NORÐFJARÐARFLUGVÖLLUR-BÆTUM HEILSUNA MEÐ MALBIKI.

 Sæl öll sömul, þetta er grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið um daginn.

 

Austurland er fjarri Reykjavík eins og alkunna er. Ekki það að hvorugur aðilinn sýti það sérstaklega. Sjálfsagt er sú staða kostum hlaðin í flestu tilliti að mati beggja. Við sem búum hér fyrir sunnan erum sjálfsagt hér því við kunnum því vel eða þekkjum ekkert annað. Sömu sögu má sjálfsagt segja um þá fyrir austan.
Nútíma tækni hefur fært fjarlægar byggðir nær hver annari. Tæknin hefur gert okkur kleift að hafa samskipti mun hraðar og örar en áður, án tillits til búsetu. Hægt er að senda gögn á rafrænu formi á sekúndum. Framþróunin hefur einnig sett auknar kröfur á þjóðfélagið. Þessi krafa um hraða og skilvirkni hefur einnig sett mark sitt á heilbrigðiskerfið. Alltaf hafa snör handtök skipt miklu þegar um bráðasjúkdóma eða slys er að ræða. Áður fyrr skipti kannski ekki svo miklu máli hvar þú varst búsettur, svipuð meðferð var í boði á flestum stöðum. Með sívaxandi tækni hefur mismunun aukist með tilliti til búsetu.
Viss meðferð er eingöngu í boði í Reykjavík við bráðum veikindum. Sem dæmi er hægt að nefna bráða kransæðastíflu. Hægt er að meðhöndla hana með blóðþynningarlyfjum hvar sem er. Aftur á móti næst bestur árangur við kransæðastíflu ef sjúklingurinn kemst inn á Landspítalann innan 4-6 klst í hjartaþræðingu. Í henni opnar hjartalæknirinn kransæðina og setur í fóðringu ef þarf. Því hafa þeir einstaklingar sem búa næst Landspítalanum ákveðið forskot. Einnig má nefna nýbura. Það gerist einstaka sinnum að jafnvel eftir eðlilega meðgöngu og fæðingu þarf nýburi gjörgæslumeðferð á Landspítalanum eftir fæðinguna.Til að árangur verði svipaður og hjá Reykvíkingum þarf sjúklingurinn að komast sem fyrst að austan. Vandamálið er að ekki er hægt að senda sjúklinga jafn hratt og tölvupóst á milli landshluta.
Þar með er ég loksins kominn að efninu. Það er flugvöllur rétt hjá Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Ekki tekur nema nokkrar mínútur að aka sjúklingi þangað. Galli er samt á gjöf Njarðar því þetta er malarvöllur og oft ekki hægt að lenda vegna aurbleytu. Þá þarf að flytja sjúklinginn á Egilstaðarflugvöll, ferð sem tekur um klukkustund. Um er að ræða fjallvegi sem geta verið viðsjárverðir að vetrarlagi.
Þar sem ég hef oft leyst af á Neskaupstað sem læknir þekki ég þetta á eigin skinni. Þegar kunnugir tjáðu mér að kostnaðurinn við að leggja bundið slitlag á flugvöllinn í Neskaupstað hlypi á 20-30 milljónum gat ég bara ekki orða bundist. Þetta eru þvílíkir smáaurar að það tekur því varla að ræða um það. Þetta malbik verður búið að greiða sig upp á örfáum árum bara í minnkuðum kostnaði við akstur sjúklinga til Egilsstaða. Þegar við bætist betri árangur af meðferð sjúklinga vegna minni tafa við að komast í meðferð þá erum við að tala um endurgreiðslutíma í mánuðum.
Ég skora hér með á ábyrg stjórnvöld að sýna skynsemi í ráðstöfun skattpeninga okkar og malbika Norðfjarðarflugvöll sem allra fyrst, að öðrum kosti eru menn að henda krónunni en spara aurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband