Færsluflokkur: Menning og listir

Hver eru mannréttindi þvagleggjarans og þiggjarans?

Var að horfa á kvöldfréttatímann hjá ríkissjónvarpinu. Kona sem var grunuð um ölvunarakstur neitaði  að láta af hendi þvagprufu. Þurfti að beita valdi til að ná í þvagprufuna. Óskemmtileg frétt.

Rætt var við yfirlækni á Slysadeildinni sem sagði að hann myndi ekki taka þátt í slíku nema dómari dæmdi hann til þess. Hann lagði áheyrslu á að gæta virðingar við einstaklinginn og ekki að misbjóða sjálfsvirðingu hins grunaða einstaklings. Augljóslega er þetta mjög vandasamt og ólíkir hagsmunir í húfi.

En svo sagði yfirlæknirinn að ef þetta ætti að geta gengið sómasamlega fyrir sig þá væri best að svæfa viðkomandi einstakling svo hægt væri að taka þvagprufuna. Sem svæfingalæknir þá hrökk ég í kút. Þarna var samstarfmaður að skammta mér verkefni sem ekki er víst að hugnist mér sérstaklega mikið. Ef einstaklingur vill ekki afhenda þvagprufu, vill hann þá láta svæfa sig svo hægt sé að taka af honum þvagprufu. Hann vill ekki skila þvagprufu, það er málið og ef ég ræðst á viðkomandi og sprauta í hann svæfingalyfjum gegn vilja hans þá er ég alveg sami ofbeldismaðurinn og aðrir vilja ekki vera. Læknaeiðurinn minn er ekkert öðruvísi en annarra lækna.

Þar að auki getur verið hættulegt að svæfa fólk,sérstaklega þar sem viðkomandi er örugglega ekki fastandi né sérstaklega andlega undirbúinn fyrir svæfingu. Þar að auki má ég ekki svæfa neinn á LSH nema fyrir liggi skriflegt samþykki viðkomanda nema líf liggi við, sem á ekki við í þessu tilfelli.

 Hvers vegna er það að mönnum detti til hugar að það sé betra að svæfa fólk sem er mótfallið einhverri athöfn? Hvernig getur það verið skárri kostur að ræna einhvern lífsýni gegn vilja sínum í svæfingu, sem er neydd upp á viðkomandi frekar en með lögregluvaldi sem er hættuminna og fljótlegra en svæfing. En er sama ofbeldið í mínum huga. Ég held að eina ástæðan sé sú að í svæfingu er auðveldara að koma fram vilja sínum.

Er ekki betra að viðkomandi glati lagalegum rétti sínum við að nýta sér mannréttindi sín og það sé gengið út frá því að þvagprufan sé jákvæð fyrir dómi.  


Sicko-IV.

Ég held að þið verðið að sjá myndina Sicko til að skilja þær færslur sem ég hef verið með hér á síðunni minni. Ég skora á alla  að sjá þessa  mynd. Hún veltir upp svo mörgum vangaveltum að það hálfa væri nóg. Það sterkasta var að myndin fjallaði að stórum hluta um þá sem höfðu keypt sér tryggingu en fengu samt ekkert út úr þeim.

Svo er annað. Þegar maður hefur verið í Bandaríkjunum og hlustað á fréttir þar. Þegar maður hefur rætt við hinn almenna borgara í Bandaríkjunum þá upplifir maður mjög einfalda heilaþvegna þjóð. Þeir vita ekkert um umheiminn. 90% af fréttatímanum er um staðbundnar fréttir, td ég myndi hlusta á fréttir um Reykjavík í 90% af fréttatímanum. Restin væri um um einhverjar frægar stjörnur sem standa í einhverjum afeitrunarvandamálum.  

Það var  mjög sterkt að Bandaríkjamenn búandi í Frakklandi sögðu að stjórnvöld í Frakklandi óttuðust hinn almenna borgara því þeir rífa kjaft og mótmæla þegar þeim er misboðið. Aftur á móti í Bandaríkjunum þá óttast hinn almenni borgari kerfið. Hinum almenna borgara finnst hann þurfi að leika á kerfið, hylma yfir óæskilegum upplýsingum í Bandaríkjunum.

Því veldur þessi mynd mörgum heilabrotum og er það vel. 


Sicko-II

Enn er ég að hugsa um þessa kvikmynd. Það kom fram í henni að lýðræðið væri orsök fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu. Það væri í raun eðli þeirra sem hafa peningana að halda í þá og deila þeim ekki. Þegar kosningaréttur kom til þá færðust völd til þeirra sem hafa enga peninga en bara kosningarétt, þeas ef þeir nota kosningaréttinn sinn. Því er það þannig í Frakklandi þegar þeir fara í mótmælagöngur, fara í verkföll og brenna bíla þá sýna þeir vald sitt sem væntanlegir kjósendur. Þá þorir ekki yfirvaldið annað en að útdeila þeim ókeypis heilbrigðisþjónustu, meðal annars.

Þetta var svolítið áfall fyrir mig. Ekki það að ég sé neitt á móti lýðræði eða þannig sko. Ég er því mjög fylgjandi. Ég hélt bara að lýðræði væri líka í Bandaríkjunum. Eftir að hafa horft á þessa kvikmynd er ég í vafa. Hið virka lýðræði gengur út á það að við hömumst í okkar kjörnu fulltrúum svo þeir sinni okkar málum. Í Bandaríkjunum er hamast í hinum kjörnu fulltrúum. Ekki af kjósendum. Í raun er kosningaþátttaka svo léleg í Bandaríkjunum að hún er varla marktæk. Þeir sem hamast mest í hinum kjörnu fulltrúum eru þeir sem hafa mikla peninga. Þeir kaupa þá til að fara að vilja sínum. Þetta stafar af því að kosningarétturinn hefur ekki fært til valdahlutföllin í Bandaríkjunum. Það eru svo fáir sem kjósa, það eru svo fáir sem eiga um sárt að binda sem kjósa og þar að auki hafa þeir ekki neinn valmöguleika til að kjósa. Því er það þannig að þeir sem eiga um sárt að binda kjósa ekki neitt því þeir hafa ekkert að kjósa. Því hafa þeir ekki nein völd. Því eru þeir ekki nein ógn fyrir hinar ráðandi stéttir.

Því er Sicko góð mynd, hún fær mann til að hugsa. Hvernig er ástandið hérna heima? Er það skárra? Hvert stefnum við, er ekki eitthvað að varast. Þurfum við ekki að halda vöku okkar og styrkja hið virka lýðræði á allan hátt. 


Gömul fótbrotin kona.

Fyrir all nokkrum árum síðan var ég læknanemi. Ætli þetta viðtal hafi ekki átt sér stað sem ég ætla að segja frá uþb árið 1984.

Ég var að taka sjúkrasögu af gamalli konu frá Vestfjörðum. Ekki man ég hvers vegna hún var komin á Landspítalann í þetta skipti. Ef ég man rétt þá var hún frá Barðastrandarsýslu. Róleg og yfirveguð kona.

Ég tók eftir því að annar ökklinn á henni var illilega skakkur og hafði hún greinilega gengið á jarkanum alla æfi. Ég spyr að sjálfsögðu hvernig standi á þessu. Jú sjáðu til ungi maður, segir hún, ég fótbrotnað þegar ég var 9 ára gömul. Við vorum bændur. Faðir minn bar mig inn í rúm. Hann setti síðan tvær fjalir sitt hvoru megin við brotinn ökklann og batt svo snæri umhverfis fótlegginn. Þarna lá ég síðan þangað til að ég var gróin. Því miður greri brotið svolítið skakkt en það hefur ekki komið svo mikið að sök því gengið hef ég getað allar götur síðan þá.

Þarna sat ég opinmyntur stúdentsræfillinn og reyndi að skynja og skilja hlutskipti fyrri kynslóða. Spurningarnar hringsnerust í höfðinu á mér. Sú fyrsta sem hrökk út úr mér eins og popp korn fannst mér mjög gáfuleg, en það kom svo síðar í ljós að svo var ekki.

HVAÐ SAGÐI LÆKNIRINN? spurði ég.

HVAÐA LÆKNIR? spurði gamla konan.

Nú hófust heilabrot í kolli mínum fyrir alvöru. Bíddu nú við þau kölluðu semsagt ekki á lækninn. 

Þá kom næsta vísindalega úthugsuð spurning frá mér. Kölluðuð þið ekki til lækni þegar þú brotnaðir?

Sú gamla svaraði: TIL HVERS?

Nú var mér öllum lokið, til hvers? Jú en var þetta ekki óskaplega sárt hélt ég áfram, í þeirri vona að ná þræðinum aftur.

Sú gamla svaraði; AÐ SJÁLFSÖGÐU.

Þarna sat ég við rúmstokk þessarar öldnu konu frá einhverju allt öðru tilverustigi en ég sjálfur tilheyrði. Ég barðist við að ná áttum. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ýmsar staðreyndir í þessu sérkennilega sakamáli. Því að í dag hefði þessi atburður orðið sakamál hjá barnaverndarnefnd.

Þegar ég svo skildi þetta þá var það þannig að ekki þurfti að kalla til lækni þar sem sjúkdómsgreiningin var augljós. Stúlkan var fótbrotin, það var deginum ljósar og því engin þörf fyrir lækni. Sömuleiðis var meðferðin á færi heimamanna og því ekki nauðsynlegt að kalla til lækninn.

Að beinbroti fylgdu kvalir var sjálfgefið og engin þörf á því að gera veður út af því. Það var bara hluti af lífinu að finna til og kveljast. Að lifa af og komast aftur á fætur var bara vel sloppið. Þessi gamla kona kenndi mér margt þó ég muni alls ekki hvers vegna hún kom til okkar á Landspítalanum.

Síðan ég átti þetta viðtal hef ég oft velt því fyrir mér hvort við getum farið fram á það að finna aldrei til. Allar kynslóðirnar á undan okkur fundu til. Ekki fóru þær í hundana því þá værum við ekki til. Getur verið að við förum í hundana vegna þess að við finnum aldrei til? 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Ratsjárstöðvar og Aronskan.

Allt í einu eigum við að fara að greiða fyrir rekstur ratsjárstöðvanna hér á landi. Þá vakna allir upp við vondan draum. Til hvers eru ratsjárstöðvar? Hafa þær borgarlegt eða hernaðarlegt hlutverk? Hverjum gagnast þær? Það er greinilegt að margir eru á gati og hafa ekki unnið heimavinnuna sína.

Ratsjárstöðvarnar fylgjast með og gera flugumferðarstjórn kleyft að stjórna öllu flugi í kringum landið. Það hljómar vel, meira að segja skapar sú vinna tekjur fyrir landann. Á hverju byggist hin hernaðarlega þýðing þessara stöðva? Hver er kostnaðurinn við þann þátt starfseminnar. Þar skortir okkur upplýsingar til að geta tekið afstöðu. Þeir í utanríkisráðuneytinu virðast hafa verið mjög uppteknir í sumar því svörin liggja ekki á lausu.

Ég held að það sé engin þörf fyrir hernaðarlega starfsemi í ratsjárstöðvunum. Hefðbundnar loftárásir eru nánast útilokaðar, þar að auki væri einhver búinn að hringja í Sollu og tilkynna þær, því vinalönd eru allt umhverfis okkur.

Ég held að Aronskan sé aðal vandamálið með ratsjárstöðvarnar. Þar vinna örfáir tæknimenn við sjálfan reksturinn. Umhverfis þá hefur hlaðist fjöldi starfsmanna sem vilja ekki missa vinnuna. Það var hægt meðan Kaninn borgaði brúsann. Núna eigum við að borga þetta sjálf.Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Nú þarf Ingibjörg Sólrún að stilla til friðar á fleiri stöðum en fyrir botni Miðjarðahafs. 


Nú er ég hugsi, jafnvel orðlaus.

Þorbergur Þórsson hagfræðingur ritar grein í Morgunblaðið á dag. Hann er áhugamaður um náttúruvernd. Ég er það reyndar líka en bara með öðrum formerkjum. Hann vill að mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna niðurskurðar á þorskafla felist aðallega í tvennu. Í fyrsta lagi eigi þeir sem missa vinnunna vegna fyrrnefnds niðurskurðar að týna rusl á víðavangi heima í héraði. Í annan stað á afgangurinn af þessum atvinnulausu að steypa kóralrif sem yrði síðan sökkt í sæ með verkefnalausum fiskibátum. Þessi kóralrif eru hugsuð sem aðdráttarafl fyrir fiska, þannig að þeim líði betur í sjónum. Þá muni fiskarnir dafna betur og fjölga sér. Það á einnig að húða kóralrifin með skeljasandi svo að gróður tolli betur við þau og auki þar með fjölbreytilekann í flóru hafsins.

Ég geng út frá því að manninum sé full alvara og hann meini vel. Sjálfsagt munu margir "græningjar" taka þessum hugmyndum fagnandi. Aftur á móti þá varð ég svolítið hugsi, eða þannig sko.

Að tína rusl, steypa og sökkva einhverju í sjóinn er ekki mjög sérhæfð vinna. Tökum dæmi. Alkunna er að Mafíósar tína rusl(óæskilegir náungar), steypa þá í bala og henda þeim síðan í sjóinn. Alls ekkert flókið.

Aftur á móti finnst mér því fólki sem mun missa vinnuna misboðið með þessum tillögum. Um er að ræða fólk með sérhæfingu. Sjómenn hafa sérhæfingu og kunnáttu. Einnig landverkafólk. Þetta er tíðarandinn. Öllum finnst lítið koma til þessara starfa og því geti þetta fólk farið í hvaða vinnu sem er. Utanríkisráðherrann vill setja alla á skólabekk að þeim forspurðum. "Allir" vilja segja því fólki sem býr úti á landi og vinnur við fisk hvað það eigi að gera og hvar það eigi að búa. Ekki er hlustað á kröftug mótmæli þessa fólks.

Þegar Mafíósar fleygja einhverjum í sjóinn, steyptum í bala, er ekki heldur hlustað á mótmælin.

Ég er mikill náttúruverndarsinni. Ég forgangsraða reyndar öðruvísi en flestir aðrir slíkir "sinnar". Ég tel að mannskepnan eigi að hafa forgang. Því vil ég "steypa" og "húða" ráðstafanir sem henta hinum dreifðu byggðum. Það mun laða að sér fólk og gera því kleift að búa í sínu plássi.  Þetta mun auka fjölbreytileikann í mannlífinu hringinn í kringum landið.

Eða viljum við bara aka frá einni bensínstöðinni að enn annarri allan hringinn? 


Bakkafjara og Þorlákshöfn.

Nú eru allri að tala um Bakkafjöru og Þorlákshöfn. Sumir vilja fá stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Aðrir vilja fá Bakkafjöru. Sumir vilja hvorutveggja. Aðrir segja að stórskipahöfn í Þorlákshöfn hafi ekkert með Bakkafjöru að gera. Bakkafjara sé samgöngumál Eyjamanna. Þorlákshöfn sé allt annað.

Ég segi nú bara að menn eigi að ræða saman um málin áður en þeir ákvaða hvað er hvað. 


Ríkasta líkið í garðinum.

Bráðum er ég búinn að lifa í hálfa öld. Ég á bara börn og skuldir. Jú eina eiginkonu líka. Verð sennilega ekki vel stætt lík í kirkjugarðinum. Hef ekki mikla trú á því að maður getið tekið mikið með sér. Bara að einhver minnist manns fyrir einhver góðverk. Vonandi að ég hafi framkvæmt einhver slík. Reyndar ef maður verður ríkt lík þá munu erfingjarnir hafa úr meiru að spila.

Sumir samferðamenn okkar virðast stefna að því með oddi og egg að verða ríkasta líkið í kirkjugarðinum. Sjálfsagt veitir það einhverja huggun.

Svo koma afkomendurnir og eyða öllu saman, síendurtekin saga. Til hvers er þetta allt saman. Erum við ekki bara hluti af náttúrunni. Erum við ekki bara til til að viðhalda stofninum. Þegar því er lokið þá getum við horfið. Indíánar lögðust út þegar þeir voru orðnir til trafala og dóu. Í dag eru amma og afi á fullu og njóta lífsins. Nauðsynlegur hlekkur í lífsgæðakapphlaupinu. Hver á að passa börnin og skutla þeim nema afi og amma svo við hin getum orðið ríkasta líkið í kirkjugarðinum. Eða þannig sko.


Mótvægisaðgerðir-hvurra?

Í kvöldfréttatímanum var sagt frá því að Sunnlendingar ætla að skapa sínar eigin mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskaflans á komandi vetri. Gott framtak. Sjálfsagt vita heimamenn best hvar skóinn kreppir að.

Hin hliðin á peningnum er sú að menn hafa sjálfsagt verið farnir að örvænta eftir slíkum aðgerðum frá hendi stjórnvalda. Á þeim bæ virðast allir hafa verið í góðu sumarfríi sl vikur. Það læðist að manni sá grunur að menn tali í austur og vestur í þessum málaflokki. Ingibjörg Sólrún var á Hólum í dag. Það er gamalt fræðasetur. Í viðtali sagði Utanríkisráðherrann að með góðri nettengingu og handfylli af menntamönnum væri hinum dreifðu byggðum ekkert að vanbúnaði að sækja fram á veginn til framtíðar. 

Ef maður hefur ekki áhuga á menntun og getur ekki veitt þorsk með nettengingu hvað á maður þá að gera? Á að umbreyta sjómönnum í menntamenn. Ef þeir vilja það ekki eiga þeir þá setjast fyrir framan tölvu með góðri nettengingu og blogga. Hver er þorskur í þessum vangaveltum? Er ég svona einfaldur að halda að fullfrískir íslenskir karlmenn, sjálfráða, fjárráða og haldnir löngun og áhuga á að sigla út á hafið og veiða fisk hafi lítinn sem engan áhuga á að sitja fyrir framan háhraðatengingu heima í stofu. 

Hér held ég að menn tali tungum tveim. Ég held að landsbyggðarmenn vonist eftir mótvægisaðgerðum við hæfi, einhverri vinnu sem hentar þeim. Stjórnmálamenn ætla að breyta sjómönnum í háhraðanetamenn. Hvað verður um þá sem falla milli skips og bryggju, verða þeir sendir á einhverskonar hæli eða betrunarvist?

Ekki nema von að menn fari að dikta upp sínar eigin mótvægisaðgerðir. 

 


"Lífið er yndislegt" í Eyjum.

VESTANNAEYJAR 2007 010Hér sjáum við reyktan Lunda sem allir gæddu sér á og þótti

mjög góður. 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér er okkur boðið inní Hvítt tjald Eyjamanna. Dísa og Gunsi buðu okkur. Hún átti afmæli daginn eftir. Sennilega bara um þrítugt, þeir eldast vel þessir Eyjamenn.

 

VESTANNAEYJAR 2007 015

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér sjáum við þrjá ættliði í Brekkunni í Herjólfsdal. Tengdó, eiginkonan og yngsta dóttirin. Mikið stuð.

 

VESTANNAEYJAR 2007 022

 

 

 

 

 

 

 

Flugeldasýningin var stórkostleg. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband