Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn, Gylfi og Guðmundur.

Ég var svolítið lúinn eftir vinnuna í dag svo ég kom engu af viti í verk, til að gera ekki neitt las ég dagblöðin, athæfi sem ég stunda yfirleitt ekki nema ég sé kominn í þrot með þrek. Merkilegt en ég fann bara nokkra góða bita. Skemmtilegt viðtal við Guðmund Ólafsson í 24stundum. Þar lýsir hann því hvernig íbúar Rússlands höfðu ákkúrat ekkert með stjórn landsins að gera og stjórnendur fóru sínu fram að eigin geðþótta. Fékk svona Deavú tilfinningu, hélt ég byggi ekki í kommúnistaríki, en það er samt margt líkt með okkur og Rússum eins og Lobbi rekur í viðtalinu.

Örlög Ráðstjórnarríkjanna voru víst skelfileg, rotnuðu innanfrá. Það er ekki laust við að smá fúkkalykt sé kominn hér heima líka. Þegar fyrrvernadi Morgunblaðsstarfsmaður en núverandi dósent í hagfræði við Háskóla Íslands fer að leggja til rýmingu á ellideild Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum, þá virðist fokið í flest skjól. Enda var Illuga illilega brugðið í sama blaði þegar hann hlustaði á menntamanninn í sjónvarpsfréttunum um daginn segja þetta. Að segja ráðsettum stjórnvöldum til syndanna getur reynst viðkomandi afdrifaríkt. Það fór ekkert sérstaklega vel fyrir Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn
 á sínum tíma ef einhver var búinn að gleyma því. 


Biblíustiklur.

Um daginn vitnaði Auðun Gíslason í Biblíuna í athugasemd hjá mér. Þetta vakti forvitni mína og ég náði í gömlu Biblíuna mína og fór að lesa.

II Mósebók 20:4    Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrurar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnum undir jörðunni; þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær.

Það virðist sem sama bann ríki hjá okkur kristnum við myndbirtingum og er hjá múslimum. Hvernig ætli standi á því að við séum svona miklir slóðar í þessum efnum? 

II Mósebók 20:5   því að ég Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitjar misgjörðir feðranna á börnunum, já  í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata; en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

Hér virðist bara vera um tvo kosti að ræða, annað hvort ertu með mér eða á móti mér. Refsingin er mikil, ekki bara á þér heldur afkomendum þínum ef þú ert á móti mér.

III Mósebók 19:26 Þér skuluð ekkert með blóði eta.

Ætli þetta ákvæði sé ekki til komið af heilsufarsástæðum á þeim tíma sem það er ritað. Það færi lítið fyrir kjötmenningu okkar ef allt væri etið mauksoðið. 

III Mósebók 19:27 né heldur skaltu þú skerða skeggrönd þína....... né heldur gera hörundsflúr á yður.

III Mósebók 19:33  Og ef útlendur maður býr í hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð. Útlendan mann sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egiptalandi.

Þetta sannar það að Frjálslyndi flokkurinn er kristilegur flokkur. Þetta er stefna hans í hnotskurn. Greinilegt er af fréttum liðinna ára að við höfum ekki farið eftir þessum orðum Biblíunnar í umgengni okkar við útlendinga. Þeir hafa verið sviknir og prettaðir. Samkvæmt Biblíunni munu þeir hinir sömu hljóta slæm örlög í marga ættliði sem frömdu þau svik.

Það sem gerir þetta vers sérstaklega merkilegt er að við eigum að elska útlendinga eins og okkur sjálf þrátt fyrir að illa hafi verið komið fram við Ísraelsmenn í Egiptalandi, þe launa illt með góðu.

V Mósebók 13:10 .. þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drotni, Guði þínum...... Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,-þá skalt þú rækilega rannsaka það, grenslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal, þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum..... 

Svei mér þá, nú verða farandtrúboðar að fara vara sig, best að koma sér upp steinahrúgu í anddyrinu.

Það hvarflar ekki að mér að reyna í einhverri alvöru að týna þessar tilvitnanir úr samhengi sínu. Fræðimenn geta skýrt mest allt þetta með hliðsjón af tíðarandanum á viðkomandi tíma. Allt þetta á sínar skýringar eflaust. Aftur á móti geta bókstafstrúarmenn fallið í þá gryfju að fylgja þessu út í æsar. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er sú að ég var að skoða heimasíður sem túlka Kóraninn mjög þröngt. Ef kristnir og múslímar hefðu fylgt sínum reglum út í æsar þá væri mannkynið löngu útdautt. 

 

 


Múhameð, myndir og Highway 105.

Ég er enn að hugsa um myndina af Múhameð. Mér finnst þessar vangaveltur mjög skemmtileg heilaleikfimi. Það er ekki auðvelt að komast að einfaldri niðurstöðu. Mannleg samskipti eru bæði einföld og flókin.

Það virðist vera til hópur af mönnum sem álíta að þeir sem aðhyllast Íslam séu vondir. Þeir eru vissir í sinni sök, Íslam snýst um heimsyfirráð. Þeir sem eru á móti verða drepnir af Íslamistum. Þeir sem ekki trúa þessu eru einfeldningar. Þegar maður les skrif þessara einstaklinga þá finnst mér þeir líkjast mjög þeim sem þeir lýsa. Er einhver munur á kúk og skít?

Er ekki lífið flóknara en svo. Eru ekki til vondir einstaklingar all staðar í öllum trúarbrögðum. Sökum þess að við búum í kristnu þjóðfélagi verðum við ekki að taka mið af þeim kennisetningum. En nú er það þannig að margir í okkar kristna þjóðfélagi eru ekki kristnir. Þeir eru trúlausir eða eitthvað annað. Þeir telja sig óbundna af öllum trúarsetningum. Þeir styðjast frekar við sína eigin heimsmynd eða pólitíska skoðun. Hver er munurinn á réttlætingu gjörða okkar út frá pólitík eða trú.

Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér er ein setning: MÉR FINNST!!.

Mér finnst þetta og hitt. Ef mér finnst þá er það rétt. Mörgum finnst það sem þeim finnst þungamiðja alheimsins. Þegar þú ekur þjóðveg 105 inn í Los Angeles, átta akreinar út og aðrar átta inn, samtals 16 akreinar þá gerir þú þér fulla grein fyrir því að þú verður að taka tillit til nágrannans.

Þannig er bara lífið. 

 


Frelsi hér og frelsi þar og Múhameð.

Frelsi er mikilvægt. Nú ætlum við Íslendingar að birta myndir af spámanninum Múhameð. Um er að ræða fræðigrein um spámanninn og er myndin viðbót við þá grein. Múslímar eru ekki sáttir. Samkvæmt þeirra trú má ekki birta neina mynd, hvorki grínmynd né venjulega mynd af spámanninum Múhameð. Að birta mynd af Múhameð særir múslima.

Ég var svolítið að velta þessu fyrir mér. Við vesturlandabúar viljum birta myndir af Múhameð. Við teljum okkur geta gert það sökum frelsis, tjáningarfrelsis. Frelsi er gott og mikilvægt. Við sem aðhyllumst frelsi vitum að það eru samt til aðstæður sem takmarka frelsi til frelsisiðkunar. Ef frelsi veldur skaða þá ber að setja takmarkanir á frelsið.

Ef frelsi okkar vesturlandabúa til að birta myndir af Múhameð veldur skaða og sorg í hjörtum múslima er þá ekki komin ástæða til að hugsa sig að minnsta kosti tvisvar um. Ofsafengin viðbrögð múslima vegna fyrri myndbirtinga á Múhameð eru þeim ekki til sóma. Sennilega eru þau mun frekar í ætt við pólitík en trú. Öll trúarbrögð hafa einhvern tíman iðkað pólitík.

Ég er mjög vilhallur hugsjónum frelsisins. Á sama tíma er ég alinn upp í kristnu þjóðfélagi. Ég finn engar andstæður í því. "Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið þeim og gjöra." Þannig hljómar boðskapurinn í Biblíunni. Því kemst ég að þeirri niðurstöðu, bæði út frá trú minni í pólitík og í andlegum efnum að ég hefði sleppt því að birta þessa mynd af Múhameð. Sá gjörningur minn hefði veitt mér gleði og sátt í sinni. Bæði vegna þess að ég hefði haft hugrekki til að takmarka mitt eigið frelsi öðrum mönnum til framdráttar og ég hefði reynt að uppfylla stóra kærleiksboðorðið sem kristin trú á að snúast um. Mér fyndist ég meiri maður fyrir vikið.

Væru ekki múslímar þá að kúga mig? Mér finnst það ekki kúgun að sleppa mynd ef það veldur gleði margra. Tæplega veldur myndleysið mikilli sorg. Er ekki sælla að gefa en að þiggja? Er hugsanavilla í hugum okkar vesturlandabúa? Túlkum við frelsi sem réttinn; ég má, ég á. Kallaðist það ekki nýlendustefna hér áður fyrr? 


Nonni 150 ára og Landspítalinn.

Jón Sveinsson eða Nonni er 150 ára um þessar mundir. Allir þekkja bækur hans og glæstan ritferil. Ég var að lesa um daginn Landspítalabókina sem Gunnar M. Magnússon tók saman. Þar kemur fram að Nonni hafði safnað fé í Evrópu til að byggja holdsveikraspítala á Íslandi. Áður en til þess kom að nýta samskotafé Nonna höfðu danskir Oddfellowar tekið verkið að sér. Þennan sjóð fengu síðan St. Jósefssystur til að byggja Landakotsspítala sem opnaður var 1902. Sjóður Nonna gerði þeim kleift að reisa spítalann á mettíma og þannig ná forystu í spítalarekstri á Íslandi. Þangað flutti öll kennsla læknaskólans. Því má segja að sértrúarfélag hafi fóstrað vöggu heilbrigðismála Íslands fram til 1930 þegar Landspítalinn opnar. Á þeim tíma rann mörgum til rifja getuleysi íslenskra stjórnvalda við að sinna spítalabyggingum og rekstri fyrir landann. Fannst mörgum aumt að þurfa að þyggja ölmusur af trúfélögum í þessum málum. Kemur fram í Ísafold á þessum tíma eftirfarandi "Vafalaust er þetta eini höfuðstaður utan hins kaþólska heims, sem lætur kaþólsku kirkjuna sjá sér fyrir sjúkrahæli, í stað þess að gera það sjálfur eða í samlögum við ríkið, landið."

Ætli það geti hugsast að sagan muni endurtaka sig. Nonni fór í útrás og gerði það gott. Honum tókst að safna fé fyrir spítala í Reykjavík. Hluti skýringarinnar var mikið vafstur yfirvalda og það tómarúm sem myndaðist við það. Sama staða er uppi í dag. Nýr Landspítali er á teikniborðinu og mikill hugur í starfsmönnum hans að standa vel að verki svo Íslendingar þurfi ekki að búa við jafn slæman húsakost og hingað til. Aftur á móti er skortur á skýrum skilaboðum frá Ríkisstjórn Íslands. Spurningin er hvort það vafstur muni leiða til sömu niðurstöðu og um árið og ríkir útrásarmenn muni fylla í tómarúmið með enn einum ölmususpítalanum.

 



BHUTTO MYRT !!

Benazir Bhutto (b. 21 June 1953) Þessi kona var myrt í dag. Það virkar á mig sem kjaftshögg.Hún var ekki fullkomin frekar en við hin.Einhver gerði þá kröfu til hennar að hún væri fullkomlega þóknanleg sér.Þar sem það gekk ekki upp þá myrtu þeir hana.Því mætti myrða okkur öll hin líka því enginn er öllum þóknanlegur. Að geta ekki skynjað margbreytileikan í mannlífinu og upplifa eingöngu einn sannleika um lífið er banvænt. Virðing fyrir skoðunum annarra verður að vera hluti af lífsýn okkar allra. Ágætt er að taka til í eigin garði og gott upphaf er að tala ekki niður til annarra og skoðana þeirra. Lífið er í sjálfu sér of stutt til að skapa sér ástæður til að rífast.  

TRÚFRÆÐI Í GRUNNSKÓLUM.

Þorgerður Katrín leggur til að gefinn verði smá slaki á tengslum Þjóðkirkjunnar og Grunnskólum landsins. Þar með var fjandinn laus eða þannig sko. Ég hélt að þessi umræða myndi lognast fljótt útaf en svo virðist ekki ætla að verða raunin. Út frá þessu hafa síðan spunnist umræður um tengsl ríkis og kirkju.

Ég er skráður í Þjóðkirkjuna og er mjög sáttur við það. Í skoðanakönnun myndi ég vera í þeim helmingi þjóðarinnar sem telur sig kristinn. Hinn helmingurinn telur sig vera eitthvað annað. Mér er nokk sama því ég aðhyllist frelsi og líka trúfrelsi. Það virðist sem margur hafi fengið hland fyrir hjartað þegar þessi umræða kom upp á yfirborðið. Menn keppast við að telja þjóðinni trú um að ríkisrekin kirkja sé
það eina í stöðunni. Þeir virðast halda að allir haldi það líka. Þeir vilja telja öllum trú um að þeir haldi það líka. Bara svo að enginn haldi að þeir séu á móti Þjóðkirkjunni.

Að kirkjan sé ríkisrekin samræmist ekki frelsi, trúfrelsi og jafnrétti. Því ber að skilja þessar tvær stofnanir að. Að auki og ekki síður mikilvægt væri það mjög gott fyrir kristna kirkju að vera ekki lagskona ríkiskassans. Kirkjan yrði mun sjálfstæðari og meira lifandi, eins og í frumkristninni. Ég held að það yrði Þjóðkirkjunni til góðs að einkavæða hana.

Annað við þessa umræðu er fáránleikinn. Þegar skortur er á kennurum. Kennarar kvarta sáran yfir kjörum sínum. Allt of margir nemendur í bekk. Samanburðakannanir sýna að íslenskir nemendur standa sig illa. Um hvað snýst umræðan-SMJÖRKLÍPU-hvort og hvernig eigi að kenna kristinfræði í skólum. Ég held að þjóðin sé ekki með öllum mjalla.

Brettið nú upp ermarnar og sköpum góða skóla fyrir börnin okkar. 


Sáttmáli Guðs og Jesús.

Ég var að mála heima í dag. Þegar maður málar inni eitthvert herbergið þá fyllist hugurinn ró og fer um leið í djúpa þanka.

Ég fór að velta fyrir mér Jesú Kristi. Hann var sendur af föður sínum til jarðarinnar. Hann fór frá öryggi föðurfaðmsins til þessarar jarðar. Þar átti  Guðson ekki upp á pallborðið. Þeir sem fyrir voru höfðu mun sterkari aðstöðu en Jesú. Helstu liðsmenn hans voru hvorki fugl né fiskur. Enda fór svo að þrátt fyrir góðan boðskap og mikilvægan þá krossfestu þeir hann og hann dó.

Það var nú ekki endilega þetta sem ég var að velta svo mikið fyrir mér. Heldur það að Guð hafði lofað Jesú eilífu lífi ef hann færi til Jarðarinnar og fórnaði sér fyrir málstaðinn. Ef Jesú færi til Jarðarinnar og boðaði fagnaðarerindið í nafni Guðs myndi hann rísa upp frá dauðum á þriðja degi. Þrátt fyrir að þeir feðgar gerðu sér grein fyrir að  framboð Jesú á Jörðinni yrði ekki vænlegt til árangurs þá afréðu þeir samt að haga málum sínum á þennan hátt. Auk þess vissi Jesú að hann myndi rísa upp á frá dauðum hvernig sem færi því Guð hafði lofað honum því.

Það sem ég var að velta fyrir mér meðan ég málaði veggina heima hjá mér sveppagráa var ef Guð hefði svikið loforð sitt við Jesú.

Það sló mig nefnilega að allt hefði orðið á annan veg við það. Þá hefði verkið bara verið hálfnað. Þá hefði engin Kirkja orðið og söfnuður. Meðlimir Kirkjunnar hefðu ekki fyllst heilögum anda sem gerði þeim kleift að boða trúna. Nýja Testamentið hefði ekki orðið til sem miðill fræðslu, útskýringa og trúarsetninga sem hinn almenni safnaðarlimur hefði getað nýtt sér í baráttunni.

Til allrar hamingju sveik Guð ekki son sinn. Guð vissi að án tilstuðlan Jesú hefði hann aldrei náð þeim árangri sem hann hefur náð. Þar að auki svíkur Guð ekki loforð. Betur væri að menn fylgdu fordæmi hans. 


Hver eru mannréttindi þvagleggjarans og þiggjarans?

Var að horfa á kvöldfréttatímann hjá ríkissjónvarpinu. Kona sem var grunuð um ölvunarakstur neitaði  að láta af hendi þvagprufu. Þurfti að beita valdi til að ná í þvagprufuna. Óskemmtileg frétt.

Rætt var við yfirlækni á Slysadeildinni sem sagði að hann myndi ekki taka þátt í slíku nema dómari dæmdi hann til þess. Hann lagði áheyrslu á að gæta virðingar við einstaklinginn og ekki að misbjóða sjálfsvirðingu hins grunaða einstaklings. Augljóslega er þetta mjög vandasamt og ólíkir hagsmunir í húfi.

En svo sagði yfirlæknirinn að ef þetta ætti að geta gengið sómasamlega fyrir sig þá væri best að svæfa viðkomandi einstakling svo hægt væri að taka þvagprufuna. Sem svæfingalæknir þá hrökk ég í kút. Þarna var samstarfmaður að skammta mér verkefni sem ekki er víst að hugnist mér sérstaklega mikið. Ef einstaklingur vill ekki afhenda þvagprufu, vill hann þá láta svæfa sig svo hægt sé að taka af honum þvagprufu. Hann vill ekki skila þvagprufu, það er málið og ef ég ræðst á viðkomandi og sprauta í hann svæfingalyfjum gegn vilja hans þá er ég alveg sami ofbeldismaðurinn og aðrir vilja ekki vera. Læknaeiðurinn minn er ekkert öðruvísi en annarra lækna.

Þar að auki getur verið hættulegt að svæfa fólk,sérstaklega þar sem viðkomandi er örugglega ekki fastandi né sérstaklega andlega undirbúinn fyrir svæfingu. Þar að auki má ég ekki svæfa neinn á LSH nema fyrir liggi skriflegt samþykki viðkomanda nema líf liggi við, sem á ekki við í þessu tilfelli.

 Hvers vegna er það að mönnum detti til hugar að það sé betra að svæfa fólk sem er mótfallið einhverri athöfn? Hvernig getur það verið skárri kostur að ræna einhvern lífsýni gegn vilja sínum í svæfingu, sem er neydd upp á viðkomandi frekar en með lögregluvaldi sem er hættuminna og fljótlegra en svæfing. En er sama ofbeldið í mínum huga. Ég held að eina ástæðan sé sú að í svæfingu er auðveldara að koma fram vilja sínum.

Er ekki betra að viðkomandi glati lagalegum rétti sínum við að nýta sér mannréttindi sín og það sé gengið út frá því að þvagprufan sé jákvæð fyrir dómi.  


Jón Magnússon á Útvarpi Sögu.

Ligg heima veikur með tyrkneskt kvef og hita. Get því veitt mér þann munað að hlusta á útvarpið. Í svefnrofanum heyri ég í Jóni Magnússyni þingmanni FF. Hann er þá líka þáttastjórnandi á útvarpi Sögu. Smátt og smátt verða múslímskir vírusar sem heltekið hafa skrokkinn á mér að láta undan orðræðu Jóns og ég fer að hlusta á hann með athygli.

Margt var rætt og skrafað. Greinilegt að áhugi okkar Jóns á söngvaranum Roger Whittaker er sá sami, enda er hann algjör snillingur. Svo kom Magnús Þór til Jóns til skrafs og ráðagerða. Margt sem Magnús benti á sem betur mætti fara, sérstaklega í utanríkisþjónustunni voru þarfar athugasemdir. Stundum upplifir maður utanríkisþjónustuna í misskyldri útrás. Mörg íslensk fyrirtæki eru í útrás fyrir eigin reikning og gera slíkt í því markmiði að hagnast. Að íslensk utanríkisþjónusta sé í útrás á reikning okkar landsmanna er mun vafasamara. Hagnaðurinn er oft vandfundinn og virðist ganga út á flott nafnspjöld í húsakynnum Sameiniðuþjóðanna til handa starfsmönnum utanríkisþjónustu Íslands. Er sammála Magnúsi að utanríkisþjónustan eigi að einbeita sér að málum sem snerta hagsmuni okkar Íslendinga beint.

Varð þó fyrir annarri upplifun líka. Kom upp viss söknuður að Magnús skildi detta út af þingi sl vor. Þar missti FF góðan málssvara sinna mála. Sömu sögu má segja um Sigurjón Þórðar. Þetta er kannski fornaldarhyggja að allt hafi verið betra áður. Nýir menn hafa komið í staðinn. Þeir eiga eftir að sanna sig sem þeir vonandi gera.

Aftur á móti eins og fram kemur fram í þunglyndislegum pistli mínum um tilvistarrétt FF þá sakna ég þess að FF hafi ekki slegið í gegn sl vor. Auk þess sakna ég þess að rödd FF hefur ekki verið virkari í sumar. Er ég að gera of miklar kröfur? Þegar mál sem hafa þetta beina tengingu við helstu baráttumál flokksins hafa verið aðal mál sumarsins hefði heimasíðan mátt vera logandi virk og veitt okkur hinum fóður og næringu til rökræðna á milli manna .

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband