Færsluflokkur: Dægurmál

Kvótinn og Köben.

Núna er ég í Köben. Áður fyrr var hún kölluð kóngsins Köben. Í dag kallast hún Bónus Köben. Við erum bráðum búin að kaupa upp allt hérna sem er einhvers virði. Það er varla svo slæmt, ef einhver vill kaupa mann er maður að minnsta kosti einhvers virði.

Var á fundi í gærkvöldi hjá Frjálslynda flokknum. Það hafa verið smá væringar innan flokksins í sumar. Menn ræddu hlutina hreint út. Lang flestir mjög málefnalegir. Í stuttu máli mjög góður fundur. Á fundinum kom greinilega fram að mikill kraftur er í grasrótinni. Allir eru fullir áhuga og vilja að gera enn betur næst. Þetta var eins og að sjá 8 gata tryllitæki nötra skömmu áður en því er skellt í gírinn.

Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að Íslendingar myndu kaupa upp Kaupmannahöfn. Hver trúir því að FF muni kollvarpa kvótakerfinu. Við trúum því. 


Heilaþvegnar týndar rjúpur.

Sigurjón Þórðarson bloggar í dag um týndar rjúpur. Áður hefur verið bent á týndan þorsk. Fræðimenn beita ýmsum reiknilíkönum til að finna út stofnstærð dýra. Það er gert því að ekki er möguleiki að telja öll dýrin eins og við gerum við mannskepnuna. Þegar þessum reikniaðferðum er beitt endurtekið árlega virðist vera sem fjöldi dýra gufi hreinlega upp milli ára. Með hliðsjón af hegðun okkar sjálfra hafa sjálfsagt heilu ættbálkarnir skroppið suður í sólina á Spáni meðan vísindamennirnir voru að telja.

Það er engin furða að nokkrir nördar sem nenna að velta hlutunum fyrir sér hafi ekki mikla trú á þessum reiknikúnstum. En hvað með okkur hin?

Við erum á fullu að vinna, fara í Bónus, sækja í ballet og fimleika, mæta á fundi í skólum barnanna og íþróttafélögum þeirra. Auk þess þurfum við að sinna heimlærdómi og öðrum þörfum barnanna okkar. Svo höfum við kannski sjálf smá hvatir, sennilega þær helstar að fara að sofa.

Ef venjulegur einstaklingur í þessu þjóðfélagi á að geta fylgst með þeim málum sem vekja áhuga hans þarf hann að vera barnlaus einsetumaður, eða verulega ofvirkur. Þjóðfélagsgerðin sem við búum við er mjög andlýðræðisleg. Hvernig á venjulegur maður að hafa tíma til að setja sig vel inn í mál og mynda sér skoðun í þessu tímaleysi. Er það ekki svo að við erum bara mötuð og heilaþvegin. Okkur er talin trú um það að friða verði rjúpuna því henni hefur fækkað svo mikið. Síðan kemur í ljós þegar einn af þessum nördum gruflar í þessu að lang flestar rjúpur týndu tölunni á skrifborði einhvers reiknimeistara út í bæ.

Þegar heppilegu fæði er hent fyrir rjúpur þá éta þær það sem er gaukað að þeim, það mettar. Eins er okkur farið, þegar sæmilega mettandi skoðun er hent fyrir okkur þá sporðrennum við henni gagnrýnislaust, bara að hún sé mettandi. 


THE GUNS OF NAVARONE.

Image:GunsofNavarone.jpg

 Við sem erum kominn á miðjan aldur munum vel eftir þessari kvikmynd. Hún rifjaðist upp fyrir mér um daginn. Þessi saga gengur út á að Þjóðverjar voru með  tvær mjög öflugar og langdrægar fallbyssur á klettaeyju í Miðjarahafinu. Ef bandamenn reyndu að komast framhjá drundi umsvifalaust í þýsku fallbyssunum og sökkti mörgum skipum bandamanna. Þar að auki var stór herafli Breta innikróaður í Afríku og komst hvergi. Þrátt fyrir miklar loftárásir tókst ekki að þagga niður í þessum fallbyssum. Því var send inn í virkið sérsveit sem tókst að lokum að koma fyrir sprengjum og þagga endanlega niður í þessum fallbyssum og gera litla klettinn í hafinu hættulausan með öllu.

Þegar ég frétti af afdrifum Sigurjóns Þórðar og Magnúsar Þórs hjá Frjálslynda flokknum kom þessi gamla kvikmynd upp í hugann hjá mér. Þeir tveir hafa verið öflugustu fallbyssur flokksins á liðnu kjörtímabili. Ekki eyrt neinu og sökkt mörgum skipum fyrir andstæðingunum. Flokkurinn hefur kosið að nýta sér krafta þeirra í eins litlu mæli og hægt er á næstunni, einmitt þegar kvótaskerðing er í hámarki og virkilega er þörf fyrir kröftugar og langdrægar fallbyssur. Kletturinn er algjörlega hættulaus í augnablikinu. Ég vona að samlíkingunni við fyrrnefnda kvikmynd ljúki hér því illt væri til þess að hugsa að einhver sérsveit hafi komið sér fyrir í flokknum. Kannski er sérsveitin bara ranghugmyndir hjá forystunni og rangt stöðumat eða gamaldags stjórnunarhættir og skortur á tilfinningargreind.

 

 

'


Harmleikur í Portúgal.

Mikið eru þetta sorglegar fréttir frá Portúgal. Ef rétt reynist að foreldrarnir hafi í raun átt þátt í hvarfi dóttur sinnar er um ákaflega sorglegan fjölskylduharmleik að ræða. Hvers vegna öll þessi sérkennilega hegðun eftir hvarf hennar með öllu þessu fjölmiðlafári er nokkuð merkileg. Best að fullyrða sem minnst að svo komnu máli en óneitanlega hefur málið tekið óvenjulega stefnu.

Gróa á leiti og Frjálslyndi flokkurinn.

Það er lenska þegar maður þekkir ekki til staðreynda né réttrar atburðarrásar að hlustirnar verða einkar móttækilegar fyrir Gróusögum. Það er sterk tilhneiging að fylla upp í tómarúmið, hálfgerð gúrkutíð.

Þannig hafa hlutirninr æxlast hjá Frjálslynda flokknum. Nánast algjör þögn frá körlunum í brúnni í allt sumar. Við á dekkinu förum því að reyna að skálda í eyðurnar.

Inn í eyrnahlustir mínar hafa ýmsar sögur flögrað sem erfitt er að meta sökum fyrrnefndar þagnar.

Meðal annars hvað kostaði kosningabaráttan og hvernig stendur flokkurinn fjárhagslega, var ekki einhver að tala um opið bókhald hjá flokkunum? Hvar verður húsnæði í vetur fyrir flokkstarf, eru einhverjir möguleikar í stöðunni og höfum við almennir félagsmenn einhver tök á því að segja hvað okkur finnst í því máli. Hver verður næsti framkvæmdastjóri flokksins. Hvernig verður vetrarstarfinu háttað? Hvaða mál ætla þingmenn vorir að leggja áheyrslu á í vetur, getum við komið að því á einhvern hátt, getum við leiðbeint þeim? Hvað er toppstykkið að pæla?

Heimasíðan hefur verið dauð frá kosningum. Enginn netpóstur. Við á dekkinu erum farin að krunka saman nefjum. Þetta er að verða nokkuð gott sumarfrí hjá þein finnst mér, sjálfur fékk ég bara 2 vikur. 


Fóstureyðingar og önnur tilboð.

Það hefur verið nokkur umræða um fóstureyðingar á blogginu eins og oft áður. Spurningarnar eru mjög áhugaverðar, aðallega vegna þess að þeim er vandsvarað. En í raun er skemmtilegast að velta fyrir sér þeim sem tjá skoðanir sínar því mannskepnan setur óneitanlega sterkan svip á tilveru okkar.

Mörgum reynist auðvelt að mynda sér skoðun og byggja þær á mismunandi forsendum. Líf mitt er ekki jafn auðvelt.

Eftir því sem ég veit best þá eru það tveir aðilar sem taka ákvörðun um fóstureyðingu. Annars vegar er það móðirin og hins vegar læknirinn.

Móðirin þarf að vega og meta sína valkosti. Ef hún er illa stödd fjárhagslega eða félagslega þá veit hún að ef hún eignast barnið þá mun staða hennar versna því ekki er um mikla samfélagslega hjálp að  ræða. Ef hún fær að vita að hún beri fatlað barn undir belti er það sama upp á teningnum því þrautarganga foreldra fatlaðra barna má lesa um í dagblöðum með jöfnu millibili. Ef til vill finnst sumum að mæður fái nægjanlega aðstoð eins og hlutunum er komið fyrir í dag. Það getur varla staðist, því að minnsta kosti virðist sá "pakki" ekki seljast vel. Um það vitnar fjöldi fóstureyðinga. Ég held að lang flestar konur upplifi fóstureyðingu sem óafturkræfa og hræðilega aðgerð.  Væri ekki hægt að gera konum í þessari stöðu betra tilboð með mun betri foreldraaðstoð þannig að val þeirra yrði annað en oft er raunin í dag?

Svo eru það blessaðir læknarnir. Ef það var einhvertíma hugsunin að þeir væru sérstakir gæslumenn fóstursins þá hefur það algjörlega mistekist. Málið er að það er móðirin sem situr fyrir framan þá og engist um í kvöl og pínu eftir að hafa tekið sína ákvörðun. Við það verður læknirinn hlutdrægur og um leið óhæfur sem einhver hlutlaus aðili.

Að ætla sér að fækka fóstureyðingum með bönnum er vafasöm leið því markaðurinn svarar alltaf eftirspurninni með einhverjum ráðum. Líf íslensku þjóðarinnar virðist snúast að mestu leiti í dag um að græða á öllum sköpuðum hlutum, nema börnum. Hvernig væri nú að gera íslenskum foreldrum gott tilboð SEM ER BARA EKKI HÆGT AÐ HAFNA. 

 

Marlon Brando as Don Vito Corleone, the Godfather.
Marlon Brando as Don Vito Corleone, the Godfather.

 

 Við höfum þetta allt í höndum okkar, ekki satt?

 


"Þekkirðu nokkuð barngóða konu sem kann að elda og getur tekið að sér að kenna heimilisfræði"?

Áfram með vesalings kennarana. Var að heyra í einum vesalings deildarstjóra í skóla hér á höfuðborgarsvæðinu. Hún hringdi í okkur hjónin og spurði hvort við þekktum einhverja barngóða konu sem kynni að elda mat til að taka að sér kennslu í heimilisfræðum. Auk þess hafði tónlistarmaðurinn sem hafði góðfúslega tekið að sér að kenna tónmennt því engan tónmenntakennara var að fá, snarlega ákveðið að hætta þegar hann komst að því að hann gat ekki með nokkru móti haft neina stjórn á krökkunum. Að kunna viðkomandi sérgrein svo sem tónlist eða eldamennsku er ekki sama og að kunna að kenna, því að kenna er sérgrein. Að lokum var hún vinkona okkar meið nýráðinn ungann kennara sem fékk tilboð frá leikskóla, þar fékk hún niðurgreidda vist fyrir börnin sín tvö og auk þess töluvert meira kaup. 

Svo koma "stjórnendur" fram og segja að öll vandamál séu að leysast. Ég hef frekar á tilfinningunni að þau séu að fæðast og blómstra í þessu kolvitlausa mati á hvað skiptir máli í þessu þjóðfélagi. Ég held að stjórn-endur séu frekar stjórn-strútar með hausinn niðurgrafinn í sandinn. 


Borðtuskan, kennarinn minn.

Umönnunar og menntastéttir virðast notfæra sér prófgráður sínar sem veggfóður frekar en að starfa við það sem þær menntuðu sig til. Núna síðast í tengslum við skólabyrjun þá hefur umræðan um skort á kennurum og leikskólakennurum orðið hávær. Þetta er orðið nokkuð árviss atburður á þessum tíma árs.

Fyrir nokkrum vikum var rætt um að fjölda kennara vantaði í skólana. Núna hefur sá skortur minnkað þó nokkuð. Á yfirborðinu er það látið líta svo út að stjórnendur hafi leyst aðsteðjandi vanda með sóma. Er það svo?

Raunverulega er farið þannig að því að allir starfandi kennarar taka að sér eins mikla kennslu og þeir geta. Kennarar sem eru deildastjórar og eiga að sinna því eru dregnir í almenna kennslu. Sérkennarar sem eiga sinna því eru einnig dregnir í almenna kennslu. Ég hef heyrt um kennara sem fór á eftirlaun í fyrra og hlakkaði mikið til að njóta þess, lét tala sig inná að kenna í vetur.

Þetta er eins og að vinda borðtuskuna sína þangað til það kemur ekki dropi úr henni til viðbótar.

Er það þetta sem við viljum börnunum okkar. Kennara sem eru illa launaðir og þeir fáu sem vilja vinna þurfa að vinna eins mikið og hægt er. Eru það gæði?


Varúlfar í Reykjavík.

Það er fullt tungl um helgina. Við fórum ekki varhluta af því. Varúlfar voru út um allan bæ með slagsmál og ólæti. Lögreglan hafði í nógu að snúast og hafði varla undan. Alla setur hljóða. Fólk er undrandi á öllum þessum óspektum. Það er eins og þessir varúlfar hafi komið utan úr geimnum. Það er eins og þessi hegðun komi öllum í opna skjöldu. Þessir varúlfar eru börnin okkar. Hvers vegna haga þau sér svona. Gleymdum við að ala þau upp. Kenndum við þeim ekki aga og hlýðni. Virðingu fyrir öðrum manneskjum og umhverfi okkar. Umburðarlyndi. Vorum við of upptekin við eitthvað annað. 

Hvort og hvað og hvenær varúlfar drekka og eru í bænum eru afleiddar stærðir. Aðalatriðið er að draga úr varúlfaræktun meðal okkar. 


Þvagleggur og læknar.

Ég á í vandræðum með þvaglegginn. Sem læknir er ég kominn þó það langt að læknar taka ekki þátt í ofbeldi á fólki gegn vilja þeirra. Ef lögregla biður mig að setja upp þvaglegg er þá viðkomandi ekki orðinn skjólstæðingur minn? Svo hlýtur að vera því á mig er kallað vegna sérþekkingar minnar. Ef api hefði ekið drukkinn hefði verið kallað á dýralækni. Það eina sem skyldar mig til samstarfs við lögreglu gegn vilja skjólstæðings míns er annars vegar landráð eða ásetningur skjólstæðings til að svipta einhvern lífi. Að öðrum kosti er ég "ambassador" skjólstæðings míns. Til að komast fram hjá læknum væri sennilega ráð að sérþjálfa starfsmenn hjá lögregluembættunum í þvagleggsísetningu. Þeir eru ekki bundnir af lækna eða hjúkrunarfræðinga eiðum.

Segjum svo að dómari kveði upp þann úrskurð að mér beri að aðstoða við þvagtökuna. Segjum að það sé snarbrjálaður karlmaður með stóra vöðva og stóran blöðruhálskirtil. Þvagtakan fer fram með ofbeldi og er því ekki framkvæmd við kjöraðstæður og hann fær í kjölfarið sýkingu í þvagið, síðan í nýrun og að lokum sýklasótt(blóðeitrun) og á þriðja degi er hann látinn. Er ég ábyrgur?

Þessi sterki maður snarbrjálast vegna þess ofbeldis sem dómarinn ákvað og sparkar í einn lögreglumanninn og hann deyr á þriðja degi vegna heilablæðinga. Hver er ábyrgur?

Mér sem svæfingalækni er falið af dómara að svæfa manninn svo að hann fái mannúðlegri meðferð við þvagsýnatökuna. Ég framkvæmi svæfinguna samkvæmt bókinni miðaða við aðstæður. Þrátt fyrir það gerist það sem svæfingalæknar óttast alltaf þegar sjúklingar eru svæfðir og eru ekki fastandi. Áður en mér tekst að tryggja loftveginn kastar sjúklingurinn upp og súrt magainnihaldið lendir í lungunum. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á gjörgæslu í 6 vikur andast maðurinn úr fjölkerfabilun. Hver er ábyrgur???????


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband