Bessastaðir kl 10:30 í fyrramálið og koma svo

Við skulum taka daginn snemma og mæta tímanlega svo athöfnin verði fumlaus og virðuleg.

Mörgum virðist órótt vegna undirskriftanna og telja Ísland einangrast í eilífðri fátækt ef forsetinn skrifar ekki undir.

Vil minna á að til eru staðfest lög frá því í sumar sem segja til um greiðslur á Icesave skuldunum. Því er ekki um það að ræða að fólk haldi að Icesave skuldin hverfi. Fólk vill ekki hafa greiðslurnar án fyrirvaranna. Án fyrirvaranna er landið okkar og gæði þess sett að veði fyrir skuldunum. Um þetta atriði snýst málið, fólk vill eiga landið sitt.

Stjórnarsinnar sjá þetta sem tilraun til að fella núverandi ríkisstjórn. Mín undirskrift hjá inDefence er ekki í þeim tilgangi. Því miður hefur framganga ríkisstjórnarinnar í vetur stefnt lífi hennar í voða. Mikil óánægja er meðal fólks með viðhorf hennar til skuldastöðu Íslands. Það viðhorf er reyndar nátengt Icesave. Stjórnin hefur kappkostað að gera lítið úr skuldum okkar til að við samþykkjum Icesave. Sá gjörningur gæti orðið okkur hættulegur, því ef við vanmetum vandamálið gætum við anað áfram að hætti okkar árið 2007.

Sjá annars hugleiðingar mínar í gær.


mbl.is Áskorun afhent í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig gæti 2010 orðið, ár samstöðu?

Lánadrottnar Íslands eru strax byrjaðir að senda forseta Íslands tóninn. Þeir bættu lánshæfismat okkar til að telja okkur trú um að við hefðum gert rétt með því að samþykkja Icesave á kjörum Lánadrottnanna. Að það, auki lánshæfismat okkar, að taka lán á verri kjörum en við höfðum áður, er galið. Að aukin skuldsetning sé uppbygging er einnig galið, uppbygging snýst um eitthvað allt annað. Hrunið haustið 2008 hefði nú átt að kenna okkur það að minnsta kosti.

Ef forsetinn samþykkir Icesave lögin og skrifar undir mun fátt annað gerast en að áætlun AGS heldur áfram óbreytt.

Ef þjóðaratkvæðagreiðsla verður mun þjóðin skiptast í tvær andstæðar fylkingar. Það er í sjálfu sér neikvætt en óumflýjanlegt. Það er þroskandi fyrir þjóðina að kynna sér greiðslugetu þjóðarinnar á eigin spýtur. Hætt er við að spunameistarar andstæðra fylkinga gætu afskræmt kosningabaráttuna. Endurskoðun AGS í janúar mun sjálfsagt frestast þangað til kosningunni er lokið.

Ef þjóðin samþykkir mun áætlun AGS halda áfram óbreytt.

Ef þjóðin fellir nýsamþykkt lög getur ýmislegt gerst. 

Það sem mun örugglega gerast er að lánadrottnar okkar munu sækja hart að okkur. Það verður mjög lærdómsríkt að fylgjast með viðbrögðum þeirra. Hugsanlegt er að þeir muni velja mýkri leið til að fá þjóðina ekki upp á móti sér. Þrátt fyrir það munu þeir reyna hvað þeir geta og þeir eru mjög öflugir og geta margt, það hefur sagan kennt okkur.

Forsenda þess að Ísland veiti lánadrottnum sínum viðnám er algjör samstaða þjóðarinnar.

Forsenda samstöðu er skilningur og þörf.

Óvíst er hvort þær forsendur verði til staðar fyrr en sverfir að, sérstaklega hjá betur settri miðstétt sem hefur enn haldið sér á floti í kreppunni. Saga annarra þjóða í okkar stöðu segir okkur að það er ekki fyrr en að flest sund virðast lokuð fyrir stóran hluta almennings sem samstaða myndast. Þekking virðist ekki duga. Reynsla annarra þjóða dugar ekki, vonin um að við lendum ekki í sömu vandræðum er öflugt tæki, vel nýtt, til að forða þjóðum frá þeirri samstöðu sem er nauðsynleg.

Sú pólitík sem stunduð hefur verið á Íslandi undanfarið snýst um flokkspólitík, hagsmunahópa og völd viðkomandi í samfélagi okkar. Þessi pólitík miðar að því að greina sig frá öðrum, að sundra, til að drekkja náunganum sjálfum sér til framdráttar. Slíkt er ekki gæfulegt fyrir landvarnir landsins.

Slík hegðun okkar er forsenda þess að áætlun AGS gangi upp, reyndar eina forsenda þeirrar áætlunar sem hefur staðist hingað til.

Til að Ísland eigi sér von þarf full samstaða að nást. Sagan segir okkur að slíkt gerist ekki fyrr en verulega illa er komið fyrir þjóðum og vandinn orðinn margfaldur. Mun þessi gáfaða, menntaða, fallegasta o. sv fr. þjóð klára sig betur en aðrar í svipaðri stöðu? 


http://i.ehow.com/images/GlobalPhoto/Articles/5200588/287037-main_Full.jpg

 

 


mbl.is Gæti endurvakið diplómatíska deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta frjálsa kosning Alþingismanna

Ég var á þingpöllum í allt kvöld. Báðir synirnir mínir voru með, hugsanlegir greiðendur Icesave. Það var mjög sérstök upplifun að fylgjast með þingmönnum svona þráðbeint.

Eftir að hafa hlustað á allar ræðurnar í kvöld rann það upp fyrir mér dýrasti maður Íslands er Davíð Oddson. Hatur núverandi ríkisstjórnar á Davíð er svo mikið að þjóðinni skal refsað með Icesave. Það var nefnilega þessi þjóð sem vogaði sér að kjósa hann og því skal henni refsað. Það sem mér sárnar mest að ég hef aldrei kosið Davíð, en eftir að hafa horft á Steingrím og co fremja hórdóm á vinstri pólitík vitum við fæst hvað við kjósum næst.

Við munum aldrei kjósa neinn af þeim sem sögðu já við Icesave, það er víst.

Reyndar hefur það takmarkaða þýðingu úr þessu því AGS mun ráða för á Íslandi til frambúðar. Núna hefur Icesave hindruninni verið rutt úr vegi og eftir það getur AGS farið að taka til hendinni á Íslandi. Um miðjan janúar mun AGS koma með nýja endurskoðun og þá mun sjálfsagt koma fram betur hvernig þeir hafa hugsað sér að við stöndum í skilum við lánadrottna okkar. Ég kvíð því,þjóð mín á ekki slíkt skilið bara vegna löngunar útlendinga í auðlindir okkar. Mér mun ætið verða það óskiljanlegt hvernig Steingrími detti það í hug að við kunnum að meta þessi örlög.

Samfylkingin hugsar bara um ESB í þessu máli og aflífaði þar með áhuga minn á þeim klúbbi.


Síðasta frjálsa atkvæðagreiðsla Alþingis, í minni vist

Ég hef lesið allt sem að kjafti kemur um skuldir Íslands og greiðslugetu okkar. Þær áætlanir sem smíðaðar hafa verið hingað til ganga ekki upp og örugglega ekki að Icesave viðbættu. Í ljósi þess eru átök innan einhvers stjórnmálaflokks bara sandkorn í mannkynssögunni. Klauf ekki Gunnar Thor sig frá Sjálfstæðismönnum og er sá flokkur eitthvað dauður í dag. Það þarf nú meira til.

Þegar núverandi ríkisstjórn hefur fengið Icesave samþykkt á Alþingi munu lánadrottnar Íslands stjórna öllu hér á landi í gegnum fulltrúa sinn AGS.  Því mun kosningin um Icesave á morgun verða síðasta frjálsa kosningin sem Alþingi okkar tekur. Eftir það mun AGS ráða för. Það verður auðvelt því þrátt fyrir himinhrópandi gagnrök í dag virkar flokksagi stjórnarflokkanna. Þegar stjórnarþingmenn hafa einu sinni kastað skynseminni út í hafsauga verður hún vandfundin á nýjan leik.

Þingmönnum er vandi á höndum á morgun, þeir þurfa að ákveða sig hvernig þeir kjósa. Þegar þeir hafa ákveðið sig þá þurfum við, almenningur, að ákveða okkur. Almenningur þarf að ákveða sig hvort hann treystir sér með stjórnvöldum í þá vegferð sem þau hyggjast leggja í. Ég held að mörgum muni reynast erfitt að deila rúmi með þeim sem troða Icesave oní kokið á okkur hinum. Þannig er það nú bara.

http://www.quercus.com/iceland/skjaldarmerki.gif


mbl.is Átök innan Vinstri grænna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju skiptir Icesave þjóðina

Spá AGS og íslenskra stjórnvalda, á getu okkar til að standa í skilum sem þjóð, er mikil bjartsýnisspá. Fjárlög fyrir árið 2010 eru klár merki þess að höfundarnir eru ekki í tengslum við raunveruleikann. Forsendurnar, gjaldeyrisafgangur, tekjur ríkisins og þjóðarframleiðsla, standast ekki. Ef forsendurnar eru brostnar þá er ekkert að marka þessi plön. Þá er framtíð okkar ekki eins og okkur er talin trú um.

Hvernig verður þá framtíð okkar Íslendinga?

Ég óttast að þegar AGS birti sína næstu endurskoðun fáum við verri tíðindi. Sú endurskoðun verður ekki birt fyrr en Icesave hefur verið samþykkt sökum þvingunaraðgerða AGS gagnvart okkur. Sennilega verður okkur tjáð að til að geta klofið skuldirnar verðum við að skera enn meira niður. Síðan mun AGS koma með fleiri endurskoðanir og markmið þeirra allra er að við verðum borgunarmenn fyrir skuldum okkar. Því munu þeir leggja til að við setjum hvað eina upp í skuldir. Ef vinnuframlag okkar dugar ekki fara eignir okkar líka.

Því mun arður Íslands fara í vasa lánadrottna. 

Til að hámarka arðinn mun laun og annar kostnaður, heilbrigðis- og menntamál, vera skorinn niður.

Þannig óttast ég að framtíð Íslands verði.

Ef Icesave verður fellt á Alþingi kemur upp sú nýja staða að þjóðin þarf að fara að hugsa. Þjóðin þarf þá að setja sig inn í málin og finna lausnir. Þjóðin mun þá gera sér grein fyrir stöðu sinni. Þá er það kostur að hafa fyrirvarana við Icesave.

Ef Icesave verður samþykkt núna mun fyrrnefnd stað, að þjóðin taki til sinna mála, koma upp mun seinna. Saga annarra þjóða í sömu stöðu og við segir okkur það. Þá mun skuldasúpan vera orðin mun verri. Sennilega er þjóðinni fyrirmunað að skynja vitjunartíma sinn fyrr en seinna og sjálfsagt verður maður að sætta sig við það.


mbl.is Afborganir lána 40% tekna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð hugmynd og bætir andrúmsloftið á Alþingi

Það var sérstakt að fylgjast með Alþingismönnum í dag, ég sat á pöllunum. Ég frétti af því að óvissuatkvæðin væru umsetin. Þeir sem voru búnir að gera upp hug sinn voru flestir að taka þátt í þingfundinum.

Tilveran fyrir utan virtist ekki vera í tengslum við þingsalinn. Gamlir refir raða sér í feita stóla í Íslandsbanka. Ráðherrar bera af sér ábyrgð á þessum ráðningum. Þjóðin nær ekki inn á þing því hún vill ekki Icesave í sinni nýjustu mynd. Þess vegna er það vel til fundið að veita okkur möguleika á að kjósa um Icesave. Við berum þá öll sameiginlega ábyrgð, föllum og stöndum með niðurstöðunni. Ekki við nokkurn að sakast nema heimska þjóð.

Er það ekki gott skref í átt að nýju Íslandi að hafa eina þjóðaratkvæðagreiðslu?

http://www.wilsonsalmanac.com/images1/feast_fools.gif


mbl.is Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnum Icesave, fátækt og barnadauða.

Bretar og Hollendingar eru vanir að rukka. Bretar eru auk þess í fjárhagsvandræðum. Af þeim sökum munu þeir ganga á eftir kröfum sínum. Að halda það að ESB muni borga fyrir okkur ef við göngum þangað inn er fjarstæða. Til þess þarf samþykki allra aðildarþjóðanna. Ætla Bretar og Hollendingar að samþykkja að greiða skuld fyrir Íslendinga sem þeir skulda þeim. Slíkur samningur mun eingöngu fela í sér að auðlindir okkar verða settar upp í skuldir. Það verður settur verðmiði á fiskinn okkar og þannig verður skuldin greidd.

Hlutverk AGS er að finna leið fyrir skuldsettar þjóðir til að standa í skilum. Ef við getum ekki framleitt nóg upp í skuldir munu þeir leggja til að við seljum auðlindir upp í skuldir. Það hafa þeir gert margoft áður. Við erum ekki neitt spes ef fólk heldur það.

Við verðum að skynja söguna og stóra samhengið. Margar þjóðir eru stórskuldugar. Í þeim löndum er barnadauði hæstur því þjóðartekjurnar fara í afborganir af skuldum. AGS stjórnar þar afborgunum skulda ríkisins. Þessar þjóðir voru eins og við, skuldlitlar, barnadauði á niðurleið og almennt heilbrigði á uppleið. Þá kom bóla sem sprakk-skuldir-AGS-og barnadauði. Bólan kom vegna óhefts flæði fjármagns sem olli skuldsetningu. Síðan lokuðust lánalínur og allt sprakk. Margendurtekin saga sem klikkar ekki.

Icesave er ekki bara eitthvert bankatæknilegt vandamál. Icesave snýst um grundvallar lífsviðhorf. Spurningin er hvort réttlætanlegt er að ógna tilveru heillar þjóðar vegna peninga. Vegna gildru sem við gengum í. Við vorum auðveld bráð, ég viðurkenni það. Sem upplýst þjóð hljótum við að skynja að allar hinar skuldsettu þjóðir bíða og vona að við höfnum Icesave. Þar með höfum við brotið ísinn, deyjandi börnum í hag.


mbl.is Icesave á Alþingi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hafna Icesave er sennilega andstætt náttúruvernd

Milli jóla og nýárs mun Icesave verða samþykkt. Það verður mikill léttir fyrir alla Íslendinga. Þeir sem hafa kynnt sér málið og skilja það munu afskrifa Ísland. Þá mun fólk hefjast handa við að skipuleggja framtíð sína fyrir sjálft sig. Við munum hætta að standa í þessu brölti fyrir þjóðina og hugsa eingöngu um eigin hag. Orrustan töpuð og bara að viðurkenna það.

Þegar maður hugsar aðeins út fyrir kassann, hugsar í víðara samhengi er þetta augljóst. Það eru á hverjum degi einhverjar dýra- og plöntutegundir að koma og fara. Þjóðir koma og fara, það er hinn eðlilegi gangur sögunnar, hvað er maður að æsa sig? Hvernig gat nokkrum Íslendingum dottið í hug að stöðva þróun sem þeir hafa ekkert vald til að hafa áhrif á.

Í sinni einföldustu mynd er staðan eftirfarandi: Ísland er gjaldþrota, við lestur skýrslu AGS er það augljóst. Þar að auki munu fleiri skuldir eiga eftir að bætast við og síðan að sjálfsögðu Icesave. Áætlun AGS stenst ekki, hún er óframkvæmanleg. Þegar viljayfirlýsing Jóhönnu og Steingríms við AGS er lesin sér maður hvað er í vændum. Niðurskurður og fátækt. Lausn AGS verður meiri lántaka og vaxtagreiðslur að eilífu.

Vandinn er sérkennilegur. Ef allir Íslendingar hefðu lesið skýrslu AGS, viljayfirlýsingu stjórnvalda við AGS og velt fyrir sér skuldastöðu okkar væru allir á móti Icesave, líka á Alþingi. Þess vegna hafa andstæðingar Icesave ekkert vald.

AGS vill að við samþykkjum Icesave. Meðan það er ógert beita þeir okkur þrýstingi. Þegar Icesave er samþykkt þurfa þeir ekki að beita okkur þrýstingi. Þegar Icesave er samþykkt á Alþingi Íslendinga getur AGS sagt okkur fyrir verkum. Ef Icesave verður samþykkt, verður það síðasta frjálsa/fullvalda atkvæðagreiðsla Alþingis Íslendinga.

Ég ætla að mæta á Austurvöll og mótmæla, meira svona til að geta sagt frá því við afabörnin. Eftir Icesave ætla ég bara að hugsa um sjálfan mig, en sennilega mun ég aldrei skilja hvernig náttúruverndarhugsjónir VG gátu falið í sér tortímingu fullveldis þjóðar sinnar.

http://www.cartoonstock.com/newscartoons/cartoonists/ato/lowres/aton1642l.jpg


mbl.is Undarlega lítill kraftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáa letrið-bara fyrir Steingrím

Það kemur fram í kvöldfréttatíma RÚV að enn eru til skjöl um Icesave sem þingmenn hafa ekki fengið aðgang að. Kristján þór hefur óskað eftir þessum gögnum. Hann væntir þess að fá umbeðin gögn milli jóla og nýárs. Hugsanlegt er að Kristján lesi gögnin eftir að búið er að kjósa um Icesave.

Framganga núverandi ríkisstjórnar er með eindæmum í Icesave málinu. Fyrst áttum við ekki að fá að sjá sjálfan samninginn og síðan þurfti að draga öll gögn fram með töngum. Nú þetta, enn gögn sem þingmenn hafa ekki séð og málið á lokasprettinum á Alþingi. Það er eins og stjórnaliðum sé mest í mun að samþykkja Icesave án þess að hafa leyst heimavinnuna. Það er mjög í anda 2007 að skrifa uppá og lesa smáa letrið seinna. Höfum við ekkert lært?

http://www.destroydebt.com/content/userimages/345/fineprint.jpg 


mbl.is Tók við af „búskussa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangurinn helgar meðalið...

Steingrímur fjármálaráðherra Íslands virðist vera uppvís að ósannindum. Lögmannsstofan breska sér ástæðu til þess að svara Steingrími. Sennilega finnst þeim vegið að heiðri sínum. Þeir segja einfaldlega að íslenskur ráðherra fari með rangt mál, þ.e. Steingrímur lýgur að þeirra mati.

Ef um væri að ræða minniháttar mál eins og vegagerð í kringum búgarðinn hans þá stæði mér kannski á sama um ósannindi hans. Icesave er mál sem skerðir fullveldi Íslands, sem leggur skuldir á börnin okkar og líka börnin þeirra. Ef Steingrímur getur sagt ósatt við þjóð sína þá hefur ekki vafist fyrir honum að fóðra samflokksmenn sína í VG með heppilegum staðreyndum, bæði sönnum og ósönnum eftir atvikum.

Það verður alltaf augljósara að Steingrímur er staðráðinn í að troða Icesave ofaní þjóðina. Þar helgar tilgangurinn meðalið. Hann svíkur öll sín kosningaloforð, hann segir ósatt og hann bannar birtingu skjala svo að þjóðin sé ekki upplýst. Það getur ekki skýrst af því að Steingrímur sé ESB sinni, það getur ekki verið vegna ást á ráherrastól. Hver er skýringin? Gaman að stjórna eða hugguleg eftirlaun??

http://wiredtoserve.files.wordpress.com/2009/02/lenin-mickey-jesus.jpg

 


mbl.is De Reya svarar Steingrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband