Lifandi lík í farteskinu.

Það er svo sérkennilegt hvað við höfum mikla þörf fyrir það að blogga. Þörfin hefur sjaldan verið meiri en nú. Bloggið er tjáskipti sem hugnast opinni umræðu og þar með lýðræðinu. Því er það mjög sorglegt þegar Mbl lokar fyrir athugasemdir á frétt sem er óþægileg. Vonandi eru það bara mistök sem verða ekki endurtekin. Agnes Braga fékk ekki viðtalið sitt birt um árið, Mogginn hlýtur að þroskast eitthvað, þeir verða að klippa á naflastrenginn ef þeir ætla að verða fullgildir einstaklingar í þjóðfélagi borgara.

Núna er komin óþreyja í mótmælendur og er það vel. Menn kvarta yfir því að helstu leikendur á sviði mótmælenda hafi ekki skýra stefnu. Þeir hafa það reyndar en hinir óþreyjufullu vilja sjá breytingar strax. Það sem hinir óþreyjufullu gera sér ekki grein fyrir er að mótmælendur sem hingað til hafa mótmælt er forsenda þessara væntinga hinna óþreyjufullu. Því er um þróun að ræða. Fyrst eru hógvær mótmæli en síðan koma minna hógvær mótmæli.

Við viljum ekki þjóðfélag þar sem opinn miðill lokar á athugasemdir og ekki heldur þar sem mótmæli fara úr böndunum. Við viljum ekki kjálkabrot né piparúða. Við getum verið sammála um það. Okkur mun því miður ekki verða að ósk okkar. Það virðist vera einlægur vilji Geirs og Ingibjargar að spila sinn pólitíska leik áfram. Hann gengur út á það að koma til kosninga eins sigurstrangleg og hugsast getur. Að þeim loknum ætla þau að viðhalda sama óbreytta þjóðfélaginu. Flokkurinn fram yfir fólkið.

Þar er ásteytingarsteinn okkar. Við, þessir mótmælendur, viljum ekki óbreytt Ísland. Við viljum nýtt Ísland. Forsenda þess er sársaukafull krufning, því líkið er ekki dautt. Um þetta mun árið 2009 snúast, hvort líkið skynjar sinn vitjunartíma og deyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Sæll félagi.

Þú ert orðinn svo skratti góður aktívisti.

Verst að vera svona landfræðilega einangraður. Annars hefði ég gjarna verið með þér í liði.

Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 17:02

2 Smámynd: Egill Jóhannsson

Það er í eðli mannsins að streitast á móti breytingum og sérstaklega á þetta við stjórnmálamenn. Þeirra hlutverk í gegnum aldirnar er ávallt að verja kerfið. Það er svo undarlegt að þrátt fyrir að ávinningur breytinga blasi við öllu hugsandi fólki þá streitast menn samt á móti.

Eina sem út úr því kemur er að breytingin verður en bara seinna. Seinkunin er aðeins örfáum sérhagsmunaseggjum til ávinnings en flestum til tjóns. Þetta ferli á við í fyrirtækjum, stjórnmálaflokkum, stofnunum, þjóðfélögum. Allsstaðar. Nú eru þrír mánuðir síðan mótmælin hófust og engar breytingar sjáanlegar. Það er eðlilegt (en auðvitað pirrandi) eins og ég sagði áðan ef litið er á sögu mannsins.

Mannskepnan er óþolinmóð að eðlisfari því auðvitað viljum við breytingar strax. En í sögulegu samhengi má spyrja hvað sé strax? Þegar við lesum Íslandssöguna þá er algengt að breytingar sem taka 50 ár sé líst á tveimur blaðsíðum í sögubókum. En í huga þeirra sem lifðu tímana þá voru nokkrir mánuðir óratími og fáir sem hófu baráttuna sem lifðu að sjá og lifa ávinninginn.

Ég var að klára að lesa Kommúnistaávarpið eftir Marx og Engels. Merkileg lesning og sérstaklega hve Marx las vel í væntanlegar þjóðfélagsbreytingar. Lausnir hans voru aftur á móti margar hörmulegar eins og sagan hefur sýnt þó ýmsar hugmyndir sem í ávarpinu leyndust hafi síðan verið innleiddar í vestræn þjóðfélög með ágætum árangri. Marx var dauður þegar hugmyndir hans voru loks innleiddar með byltingunni í Rússlandi árið 1917.

Þó má auðvitað færa rök fyrir því að breytingar komist hraðar á núna með netinu og öðrum fjölmiðlum nútímans. En gerum okkur þó grein fyrir að við gætum verið að horfa á 3-5 ára baráttu til að koma á þeim breytingum sem barist er um núna. Stjórnmálaöflin í landinu, öll með tölu, hafa t.d. komið á kosningakerfi sem nánast útilokar ný framboð. Það er í raun dæmi um mótþróa við breytingar og hvernig valdaöflin reyna sífellt að viðhalda eigin völdum. Og við létum þau komast upp með það.

Eina leiðin til að fá núverandi öfl til að breyta kosningakerfinu er einmitt með því að hræða þau til hlýðni. Bloggið er ein leið og hún er þegar farin að virka. Að eyða athugasemdum við fréttir eða loka á athugasemdir eins og mbl.is gerði er gott dæmi um birtingarmynd hræðslunnar. Umræða um brotnar rúður, brotin egg og grímur sem eru allt aukatriði og tilraun til að komast hjá hinni raunverulegu umræðu er einnig birtingarmynd hræðslunnar.

Þetta eru allt eðlileg viðbrögð í ljósi sögunnar og eingöngu til þess fallin að fresta óumflýjanlegum breytingum. Við hin getum síðan flýtt þeim með því að halda pressunni áfram og ekki gefa þumlung eftir. Með grímu eða án.

Egill Jóhannsson, 4.1.2009 kl. 21:01

3 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Egill þú skrifar (og þetta er vel skrifuð grein hjá þér !) =

"Stjórnmálaöflin í landinu, öll með tölu, hafa t.d. komið á kosningakerfi sem nánast útilokar ný framboð."

En hvernig urðu VG til?

Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 22:43

4 Smámynd: Egill Jóhannsson

Sæll Ásgeir

VG er aðeins nýtt nafn á gamla Alþýðubandalaginu og Samfylking nýtt nafn á gamla Alþýðuflokknum. Auðvitað eru eitthvað breyttar áherslur m.v. gömlu flokkana en í grunninn flokkar sem byggja á kerfinu.

Síðan þá er búið að njörva flokkana enn frekar niður með styrkjum, næstum 400 milljónir) til flokkanna sem fyrir eru (ekki nýrra) og tryggja að aðeins flokkar sem fá 5% eða meira atkvæðamagn ná mönnum inn á þing.

Egill Jóhannsson, 4.1.2009 kl. 23:30

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jú, jú, víst hefur þú margt til þíns máls Egill.

En Kvennalistinn komst inn á sínum tíma.

Með bravóúr!

Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 23:41

6 Smámynd: Egill Jóhannsson

Jú, Kvennalistinn komst inn sem sýnir að þetta var ekki ómögulegt. En nú er búið að gera þetta enn erfiðara eins og ég lýsti hér í athugasemd númer 4. Því miður.

Egill Jóhannsson, 4.1.2009 kl. 23:53

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sælir piltar og þakka ykkur fyrir innlitið. Mjög góð samantekt hjá þér Egill. Er núna að vinna á Neskaupstað í tvær vikur. Hef því bara aðgang að neti á vinnustað því nettenging telst ekki staðalbúnaður í híbýlum ríkisstarfsmanna. Er núna um miðja nótt í útkalli og er að bíða eftir niðurstöðum úr blóðprufum.

Ég tek undir með þér Egill við verðum að pressa áfram. Ég verð var við að margir kalla eftir nýju framboði en allir hika vegna skorts á fjármagni og 5% marksins.

Gunnar Skúli Ármannsson, 5.1.2009 kl. 02:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband