ÞAÐ eru viss líkindi með jólaguðspjalli kristinnar kirkju annars vegar og
því sem guðspjallamenn ríkisstjórnarinnar boða fyrir þessi jól. Í kristni tekur
Guð á sig allar skuldir mannanna og eru allir sammála því að það sé óverðskuldað.
Guðspjall ríkisstjórnarinnar, er í eðli sínu eins. Þar er það boðað að
skuldir skuli greiddar af þeim sem stofnuðu ekki til þeirra. Okkur er eins farið
og Guði, syndakvittunin er óverðskulduð. Guð gaf son
sinn eingetinn fyrir skuldir mannanna. Það stefnir í það
sama hjá mér, sjálfsagt munu börnin mín verða negld til
æviloka á skuldakrossinn, eins og Kristur forðum daga.
Þrátt fyrir að gæska Guðs sé nánast ótakmörkuð er hann
þó með reglurnar á hreinu. Því er bara um tvo staði að
ræða, helvíti eða himnaríki. Það er ekki neitt miðjumoð.
Ein ófrávíkjanleg regla er að Guð getur ekki fyrirgefið þegar
syndgað er upp á náðina.
Eftir hálfa öld í kristnu samfélagi er það ansi hart að
verða sendur í það neðra, óverðskuldað. Ekki syndgaði ég upp á náðina, þ.e.
ég keypti mér ekki flatskjá. Jólaguðspjall ríkisstjórnarinnar gengur mest út
á að kvitta fyrir syndir þeirra sem syndguðu mest og syndguðu greinilega
upp á náðina.
Það á sér stað gróf mismunun í dag. Það er verið að fella niður skuldir
blygðunarlaust. Það er ekki verið að fella niður skuldir venjulegs fólks, eingöngu
lengt í lánum þess.
Milestone fá sennilega niðurfellingu á 55 milljörðum ísl. króna. Fyrir þá
fjármuni hefði verið hægt að byggja nýjan Landspítala þar sem lágmarksmannréttindi
sjúklinga hefðu verið uppfyllt, þ.e.a.s. kamar á kjaft. Því er
ekki að heilsa núna, sjúklingar munu halda áfram að deila bæði kamri og
spítalasýkingum.
Auðmenn þjást aftur á móti af ákvörðunarkvíða af öðrum toga, þ.e. hver
deilir skuldunum með þeim.
Fólki ofbýður, það skilur þetta ekki. Ef þú eignast kröfu upp á heilan spítala
hvers vegna krafan er ekki innheimt. Hvaða hagfræði er það að breyta
kröfu í tap sem skattgreiðendur borga? Þar sem augljóslega er verið að
hygla einhverjum útvöldum er um spillingu að ræða því jafnræðisreglan er
brotin.
Almenningur er fullur vantrúar á að þetta sé raunverulega að gerast en
það er að síast inn hjá okkur. Almenningur er einnig ráðþrota. Valdhafar
vilja ekki gefa okkur kost á að nota eina löglega vopnið okkar, kosningaréttinn.
Þrátt fyrir margbreytileg og síendurtekin mótmælahöld erum við sniðgengin.
Valdhafarnir vilja ekki ráðfæra sig við fólkið og finna niðurstöðu sem
dæmist góð af ráðinu og fólkinu eins og í Aþenu til forna.
Aftur á móti er auðmönnum boðið að borðinu. Reyndar eru þau fundahöld
fyrir luktum dyrum andstætt fundum fólksins á Austurvelli. Í aflokuðum
kimum þjóðfélagsins er fundin niðurstaða sem dæmist góð af valdhöfum og
auðmönnum. Almennir borgara eiga þess ekki einu sinni kost að snuðra eins
og hver annar rakki og hirða upp mylsnuna, þvílík er þjóðnýting auðmannanna.
Við erum ekki virt viðlits, við erum ekki einu sinni þjóðin. Við erum
reyndar nógu góð til að vinna fyrir liðið. Að kalla okkur skríl er rangnefni því
samkvæmt mínum kokkabókum erum við þrælar. Ef það er þrælastríð sem
þarf þá verður svo að vera, ekki er hægt að halda svona áfram.
Grein sem birtist eftir mig í Mogganum í Dag.