Færsluflokkur: Menning og listir
10.8.2007 | 23:03
Óvinurinn.
Ég er búinn að lifa næstum í hálfa öld, ég hef aldrei upplifað stríð enn sem komið er. Í æsku voru Rússarnir alltaf á leiðinni en komu aldrei. Í dag eru hryðjuverkamenn á ferðinni, vonandi koma þeir aldrei. Styrjaldir hafa fylgt mannkyninu alla tíð. Herveldi hafa komið og farið. Þetta er órjúfanlegur hluti mannlegrar menningar að eiga á hættu að vera sprengdur í loft upp af Óvininum.
Óvinurinn eru einhverjir tindátar sem hefur verið sagt að sprengja okkur í loft upp. Gegn þessari vá ætla Íslendingar að berjast gegn með því að reka hér ratsjárstöðvar, sem eru jafnvel orðnar úreltar. Ekki er hægt að sjá að ratsjárstöðvarnar muni vara okkur við innrás því önnur NATO ríki munu sjá það langt á undan okkur. Ég held að þetta brölt sé hálf tilgangslaust amk hvað viðkemur vörnum Íslands. Ef aðrir hafa rænu á því að láta okkur vita að innrás sé í vændum munum við vita það með nægum fyrirvara. NATO mun þá verja okkur ef það er talið borga sig annars ekki. Við breytum engu þar um.
Hvað viðkemur hryðjuverkjum þá höldum við áfram að gera flugfarþegum gramt í geð og vonandi með einhverjum árangri. Það sem er árangursríkast er að uppræta allar hvatir til að sprengja aðrar manneskjur í loft upp. Leysa vandamálin fyrir botni Miðjarahafs. Hjálpa Bandaríkjunum í gegnum gelgjuskeið hinna fullvalda ríkja. Þá vantar mikinn þroska enn sem komið er. Óvinurinn leynist víða.
1.8.2007 | 02:04
Borgaralegt lýðræði.
Stundum hef ég velt fyrir mér lýðræði og hvernig við beitum því. Að vera Borgari í lýðræðis ríki setur vissar skyldur á herðar manns. Að vera Borgari krefst þess að maður sé virkur, hafi skoðun og komi þeim á framfæri. Ekki bara í kosningum. Margir hafa verið harðduglegir á þessu sviði. Sjálfsagt voru aðal aðferðirnar að mæta á fundi og skrifa í blöð. Einnig hefur sjálfsagt verið mjög áhrifaríkt að geta hitt félagana á minni fundum og lagt á ráðin. Þetta hefur sjálfsagt verið gott og gilt áður fyrr en er sennilega allt of hægvirkt á öld hraðans í dag.
Í dag er hraðvirkari aðferðum beitt. Fulltrúar fólksins eru með heimasíður á netinu, setja þar fram skoðanir sínar og áður en að dagur er að kveldi þá hafa þeir fengið fjölda athugasemda frá virkum Borgurum þessa lands. Gallinn er reyndar sá að oft eru það varðhundar andstæðinganna sem eru duglegastir við að senda inn athugasemdir. Menn verða nú að sætta sig við það og oft reynist sannleikskorn í því sem þeir segja.
Auk þess erum við þessir venjulegu að blogga og rífa kjaft, þar er hægt að taka púlsinn og að reyna átta sig á hvað venjulegir Borgarar eru að hugsa.
Að hafa heimasíðu hefur reyndar vissan galla. Þú ert svolítið berskjaldaður. Þú lætur skoðanir þínar í ljós og hægt að mótmæla þér, svona eins og þú sért í samtali við hálfa þjóðina. Vissum virðist ekki hugnast þessi tækni að öllu leiti. Hafa etv heimasíðu en hún er í formi eintals því ekki er hægt að koma með athugasemdir-sem sagt lokuð heimasíða. Aðrir hafa enga heimasíðu og eru ekkert að vasast í netheimum. Virðist alls ekki tengjast neinum aldri, frekar persónu. Finnst kannski þægilegra að tala við nokkra samherja úr heimasímanum, ekkert ónæði. Lýðræðið er vissulega tímafrekt og krefjandi. Að vera einvaldur finnst sumum einfaldara, örugglega einvaldinum. Því miður verða tengsl þeirra við almúgann oft lítil og ómarkviss. Þeir þorna oft upp því það er nærandi að standa í skoðanaskiptum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2007 | 00:27
Vínsala, neysla eða ofneysla.
Það hefur verið nokkur umræða um smásölu víns á Íslandi. Talsmenn frelsisins vilja færa okkur nær Evrópu í þessum efnum. Andstæðingarnir vilja höft og hátt verðlag.
Það er þetta með vímuefnin okkar og stjórnlausa fíkn í þau á móti eðlilegri neyslu. Það er á margan hátt verið að takast á um hvernig við umgöngumst þessi efni og hvernig við tökumst á við þau. Hvernig við höfum meðhöndlað fíkn náungans í vímuefni er merkilegt fyrirbæri. Afstaða okkar á 21. öldinni til fíkla er ekki ósvipuð umgengni forfeðra okkar á holdsveikum hér á öldum áður.
Ef við höldum okkur við samlíkinguna við holdsveika þá var það stefnan að vona inn í það síðasta að veikjast ekki sjálfur. Ef maður veiktist var það refsing æðri máttarvalda og síðan voru viðkomandi úthýstir úr mannlegu samfélagi. Svipað er komið fyrir okkur á dag. Allir vonast til að börnin þeirra verði ekki fíklar. Ef fíkill er í fjölskyldu náungans þá reynum við að forðast frekari umgegni í þeirri von að smitast ekki. Svo viljum við koma þeim fyrir á stofnunum þar sem þau eru "læknuð". Eins og með holdsveikina. Vandamálið er að holdsveiki er ekki fíkn, fíkn er eitthvað sem býr með einstaklingum eða myndast við notkun efnis.
Fíkn á sér þrjár undirstöður. Fíkniefnið, einstaklinginn og fíknina. Þegar allt kemur saman þá er komin fíkniefnaneysla. Til að leysa það vandamál þarf að eyða einhverjum þessara þriggja þátta. Það hefur ekki gengið vel hingað til. Spurningin er hvort það er fullreynt með þeim aðferðum sem við höfum beitt hingað til eða tími endurskoðunarinnar er kominn.
Ef fíkniefnaneysla væri eins og holdsveiki væri vandamálið einfalt. Því miður er ekki svo. Fíkniefnaneysla er flókið fyrirbæri. Ef fíkn er til staðar þá skiptir engu máli hvar fíkniefnið er selt né hversu mikið það kostar. Öllu er fórnað. Því held ég að það skipti ekki máli þó vín sé ódýrara en í dag. Persónulega skiptir það mig engu méli þó ég fari í eina verslun aukalega til að kaupa vín og sé því enga knýjandi þörf á því að færa vínsölu inn í matvöruverslanir. Ef hægt væri að láta fíkniefni hverfa í eitt skipti fyrir öll væri málið leyst. Svo er ekki. Meðan þannig er málum háttað verður að vera til staðar forvarnarstarf og meðferð þeirra sem verða fíklar.
Aftur á móti er umræða um hvernig við ætlum að fást við afleiðingar annarra fíkniefna en víns mjög mikilvæg og þörf.
30.7.2007 | 21:32
Til hvers Frjálslyndi Flokkurinn?
Ég er í svolítilli tilvistarkreppu þessa dagana. Ég hef verið hallir undir stefnumál FF að undanförnu. Aftur á móti hef ég verið að velta því fyrir mér hvers vegna FF ætti að vera til.
Kosningaúrslitin eru í raun ósigur. Ef menn velta því fyrir sér að FF setti á oddinn mörg af helstu baráttumálum hinna dreifðu byggða þá var uppskeran á þeim svæðum ansi rýr. Annað hvort treysti fólk öðrum flokkum betur fyrir hagsmunum sínum eða rödd FF komst engan veginn til skila. Þegar kvótinn er skorinn niður þessa dagana þá blæða þær byggðir mest sem FF ætluðu sér að vernda. Hvers vegna kusu menn þá ekki FF til að koma í veg fyrir þessar aðfarir? Hélt fólk að atkvæði sínu væri betur borgið hjá niðurskurðarflokkunum eða hafði enginn heyrt talað um FF og kaus hann því ekki.
Miðað við stefnu FF hefðu þeir átt að sópa til sín á þeim svæðum sem núna verða verst úti í kvótaniðurskurði, það gerðist ekki í vor. Trúði fólk ekki á að þessi ósköp myndu dynja á þeim þrátt fyrir varnaðarorð FF. Núna eru allir sem verða fyrir þessum niðurskurði ævareiðir en ekki fylkja þeir sér um FF þrátt fyrir það. Það er greinilega mikið ósamræmi í öllu þessu. Hinar dreifðu byggðir eru eins gyðingar forðum sem létu leiða sig möglunarlaust til slátrunar.
Því er ég í nokkurri naflaskoðun þessa dagana. Hefur meirihlutinn ekki bara rétt fyrir sér, er FF ekki bara óþarfur, er þetta ekki bara einhver rómantískur misskilningur? Ef nánast enginn sá sér hag í því að kjósa FF því ætti hann að vera til? Er ég kannski bara í svartsýniskasti?
29.7.2007 | 23:31
Ísland í dag.
Er fimmtugur kall eins og ég forngripur í þessu þjóðfélagi. Hringamyndun í viðskiptum virðist vera reglan. Gamli Sjálfstæðisflokkurinn sem ól mig upp einkenndist af einstaklingshyggju, frelsi einstaklingsins, framtaki einstaklingsins og frelsi til athafna. Dugnaður var gilt hugtak. Ríkisafskipti voru af hinu vonda. Náttúrulögmálin myndu leiða til bestu niðurstöðu flestum í hag.
Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn flokkur ríkisafskipta. Algjört kratabæli með Framsóknarstíl. Regluverkið er sniðið að einhverjum góðvinum flokksins sem græða á tá og fingri. Svo er það kallað frjálshyggja, í mínum eyrum argasta klám. Að beita ríkisvaldinu til að veita vissum aðilum forskot er ekki frjálshyggja í mínum huga. Í besta falli ríkiskapítalismi en þó mun frekar í ætt við áætlunarbúskap Stalíns gamla. Síðan er smurt smáaurum á kvartssárustu hópana eftir þörfum.
Ef fáir græða mikið er ef til vill mun auðveldara fyrir hagfræðinga að reikna út stöðugleika og aðrar hagfræðilegar niðurstöður en ef margir einstaklingar eru að maka krókinn.
Við verðum að gera þá kröfu til hagfræðingsins í brúnni að hann leggi á sig smá reiknikúnstir og fylgi að minnsta kosti upphaflegri hugsun Sjálfstæðisflokksins. Að allt skuli falla og standa með hámarks gróða er ekki til góðs fyrir fjöldann, sérstaklega þegar það er ríkisstýrt. Það fengu þegnar fyrrum Sovétríkjanna að reyna í sínum áætlunarbúskap sem vit átti að hafa fyrir einstaklingsframtakinu. Hleypum smá rómantík inn í tilveruna og leyfum smáum að njóta sín.
28.7.2007 | 23:22
Tyrkland og Guðstrúin.
Nú er Tyrklandsævintýrinu lokið. Við komum heim í nótt. Allir voru sammála um að ferðin hafi verið meiri háttar vel heppnuð. Okkur fannst gott að vera í Tyrklandi. Fjölskyldan vill mjög gjarnan fara aftur að ári og segir það sína sögu. Vorum á Club Turban hótelinu seinni vikuna. Nutum lífsins þar í hvívetna. Get virkilega mælt með Tyrklandi sem ferðamannastað.
Það sem gerir Tyrkland óneitanlega svolítið sérstakan ferðamannastað er að það er múslímskt land. Oftast höfum við verið að ferðast um kristin svæði, lútersk eða kaþólsk. Tyrkland hefur þá sérstöðu að fullur aðskilnaður er á ríki og trú. Sem ferðamaður í Tyrklandi er nánast ekkert sem bendir til þess að maður sé í landi þar sem 99% íbúanna séu múhameðstrúar. Maður var ekkert var við trúariðkun landsmanna. Enginn af þeim Tyrkjum sem voru að vinna í kringum mann virtust biðjast fyrir fimm sinnum á dag. Einstaka konur voru huldar klæðum en þær voru algjör undantekning. Flest minnti mann á vestræna menningu, bæði í háttalagi og öllu umhverfi.
Það vakti auk þess athygli mína að nýkjörinn forseti Tyrklands, sem hefur verið hallur við strangtrúarstefnu, gerði strax grein fyrir því að hann hygðist ekki breyta neinu í sambandi trúar og ríkis. Enda eins gott fyrir hann, því annars mun herinn setja hann af.
Svipað hugarfar ríkir hér á landi, nema með öfugum formerkjum. Þegar alræmdur vinstri maður, Ólafur Ragnar, er kjörinn forseti á Íslandi þá gengur ekki hnífurinn á milli hans og lútersku kirkjunnar á Íslandi. Ef hann hefði vogað sér að setja sig upp á móti kirkjunni hefði hann aldrei náð kjöri sem forseti. Þá hefði "herinn" sett hann af.
Hér á landi er ekki neinn aðskilnaður trúar og ríkis. Að því leitinu erum við komin skemur á veg en Tyrkir.
25.7.2007 | 18:46
Tyrkneskt detox.
Við höfum verið hér í góðu yfirlæti í Tyrklandi. Þessa vikuna erum við á Hoteli Club Turban. Þar er allt innifalið, fullt fæði og drykkir allan liðlangan daginn. Dagurinn er þétt bókaður. Tímafrek sólböð sem eru tafin með sífelldum sjávarböðum til að forða líkamanum frá suðumarki. Svo fer töluverður tími í að skola niður 3 lítrum af vatni á dag ásamt ögn af bjór eða brandy. Þegar meðvitundarstigið er vart finnanlegt þá skellir maður í sig tyrknesku kaffi.
Detox meðferð hefur verið vinsæl á Íslandi upp á síðkastið. Einhverskonar afeitrunarmeðferð í gegnum ristilþvott. Sem læknir þekki ég það mjög vel að þetta líffæri á hug manns allan við upphaf og lok lífs okkar. Þar sem ég tel mig vera staddan einhvers staðar mitt á milli þessara tveggja póla í lífi mínu velti ég frekar fyrir mér öðrum líffærum.
Ég held að tyrkneskur HEILAÞVOTTUR sé frekar við hæfi nú til dags. Ristillinn og innihald hans er hvort sem er fyrir utan líkamann og þar að auki er það líffæri að mestu sjálfvirkt. Heilinn aftur á móti er óneitanlega hluti af líkamanum. Ég held að við ættum að sína honum viðlíka virðingu og skolpröri skrokksins.
Að fara í frí og slaka á ætti að vera mun meðvitaðra ferli. Hvers vegna pantar maður sér bara tvær vikur á svona letistað. Jú, sú hræðilega staða gæti komið upp að manni færi að leiðast ef maður væri í þrjár vikur. Hvað er að leiðast? Að hafa svo mikinn tíma til að gera ekki neitt annað en það sem hugurinn girnist að það veldur óróleika í heilanum.
Ég held að tyrkneskt detox sé okkur öllum holl.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2007 | 22:03
Tyrkneskur strætó.
Hér í Marmaris í Tyrklandi er strætó. Hann er að mestu rekinn af einyrkjum. Þeir eiga sinn vagn og reka hann sjálfir. Þeir hafa hagsmuna að gæta, þ. e. sinna.
Þeir hafa vagninn frekar lítinn þannig að hann fyllist fljótt. Yfirbyggingin er skorin við nögl, bara þeir sjálfir. Þeir keyra sem oftast fyrirfram ákveðna leið því þannig ná þeir í sem flesta farþega. Farþegarnir þurfa ekki að kunna neina tímatöflu því hún er ekki til. Maður gengur bara út á götu og vinkar þá stoppa þeir, svo taka þeir við aðgangseyrinum sjálfir. Síðan segir maður bara STOPP og þá stoppar hann. Það gæti ekki verið einfaldara og þess vegna DETTUR MANNI EKKI Í HUG AÐ TAKA LEIGUBÍL.
Hvatir strætisvagna höfuðborgar Íslands eru allt annars eðlis. Sem fæstir farþegar sem sjaldnast gefur af sér minnstan kostnað. Þess vegna er það sem manni dettur fyrst í hug í Reykjavík er TAXI.
17.7.2007 | 16:44
Tyrkland-vatnsrennibrautagarður.
17.7.2007 | 14:06
Naflastrengurinn.
Það er mjög merkilegt að vera í Tyrklandi. Hér voru fyrstu vínin í heiminum ræktuð. Hér er borg sem heitir Efesus og er mörg þúsund ára gömul. Þar eru almenningssalerni og upphituð gólf. Íslendingar voru þá ekki einu sinni til. Þegar þeir birtust hafa þeir sjálfsagt verið flokkaðir sem villimenn af Tyrkjum. Svo erum við að setja okkur á háan hest. Í Istanbúl er kirkja sem er 1500 ára gömul og var ein stærsta kirkjan í veröldinni um 800 ára skeið. Geri aðrir betur.
Við hjónin höfum verið að ferðast svolítið að undanförnu. Heimsótt Madrid, Prag og Barcelona. Nú Kaupmannahöfn að sjálfsögðu. Þegar maður drekkur í sig menningu þessara borga, þá á einhvern hátt nær maður að samsama sig þessari fornu menningu. Á einhvern hátt er maður hluti af henni, maður finnur fyrir samhljóm. Maður fær svolítið sérstaka tilfinningu í sálina, hálfgerða helgun eða jafnvel dýpt og ró. Við eigum okkar upphaf hér, það eimir svolítið eftir af þeim naflastreng.
Við vorum á Florida fyrir ári. Gott frí í sjálfu sér. Heimsóttum skemmtigarðana fyrir börnin. Tilveran í Florida er svolítið öðruvísi en í Evrópu. Florida er tilbúin veröld. Í raun getur bara krókódíllinn búið í Florida án þess að gjörbreyta öllu umhverfi sínu með þurrkun fenja, loftkælingu og þess háttar. Í raun er Florida nánast óbyggilegt fyrir menn nema með þessum tilfæringum. Þetta er bara mjög rakt, heitt fenjasvæði fyrir krókódíla. Reyndar er krókódíllinn friðaður í Florida. Því er hann eina skepnan sem hefur öruggan tilvistargrundvöll í Florida. Hann er friðaður, enginn mé drepa hann, honum er hvorki of heitt né kalt þar sem hann marir hálfur í kafi. Auk þess má hann éta alla hina íbúana í Florida. Góður díll.
Svo eru hinir dílarnir í Flórída. Það eru þeir sem selja manni allt milli himins og jarðar. Ég held að það eina sem er frítt í henni Ameríku er loftið sem maður andar að sér. Allt annað selja þeir manni og líf þeir gengur út á að selja. Að selja eru þeirra trúarbrögð. Að selja er þeirra menning.
Þegar Evrópubúar fluttu til Ameríku þá slitnaði naflastrengurinn, því miður. Núna eigum við í vandræðum með þennan ungling sem veit ekki ennþá muninn á réttu og röngu.