt hið sérkennilegast. Þegar sterkasta stjórnmálaafl landsins drýpur niður í duftið fyrir gömlum liðhlaupa, þá hlýtur eitthvað mikið að hanga á spýtunni. Það getur varla verið bara hefnd og völd. Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir mun fínni takttík en svo.
Reyndar finnst okkur Reykvíkingum þær orðnar allar frekar illa lyktandi, hvaða nafni þessar tíkur eru svo sem kallaðar.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.1.2008 | 00:27
PÓLITÍK-meirihlutinn jarðaður í "kyrrþey".
Skáksnillingurinn var jarðaður í kyrrþey, sóknarpresturinn vissi ekki einu sinni um það. Eins fór fyrir meirihluta Borgarstjórn Reykjavíkur. Þau voru jörðuð í kyrrþey- eða þannig sko. Þau vissu ekkert af sinni eigin jarðarför. Það má segja að þau voru kviksett.
Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Borgarbúar eru fullir hneykslan og undrun. Trú almennings á pólitík fer hraðminnkandi þessa dagana.Guðjón Ólafur er alsettur hnífsstungum eftir Börn Inga. Bingi segir að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að stinga bróður sinn á hol í aðdraganda prófkjörs. Síðan eigi menn að gleyma öllu eins og ekkert hafi í skorist. Ólafur F skellir sér í samstarf með Sjálfstæðisflokknum samtímis sem samflokksmanneskja hans Margrét Sverris er enn í samtarfi með R-listanum. Hvað á almenningur að halda. Sjálfsagt munu flestir túlka þetta þannig að menn hafi sameinast um stóla en ekki málefni. Er ekki Ólafur í algjörum minnihluta í þessu meirihlutasamstarfi. Ég bara spyr?
Sjálfsagt er hægt að óska Ólafi til hamingju, hann hefur komist í oddaaðstöðu. Vonandi kemur hann góðum málum áfram. Það sem veldur mér mun meiri áhyggjum er tiltrú almennings á fulltrúarlýðræðinu. Eigum við ekki að hafa kosningar í sveitastjórnum þegar meirihlutar falla? Hvernig virkar það á fólk að vera í ákveðnum stjórnmálaflokk í kosningum en ekki í honum síðar við meirihlutamyndun?
Það er greinilega margt sem er enn órætt í okkar lýðræðisþjóðfélagi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.1.2008 | 15:22
LANDSPÍTALINN OG SAMKEPPNI UM SJÚKLINGA.
Þetta er grein sem birtist eftir mig í 24stundum þann 18 jan.
Þann 10 janúar s.l. skrifar Hanna Katrín Friðriksson mjög athyglisverða grein í 24 stundir. Þar gerir hún grein fyrir því að hinn lagalegi rammi um val sjúklinga á þjónustu innan heilbrigðiskerfis Evrópu sé vel á veg kominn. Því muni ég geta sótt þjónustu til annarra landa ef svo ber undir á kostnað íslenska ríkisins. Að vísu bendir hún á að einhver skilyrði verði fyrir því. Ef engin óeðlileg bið er eftir aðgerð í heimalandinu eigi maður ekki átt rétt á þessu. Því stefnir í að sjúklingar fari að velja á milli sjúkrahúsa innan ESB og ESS. Þetta hljómar mjög vel.
Þar með er komið að mér sem sjúklingi að taka upplýsta ákvörðun hvar ég vil láta meðhöndla mig. Ég vil að sjálfsögðu fara á það sjúkrahús sem ég treysti best fyrir heilsu minni. Til að leggja mat á það þarf ég upplýsingar. Ef ég ætla í skurðaðgerð vil ég vita hversu margar aðgerðir eru gerðar af þessari tegund á viðkomandi spítala. Hver er árangurinn, hversu margir lenda í aukaverkunum eins og sýkingum eða blæðingum? Hversu margir lifa af eða deyja? Ef aukaverkanir verða svæsnar er þá góð gjörgæsla á spítalanum? Ef ég veikist í öðrum líffærakerfum, eru þá færir sérfræðingar á sjúkrahúsinu til að sinna því? Er verkjameðferðin fullnægjandi? Hvernig er persónuleg aðstaða mín á sjúkrahúsinu? Verð ég á einbýli eða þröngu fjölbýli? Eru fjárhagserfiðleikar á stofnuninni? Er starfsandinn góður?
Þetta eru í raun svipaðar hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður kaupir sér flugmiða. Er flugfélagið vel rekið? Hvernig er viðhald flugvélanna. Eru þeir með góða flugmenn?
Hvernig nálgast ég slíkar upplýsingar. Ég veit til þess að sumir erlendir spítalar hafa þessar upplýsingar á heimasíðum sínum og til eru heimasíður sem sérhæfa sig í slíkum upplýsingum. Eftir því sem ég best veit eru engar slíkar upplýsingar handbærar á Íslandi. Slíkum gagnabanka þyrfti að koma á fót sem fyrst svo fólk geti farið að velta möguleikunum fyrir sér. Auk þess væri æskilegt að hafa slíkan samanburð á millli stofnana hérlendis.
Hvernig stöndum við okkur? Gerðar eru liðlega 150 kransæðaaðgerðir á Íslandi á ári. Á sjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð eru gerðar fleiri en 1000 á ári. Út frá þessum upplýsingum ætti ég að velja Lund. En eru þeir betri en við? Ristilaðgerðir eru samtals um 60-80 á ári á Íslandi. Hluti af þeim geta verið mjög flóknar og er þá fjöldri slíkra aðgerða vel innan við 10 á ári. Sama gildir um erfiðar vélindaaðgerðir og aðgerðir á briskrabbameini, þær eru vel innan við 10 á ári á Íslandi. Svona mætti lengi telja en erfitt er að átta sig á því hvar við stöndum. Til að geta borið okkur saman þarf meiri upplýsingar. Til þess þarf mannafla og peninga.
Þegar kemur að húsnæðismálum og aðbúnaði sjúklinga þá versnar ástandið. Flest híbýlin reist á fyrri helming síðustu aldar og viðhaldið af íslenska ríkinu. Sú stefna í hnotskurn er reynsla gjörgæsludeildarinnar í Fossvogi sem fékk ekki nýtt þak fyrr en allar skúringafötur voru uppiskroppa til að taka við regnvatninu. Þegar mið er tekið af því að nágrannaþjóðir okkar eru í óða önn að reisa ný sjúkrahús, þá held ég að gömlu jálkarnir okkar fölni í samanburðinum. Til að mynda munu Bretar reisa meira en 100 ný sjúkrahús frá 1997 til 2010. Sömu sögu er að segja frá meginlandi Evrópu, Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Sjálfsagt ætla önnur Evrópuríki að vera tilbúinn í slaginn þegar opnað verður fyrir samkeppni um sjúklinga innan ESB og ESS svæðisins. Við erum ekkert eyland í þessum málaflokki.
Ef Landspítalinn ætlar að verða samkeppnishæfur á þessum markaði er hann ekki tilbúinn. Húsnæðisvandi hans er óleystur. Öll hátæknin er til staðar og oft á tíðum geymd á göngum spítalans vegna skorts á geymslurými. Starfsfólkið er gott og fært á sínu sviði. Reyndar svíður því undan umræðunni. Í henni er iðulega rætt um eyðslu" hjá LSH. Starfsfólkið keyrir" fram úr fjárlögum eins og óábyrgur 17 ára gutti nýkominn með bílpróf. Þrátt fyrir sífelldan niðurdrepandi málflutning vinnur starfsfólkið eins vel og það getur.
Ég tek undir með Hönnu Katrínu þegar hún bendir á að sameiginlegur markaður verði mikil áskorun fyrir heilbrigðiskerfi Evrópu og um leið að gríðaleg tækifæri muni skapast. Auk þess er ég henni innilega sammála að það hvetji menn til frekari dáða.
Því eru allir starfsmenn Landspítalans til í slaginn um sjúklinga Evrópu, eins og kappreiðarhestur af bestu sort. Vandamálið virðist vera að knapinn sé ekki til í hlaupið með okkur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.1.2008 | 17:05
Kerfisstíflur og mismunandi drullusokkar.
Það er nokkuð merkileg frétt á forsíðu Fréttablaðsins á föstudaginn. Þar kemur fram að við Íslendingar búum svo vel að eiga flest rými fyrir aldraða miðað við nágrannaþjóðirnar. Síðan er gefið í skyn að tregða sé að taka við veikustu einstaklingunum inn á hjúkrunarheimilin. Hingað til hafa þeir sem eru hressastir verið settir í forgang. Tekið er dæmi um aldraðan einstakling sem ekki var hægt að útskrifa af sjúkrahúsi því ekkert pláss var til fyrir hann á hjúkrunarheimili.
Til að fyrirbyggja stíflumyndanir innan kerfisins hefur hið opinbera gripið til sinna ráða. Búið er að semja ný lög. Samkvæmt þeim eiga aðrar manneskjur en áður í öðru húsi að ákveða hverjir komast inn á hjúkrunarheimili. Sem sagt ný nefnd í stað þeirrar gömlu. Ég vona svo innilega að nýr drullusokkur virki betur á stífluna en sá gamli.
Aftur á móti held ég að leysa mætti vandamál sjúkrahúsanna á annan hátt þegar kemur að útskrift einstaklinga í þörf fyrir hjúkrunarrými. Ef sveitafélag viðkomandi einstaklings þyrfti að greiða sjúkrahúsinu beint fyrir leguna þar, eftir að viðkomandi er útskriftarfær væri málið einfaldað mjög. Það væri mikill hvati fyrir sveitafélögin að taka við sínu fólki aftur því mun ódýrara er að greiða fyrir vistun á hjúkrunarheimili en á sjúkrahúsi. Þar með væri stíflan sjálfleyst. Það vill stundum gleymast að buddan slær oftast næst hjartanu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.1.2008 | 20:13
Mikið veikur eða lítið veikur-einn spítali eða tveir.
Sæl öll sömul,
þetta er grein sem birtist eftir mig í dag í Morgunblaðinu.
Mikið veikur eða lítið veikur-einn spítali eða tveir.
Nokkur gagnrýni hefur beinst að nýbyggingu Landspítalans. Bent hefur verið á að nýja sjúkrahúsið verði hið mesta ferlíki. Það verði eini vinnustaður mjög margra heilbrigðisstarfsmanna og setji starfsmennina í stöðu þrælsins. Það sé betra að hafa tvö sjúkrahús, þau sé hægt að bera saman og samkeppni myndist á milli þeirra sem myndi leiða af sér betri kjör bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga. Auk þess er nýbyggingunni stillt upp á móti þjónustu við aldraða.
Sem starfsmaður Landspítalans fellur maður oft í þá gryfju að taka það sem gefið að fólk skilji og viti hvernig hlutirnir eru á Landspítalanum. Sjálfur hrærist maður í þessu umhverfi daglega og finnst, ranglega, að allir ættu að skilja eðli þeirrar starfsemi sem þar er. Það er ekkert rangt við að gagnrýni komi fram, aftur á móti finnst mér skorta andsvör.
Síðustu áratugir hafa einkennst af stefnuleysi í uppbyggingu á góðu sjúkrahúsi fyrir alla Íslendinga. Þau sjúkrahús sem voru notuð hér í bænum voru allt of lítil og þröng.Til að gera eitthvað voru menn að byggja við og gera upp gamlar einingar.Þegar tillit er tekið til þess að kostnaður við að gera upp gamla einingu er 80% af því að byggja nýtt er þessi stefna mjög heimskuleg.
Spurningin um eitt eða tvö sjúkrahús er mun athyglisverðari. Til allrar hamingju höfum við flest öll verið ekki mikið veikir sjúklingar. Ég vil kalla þann stóra hóp sjálfbjarga sjúklinga. Sjálfbjarga sjúklingar, komast til og frá þjónustinni að mestu leyti á eigin vélarafli. Sem dæmi getum við tekið göngudeildarþjónustu, skurðaðgerðir út í bæ eða einfalda gallblöðrutöku þar sem sjúklingurinn er kominn heim um kvöldmat. Okkur finnst við í raun ekki vera miklir sjúklingar því við erum að mestu sjálfbjarga og oftast vel læknanleg. Sjálfbjarga sjúklingar skipta umræðuna um Landspítalann sára litlu máli, því þessa sjúklinga má meðhöndla í hvaða skemmu sem er. Þeir hafa þrek og þrótt til að fara á staðinn, krefjast þjónustu, eða rífa kjaft ef svo ber undir. Eðli Landspítalans er ekki meðhöndlun sjálfbjarga sjúklinga heldur ósjálfbjarga. Það sem hrjáir umræðuna um Landspítalann er að flestir sem taka þátt í henni hafa verið sjálfbjarga sjúklingar og meta síðan þörf Íslendinga fyrir nýjan Landspítala út frá sinni reynslu. Í raun ósköp skiljanlegt. Fæstir hafa verið mikið veikir til allrar hamingju. Mín reynsla er svolítið önnur. Sem Svæfinga-og Gjörgæslulæknir þá sinni ég mest ósjálfbjarga sjúklingum. Mikið veikum einstaklingum. Allir sem verða mikið veikir eru fluttir á Landspítalann, því er það spítali allra landsmanna. Flest allir sjúklingar Landspítalans eru aldraðir eða veik börn. Sjálfbjarga sjúklingum má mín vegna skipta niður á eins mörg sjúkrahús og spekingar kjósa.
Hvað með ósjálfbjarga sjúklinga. Tökum dæmi. Sá fjöldi hjartaskurðaðgerða sem framkvæmdar eru á Íslandi eru ekki til skiptanna. Hann er rétt nægjanlega mikill til að halda skurðlæknum og öðru starfsfólki okkar í æfingu. Ef við skiptum þeim á tvö sjúkrahús þá fengjum við tvær hjartaskurðdeildir sem hefðu allt of fáa sjúklinga til að halda starfsfólkinu í góðri æfingu. Svo bærum við þær saman. Við myndum bera tvær lélegar deildir saman. Úr yrði einhverskonar aumingjabandalag, tossabekkur. Eina skynsemin fyrir okkur er að efla þá deild sem er til staðar núna. Sú deild yrði síðan borin saman við bestu erlendu sjúkrahúsin í sömu grein. Metnaður okkar á Landspítalanum er að standast slíkan samanburð, sem dúx. Sama á við um fleiri sérgreinar svo sem heilaskurðlækningar.
Nefna má tvö atriði til viðbótar. Það hlýtur að vera dýrara að halda úti tveimur vaktalínum lækna og hjúkrunarfræðinga en einni, launakostnaður er nú einn stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri allra fyrirtækja. Þar að auki eru það gömul sannindi í hagfræði að allir sem að rekstri koma, vita að heppilegast er að ákvarðanir í þeim efnum, séu teknar af þeim sem þurfa síðan að búa við ákvarðanirnar. Því ætti að spyrja þá sem hafa verið mjög veikir sjúklingar hvernig þeir vilja hafa hlutina og okkur sem sinnum þeim.
Hvers eiga veikustu sjúklingarnir að gjalda? Þeir hafa aldrei átt eitt gott sjúkrahús þar sem þeir geta fengið alla þjónustu. Vandamálið með mannskepnuna er að hún veikist ekki í pörtum. Ef maður lendir í miklu slysi þá brotna ekki bara beinin. Lungun, hjarta og nýrun geta líka bilað. Ætli það sé notalegt að ferðast um Reykjavík á milli sjúkrahúsa mölbrotinn. Stundum hafa sjúklingarnir verið nær dauða en lífi eftir flutninginn.
Mikið veikir sjúklingar eru ekki til skiptanna. Þeir henta mjög illa fyrir einkarekstur. Þeir hafa búið við slæmar aðstæður á nokkrum sjúkrahúsum í Reykjavík áratugum saman. Þetta er vanræktur hópur sem hefur ekki hátt. Það getur verið að ég verði þræll eins atvinnurekanda en ég vil þá láta sjúklinginn njóta vafans.
Það er mál að linni. Spekingar, setjið ykkur í spor þessara sjúklinga og okkar sem sinnum þeim áður en þið bregðist þeim endanlega. Byggjum eitt gott sjúkrahús fyrir okkar veikustu meðbræður, því þeir eru líka Íslendingar eins og við hin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.12.2007 | 17:59
HELGA FIMMTUG.
Konan er fimmtug í dag. Því er mikið um dýrðir. Fátt finnst henni skemmtilegra en mannamót og ekki er það síðra að vera sjálft afmælisbarnið. Fæstir hafa sloppið ósnortnir við kynni sín af Helgu. Hún berst ekki mikið á en eftir henni er tekið engu að síður. Aftur á móti þekki ég ekki til nokkurs sem skaða hefur hlotið í viðkynningum sínum við hana.
Hún ákvað snemma að verða kennari og uppalandi. Á hún nú stóran útskrifaðan hóp vítt og breitt. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu síðast liðin 30 ár hefur henni ekki tekist að útskrifa mig. Með góðum vilja má segja að hún hafi náð vissum árangri en enn er nokkuð í útskrift. Helgu til málsbótar má segja að lærlingurinn hefur haft ósköp litla tilburði sjálfur til útskriftar. Sjálfsagt líkar honum vistin vel.
Börnin eru fjögur og hefur hún alið þau upp sem ljónynja. Vei þeim sem snerti þau, það yrði hans bani. Enda nýtur hún takmarkalausrar virðingu þeirra allra og er það töluvert afrek á þessum tímum. Í raun er þetta eitt af megineinkennum konu minnar, umhirða og varsla fjölskyldunnar.
Þetta eru stór tímamót í lífi okkar allra. Í kvöld mun fjölmenni streyma að og samgleðjast Helgu með áfangann. Við sem höfum verið að tölta með henni Helgu í gegnum lífið munum ekki vera svo mikið að rifja um gamla tíma. Við vitum sem er að ballið er bara rétt að byrja hjá henni og um að gera að reyna að missa ekki af neinu.