The Luckiest Nut In The World !!


Hægt andlát sjálfstæðis landsins

Það er mjög sérstök tilfinning að hafa verið áhorfandi að kvikmynd en verða síðan hluti af sjálfri kvikmyndinni. Sú er upplifunin eftir að hafa horft á John Perkins, lesið Falið Vald, kynnt sér AGS, lesið J. Stiglitz og M. Hudsson og marga fleiri. Það voru bara önnur lönd, aðallega fátæk lönd, sem glata sjálfstæðinu, kynslóðunum vegna skulda. Núna erum við að komast í þennan hóp.

Eru ekki viðbrögð þjóðarinnar mjög mannleg. Eru viðbrögðin ekki svipuð og þegar náinn ættingi er kominn fram í andlátið. Þá vonast ættingjarnir að hann lifi fram að jólum, hann er nú svo hress segja þau og hlustaði meira að segja á útvarpið í morgun, þó að öllum öðrum sé ljóst að hann lifi bara í nokkra daga til viðbótar.

Þegar þjóðin verður skuldsett 500 ár fram í tímann, þegar þjóðin verður eignalaus og þegar þjóðin verður í sárri fátækt munu sjálfsagt flestir segja, en skrítið og við sem vorum svo rík í gær.

Er eitthvað sem getur sameinað þessa þjóð annað en sukk og svínarí? Hversu margar manneskjur hafa fórnað sér fyrir frelsi og sjálfstæði í gegnum tíðina en aldrei haft erindi sem erfiði. Sjálfsagt verður maður að sætta sig við að maður er bara lítill múrsteinn í stórri byggingu. Á þeirri forsendu verður maður að halda áfram og einnig í þeirri von að börnin manns muni erfa eitthvað.

Ef við stöndum saman og fylkjum liði mun okkur takast að hrekja landtökuliðið af landi brott, en bara ef við stöndum saman.


Steingrímur, hér er kvöldlesningin fyrir morgundaginn

...um sameiginlega eign auðlinda

Flokksráðsfundur VG, haldinn á Hvolsvelli dagana 28.-29. ágúst 2009, leggst eindregið gegn því að lausafjárvandi samfélagsins verði leystur með sölu eða langtímaframsali á auðlindum og orkufyrirtækjum.

Í þeirri vá sem nú vofir yfir þar sem Magma Energy og GGE eru nálægt því að eignast þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og auðlindir á Reykjanesi er það brýnna en nokkru sinni fyrr að Vinstri græn stöðvi þessi áform. Flokksráðið beinir því til ráðherra sinna, þingmanna og sveitarstjórnarmanna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að halda HS orku í samfélagslegri eigu. Aðeins þannig er hægt að tryggja að Hitaveita Suðurnesja var stofnuð um, árið 1974. Ljóst er að ekki er seinna vænna að breyta lögum og reglugerðum þannig að almannahagsmunir séu varðir og að samfélagslegt eignarhald orkufyrirtækja og orkuauðlinda sé tryggt.

Ef Steingrímur klikkar og selur frá okkur auðlindina á Suðurnesjum, þvert gegn vilja flokksins hefur hann gengið í björg.Hann hefur þá sennilega verið heilaþveginn(Stokkhólms heilkennið), hótað lífláti eða keyptur með svissneskri bankabók. Innst inni vil ég ekki trúa neinu af þessu. Ég óttast að annað kvöld er ég fer að sofa hafi ég áttað mig og það sé endanlega orðið opinbert að hann hefur skipt um lið.


Hverjum nýtist gróðinn, þeim eða okkur

Hvenær er rétti tíminn til að selja auðlind sem hækkar stöðugt í verði, aldrei. Hvenær er rétti tíminn til að kaupa auðlind sem hækkar stöðugt í verði, núna. Ég þvældist aðeins um viðskiptablogg vestanhafs og það er augljóst að margir bíða slefandi eftir því að hagnast vel á kaupum Magma á HS-Orku. Margir segjast ætla að kaupa hlut í Magma um leið og viðskiptin eru frágengin hér á landi. Gott fyrir Magma en hvað merkir það fyrir okkur Íslendinga.

Menn reikna með gróða, ég tel að hann sé betur kominn í vasa okkar Íslendinga.

Ross er þekktur fyrir að hámarka verð fyrirtækja sem hann kaupir og selja síðan hæstbjóðanda. Að hámarka þýðir að lækka laun og hækka raforkuverðið, þannig verður HS-Orka álitlegur pakki til sölu.

Ef við höldum eignarhaldinu innan landsins þá getum við nýtt þessa auðlind til að afla okkur vaxandi tekna og um leið ódýrrar orku fyrir landsmenn. Það lækkar reikning heimilanna og stuðlar að hagvexti heillar þjóðar en ekki einhvers eins fyrirtækis úti í heimi og hluthafa þess.

Ég óttast það mest að Steingrímur verði svínbeygður af AGS og missi þessa auðlind úr landi.


mbl.is Gegn sölu orkufyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN KLIKKAR EKKI.

 Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu-sunnudagsblaðinu.

 ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN KLIKKAR EKKI.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn(AGS) hefur mikil áhrif á Íslandi í dag. AGS er banki sem setur mjög ströng skilyrði fyrir þeim lánum sem hann veitir. Þessi skilyrði eiga hug og hjarta AGS því sjóðurinn leggur mikið á sig til að farið sé eftir skilyrðunum. Oft eru lánin það stór að ómögulegt er að endurgreiða þau. Því virðist sem sjálf endurgreiðsla lánanna sé ekki mesta áhyggjuefni AGS. Það sem skiptir þá höfuðmáli er að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda. Ég vona að menn skilji að þetta er harla óvenjuleg framkoma hjá lánastofnun. Þar sem mér hefur enn ekki tekist að finna samninginn sem valdhafar Íslands skrifuðu undir verður maður að styðjast við þekkta afrekaskrá AGS. Kröfur AGS eru yfirleitt eftirfarandi.

Fjálst og óheft flæði fjármagns yfir landamæri. Við tókum ómakið af AGS með EES samningnum 1994 við ESB. Kreppurnar í Asíu, Rússlandi og núna á vesturlöndum hófust þannig. Fyrst kemur mikið af erlendu fjármagni inn í landið. Mikil hækkun fasteignaverðs og gjaldmiðilsins. Þar á eftir kemur til mikil lántaka hjá öllum aðilum innanlands. Síðan, í miðri veislunni gerist það eins og hendi sé veifað, að fjármagnið hverfur aftur heim tíl sín. Þá hrynur allt hagkerfið því endurfjármögnun skulda verður ómöguleg og gjaldþrot verður niðurstaðan. Þetta er margendurtekið og klikkar aldrei.

Krafa um markaðsvæðingu, sem þeir kalla frjálsa og er þá reynt að vísa til Adam Smith. Gamli Skotinn þyrfti sjálfsagt áfallahjálp í dag ef hann sæi þessa klámvæðingu á kenningum sínum. AGS vill óheft viðskipti, enga tolla og þess háttar. Vandamálið er að oft er um einstefnufrelsi að ræða, mörg þriðja heims lönd fá ekki að selja vörur sínar á Vesturlöndum. Þess í stað er dælt inn vörum frá eigendum AGS, jafnvel þó framleiða mætti slíka vöru í heimalandinu. Viðkomandi þjóð verður því háð dýrum innflutningi og fjarlægist enn frekar sjálfsþurftarbúskap.

Þá skulum við kanna þá þætti sem á eftir að fullgera hér á landi. AGS krefst þess ætíð að stýrivextir séu háir. Það gera þeir á þeirri forsendu að verðbólga verði ekki of mikil hjá örmagna þjóðum. Reyndar er mikilvæg undantekning, það eru Bandaríkin. Þar eru stýrivextir lágir, núna innan við 1%, sjálfsagt til að örfa atvinnulífið. Í Indónesíu á sínum tima fór AGS með stýrivextina í 80%. Afleiðingin af þessari hávaxtarstefnu hefur ætið haft í för með sér fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila í viðkomandi löndum(margendurtekið og klikkar ekki). Þetta er núna að gerast á Íslandi. Síðan bætist verðtrygging lána við, hjá Íslendingum, sem hvati sem flýtir öllu ferlinu.

Strangar kröfur koma frá AGS um ríkisfjármál. Þeir hafa skipað öllum löndum að skera niður  ríkisútgjöld til að ná hallalausum fjárlögum. Undantekningin er aftur Bandaríkin sem fer yfir á kortinu til að efla atvinnulífið og minnka atvinnuleysi. Seðlabanki þeirra prentar bara dollara fyrir þá, sem verðbólgan étur síðan upp með tíð og tíma.  Vandamál okkar er að við þurfum að framleiða til að eignast dollara til að greiða erlendu lánin. Til að sem mestur afgangur verði til að kaupa dollara verður að minnka öll ríkisútgjöld. Þessi stefna AGS hefur valdið miklum niðurskurði í heilbrigðis, mennta og félagsmálum. Laun almennings hafa lækkað verulega. Yfirleitt skreppur miðstétt úr 60-70% niður í 20%. Fátækt eykst að sama skapi.

AGS kemur með eða styður kröfuna um einkavæðingu. Heibrigðis- og menntakerfið, járnbrautir, flugfélög, olívinnsla, orkuvinnsla, vatnsveita , rafmagn og fleira. Niðurstaðan er oftast sú að þjónusta minnkar og verður það dýr að notkun einstaklinga ræðst af efnahag. Þegar um er að ræða auðlindir sem þjóðir hafa byggt afkomu sína á, eins og olíu o.þ.h. þá verður viðkomandi þjóð algjörlega berskjölduð því hún hefur engin tök á því að afla sér tekna til að greiða skuldir sínar hjá AGS.

Elexír AGS virkar einhvern veginn svona. Fyrst er að koma á mikilli skuldsetningu. Háir stýrivextir sem setja heimili og fyrirtæki á hausinn. Mikill niðurskurður sem veldur miklu atvinnuleysi. Mikill niðurskurður á launum og öllum bótum frá hinu opinbera. Einkavæðing sem eykur kostnað einstaklingsins á nauðþurftum til daglegs lífs. Yfirskuldsett kynslóð sem lifir við kjör sem hún hefur aldrei kynnst áður og er til í að selja eigur sínar upp í skuldir. Sala á auðlindum landsins og þar með möguleikanum á því að endurgreiða lán AGS. Þar með verður þjóðin að fá lán fyrir láninu, gott dæmi um þetta er Argentína.

AGS er kominn inn á gafl hjá okkur. Til að lágmarka skaðann þurfum við að skuldsetja okkur sem minnst. Framleiða sem mest og greiða skuldirnar. Halda í auðlindirnar hvað sem það kostar. Látum ekki neyða okkur til að brjóta Mannréttindasáttmála SÞ þar sem kveðið er á um; rétt einstaklinga til atvinnu, frelsi til að velja sér atvinnu og rétt á mannsæmandi lífsskilyrðum þrátt fyrir skort á atvinnu, skort sem viðkomandi ber enga ábyrgð á.


Okkar Dunkirk.

Bretar flúðu undan Þjóðverjum eftir algjöran ósigur í Frakklandi. Chamberlain kom með ónýtan samning heim eins og Svavar Gestsson og ári síðar voru Bretar komnir niður í fjöru í Dunkirk. IceSave ríkisábyrgðin var samþykkt á Alþingi Íslendinga í dag. Þjóðverjar túlkuðu Chamberlain samninginn eftir sínu höfði. Hvort við fáum eins og Bretar einhvern Winston Churchill er önnur saga. En við þurfum á þeim anda að halda núna.

Þegar flest sund virtust lokuð þá lofaði karlinn svita, blóði, tárum og sigri.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn(AGS) hefur skuldsett okkur svo hrikalega að við ráðum engu sjálf. Heyrst hefur að AGS banni Steingrími Fjarmálaráðherra að kaupa HS orku til okkar Íslendinga svo orkan á Suðurnesjum falli ekki í hendur útlendinga. AGS samþykkir ekki frekari lán nema við samþykktum IceSlave samninginn. AGS krefst hallalausra fjárlaga innan tveggja ára. Það þýðir meiriháttar niðurskurð. AGS stjórnar Íslandi gott fólk. Einhver staðar er til samningur um yfirtöku AGS á sjálfstæði Íslands en hann höfum við ekki fengið að sjá. Hvort það er hótun um líflát eða svissneskar bankabækur veit ég ekki, en að minnsta kosti er farið með þennan samning eins og mannsmorð.

Það var ákveðið að skera lítið niður í ár. Almenningi var leyft að frysta lánin sín tímabundið. Núna er komið að skuldadögum. Niðurskurður á ríkisútgjöldum verður a.m.k 30% á næsta ári. Í Lettlandi geysar kreppan og AGS stjórnar þar og því er gott að fylgjast með þeim, því þeir eru skrefi á undan okkur. Þar sem skólar eru nálægt hvor öðrum eru þeir sameinaðir. Laun kennara verða skorin niður um 30% frá og með 1 september í ár. Heilbrigðisráðherrann segir að ef ekki fæst meira fjármagn þá muni hún þurfa að rukka alla sjúklinga fyrir sjúkrahúsvist, sem liggja lengur inni en tvo daga.

Það er ekkert í spilunum sem bendir til hins gagnstæða hjá okkur Íslendingum, nema hefðbundin íslensk brjálsemi. Ef við stöndum saman, yfir allar flokkslínur, og mótmælum áformum AGS, krefjumst þess að fá að ráða okkar málum sjálf þá eigum við von. Við erum ekki heimsk, við getum siglt okkur út úr þessari kreppu, með aðstoð, án þess að gefa allar eigur okkar. Vaknið kæru landsmenn og stöndum saman.

http://gothamist.com/attachments/nyc_daveh/dunkirk.jpg

 


Hvernig verður framtíðin með helmings niðurskurði á ráðstöfunarfé ríkissjóðs

 Þessi mynd hér fyrir neðan er ekki alveg splunkuný, hún er frá júlíbyrjun. Mig grunar að hún hafi versnað ef eitthvað er. Myndin ber með sér að afborganir af skuldum ríkissjóðs verða gróflega 200 milljarðar á ári til 2023. Þar sem ríkissjóður hefur haft um 400 milljarða á ári til ráðstöfunar er um að ræða mikla blóðtöku. Við getum búist við skertum tekjum í framtíðinni, kunnugir telja að ríkissjóður muni hafa um 380 milljarða á ári til ráðstöfunar. Það ætti að gefa okkur 180 milljarða í stað 400 milljarða í ráðstöfunartekjur þegar við erum búin að greiða af lánunum. Nú er hugsanlegt að íslenska ríkið gæti verið í mínus í nokkur ár meðan það versta gengur yfir en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar okkur það nema tvö næstu árin. Það setur okkur svo þröngar skorður að manni liggur við köfnun.

Ef við veltum þessum stærðum örlítið fyrir okkur. Samkvæmt þessu eru ráðstöfunartekjur ríkissjóðs að minnka um 50%. Landspítalinn sem þarf tæpa 40 milljarða á ári ætti samkvæmt því að fá rúma 20 milljarða. Ef þetta reynist vera raunin þá erum við að upplifa mesta niðurskurð á LSH í sögunni. Þetta þýðir miklar uppsagnir hjá starfsfólki. Þetta getur einnig haft í för með sér takmarkanir á meðferð sjúklinga. Meðferð sem við höfum talið sjálfsagða hingað til. Takmarkanir gætu falist í því að einstaklingar með krabbamein fái ekki gjörgæslumeðferð, sjúklingar sem hafa náð ákveðnum aldri komist ekki í blóðskilun í gervinýranu. Eldri einstaklingar komist ekki í hjartaskurðaðgerð, kornabörn með rýrnunarsjúkdóma verði látin deyja án gjörgæslumeðferðar. Ef til vill verður gefinn kostur á meðferð ef sjúklingar borga meðferðina sjálfir.

Útlitið er ekki gott. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, því að öðrum kosti er framtíð okkar hræðileg.

g6ikehf0.jpg


Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og skólabækur

Að lokinni helgi sem hefur verið róleg í pólitíkinni er samt ýmislegt að bærast í kolli mínum. Umræðan um ríkisfjármál blundar á bakvið allt suðið í IceSave. Framundan er mjög mikill niðurskurður á ríkisútgjöldum. Ástæða þess er mikil innspýting inn á bankabækur fjármagnseigenda og endurreisn bankanna. Síðan er það vaxtagreiðslur af öllum lánunum. Niðurskurðurinn verður gríðarlega mikill næstu árin tvö sökum þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn(AGS) krefst hallalausra fjárlaga eftir 3 ár. Sú krafa er að sjálfsögðu glórulaus og hvaða tilgangi þjónar hún yfir höfuð?

Fréttir um foreldra sem geta ekki keypt skólagögn fyrir börnin sín og jafnvel tilkynna þau veik, því þau skammast sín svo mikið stakk mig þó mest.Hvar er þessi skjaldborg sem lofað var? Hvar er Norrænt velferðasamfélag? Á bara að stoppa í götin eftirá, sérstaklega ef þau rata á síður fjölmiðlanna. 

Ef saga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lesin þá eigum við ekki von á góðu. AGS sker niður laun og alla styrki eða bætur til þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Samtímis og AGS setur okkur í gríðarlega skuld sem hefur í för með miklar vaxtargreiðslur krefst hann hallalausra fjárlaga. Niðurstaðan verður sú að nánast ekkert verður til skiptanna og alls ekki fyrir lítilmagnann. Það er ekkert sem bendir til þess enn þá að þetta gangi ekki eftir. Því má vænta þess að mikill landflótti muni bresta á og að erlendir aðilar munu eignast allar auðlindir þjóðarinnar. Spurningin er hvort maður eigi að setja hausinn undir sig og deyja með sæmd eða bara koma sér í burtu.

http://rubeneberlein.files.wordpress.com/2009/06/povertyreductiontanzania.jpg


Eru menn bara að fatta grein 13.1.1. núna??

 13.1.1    Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila."

 Þessi grein úr Icesave samningnum virðist taka af allan vafa. Við getum ekki breytt samningum nema með skriflegu leyfi Breta og Hollendinga.

Breskur sérfræðingur frá Cambridge kemst að sömu niðurstöðu, sjá hér fyrir neðan.

InDefence hópurinn hefur borið fyrirvarana undir Dr. Michael Waibel, sérfræðing í alþjóðarétti við Cambridge háskóla. Bráðabirgðaálit hans er að óvíst sé hvort fyrirliggjandi fyrirvarar hafi gildi samkvæmt breskum lögum. Slík afgreiðsla málsins beri því í sér mikla áhættu fyrir Íslendinga. Sé það raunin að fyrirvarar Alþingis hafi ekki gildi samkvæmt breskum lögum eru Alþingismenn í raun að samþykkja Icesave samningana óbreytta, samninga sem meirihluti þjóðarinnar og þingmanna telur óviðunandi.

Því eru allir þessir fyrirvarar gjörsamlega gagnslausir þegar til kastanna kemur. Síðan segja menn bara "þeir hljóta að halda" þ.e. fyrirvararnir. Mér er spurn, þar sem ég tók sjálfur eftir þessu ákvæði í sumar þegar ég las samninginn, hvað eru menn eiginlaga að gera þarna niðrá þingi?

http://obeygiant.com/images/2008/10/hopeless_poster.jpg


mbl.is Vilja að ríkisábyrgð verði skoðuð betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig er það bara, alveg sama hvað okkur finnst

Ég er að melta daginn. Þurfti reyndar að vinna fram á kvöld þannig að ég missti af fundinum í dag á Austurvelli. Hef frétt að hann hafi verið vel heppnaður.

Fundurinn varð til þess að umræða skapaðist í dag um stöðu Íslands. Ég ræddi málið við all nokkra og reyndi samtímis að hafa hemil á mér og hlusta. Það eru all nokkur hópur fólks sem veit ekkert hvernig á að taka á IceSave en vill ræða málið. Síðan er það hópur fólks sem vill ganga frá þessu sem fyrst og án þess að vera með málalengingar. Sömu aðilar sjá ekkert rangt við það að nota IceSave skuldirnar sem aðgöngumiða inn í ESB. Þetta eru yfirleitt Samfylkingarfólk. Svo er það hópurinn sem telur að hægri/vinstri pólitík skipti einhverju máli í IceSave. Tala mikið um að allt sé Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum að kenna. Allt sé betra en að hleypa þeim aftur í stjórn. Enn einn hópurinn skynjar ógn og er hræddur en skilur ekki út á hvað málið gengur. Síðan er það hópurinn sem myndast ætið þegar flóknir hlutir eru sífellt í fréttum, þ.e. þau verða hundleið á málinu og reyna ýta því frá sér. 

Allir hóparnir eiga það sameiginlegt að þeir sjá þessa risaöldu nálgast landið, viðbrögðin eru bara mismunandi. Viðbrögðin tengjast einhverjum viðmiðum sem þau hafa tileinkað sér áður, pólitísk afstaða, áhugi/andstaða við ESB o. sv. fr. Vandamálið er að sú staða sem Ísland er í dag á sér enga hliðstæðu, við höfum aldrei gengið í gegnum neitt svipað áður, við höfum lítið gagn af okkar viðmiðum sem við höfum tileinkað okkur við hversdagsleg vandamál. Hugsun og ályktunargeta okkar getur ekki stuðst við fyrri reynslu nema mjög takmarkað.

Hingað til hef ég sagt því miður, en í dag ætti ég frekar að segja Guði sé lof að mjög sársaukafull reynsla úr æsku hefur ætið fylgt mér. Pabbi skrifaði undir lán sem ábekingur hjá náfrænda sínum, hann borgaði aldrei. Rest is history.

Þannig er það bara, skoðanir okkar á tilverunni skipta engu máli, bara undirskriftin, þannig er það bara og hefur alltaf verið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband