Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sjómannadagurinn.

Það er sjómannadagurinn í dag. Mikill merkisdagur. Ég vil óska öllum sjómönnum innilega til hamingju með daginn. Einnig mökum og fjölskyldum. Þessi dagur skipar stóran sess í mínu lífi. Ekki það að ég sé sjómaður, hef ekki migið í saltan sjó svo neinu nemi. Aftur á móti tók ég þátt í kappróðrakeppni sem stýrimaður hjá kvennaliði sjúkrahússins á Patreksfirði 1987. Við unnum. Fyrir vikið á ég eina medalíu, þá einu sem mér hefur hlotnast enn sem komið er. Þar að auki fleygðu stelpurnar mér í sjóinn.

Það ber vissan skugga á daginn í dag. Íslendingar eru dæmdir sem mannréttindaníðingar af mannréttindadómstóli Sameinuðu Þjóðanna. Við brjótum mannréttindi á sjómönnum. Dómstóll SÞ hefur óskað eftir því að við látum af mannréttindabrotunum og fer fram á að við gerum grein fyrir því hvernig við hyggjumst gera það. Svar okkar er að við "ætlum að pæla í því" Við gætum alveg eins ullað á Sameinuðu Þjóðirnar.

Til allra hamingju voru nokkrar hugrakkar konur frá Landsambandi kvenna í Frjálslynda flokknum sem mótmæltu í dag. Þær klæddu sig upp í sjóstakka og báru mótmælaspjöld. Þær skiptu ekki þúsundum en vöktu engu að síður mikla athygli. Fjölmiðlar tóku eftir þeim og höfðu við þær viðtöl, teknar myndir. Nærvera þeirra undir ræðu sjávarútvegsráðherra gerði ræðu hans að hjómi einu, slæm var hún nú fyrir.

Hvar voru allir menningarvitarnir sem mega aldrei vita af neinu óréttlætinu í útlandinu? 


Gleymd börn.

Andstæðurnar í lífinu eru miklar. Nú erum við minnt á það að börn geta átt foreldra sem eru fíkniefnaneytendur. Hömlulaus fíkn er bænvæn. Án réttrar meðferðar deyr sjúklingurinn. Ef snyrtilega klæddur samborgari lognast útaf í Austurstræti sökum kransæðastíflu þá rjúkum við til og endurlífgum hann eftir settum reglum. Hvers vegna erum við svona gjörn á að líta undan og gleyma samborgurum okkar sem passa ekki inn í mynstrið. Hvers vegna æsum við okkur meir yfir meintum kynþáttahöturum í okkar samfélagi eða þá dauðum hrefnum. Hver er bróðir minn? Erum við ekki að klikka á einhverjum grundvallaratriðum?

FLORENCE NIGTHINGALE.

Image:Florence Nightingale 1920 reproduction.jpg

 

Hún var mjög ákveðin kona, lét ekki vaða yfir sig og einnig mjög stjórnsöm. Því var hún óvenjuleg kona. Stallsystur hennar í dag haga sér á svipaðan hátt, að minnsta kosti láta þær ekki vaða yfir sig.  Ef til vill er það skýringin á erfiðleikunum við að ná sáttum í deilu hjúkrunarfræðinga við stjórn LSH að frú Nigthingale situr beggja vegna samningsborðsins.

Við getum huggað okkur við að aðilar eru þessa stundina að ræða saman. Meðan er von um sátt. Ef ekki blasir við mjög alvarlegt ástand, sérstaklega ef einhver tími líður. Þá fer að koma fram þreyta og uppgjöf hjá þeim örfáu hjúkrunarfræðingum sem eftir standa.

Ég vona að þessi deila leysist sem fyrst. Ég vona einnig að menn læri af reynslunni og setji hlutina í ferli tímanlega næst þannig að ekki þurfi að koma til svona uppþota, það er ekki nokkrum manni til gagns. 


Hvernig endurlífgar maður TILFINNINGARGREIND?

Ég held án þess að ég viti það með neinni vissu að umræða um Landspítalann hafi verið mun meiri s.l. 10 ár en öll hin árin á undan. Hún hefur oftast verið neikvæð því annað er ekki fréttnæmt. Það hafa verið átök í tengslum við sameininguna, fyrst þegar Landakot var innlimað og lagt niður í fyrri mynd. Þá voru margir sem söknuðu gömlu góðu daganna. Núna í nokkur ár höfum við verið í tveim húsum en sem ein stofnun. Til allra hamingju hefur "húsasóttin" fjarað smá saman út og við upplifum okkur alltaf meir og meir sem "eitt hús".

Í öllu þessu umróti hefur verulega reynt á starfsmenn, aðlögunarhæfni þeirra og getu í mannlegum samskiptum. Eftir á getur maður sagt að betra hefði sjálfsagt verið að hafa við höndina sérfræðinga í mannlegum samskiptum, sálfræðinga og þess háttar fólk. Þeir hefðu leitt umbyltinguna og leyst úr þeim hnökrum sem mynduðust.

Gagnrýni á húsakost spítalans hefur verið vaxandi undanfarið. Ástæða þess er að fólk er að vakna upp við vondan draum. Sá húsakostur sem við búum við í dag hefði átt að vera endurnýjaður fyrir 30 árum síðan. Því á gangrýnin að beinast að foreldrum okkar sem sáu ekki þörfina á sínum tíma fyrir betri húsakosti. Til allra hamingju er þó nýtt hús handan við hornið.

Þann fyrsta maí stefnir í skipbrot í mannlegum samskiptum á Landspítalanum. Þá ætla meir en 100 hjúkrunarfræðingar og tugir geislafræðinga að hætta störfum. Um er að ræða ósætti um vinnufyrirkomulag eftir að hefðbundnum vinnutíma lýkur hjá starfsmönnum. Þegar maður fær drep í hjarta eða görn er kallað eftir viðkomandi sérfræðingi. Þegar tilfinningargreindin er í andarslitrunum sér engin ástæðu fyrir sérfræðingshjálp, en skrítið. Heill spítali stoppar, hverjum er ekki sama? 

 


Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn, Gylfi og Guðmundur.

Ég var svolítið lúinn eftir vinnuna í dag svo ég kom engu af viti í verk, til að gera ekki neitt las ég dagblöðin, athæfi sem ég stunda yfirleitt ekki nema ég sé kominn í þrot með þrek. Merkilegt en ég fann bara nokkra góða bita. Skemmtilegt viðtal við Guðmund Ólafsson í 24stundum. Þar lýsir hann því hvernig íbúar Rússlands höfðu ákkúrat ekkert með stjórn landsins að gera og stjórnendur fóru sínu fram að eigin geðþótta. Fékk svona Deavú tilfinningu, hélt ég byggi ekki í kommúnistaríki, en það er samt margt líkt með okkur og Rússum eins og Lobbi rekur í viðtalinu.

Örlög Ráðstjórnarríkjanna voru víst skelfileg, rotnuðu innanfrá. Það er ekki laust við að smá fúkkalykt sé kominn hér heima líka. Þegar fyrrvernadi Morgunblaðsstarfsmaður en núverandi dósent í hagfræði við Háskóla Íslands fer að leggja til rýmingu á ellideild Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum, þá virðist fokið í flest skjól. Enda var Illuga illilega brugðið í sama blaði þegar hann hlustaði á menntamanninn í sjónvarpsfréttunum um daginn segja þetta. Að segja ráðsettum stjórnvöldum til syndanna getur reynst viðkomandi afdrifaríkt. Það fór ekkert sérstaklega vel fyrir Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn
 á sínum tíma ef einhver var búinn að gleyma því. 


Hver er hvurs og fyrir hvern?

Það er margt í pípunum um þessar mundir. Til að mynda er allt tilbúið svo hægt sé að valta yfir kennarastéttina eina ferðina enn í kjarasamningum. Árni dýralæknir er fastur fyrir og kennarar hafa í raun skrifað undir sitt eigið dánarvottorð með ósk sinni um "sanngjarna kauphækkun". Það er eins og þeir séu svo kúgaðir að þeir bera ekki einu sinni hönd fyrir höfuð sitt.

Mér skilst að hjá hjúkrunarfræðingum sé ástandið svipað. Þeir eru þó byrjaðir að semja við ríkið. Af viðbrögðum sendimanna Árna þá virðist ekki eiga að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. 

Stofnendur hins ríkisrekna velferðaþjóðfélags dreymdi örugglega ekki þessa martröð. Hugsjónin var sjálfsagt vel launaðir og sáttir starfsmenn, allt í þeim tilgangi að skjólstæðingunum farnist sem best. Nemendur og sjúklingar eru þeir sem tapa mestu á endanum. Manni virðist sem ríkið upplifi sig sem skjólstæðing kerfisins. Sorgleg heilabilun þeirra sem búið hafa of lengi í turninum. 


Geymdur en ekki gleymdur mannauður-eða hvað?

Tilfinningar er sérkennileg skepna. Mín tilfinning fyrir ýmsu er hreinn hafragrautur þessa dagana. Nú er krónan að fara fjandans til en bjartsýni innan bankanna er það mikil að ekki á segja neinum upp hef ég heyrt. Ástæðan ku vera sú að þegar þörfin eykst fyrir allt þetta starfsfólk er best að hafa það allt til staðar. Skynsamlegt ekki satt. Ekki hagkvæmt en hvurru skiptir það, kúninn borgar allt hvort sem er.

Á Landspítalanum sem ég vinn á fer megintími hjúkrunardeildastjóra í það að manna næstu vakt. Um er að ræða mjög sérhæfðan vinnukraft. Ekki er hægt að skutla einum hjúkrunarfræðing frá einni deild til annarrar, slík er sérhæfingin orðin. Sama á sjálfsagt við um bankana og þeir geyma hæft starfsfólk hjá sér þangað til full þörf verður á kunnáttu viðkomandi, sem sagt geymdur en ekki gleymdur mannauður.

Svipaða sögu er að segja frá kennarastéttinni. Allir skólar á höfuðborgarsvæðinu eru ekki fullmannaðir af menntuðum kennurum. Þar eins og á Landspítalanum er mannauðurinn geymdur utandyra og gleymdur.

Íslendingar kvarta undan mennta- og heilbrigðiskerfinu. Guðlaugur Þór hefur mikla drauma um að skapa þær aðstæður sem muni draga ungt fólk til starfa innan heilbrigðiskerfisins.  Þorgerður Katrín vill að kennarar njóti forgangs í kjaraviðræðum svo einhver vilji kenna börnunum okkar. Dýralæknirinn Árni vill hafa allt sitt á þurru og vill ekki borga neinum laun og því betra sem færri vinna hjá hinu opinbera. 

Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt að sem flestir átti sig á nokkrum mikilvægum staðreyndum. Það eru bara nokkrir einstaklingar á Íslandi sem kunna að sinna mjög veikum einstaklingum eða að kenna erfiðum krökkum og koma þeim til manns. Þá ber að varðveita. Aftur á móti virðast allir geta orðið ráðherrar og þeim má skipta út eftir þörfum. 

 http://www.123.is/skulip/albums/270078/jpg/001.jpg

 

 


Tíkin og hundurinn.

Það kom tík inn á heimilið í dag. Til allra hamingju er hún á förum fyrir nóttina. Hundurinn okkar hefur ekki verið mönnum sinnandi síðan tíkin kom. Það eina sem hann hefur hugsað um er þessi tík. Hann hefur gert allt sem honum dettur til hugar til að ganga í augun á henni. Hann er búinn að missa þvag um allt hús og þar að auki hefur hann skitið einu sinni á borðstofugólfið. Þetta er hann vanur að iðka utanhúss á venjulegum degi. Þrátt fyrir allar þessar hundakúnstir hefur tíkin ekki litið við honum, eina sem hún hugsar um er matur og aftur matur.

Er þetta ekki dæmigert, við gefum konunum okkar allt, við skítum kannski ekki á gólfið en þær fá hjá okkur allt annað, líf, heilsu, tímann okkar og VISA kortið. Öllu þessu fórnum við bara í þeirri von að þeim þóknist að lyfta bossanum örlítið frá gólfi, svona stöku sinnum. Gvöð hvað ég vorkenndi hundinum mínum.

Þessir eiginleikar eru mjög ríkjandi í mannlegum samskiptum, svona almennt. 

Sem dæmi þá situr Sjálfstæðisflokkurinn sem fastast á bossanum en Samfylkingin hugsar bara um Evrópusambandið.  Samfylkingin telur að margt muni leysast úr læðingi við inngöngu í Evrópusambandið, sama heldur hundurinn minn. En í raun vitum við ekki hvernig króinn spjarar sig fyrr en hann er fæddur. Sjálfstæðisflokkurinn er svo hræddur um hið óþekkta að hann þorir ekki og hugsar bara um um mat, eða að fullnægja augnabliks þörfum sínum. Því situr hann á bossanum.

Sumir myndu segja að sjálfsagt fari Sjálfstæðisflokkurinn á lóðarí fyrr eða síðar. Ég er hræddur um að svo sé ekki. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo aldraður að hann sé hættur að hafa á klæðum. Hægt er að ásaka Samfylkinguna fyrir að vera með maddömu en þegar ég upplifði hegðun hundsins míns þá skildi ég í raun að allt er hey í harðindum.


Sendiherrar, tollarar og Björgólfur.

Mikið erum við þessir almennu borgarar eitthvað miklu skyni skroppin. Þetta er algjörlega augljóst. Eftir því sem sendiherrunum fjölgar þurfum við færri tollverði. Sendiherrar þurfa ekki tollskoðun bara við hin. Ríkisstjórnin er með samhengi hlutanna á hreinu. Að við skulum vera að fárast yfir þessu.

Aftur á móti hvíslaði ólyginn því að mér að Actavis væri á förum, með manni og mús. Við það missa 90 lyfjafræðingar vinnu sína. Ég vona svo sannarlega að ólyginn sé lyginn í þetta sinn. Það ku víst vera hagstæðara að reka slík fyrirtæki erlendis.

Hvert ætli Björgólfur Thor myndi flytja utanríkisráðuneytið? 


Teningnum er kastað-nýtt Háskólasjúkrahús.

Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í dag.

 

Það er ekki oft sem maður brosir allan hringinn þegar sýnt er fram á að maður hafi haft rangt fyrir sér. Ég var allt að því sannfærður í vetur að ekki stæði til að byggja nýjan spítala. Meðal annars hafði ég tjáð áhyggjur mínar á síðum dagblaðanna. Í dag kom það skýrt í ljós að mér hafði orðið svolítið brátt í brók og ótti minn ekki á rökum reistur. Reyndar er mér vorkunn að stíflan skyldi bresta í vetur því ég hef beðið eftir deginum í dag í meir en 25 ár.

Dagurinn 27 febrúar 2008 mun lengi vera í minnum hafður á Landspítalanum. Í dag gerðist það sem allir starfsmenn Landspítalans hafa beðið eftir árum saman. Heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór, Inga Jóna og fleiri háttsettir embættismenn héldu fund með okkur starfsmönnunum. Það er ekki á hverjum degi sem svo fríður hópur mætir á fund með okkur enda var mjög vel mætt að hálfu starfsmanna. Það var mikil eftirvænting í hópnum. Við fórum ekki tómhent af fundinum.

Guðlaugur Þór og Inga Jóna tóku af öll tvímæli að til stendur að byggja nýtt sjúkrahús fyrir Íslendinga. Auk þess var tekið fram að verkið yrði klárað en ekki skilið eftir sem hálfkláruð bygging. Framtíðarsýnin er  komin á hreint. Til stendur að byggja nýjan og góðan spítala fyrir alla landsmenn. Hann mun þjóna öllum Íslendingum vel og lengi. Teningnum var kastað.

Svartsýnisraddir munu sjálfsagt heyrast eftir sem áður. Ég er sannfærður um að þegar úrtölumenn munu sjá nýjan spítala rísa og átta sig á muninum á gamla og nýja tímanum munu þeir skilja mikilvægi hans. Aftur á móti munum við sem höfum þráð þennan dag árum saman mæta bjartsýnni til vinnu á morgun. Sjúklingar spítalans munu kunna að meta það.

Það er ekki ónýtt að fá góðar gjafir á jólunum en það eru ekki alltaf jól. Áfram verðum við í gömlu húsunum nokkur ár til viðbótar. Á fundinum kom fram skilningur á því að gera okkur vistina sem bærilegasta meðan við bíðum eftir nýju húsi. Sjálfsagt verður það mun léttara fyrir starfsfólk og sjúklinga að þola núverandi ástand vegna þeirra tíðinda sem boðuð voru í dag.

Nauðsynlegt er fyrir alla aðila sem að þessum málum koma að byggja ekki bara hús. Þó að góð aðstaða starfsmanna og sjúklinga sé forsenda árangurs á heimsmælikvarða, sem við stefnum öll að, þá er sjúkrahús miklu meira. Sjúkrahús er fólkið sem vinnur þar, stundum nefndur mannauður nú til dags. Til að ná hámarks ávöxtun á þeim auð þarf ýmislegt að koma til. Stjórnendur þurfa að gæta þess að skapa ekki ónauðsynleg tilefni fyrir hinn almenna starfsmann að kvarta. Við sem nöldrum þurfum að gera það að með góðum rökum og að vel yfirlögðu ráði. Nauðsynlegt er fyrir gæslumenn pyngjunnar að meta störf þeirra sem vinna með veikt fólk. Til að hámarka líkur þess að Íslendingar eigi kost á góðri heilbrigðisþjónustu þurfum við að tryggja það að fólk í heibrigðisstéttum sé metð að verðleikum.

Til að ungt fólk hafi áhuga á að koma til starfa í heilbrigðiskerfinu og sinna veikum meðbræðrum sínum þurfum við sem vinnum þar að muna eftir því jákvæða í vinnu okkar og það sem fær okkur til að starfa áfram. Við þurfum að kynna störf okkar sem eftirsóknarverð. Það er áhyggjuefni að flest ungt fólk ætlar ekki að starfa innan heilbrigðiskerfisins í framtíðinni. Vissar forsendur liggja alltaf að baki áliti fólks á eigin starfi. Því er nauðsynlegt að þeir aðilar sem skapa þær forsendur vandi til verka og hugsi ekki eigöngu um skammtímagróða heldur ávöxtun auðs til framtíðar, eins og nýbygging Landspítalans ber með sér.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband