Færsluflokkur: Lífstíll
7.5.2008 | 22:14
Ballet.
Í gær var árleg balletsýning Klassíska listdansskólans. Dóttir mín hún Guðlaug Anna stóð sig með prýði eins og sjá má á myndinni. Sýningin var hin besta skemmtun og unaðslegt að geta notið hennar afslappaður án þess að þurfa að sinna öðrum kvöðum. Að lokinni sýningu var farið á matsölustað og fiturík og góð máltíð etin án þess að gallblöðrunum okkar yrði meint af.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.4.2008 | 20:58
FLORENCE NIGTHINGALE.
Hún var mjög ákveðin kona, lét ekki vaða yfir sig og einnig mjög stjórnsöm. Því var hún óvenjuleg kona. Stallsystur hennar í dag haga sér á svipaðan hátt, að minnsta kosti láta þær ekki vaða yfir sig. Ef til vill er það skýringin á erfiðleikunum við að ná sáttum í deilu hjúkrunarfræðinga við stjórn LSH að frú Nigthingale situr beggja vegna samningsborðsins.
Við getum huggað okkur við að aðilar eru þessa stundina að ræða saman. Meðan er von um sátt. Ef ekki blasir við mjög alvarlegt ástand, sérstaklega ef einhver tími líður. Þá fer að koma fram þreyta og uppgjöf hjá þeim örfáu hjúkrunarfræðingum sem eftir standa.
Ég vona að þessi deila leysist sem fyrst. Ég vona einnig að menn læri af reynslunni og setji hlutina í ferli tímanlega næst þannig að ekki þurfi að koma til svona uppþota, það er ekki nokkrum manni til gagns.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.4.2008 | 18:03
TRUKKALÆTI.
Ætli ég verði ekki að blogga um trukkalætin í gær eins og allir. Það eru að minnsta kosti tvær hliðar á málinu, þess vegna mun fleiri. Niðurstaðan er samt mjög dapurleg og sérstæð. Það eitt sér er nægt tilefni til að fara gaumgæfilega yfir hvað gerðist. Svona ofbeldi má ekki endurtaka sig, amk þegar fólk er að rífast um smáhluti eins og peninga. Gandhi sat á bossanum á sínum tíma því þá voru mannréttindi í húfi.
Við getum gefið okkur að ef allir hefðu farið að einu og öllu eftir tilmælum lögreglunnar þá hefði þessi atburður ekki gerst. Ef lögreglan hefði beðið fram í myrkur þá hefðu allir verið komnir heim að horfa á sjónvarpið sitt, og þá hefði þetta aldrei gerst. Þannig er nú það.
Síðan er það spurningin um frelsi eins og frelsi hins. Hef ég frelsi til að stilla mér upp á vígvelli og ætlast til þess að ég skaðist ekki? Ef ég hefði verið þarna og séð tvær fylkingar fullar af testósteróni og eins og hana að undirbúa hanaslag hefði ég farið heim til mín. Það er í sjálfu sér heigulsháttur en skynsemi engu að síður.
Hef ég frelsi til að óhlýðnast lögreglunni, veifa fingri og fara með formælingar. Í fyrsta lagi er svarið nei, mín borgaralega skylda er að hlýða lögreglunni, það er regla sem við höfum öll samþykkt og verðum að fara eftir. Við getum ekki sniðgengið reglur eftir hentugleikum. Þá mætti ég fara yfir á rauðu ef ég væri að flýta mér. Í annan stað að vera með formælingar við samborgara okkar þó þeir séu lögreglumenn er galið. Þetta eru bara venjulegir menn með sínar tilfinningar eins og ég og þú. Þeir gætu verið þess vegna miklir stuðningsmenn bílstjóranna. En þegar menn eru svívirtir í orði og með grjót- og eggja kasti þá þykknar í öllum.
Það á að sjálfsögðu að gera miklar kröfur á lögregluna. Þeir eru sérmenntaðir í því að sinna svona uppákomum. Þeir hefðu vel getað beðið lengur og reynt að þreyta klárinn. Vera meira dipló. Horfa í gegnum fingur sér og leyfa mönnum aðeins að tjá sig. Fórnað minni hagsmunum fyrir meiri. Sá vægir sem vitið hefur meira er oft sagt.
Bófinn í dramanu er þessi liðónýta Ríkisstjórn. Ég er búinn að lifa í hálfa öld en ég held að þessi ríkisstjórn sé að slá öll met í vitleysu. Ég er farin að upplifa stóran hluta hennar sem geðsjúkling sem hefur ekkert sjúkdómsinnsæi. Á mínum starfsvettvangi þá eru slíkir sjúklingar oft sviptir sjálfræði.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.4.2008 | 20:20
24 000 000 000 Evra X 120
Skuldir bankanna næstu 3 árin er víst þessi summa, reikni nú hver sem betur getur. Eins og ég skil þetta þá er verið að tala um að "bjarga" bönkunum. Ég sakna umræðu um hluthafana sem eiga bankana. Ef maður á fyrirtæki á maður ekki líka skuldir fyrirtækisins. Ég á mitt heimili með öllum þeim hlunnindum sem þar kunna að finnast en einnig þeim fjárskuldbindingum sem leynast þar. Þannig er það bara. Ætli ég geti breytt heimili mínu í banka?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.3.2008 | 00:48
Ísland og Titanic.
Ég hlustað á kvöldfréttatímann áðan og fréttirnar af ofbeldinu í Breiðholtinu voru þar fyrirferðamiklar. Það er reyndar mjög skiljanlegt því þetta er nokkuð nýtt á Íslandi að 12 manns ryðjist inn á heimili fólks.
Reyndar var önnur frétt sem vakti einnig athygli mína. Hún var um þann ótta og skelfingu sem gripið hefur um sig vegna efnahagsástandsins hér á landi. Margs konar vangaveltur um FL grúppu og hugsanlega vaxtarhækkun Seðlabankans. Þetta hljómar eins og sökkvandi skip. Þá kom upp í huga minn Titanic því hroki og dramb varð því góða skipi að falli.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2008 | 21:17
THE QUEEN.
Ég horfði á þessa mynd í gær með fjölskyldunni. Var hálfneyddur til þess því mér finnst lífið of stutt til þess að horfa á sjónvarp. Myndin var aftur á móti hreint afbragð. Myndinni tókst mjög vel að lýsa hversu mikil gjá er á milli kóngafólksins og almúgans. Okkur öllum finnst allt svo gott og fullkomið á Íslandi þannig að varla getur slíkt komið fyrir hér. Var samt hugsi. Breska kóngafólkinu fannst engin þörf á því að láta það trufla sig sem olli bresku þjóðinni mikilli angist og sorg. Það þurfti miklar fortölur svo þau kæmu sér til höfuðborgarinnar. Þegar þau gengu loks á meðal þegna sinna skynjuðu þau alvöru málsins. Spurningin er hvort Geir og Solla ættu að fá sér spássitúr í staðinn fyrir að vera þvælast út um víðan völl-og láta ekki trufla sig.
Th
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.3.2008 | 20:10
Tíkin og hundurinn.
Það kom tík inn á heimilið í dag. Til allra hamingju er hún á förum fyrir nóttina. Hundurinn okkar hefur ekki verið mönnum sinnandi síðan tíkin kom. Það eina sem hann hefur hugsað um er þessi tík. Hann hefur gert allt sem honum dettur til hugar til að ganga í augun á henni. Hann er búinn að missa þvag um allt hús og þar að auki hefur hann skitið einu sinni á borðstofugólfið. Þetta er hann vanur að iðka utanhúss á venjulegum degi. Þrátt fyrir allar þessar hundakúnstir hefur tíkin ekki litið við honum, eina sem hún hugsar um er matur og aftur matur.
Er þetta ekki dæmigert, við gefum konunum okkar allt, við skítum kannski ekki á gólfið en þær fá hjá okkur allt annað, líf, heilsu, tímann okkar og VISA kortið. Öllu þessu fórnum við bara í þeirri von að þeim þóknist að lyfta bossanum örlítið frá gólfi, svona stöku sinnum. Gvöð hvað ég vorkenndi hundinum mínum.
Þessir eiginleikar eru mjög ríkjandi í mannlegum samskiptum, svona almennt.
Sem dæmi þá situr Sjálfstæðisflokkurinn sem fastast á bossanum en Samfylkingin hugsar bara um Evrópusambandið. Samfylkingin telur að margt muni leysast úr læðingi við inngöngu í Evrópusambandið, sama heldur hundurinn minn. En í raun vitum við ekki hvernig króinn spjarar sig fyrr en hann er fæddur. Sjálfstæðisflokkurinn er svo hræddur um hið óþekkta að hann þorir ekki og hugsar bara um um mat, eða að fullnægja augnabliks þörfum sínum. Því situr hann á bossanum.
Sumir myndu segja að sjálfsagt fari Sjálfstæðisflokkurinn á lóðarí fyrr eða síðar. Ég er hræddur um að svo sé ekki. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo aldraður að hann sé hættur að hafa á klæðum. Hægt er að ásaka Samfylkinguna fyrir að vera með maddömu en þegar ég upplifði hegðun hundsins míns þá skildi ég í raun að allt er hey í harðindum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2008 | 22:24
Mannréttindi-hvað er nú það?
Það kom fram í kvöldfréttatíma sjónvarpsins að íslenska ríkið væri enn eina ferðina að fá falleinkunn í mannréttindamálum. Ríkið gleymdu bara að tilkynna liðlega fimmtíu íslenskum þegnum að þeir hefðu orðið fyrir mannréttindabrotum af hálfu ríkisins, eða þannig sko. Um daginn féll íslenska ríkið einnig á mannréttindaprófi Sameinuðu þjóðanna. Núna eru bæði Evrópa og SÞ búin að fella okkur í mannréttindum. Við virðumst ekki á vetur setjandi í þessum málaflokki.
Kannski eru mannréttindi í svo háum tollaflokki að þau hafi aldrei verið flutt inn til landsins. Frekar virðist vera um að ræða að Lénsherrunum sé illa við afskiptasemi. Þeir hafa ekki vanist slíku. Það er greinilega kominn tími á að við Íslendingar förum að opna stjórnsýsluna og gera hana gegnsærri. Hinn almenni borgari þarf að hafa fullan rétt á því að stunda hvaða þá rannsóknarblaðamennsku sem viðkomandi hefur nennu til. Það er óþolandi staða að Lénsherrarnir skammti okkur skemmtiefni.
Sjálfsagt er ég bara grunnhygginn borgari. Mig skortir þennan "dýnamiska" djúpa skilning á tilverunni. Sannleikurinn er sjálfsagt sá að til þess að sóma sér vel í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þarf þjóðin að hafa safnað sér einhverjum lágmarksfjölda mannréttindabrota.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.2.2008 | 01:27
ÞETTA YFIRÞYRMANDI LÍKAN.
Þrátt fyrir að langflestir starfsmenn Landspítalans hafi glaðst mikið þegar Guðlaugur Þór kastaði teningunum og tilkynnti það með endanlegum hætti að nú væri bygging Landspítalans hafin, eru samt ýmsir í vafa. Á margan hátt skiljanlegt. Það er margt sem þarfnast útskýringar sem við starfsmenn upplifum sem sjálfsagða hluti.
Myndin hér fyrir ofan virðist ónáða marga. Fyrst er að geta að öll þessi bygging er ekki eingöngu eiginlegt sjúkrahús. Með þessari nýbyggingu er tækifærið notað og byggt yfir fleiri. Rannsóknarstofan á Keldum verður flutt niðrá Hringbraut. Læknadeild og hjúkrunarfræðideild munu fá húsnæði hér líka. Á það skal bent að læknadeild sameinaðist Háskóla Íslands 1911 en hefur hvergi átt heima þrátt fyrir það. Nú munu þessar háskóladeildir ekki lengur vera á vergangi. Þar með er ég búinn að afgreiða megnið af vinstri helming myndarinnar.
Hinn helmingurinn er sjúkrahús að mestu leiti. Gæta verður að því að þarna koma saman tvö sjúkrahús í eitt og þar að auki önnur starfsemi Landspítalans sem núna er dreifð á minnst 25 mismunandi staði vítt um bæinn.
Skipstjóri án togara verður aldrei aflakló þrátt fyrir bestu áhöfn í heimi. Þegar nýtt sjúkrahús verður risið verða allar forsendur til staðar til að skapa hér bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.
Hver vill ekki njóta þess?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2008 | 20:48
Nýtt Háskólasjúkrahús.
Í dag voru haldnir fundir í báðum hlutum Landspítalans. Tilefnið var að sú nefnd sem Guðlaugur Þór skipaði í haust til að fara yfir þær fyrirætlanir sem fyrir lágu um nýbyggingu Landspítalans hafði komist að niðurstöðu. Það var stór hópur starfsmanna mættur og eftirvæntingin var mikil. Viss ótti hafði læðst að okkur starfsmönnunum núna í vetur að menn væru að hugsa um að hætta við nýbygginguna.
Sá ótti reyndist ekki á rökum reistur. Guðlaugur Þór og Inga Jóna eyddu honum snarlega. Fyrirhugað er að halda áfram af fullum krafti og ekki láta staðar numið fyrr en verkinu er lokið.
Dagurinn í dag er merkisdagur í sögu landsins. 27. febrúar 2008 er dagur sem löngum verður í minnum hafður hjá okkur starfsmönnum Landspítalans. Þegar nýr Landspítali mun fara að taka við sjúklingum munu landsmenn skilja hver munurinn er á nýja og gamla tímanaum.
Þá myndu margir Lilju kveðið hafa.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)