Færsluflokkur: Menning og listir

Frelsi hér og frelsi þar og Múhameð.

Frelsi er mikilvægt. Nú ætlum við Íslendingar að birta myndir af spámanninum Múhameð. Um er að ræða fræðigrein um spámanninn og er myndin viðbót við þá grein. Múslímar eru ekki sáttir. Samkvæmt þeirra trú má ekki birta neina mynd, hvorki grínmynd né venjulega mynd af spámanninum Múhameð. Að birta mynd af Múhameð særir múslima.

Ég var svolítið að velta þessu fyrir mér. Við vesturlandabúar viljum birta myndir af Múhameð. Við teljum okkur geta gert það sökum frelsis, tjáningarfrelsis. Frelsi er gott og mikilvægt. Við sem aðhyllumst frelsi vitum að það eru samt til aðstæður sem takmarka frelsi til frelsisiðkunar. Ef frelsi veldur skaða þá ber að setja takmarkanir á frelsið.

Ef frelsi okkar vesturlandabúa til að birta myndir af Múhameð veldur skaða og sorg í hjörtum múslima er þá ekki komin ástæða til að hugsa sig að minnsta kosti tvisvar um. Ofsafengin viðbrögð múslima vegna fyrri myndbirtinga á Múhameð eru þeim ekki til sóma. Sennilega eru þau mun frekar í ætt við pólitík en trú. Öll trúarbrögð hafa einhvern tíman iðkað pólitík.

Ég er mjög vilhallur hugsjónum frelsisins. Á sama tíma er ég alinn upp í kristnu þjóðfélagi. Ég finn engar andstæður í því. "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið þeim og gjöra." Þannig hljómar boðskapurinn í Biblíunni. Því kemst ég að þeirri niðurstöðu, bæði út frá trú minni í pólitík og í andlegum efnum að ég hefði sleppt því að birta þessa mynd af Múhameð. Sá gjörningur minn hefði veitt mér gleði og sátt í sinni. Bæði vegna þess að ég hefði haft hugrekki til að takmarka mitt eigið frelsi öðrum mönnum til framdráttar og ég hefði reynt að uppfylla stóra kærleiksboðorðið sem kristin trú á að snúast um. Mér fyndist ég meiri maður fyrir vikið.

Væru ekki múslímar þá að kúga mig? Mér finnst það ekki kúgun að sleppa mynd ef það veldur gleði margra. Tæplega veldur myndleysið mikilli sorg. Er ekki sælla að gefa en að þiggja? Er hugsanavilla í hugum okkar vesturlandabúa? Túlkum við frelsi sem réttinn; ég má, ég á. Kallaðist það ekki nýlendustefna hér áður fyrr? 


Mannréttindi-hvað er nú það?

Það kom fram í kvöldfréttatíma sjónvarpsins að íslenska ríkið væri enn eina ferðina að fá falleinkunn í mannréttindamálum. Ríkið gleymdu bara að tilkynna liðlega fimmtíu íslenskum þegnum að þeir hefðu orðið fyrir mannréttindabrotum af hálfu ríkisins, eða þannig sko. Um daginn féll íslenska ríkið einnig á mannréttindaprófi Sameinuðu þjóðanna. Núna eru bæði Evrópa og SÞ búin að fella okkur í mannréttindum. Við virðumst ekki á vetur setjandi í þessum málaflokki.

Kannski eru mannréttindi í svo háum tollaflokki að þau hafi aldrei verið flutt inn til landsins. Frekar virðist vera um að ræða að Lénsherrunum sé illa við afskiptasemi. Þeir hafa ekki vanist slíku. Það er greinilega kominn tími á að við Íslendingar förum að opna stjórnsýsluna og gera hana gegnsærri. Hinn almenni borgari þarf að hafa fullan rétt á því að stunda hvaða þá rannsóknarblaðamennsku sem viðkomandi hefur nennu til. Það er óþolandi staða að Lénsherrarnir skammti okkur skemmtiefni.

Sjálfsagt er ég bara grunnhygginn borgari. Mig skortir þennan "dýnamiska" djúpa skilning á tilverunni. Sannleikurinn er sjálfsagt sá að til þess að sóma sér vel í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þarf þjóðin að hafa safnað sér einhverjum lágmarksfjölda mannréttindabrota.

 


Kerfisstíflur og mismunandi drullusokkar.

Það er nokkuð merkileg frétt á forsíðu Fréttablaðsins á föstudaginn. Þar kemur fram að við Íslendingar búum svo vel að eiga flest rými fyrir aldraða miðað við nágrannaþjóðirnar. Síðan er gefið í skyn að tregða sé að taka við veikustu einstaklingunum inn á hjúkrunarheimilin. Hingað til hafa þeir sem eru hressastir verið settir í forgang. Tekið er dæmi um aldraðan einstakling sem ekki var hægt að útskrifa af sjúkrahúsi því ekkert pláss var til fyrir hann á hjúkrunarheimili.

Til að fyrirbyggja stíflumyndanir innan kerfisins hefur hið opinbera gripið til sinna ráða. Búið er að semja ný lög. Samkvæmt þeim eiga aðrar manneskjur en áður í öðru húsi að ákveða hverjir komast inn á hjúkrunarheimili. Sem sagt ný nefnd í stað þeirrar gömlu. Ég vona svo innilega að nýr drullusokkur virki betur á stífluna en sá gamli.

Aftur á móti held ég að leysa mætti vandamál sjúkrahúsanna á annan hátt þegar kemur að útskrift einstaklinga í þörf fyrir hjúkrunarrými. Ef sveitafélag viðkomandi einstaklings þyrfti að greiða sjúkrahúsinu beint fyrir leguna þar, eftir að viðkomandi er útskriftarfær væri málið einfaldað mjög. Það væri mikill hvati fyrir sveitafélögin að taka við sínu fólki aftur því mun ódýrara er að greiða fyrir vistun á hjúkrunarheimili en á sjúkrahúsi. Þar með væri stíflan sjálfleyst. Það vill stundum gleymast að buddan slær oftast næst hjartanu.


BHUTTO MYRT !!

Benazir Bhutto (b. 21 June 1953) Þessi kona var myrt í dag. Það virkar á mig sem kjaftshögg.Hún var ekki fullkomin frekar en við hin.Einhver gerði þá kröfu til hennar að hún væri fullkomlega þóknanleg sér.Þar sem það gekk ekki upp þá myrtu þeir hana.Því mætti myrða okkur öll hin líka því enginn er öllum þóknanlegur. Að geta ekki skynjað margbreytileikan í mannlífinu og upplifa eingöngu einn sannleika um lífið er banvænt. Virðing fyrir skoðunum annarra verður að vera hluti af lífsýn okkar allra. Ágætt er að taka til í eigin garði og gott upphaf er að tala ekki niður til annarra og skoðana þeirra. Lífið er í sjálfu sér of stutt til að skapa sér ástæður til að rífast.  

JÓLAHUGLEIÐING.

Jólin eru merkilegur tími. Sjálfsagt hafa jólin ýmsar birtingarmyndir hjá mismunandi einstaklingum. Mjög sennilega hefur æska og uppeldi mikið að segja, eða eins og erfðamengið í mannskepnunni. Þar á móti kemur ætlun okkar um hvernig við höldum okkar jól. Hvernig við höndlum hefðirnar eða nýtum okkur þær til að gera jólin okkar.

Sameiginlegt er þó flestum að jólin eru vegferð með vissum endi sem þó endurtekur sig í sífellu ár eftir ár. Í raun hefst vegferðin um leið og einum jólum er lokið. Annað sem er sameiginlegt flestum er að mikil samvinna á sér stað við undirbúning jólanna. Þessi sameiginlegi undirbúningur er mjög ríkjandi í hegðun flestra. Fjölskyldur eiga sér sameiginlegt markmið, jólin, þar sem undirbúningurinn veitir einna mesta gleði ekki síður en jólin sjálf. Fjölskyldumeðlimir taka höndum saman og hlutverkin skipast eftir því sem gagnast lokamarkmiðinu, gleðilegum jólum. Enginn einn reynir að krýna sig meistara því sigurinn felst í uppskerunni, að allir í fjölskyldunni eigi gleðileg jól. Jólagjafirnar endurspegla þetta vel því flestir eru að velja gjafir fyrir einhvern annan en sjálfan sig og setja sjálfan sig þar með í annað sætið. Því hafa allir í fjölskyldunni hlutverk, oft er það húsmóðirin sem leiðir starfið en reynir þó að gæta þess að allir fái hlutverk við hæfi. Ekki eingöngu vegna þess að margar hendur vinna létt verk heldur miklu frekar að þá finnst öllum að þeir eigi hlut í jólunum. 

Ekki er víst að allir hafi sömu sýn eða reynslu af jólunum. Hvernig við breytum því er vandséð því margt kemur örugglega til. Erfið æska eða slæmar núverandi aðstæður í bland við vandamál. Best væri þó að sem flestir gætu átt góðar stundir í takt við umhverfið.

 


Ætli Dumbó hafi haft próf?

Eins og kemur fram hér fyrir neðan þá er stór hluti kennara ekki með viðeigandi menntun til að kenna það sem þeir eru samt að kenna.

Við vitum einnig að það er skortur á kennurum.

Ætli við myndum bregðast eins við ef okkur skorti flugmenn til að fljúga með okkur á milli staða. Hver er þá munurinn á flugmanninum okkar og kennara barnanna okkar? Jú flugmaðurinn flýgur okkur en kennarinn kennir börnunum okkar. Sem sagt okkur er alls ekki sama um okkur en okkur er skítsama um börnin okkar.


 

 

3. Samantekt


Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir upplýsingaöflun menntamálaráðuneytisins
um menntun þeirra sem kenna stærðfræði og náttúrufræði í 7. – 10. bekk grunnskóla og
stærðfræði, náttúrufræði, eðlisfræði, jarðfræði og líffræði í framhaldsskólum veturinn
2003 – 2004.


Fram kemur m.a. að 49% þeirra sem kenna stærðfræði í 8. – 10. bekk eru
grunnskólakennarar með almennt kennarapróf, en 33% þeirra eru grunnskólakennarar
með BEd-próf og stærðfræði sem valgrein.
Í 7. bekk er rétt tæpur helmingur þeirra sem kenna stærðfræði án þess að vera
umsjónarkennari viðkomandi bekkjar grunnskólakennari með almennt kennarapróf,
tæpur fjórðungur kennaranna eru grunnskólakennarar með BEd-próf og stærðfræði sem
valgrein.
Þegar menntun stærðfræðikennara í 7. – 10. bekk eru skoðaðuð í heild kemur í ljós að
u.þ.b. helmingur kennara sem kenna stærðfræði sérstaklega eru grunnskólakennarar með
almennt kennarapróf. Grunnskólakennarar með BEd-próf og stærðfræði sem valgrein eru
30% hópsins.
Í kennslu náttúrufræði í grunnskólum í 8. – 10. bekk eru flestir kennarar grunnskólakennarar
með BEd-próf og náttúrufræði sem valgrein eða 40%, en 32% kennaranna eru
grunnskólakennarar með almennt kennarapróf. Í 7. bekk er svipað hlutfall
grunnskólakennara með BEd-próf og náttúrufræði sem valgrein, 36% og með almennt
kennarapróf er 38%.
Þegar náttúrufræðikennarar í 7. – 10. bekk er skoðaður í heild kemur í ljós að flestir þeirra
eru grunnskólakennarar með BEd-próf og náttúrufræði sem valgrein, 38%.
Í heild bárust upplýsingar um 403 kennara í framhaldsskólum sem kenna stærðfræði.
Kennarar með BS-próf í stærðfræði eru innan við helmingur þeirra sem kenna stærðfræði
eða um 46% af heildinni.
Í framhaldsskólum er minnihluti stærðfræðikennara sem kenna áfanga frá 102 – 363
framhaldsskólakennarar með BS-próf eða hærri prófgráðu í stærðfræði, eða frá 34%-46%.
Þegar lengra kemur í náminu, þ.e. í áföngum 403 – 703 snýst þetta við og meirihluti
kennara eru framhaldsskólakennarar með BS-próf eða hærri prófgráðu í stærðfræði, eða
frá 56-59%.
Kennarar sem kenna náttúrufræðigreinarnar náttúrufræði, eðlisfræði, jarðfræði og
líffræði eru að meirihluta framhaldsskólakennarar með BS-próf eða hærri prófgráðu í
viðkomandi námsgrein.


15


"Þekkirðu nokkuð barngóða konu sem kann að elda og getur tekið að sér að kenna heimilisfræði"?

Áfram með vesalings kennarana. Var að heyra í einum vesalings deildarstjóra í skóla hér á höfuðborgarsvæðinu. Hún hringdi í okkur hjónin og spurði hvort við þekktum einhverja barngóða konu sem kynni að elda mat til að taka að sér kennslu í heimilisfræðum. Auk þess hafði tónlistarmaðurinn sem hafði góðfúslega tekið að sér að kenna tónmennt því engan tónmenntakennara var að fá, snarlega ákveðið að hætta þegar hann komst að því að hann gat ekki með nokkru móti haft neina stjórn á krökkunum. Að kunna viðkomandi sérgrein svo sem tónlist eða eldamennsku er ekki sama og að kunna að kenna, því að kenna er sérgrein. Að lokum var hún vinkona okkar meið nýráðinn ungann kennara sem fékk tilboð frá leikskóla, þar fékk hún niðurgreidda vist fyrir börnin sín tvö og auk þess töluvert meira kaup. 

Svo koma "stjórnendur" fram og segja að öll vandamál séu að leysast. Ég hef frekar á tilfinningunni að þau séu að fæðast og blómstra í þessu kolvitlausa mati á hvað skiptir máli í þessu þjóðfélagi. Ég held að stjórn-endur séu frekar stjórn-strútar með hausinn niðurgrafinn í sandinn. 


Borðtuskan, kennarinn minn.

Umönnunar og menntastéttir virðast notfæra sér prófgráður sínar sem veggfóður frekar en að starfa við það sem þær menntuðu sig til. Núna síðast í tengslum við skólabyrjun þá hefur umræðan um skort á kennurum og leikskólakennurum orðið hávær. Þetta er orðið nokkuð árviss atburður á þessum tíma árs.

Fyrir nokkrum vikum var rætt um að fjölda kennara vantaði í skólana. Núna hefur sá skortur minnkað þó nokkuð. Á yfirborðinu er það látið líta svo út að stjórnendur hafi leyst aðsteðjandi vanda með sóma. Er það svo?

Raunverulega er farið þannig að því að allir starfandi kennarar taka að sér eins mikla kennslu og þeir geta. Kennarar sem eru deildastjórar og eiga að sinna því eru dregnir í almenna kennslu. Sérkennarar sem eiga sinna því eru einnig dregnir í almenna kennslu. Ég hef heyrt um kennara sem fór á eftirlaun í fyrra og hlakkaði mikið til að njóta þess, lét tala sig inná að kenna í vetur.

Þetta er eins og að vinda borðtuskuna sína þangað til það kemur ekki dropi úr henni til viðbótar.

Er það þetta sem við viljum börnunum okkar. Kennara sem eru illa launaðir og þeir fáu sem vilja vinna þurfa að vinna eins mikið og hægt er. Eru það gæði?


Varúlfar í Reykjavík.

Það er fullt tungl um helgina. Við fórum ekki varhluta af því. Varúlfar voru út um allan bæ með slagsmál og ólæti. Lögreglan hafði í nógu að snúast og hafði varla undan. Alla setur hljóða. Fólk er undrandi á öllum þessum óspektum. Það er eins og þessir varúlfar hafi komið utan úr geimnum. Það er eins og þessi hegðun komi öllum í opna skjöldu. Þessir varúlfar eru börnin okkar. Hvers vegna haga þau sér svona. Gleymdum við að ala þau upp. Kenndum við þeim ekki aga og hlýðni. Virðingu fyrir öðrum manneskjum og umhverfi okkar. Umburðarlyndi. Vorum við of upptekin við eitthvað annað. 

Hvort og hvað og hvenær varúlfar drekka og eru í bænum eru afleiddar stærðir. Aðalatriðið er að draga úr varúlfaræktun meðal okkar. 


Þvagleggur og læknar.

Ég á í vandræðum með þvaglegginn. Sem læknir er ég kominn þó það langt að læknar taka ekki þátt í ofbeldi á fólki gegn vilja þeirra. Ef lögregla biður mig að setja upp þvaglegg er þá viðkomandi ekki orðinn skjólstæðingur minn? Svo hlýtur að vera því á mig er kallað vegna sérþekkingar minnar. Ef api hefði ekið drukkinn hefði verið kallað á dýralækni. Það eina sem skyldar mig til samstarfs við lögreglu gegn vilja skjólstæðings míns er annars vegar landráð eða ásetningur skjólstæðings til að svipta einhvern lífi. Að öðrum kosti er ég "ambassador" skjólstæðings míns. Til að komast fram hjá læknum væri sennilega ráð að sérþjálfa starfsmenn hjá lögregluembættunum í þvagleggsísetningu. Þeir eru ekki bundnir af lækna eða hjúkrunarfræðinga eiðum.

Segjum svo að dómari kveði upp þann úrskurð að mér beri að aðstoða við þvagtökuna. Segjum að það sé snarbrjálaður karlmaður með stóra vöðva og stóran blöðruhálskirtil. Þvagtakan fer fram með ofbeldi og er því ekki framkvæmd við kjöraðstæður og hann fær í kjölfarið sýkingu í þvagið, síðan í nýrun og að lokum sýklasótt(blóðeitrun) og á þriðja degi er hann látinn. Er ég ábyrgur?

Þessi sterki maður snarbrjálast vegna þess ofbeldis sem dómarinn ákvað og sparkar í einn lögreglumanninn og hann deyr á þriðja degi vegna heilablæðinga. Hver er ábyrgur?

Mér sem svæfingalækni er falið af dómara að svæfa manninn svo að hann fái mannúðlegri meðferð við þvagsýnatökuna. Ég framkvæmi svæfinguna samkvæmt bókinni miðaða við aðstæður. Þrátt fyrir það gerist það sem svæfingalæknar óttast alltaf þegar sjúklingar eru svæfðir og eru ekki fastandi. Áður en mér tekst að tryggja loftveginn kastar sjúklingurinn upp og súrt magainnihaldið lendir í lungunum. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á gjörgæslu í 6 vikur andast maðurinn úr fjölkerfabilun. Hver er ábyrgur???????


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband