Færsluflokkur: Menning og listir

Tyrkland, 15 júlí.

Tyrkland, þetta er æðislegur staður, amk enn sem komið er. Veðrið er mjög gott, hitinn komst upp í 41 gráðu smástund en þá lá ég fyrir undir loftkælingunni. Hótelið okkar heitir Forum og er mjög gott. Rúmgóðar íbúðir og nýtt, allt mjög snyrtilegt. Þjónustan frábær, Tyrkirni vilja alt fyrir mann gera. Við erum búin að fara tvisvar í sundlaugina í dag. Hvíldum okkur inni um miðbik dagsins þegar mesti hitinn var. Röltum reyndar niðrí bæ í hádeginu. Komumst ekki langt fyrir hita og skelltum okkur inn á matsölustað og fengum okkur tyrkneskt kebab, mjög gott. Í kvöld ætlum við að fara í bæinn  og fíla stemminguna.

Kastljós-II

Nú get ég ekki bara orða bundist. Þegar ríkisstjórn Íslands tekur eina stærstu og afdrífaríkustu ákvörðun seinni tíma um sjávarútvegsmál þá fjallar kastljós um fótbolta. Það er fyrst rætt örstutt um sjávarútvegsmál og meðal annars er íþróttafréttamaður fyrir svörum, með fullri virðingu fyrir honum. En augljóst var að ekki átti að ræða sjávarútvegsmál að neinu ráði. Eftir örfár mínútur var farið að ræða eitthvað mark í knattspyrnuleik sem olli því að fullorðnir menn fóru að haga sér eins og smástrákar. Enda varð öll umræðan sem fylgdi eins og hjá krökkum sem eru að saka hvert annað um mismunandi ódæði og röksemdafærslan á svipuðu plani.

Knattspyrna er leikur og skemmtun. Sjávarútvegur og þær ákvarðanir sem teknar voru í dag eru dauðans alvara.

Kastljós á ekki lengur að tilheyra fréttastofu sjónvarpsins heldur vera hluti af skemmtidagskrá þess eins og spaugstofan. 


Kastljós.

Það er merkilegt þetta Kastljós í sjónvarpinu. Það er orðið svolítið poppað, að minnsta kosti fyrir minn smekk. Mér finnst skorta tilfinnanlega í ríkissjónvarpið góðan fréttaskýringaþátt þar sem fólki gefst ráðrúm til að ræða máli. Núna er yfirleitt viðtal við tvo einstaklinga og mjög ströng tímamörk. Yfirleitt er rætt um mál sem eru ofarlega á baugi en það skortir tíma og að málin séu krufin almennilega til mergjar. 

Að ræða til dæmis neyðarpilluna í tvígang þegar mun stærra mál er í gangi en það er væntanlegur niðurskurður á aflaheimildum til að veiða þorsk. Mér finnst að Kastljós ætti að reyna að gera þeim málum betur skil. Þá vildi ég sjá marga aðila kallaða til og að viðkomandi fréttamenn væru vel að sér í málinu og fengju gott tækifæri til að kynna sér málin í þaula. Það er ekki nóg að draga bara fram tvo hauka sem við vitum fyrirfram að munu klóra augun úr hvor öðrum, svipað og hver annar hanaslagur, ekki nokkrum manni til gagns.

Vonandi hverfur Kastljós af braut "skemmtidagskrá" yfir í að verða aftur meiri fréttaskýringaþáttur. 


UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ HIÐ ÍSLENSKA.

Mér fannst ég heyra það í útvarpsfréttunum um helgina að Utanríkisráðuneytið væri þyngst á fóðrum af öllum ráðuneytum íslenska ríkisins. Mig rak í rogastans. Hvernig getur það kostað meira að kenna öllum Íslendingum að lesa eða halda heilsu allra Íslendinga við en að reka eitt Utanríkisráðuneyti.

Utanríkisráðuneytið sér um samskipti við útlönd. Mörg stórfyrirtæki, sum mun stærri en Ísland, sjá um slíka hluti bara með einni netsíðu. Hvað er því til fyrirstöðu að Utanríkisráðuneytið sé bara ein netsíða eða svo? Til þess þarf ekki nema örfáa starfsmenn og öngvan ráðherra. Hvað er allt hitt fólkið að gera? Sjálfsagt bara að senda póst á milli sín.

Ég held að við Íslendingar þurfum að komast niður á jörðina. Mér er mjög minnisstætt þegar Ráðuneytisstjóri í Utanríkisráðuneytinu var spurður hvort ekki þyrfti að spara þar eins og annars staðar í blöðunum hér um árið. Flestir ráðuneytisstjórar hefðu farið í varnarstöðu en viðkomandi svaraði fullum hálsi að " ef við í utanríkisráðuneytinu sjáum einhverja þörf í náinni framtíð að spara þá munum við hugleiða það".

Ég held að Utanríkisráðuneytið sé orðið Ríki í Ríkinu. Þá fellur það undir skilgreiningu á krabbameini, það vex án tillits til heildarinnar. Þá þarf að skera það burt eins og aðrar meinsemdir. 


Unaðsleg helgi.

Helgin hefur verið frábær. Veðrið unaðslegt. Íslenskt sumar er toppurinn, það jafnast ekkert á við það. 

Maður hefur verið að sýsla í garðinum og fór á Kaffi Reykjavík á laugardagskvöldið með frúnni. Borðuðum góða máltíð, hittum vini okkar á eftir og settumst inn á Litla ljóta Andarungann. Fengum okkur léttvín og bjór. Spjölluðum margt gott og skemmtilegt. Dásamlegt að umgangast fólk, framkvæma mannleg samskipti og njóta.

Samt sem áður þá hafa sumir það ekki jafn gott hér Íslandi. Sumir hafa ekki efni á góðum mat. Sumir eiga engan garð til að sýsla í. Sumir eiga kvóta sem þeir vita að þeir munu missa. Sumir munu eignast þann kvóta sem þeir munu þurfa að hafa áhyggjur af hvernig eigi að nota. Sumir eiga hitaveitu sem þeir eiga ekki. Það er ekki víst að sumir hafi notið helgarinnar sem skyldi.

 

 

 

 


Strætó-II

Ég er svolítið með strætó á heilanum þessa dagana. Ástæðan er sú að ég og konan höfum þurft að skutla krökkunum út og suður. Eldri krakkarnir þurfa alltaf að fá bíl lánaðan. Ástæðan er að strætó fullnægir ekki einu sinni þörfum barnanna minna. Það er orðið ansi hart þegar krakkarnir geta ekki notað strætó, hvað þá að fullorðnir geti nýtt sér kerfi strætó.

Ef ekkert verður gert til að gera strætó sem raunhæfan möguleika við einkabílinn þá getum bara pakkað saman strætisvögnunum og nýtt peningana í eitthvað annað. Það er alveg út í bláinn að hafa þessa strætisvagna akandi út um allan bæ nánast MANNLAUSA fyrir utan bílstjórann. 


Virkt lýðræði-Borgari.

Hér sit ég og sötra gott hvítvín ásamt því að brenna gamla þakkantinum mínum í Mexíkanska ofninum. Það er hlýtt í veðri, þurrt og sól-sjaldgæft fyrirbæri hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þá fer ég allt í einu að velta fyrir mér lýðræðinu, hálfgert rugl við þessar aðstæður. Ég er að velta fyrir mér hinu virka lýðræði. Það ku víst birtast í kosningum og kosningarétti þegnanna. Síðan virðist vald okkar dvína hratt að þeim loknum. Hið virka lýðræði á að koma fram stöðugt, í sífelldum athugasemdum okkar borgaranna við hina kjörnu þingmenn. Það er að vera Borgari, skylda Borgarans er að veita aðhald, ekki bara í kosningum.

Ég var að gera mér grein fyrir því að e.t.v. er blogg Borgaranna svar nútímans við fyrrnefndri skyldu Borgaranna sem virkur meðlimur í lýðræðisþjóðfélagi. 

Það sem stendur virku lýðræði mest fyrir þrifum er tímaleysi nútímamannsins. Að halda heimili, vinna, ná frama á vinnustað, sinna börnunum o. sv.fr. gerir það að verkum að lýðræðisiðkun verður harla lítil hjá venjulegu fólki. Því er um að gera hjá stjórnmálamönnum að lengja vinnutímann og á allan hátt halda okkur uppteknum svo við förum örugglega ekki að skipta okkur af störfum þeirra.

Ég hef alltaf litið svo á að einstaklingar sem hafa haft tíma fyrir lýðræðisiðkun samfara venjulegu lífi, þ.e. haft tíma til að fylgjast með fréttum og þess háttar og haft ráðrúm til að mynda sér skoðun hljóta að vera stikkfrí einhverstaðar annar staðar.

Svo kom bloggið. Þar lékum við á ykkur. Nú getur maður sest niður eftir að börnin eru komin í ró og hakkað í okkur pólitíkusana, bara að einhver lesi það sem maður skrifar. Maður er að minnsta kosti búinn að gera skyldu sína sem Borgari. Auk þess hefur maður létt á sér og líður eitthvað betur. En kannski er blogg ekki virkt lýðræði, bara dóp fyrir okkur almúgann-hver veit.

Hvað sem öllu líður þá er best á Íslandi því hvítvínið helst alltaf kalt á íslenskum síðkvöldum. 


Kvennabolti.

Það hefur verið umræða um hversu mikið kvenna vs karlalandsliðið í fótbolta fái greitt. Merkileg umræða í sjálfu sér. Ef ég ræki þessi tvö lið og annað klúðraði öllu og hitt ynni alla leikina sína væri ég ekki lengi að gera upp hug minn hvoru ég myndi launa betur og  frekar. Þ.e.a.s. ef bæði liðin væru karlalið. En nú vill svo vel til að betra liðið er kvennalið og þær eru bara svo glaðar að vinna og finnst boltinn svo voðalega skemmtilegur að ég slepp við að borga þeim nokkuð sem heitið getur. Að sjálfsögðu nýti ég mér slíka aðstöðu, annars væri ég ekki bísnismaður. 

Þegar stúlkurnar fatta að þetta er bísnis en ekki bolti þá fara þær kannski að fá laun alls erfiðisins. 


Neskaupsstaður-IV.

Núna er ég kominn úr útlegðinni á Neskaupsstað. Hef orðið margs vísari. Ekki voru svæfingarnar margar, bara örfáar, veit ekki hvort tilvist mín skipti einhverjum sköpum. Gerðum þó einn keisara, sennilega hefði það verið verra að þurfa senda hana frá okkur. Hvað veit ég, kemur ekki í ljós fyrr en krakkinn tekur stúdentspróf að 20 árum liðnum hvort nærvera mín skipti einhverju máli. Þá verða börnin mín sennilega að reyna að hola mér niður á einhverft hjúkrunarheimilið.

Svo lærði ég annað skondið og sorglegt. Ef þú vilt fá ýsu í soðið, ég tala ekki um ferska, þá þurfa íbúar í Neskaupsstað á Norðfirði að aka 75 km. til Egilsstaða og kaupa ýsuna þar í Bónus. Neskaupsstaður er ÚTVEGSSTAÐUR þ.e. þar er bryggja, sjómenn, apparöt sem fljóta á vatni og veiða fisk, kallast bátar eða togarar eftir atvikum en það er ekki hægt að fá ýsu í soðið. Þetta er klikkun!!!!! Þegar ég bjó á Patró í den þá voru það stór hlunnindi að hafa fisk 3-4 x í viku, þess vegna eru börnin mín svona gáfuð. Að fara niður í fiskverkunarhús og velja mátulega litla Lúðu, feita og í andarslitrunum úr hrúgunni voru lífsgæði. Hlaupa svo með hana spriklandi á pönnuna var nautn. Að borða hana var unun.

Hvað er að gerast? Er firringin orðin algjör? Ef ekki er hægt að fá ferskan fisk í Íslensku sjávarplássi án þess að fara í Bónus þá er eitthvað mikið að. 


Strætó.

Nú ætlar Gunnar í Kópavoginum að gefa öllum frítt í strætó í eitt ár. Mjög gott framtak, en ég er svolítið svartsýnn á árangurinn. Hugmyndin er að allir hópist í vagnana. Til þess að hinn venjulegi Íslendingur noti strætisvagn í stað einkabíls þarf kerfið að uppfylla viss skilyrði. Í fyrsta lagi þarf annað hvort að vera ókeypis eða hægt að borga með venjulegu bankakorti, því við höfum aldrei á okkur strætómiða né smápeninga. Í annan stað verður að duga að taka einn vagn, það er allt of flókið fyrir Íslendinginn að skipta um vagn. Að lokum, þetta skiptir höfuðmáli, strætó á aka svo þétt að við þurfum ekki að ath hvað klukkunni líður. Þá er ég að tala um vagn á 5 til 10 mín. fresti.

 Sem sagt, bara vita númer hvað, hvaða stoppistöð, ekkert að borga og hvenær sem er, þá á strætó smá möguleika að keppa við einkabílinn.

Þangað til að kerfið getur fullnægt þessum frumþörfum okkar eru allar tilraunir svo til dauðadæmdar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband