Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
31.7.2007 | 00:27
Vínsala, neysla eða ofneysla.
Það hefur verið nokkur umræða um smásölu víns á Íslandi. Talsmenn frelsisins vilja færa okkur nær Evrópu í þessum efnum. Andstæðingarnir vilja höft og hátt verðlag.
Það er þetta með vímuefnin okkar og stjórnlausa fíkn í þau á móti eðlilegri neyslu. Það er á margan hátt verið að takast á um hvernig við umgöngumst þessi efni og hvernig við tökumst á við þau. Hvernig við höfum meðhöndlað fíkn náungans í vímuefni er merkilegt fyrirbæri. Afstaða okkar á 21. öldinni til fíkla er ekki ósvipuð umgengni forfeðra okkar á holdsveikum hér á öldum áður.
Ef við höldum okkur við samlíkinguna við holdsveika þá var það stefnan að vona inn í það síðasta að veikjast ekki sjálfur. Ef maður veiktist var það refsing æðri máttarvalda og síðan voru viðkomandi úthýstir úr mannlegu samfélagi. Svipað er komið fyrir okkur á dag. Allir vonast til að börnin þeirra verði ekki fíklar. Ef fíkill er í fjölskyldu náungans þá reynum við að forðast frekari umgegni í þeirri von að smitast ekki. Svo viljum við koma þeim fyrir á stofnunum þar sem þau eru "læknuð". Eins og með holdsveikina. Vandamálið er að holdsveiki er ekki fíkn, fíkn er eitthvað sem býr með einstaklingum eða myndast við notkun efnis.
Fíkn á sér þrjár undirstöður. Fíkniefnið, einstaklinginn og fíknina. Þegar allt kemur saman þá er komin fíkniefnaneysla. Til að leysa það vandamál þarf að eyða einhverjum þessara þriggja þátta. Það hefur ekki gengið vel hingað til. Spurningin er hvort það er fullreynt með þeim aðferðum sem við höfum beitt hingað til eða tími endurskoðunarinnar er kominn.
Ef fíkniefnaneysla væri eins og holdsveiki væri vandamálið einfalt. Því miður er ekki svo. Fíkniefnaneysla er flókið fyrirbæri. Ef fíkn er til staðar þá skiptir engu máli hvar fíkniefnið er selt né hversu mikið það kostar. Öllu er fórnað. Því held ég að það skipti ekki máli þó vín sé ódýrara en í dag. Persónulega skiptir það mig engu méli þó ég fari í eina verslun aukalega til að kaupa vín og sé því enga knýjandi þörf á því að færa vínsölu inn í matvöruverslanir. Ef hægt væri að láta fíkniefni hverfa í eitt skipti fyrir öll væri málið leyst. Svo er ekki. Meðan þannig er málum háttað verður að vera til staðar forvarnarstarf og meðferð þeirra sem verða fíklar.
Aftur á móti er umræða um hvernig við ætlum að fást við afleiðingar annarra fíkniefna en víns mjög mikilvæg og þörf.
29.7.2007 | 23:00
Börnin okkar og eiturlyf.
Það kom kona í heimsókn til okkar hjóna í dag. Þó ég væri fullur af tyrkneskum vírus með hálsbólgu og hita skynjaði ég þó að hún hafði frá ýmsu að segja sem olli mér heilabrotum. Mín heilabrot hafa í sjálfu sér aldrei verið merkileg en brot er þó alltént brot.
Dóttir hennar hafði lent í eiturlyfjum og stríðið hafði staðið í mörg ár. Sigrar og ósigrar. Hún hafði þá sterku sannfæringu að gefa ætti eiturlyf "frjáls". Í raun ekki frjáls. Heldur að koma í veg fyrir gróðamyndun við innflutning og sölu á eiturlyfjum. Hún var þeirrar skoðunar að ef eiturlyf væru meðhöndluð á sama hátt og áfengi væri hægt að losna við marga óæskilega fylgifiska eiturlyfjasölu. ÁTVR selur áfengi reyndar ekki ódýrt, en ekki á uppsprengdu verði. ÁTVR er ekki með handrukkara á sínum snærum enda allt staðgreitt þar. Þar að auki myndi allur ávinningur sölunnar renna í sameiginlega sjóði okkar landsmanna en ekki í vasa eiturlyfjabaróna.
Í raun ganga þessar hugmyndir út á það að lítill munur sé á áfengi og öðrum eiturlyfjum. Það er svolítið erfitt að vera andsnúinn því, því í raun er enginn munur á kúk og skít.
Auk þess er önnur forsenda að eiturlyf hafi alltaf fylgt mannkyninu og muni alltaf gera það. Því sé sú hugmynd að reyna að uppræta eiturlyf í eitt skipti fyrir öll andvana fædd hugsun. Það er erfitt að andmæla þessu því EVA beit í eplið og þar við situr.
Ég get ekki neitað því að gróandinn á mínum heilabrotum geti látið bíða eftir sér.
18.7.2007 | 22:21
Sjóferð-Gökova.
17.7.2007 | 16:44
Tyrkland-vatnsrennibrautagarður.
17.7.2007 | 14:06
Naflastrengurinn.
Það er mjög merkilegt að vera í Tyrklandi. Hér voru fyrstu vínin í heiminum ræktuð. Hér er borg sem heitir Efesus og er mörg þúsund ára gömul. Þar eru almenningssalerni og upphituð gólf. Íslendingar voru þá ekki einu sinni til. Þegar þeir birtust hafa þeir sjálfsagt verið flokkaðir sem villimenn af Tyrkjum. Svo erum við að setja okkur á háan hest. Í Istanbúl er kirkja sem er 1500 ára gömul og var ein stærsta kirkjan í veröldinni um 800 ára skeið. Geri aðrir betur.
Við hjónin höfum verið að ferðast svolítið að undanförnu. Heimsótt Madrid, Prag og Barcelona. Nú Kaupmannahöfn að sjálfsögðu. Þegar maður drekkur í sig menningu þessara borga, þá á einhvern hátt nær maður að samsama sig þessari fornu menningu. Á einhvern hátt er maður hluti af henni, maður finnur fyrir samhljóm. Maður fær svolítið sérstaka tilfinningu í sálina, hálfgerða helgun eða jafnvel dýpt og ró. Við eigum okkar upphaf hér, það eimir svolítið eftir af þeim naflastreng.
Við vorum á Florida fyrir ári. Gott frí í sjálfu sér. Heimsóttum skemmtigarðana fyrir börnin. Tilveran í Florida er svolítið öðruvísi en í Evrópu. Florida er tilbúin veröld. Í raun getur bara krókódíllinn búið í Florida án þess að gjörbreyta öllu umhverfi sínu með þurrkun fenja, loftkælingu og þess háttar. Í raun er Florida nánast óbyggilegt fyrir menn nema með þessum tilfæringum. Þetta er bara mjög rakt, heitt fenjasvæði fyrir krókódíla. Reyndar er krókódíllinn friðaður í Florida. Því er hann eina skepnan sem hefur öruggan tilvistargrundvöll í Florida. Hann er friðaður, enginn mé drepa hann, honum er hvorki of heitt né kalt þar sem hann marir hálfur í kafi. Auk þess má hann éta alla hina íbúana í Florida. Góður díll.
Svo eru hinir dílarnir í Flórída. Það eru þeir sem selja manni allt milli himins og jarðar. Ég held að það eina sem er frítt í henni Ameríku er loftið sem maður andar að sér. Allt annað selja þeir manni og líf þeir gengur út á að selja. Að selja eru þeirra trúarbrögð. Að selja er þeirra menning.
Þegar Evrópubúar fluttu til Ameríku þá slitnaði naflastrengurinn, því miður. Núna eigum við í vandræðum með þennan ungling sem veit ekki ennþá muninn á réttu og röngu.
15.7.2007 | 15:39
Tyrkland, 15 júlí.
1.7.2007 | 23:48
UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ HIÐ ÍSLENSKA.
Mér fannst ég heyra það í útvarpsfréttunum um helgina að Utanríkisráðuneytið væri þyngst á fóðrum af öllum ráðuneytum íslenska ríkisins. Mig rak í rogastans. Hvernig getur það kostað meira að kenna öllum Íslendingum að lesa eða halda heilsu allra Íslendinga við en að reka eitt Utanríkisráðuneyti.
Utanríkisráðuneytið sér um samskipti við útlönd. Mörg stórfyrirtæki, sum mun stærri en Ísland, sjá um slíka hluti bara með einni netsíðu. Hvað er því til fyrirstöðu að Utanríkisráðuneytið sé bara ein netsíða eða svo? Til þess þarf ekki nema örfáa starfsmenn og öngvan ráðherra. Hvað er allt hitt fólkið að gera? Sjálfsagt bara að senda póst á milli sín.
Ég held að við Íslendingar þurfum að komast niður á jörðina. Mér er mjög minnisstætt þegar Ráðuneytisstjóri í Utanríkisráðuneytinu var spurður hvort ekki þyrfti að spara þar eins og annars staðar í blöðunum hér um árið. Flestir ráðuneytisstjórar hefðu farið í varnarstöðu en viðkomandi svaraði fullum hálsi að " ef við í utanríkisráðuneytinu sjáum einhverja þörf í náinni framtíð að spara þá munum við hugleiða það".
Ég held að Utanríkisráðuneytið sé orðið Ríki í Ríkinu. Þá fellur það undir skilgreiningu á krabbameini, það vex án tillits til heildarinnar. Þá þarf að skera það burt eins og aðrar meinsemdir.
1.7.2007 | 22:59
Unaðsleg helgi.
Helgin hefur verið frábær. Veðrið unaðslegt. Íslenskt sumar er toppurinn, það jafnast ekkert á við það.
Maður hefur verið að sýsla í garðinum og fór á Kaffi Reykjavík á laugardagskvöldið með frúnni. Borðuðum góða máltíð, hittum vini okkar á eftir og settumst inn á Litla ljóta Andarungann. Fengum okkur léttvín og bjór. Spjölluðum margt gott og skemmtilegt. Dásamlegt að umgangast fólk, framkvæma mannleg samskipti og njóta.
Samt sem áður þá hafa sumir það ekki jafn gott hér Íslandi. Sumir hafa ekki efni á góðum mat. Sumir eiga engan garð til að sýsla í. Sumir eiga kvóta sem þeir vita að þeir munu missa. Sumir munu eignast þann kvóta sem þeir munu þurfa að hafa áhyggjur af hvernig eigi að nota. Sumir eiga hitaveitu sem þeir eiga ekki. Það er ekki víst að sumir hafi notið helgarinnar sem skyldi.
27.6.2007 | 21:58
Susie Rut og þorskarnir.
Lífið er undarlegt, núna eru prestar að deila um hvernig maður á að koma fram við Þjóðkirkjuna í Kastljósi. Margt er manns bölið.
Það er mér þó öllu ofar í huga hvað faðirinn ritaði um dóttur sína gengna á miðopnu Morgunblaðsins í gær. Það er til marks um alvöru málsins ,hvar greinin er birt í Morgunblaðinu.
Ég á fjögur börn, ég dáist að foreldrunum að geta skrifað slíka minningargrein um barnið sitt. Að vera foreldri gerir mann svo gjörsamlega varnarlausan fyrir sorg þeirra. Það svíður, eins og við djúpt brunasár, grær seint og illa. Börnin eiga að fylgja okkur, ekki öfugt.
Með fullri virðingu fyrir þorskum, hvort sem þeir búa í hafinu, hagfræðideild HÍ eða ríkisstjórninni þá er greinilegt að þorskarnir í fíkniefnaheiminum hafa ekki fengið nægjanlega athygli okkar.
Það var óneytanlega sérstök tilviljun, að ég var nýbúinn að lesa bókina Sigur, um hetjulega baráttu föður fyrir dóttur sína sem ánetjaðist fíkniefnum þegar Susie Rut andaðist. Sú bók á að vera skyldulesning allra Íslendinga. Við erum algjörlega varnarlaus gagnvart ofurafli fíkniefnasalanna. Þeir hafa tök á því að buffa okkur eða stúta eftir behag. Ef það skyldi ekki duga þá ráðast þeir gegn því sem okkur finnst dýrmætast, maki eða börn. Gegn slíku erum við varnarlaus eins og málum er háttað í dag. Hvað er til ráða?
Alveg sama hversu vitlaus og firrt við erum gerum við okkur alltaf okkar mat á stöðunni, kost benfit analýsu. Þess vegna fara ekki venjulegir foreldrar og buffa eiturlyfjabaróna upp á sitt einsdæmi. Eina leiðin er að koma hlutunum þannig fyrir að það borgi sig ekki að selja eiturlyf á Íslandi.
Ekki dugar að aflífa eiturlyfjasalana með köldu blóði, það gæti verið barnið manns, sem seinna meir kemst úr viðjum eitursins og lifir síðan innihaldsríku lífi. Lögreglan virðist í besta falli vera "ónæði" fyrir starfsemi eiturlyfjasala eins og hlutirnir eru framkvæmdir í dag. Öll höfum við sagt börnunum okkar að eiturlyf séu lífshættuleg en samt verða þau að prófa. Um leið og ein smyglleið er uppgötvuð er fundin upp ný. Er þetta þá bara náttúrulögmál og fórnirnar bara hluti af lífinu?
Meðan okkur finnst það verður það þannig. Ef við ákveðum að breyta því þá breytist það. Við erum nefnilega menn en ekki dýr. Við getum með samtakamætti breytt þessu ef við viljum. Afskiptaleysið er samt algjört, hraði og tímaleysi er gróðrarstía fyrir eiturlyfjanotkun barna. Við verðum að verða meðvituð og stíga á bremsuna. Þjóðfélagsgerðin verður að breytast, við verðum að hætta að flýta okkur svona mikið. Í því liggur fórnarkostnaðurinn.
Fíkniefnalögreglan þarf að fá mun meiri völd, stuðningsaðilar barna verða að hafa úrræði löngu áður en ástandið eru komið í óefni.
En hvernig getum við komið hlutunum þannig fyrir að það sé svo óhagstætt að selja eiturlyf að engum detti það í hug?
Ég held að við verðum að aflétta friðun þessara þorska.
12.6.2007 | 22:20
Neskaupsstaður-Egilsstaðir.
Nú þetta er búið að vera góður tími það sem af er. En eiginkonan fór til Reykjavíkur í dag. Flogið er frá Egilsstaðarflugvelli og því þarf að taka rútu fyrsta áfangann. Hafði ég hringt í Austfjarðarleið í fyrradag og kynnt mér málin. Mikið rétt rúta kl 1545 frá Neskaupsstað og alla leið upp á flugvöll, heila 75 km. Hentað þar að auki mjög vel því rútuferðin passaði akkúrat við brottför vélarinnar.
Ég kem konunni tímanlega á Olís bensínstöðina þar sem rútan átti að koma, en eins og ykkur er nú þegar farið að gruna kom engin rúta. Alls engin. Konan hringir í Austfjarðarleið og svörin voru hálf vandræðaleg,, ee héldum að enginn ætlaði að fara,, ee sorry ee,,. Þegar konan mín benti viðkomandi á að hún þyrfti að ná flugvél suður, ja, þá gæti hugsanlega verið komin rúta eftir í fyrsta lagi hálfa klukkustund.
Niðurstaðan varð sú að ég þurfti að hendast úr vinnunni og fá lánaðan bíl og keyra í einu hendingskasti með konuna 75 km út á flugvöll.
Þeir hjá Austfjarðaleið ættu nú að skammast sín.