2.1.2010 | 23:06
Núna er ég ekki lengur "Kommúnistadrullusokkur" heldur....
Viðbrögð Evrópusinna við hugsanlegri neitun forseta á Icesave-II lögunum vekur upp gamlar minningar. Ég batt vonir við að búsáhaldabyltingin hefði urðað slíkan þankagang.
Þannig var það að eftir hrun tók ég virkan þátt í grasrótarstarfinu. Mætti á Austurvöll, vann með Opnum Borgarafundi, Lýðveldisbyltingunni, tók þátt í stofnun Borgarahreyfingarinnar ofl ofl. Þá kölluðu þáverandi stjórnarsinnar mig, skríl, útsendara VG og síðan var það toppað með því að ég væri ekki þjóðin. Skárra er þá að vera kommúnistadrullusokkur, mun meira lýsandi og fúnktíónelt hugtak. Þið skiljið hvað ég á við, ég var drullusokkurinn sem losaði um stífluna þannig að kommúnisminn flæddi óhindrað.
Er orðspor mitt betra í dag?
Núna míg ég utan í Sjálfstæðisflokkinn, er gengilbeina hans eða ég hef selt sálu mína Framsóknarflokknum. Allt vegna þess að ég vil ekki samþykkja Icesave-II og mætti á Bessastaði. Ég er semsagt íhaldsdrullusokkur og voðinn er vís.
Þeir flokkar sem ég hef kosið hingað til hafa aldrei lent í ríkisstjórn að loknum kosningum. Sá síðasti sem ég kaus þurrkaðist út. Því ber ég að enga ábyrgð, samkvæmt viðtekinni skilgreiningu, á öllu sem gerst hefur á Íslandi.
Það er mér nokkuð þungbært að fá ekki að vera þjóðin, hversu oft sem við skiptum um ríkisstjórn. Það er erfitt að vera gegnsýrður skítlegu eðli að mati stjórnvalda á hverjum tíma.
Byltingin breytti þessu ekki enda át byltingin börnin sín sem kalla mig í dag "ekki þjóðin". Þess vegna næ ég sennilega ekki þessum frasa að vera þjóð á meðal þjóða. Hvað veldur, að þeir sem voru ekki þjóðin með mér í fyrra, skilja þetta svona vel í dag og virðast vera þjóðin í dag.
Segir forsetann taka undarlegan pól í hæðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Íþróttir, Matur og drykkur, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
Margir telja allt og alla þurfa að tengjast flokkunum fjórum. Sumir trúa ekki að sumir vilja landi sínu og þjóð það besta algjörlega ótengt hægri eða vinstri.
Halla Rut , 2.1.2010 kl. 23:22
Eins og talað úr mínu hjarta.
Axel Þór Kolbeinsson, 2.1.2010 kl. 23:25
Sæl Halla Rut,
því miður virðast fjórflokkarnir allir hafa sinn djöful að draga. Við verðum að hreinsa til!
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.1.2010 kl. 23:30
Þá tala tvö hjörtu í kór AXEL , þú ert sem sagt líka "aldrei þjóðin" eins og ég.
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.1.2010 kl. 23:32
Neibb. Þjóðin kýs víst fjórflokkinn, en ég hef blessunarlega sloppið við það þótt það hafi munað mjóu.
Axel Þór Kolbeinsson, 2.1.2010 kl. 23:34
Já, Gunnar Skúli.
Þetta hárrétt analýsa, svona er Ísland í dag.
Andrés Ingi (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 23:38
Flottur pistill Gunni. Einhver ríkisstjórnarsinni kallaði mig "hægri skunk", útsendara Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem hefði það að markmiði að koma að gömlu valdaklíkunni með því að afvegaleiða einfalda vinstrimenn. Þetta las ég í athugasemdadálki á fésbókarsíðu Hildar, systur Lilju Mós.
Sigurður Þórðarson, 2.1.2010 kl. 23:38
Sæll Siggi,
þú ert sem sagt að meina að þetta sé álit sumra á Lilju Mós?
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.1.2010 kl. 23:44
Gunnar Skúli, ég held það sé svo mikið af taðhausum á þessu landi að það verður mjög erfitt að fá vit í umræður og ákvarðanatöku hér, eins og þú hefur reynt og ég hef líklega verið þér sammála í öllu því sem þú hefur komið með.
Það sjá það allir með vitglóru að að ætla að sekta hvern einasta kjósanda um 3 milljónir bara af því að hann kaus Sjálfstæðisflokkinn, Framsókn eða Samfylkingu einhvern tímann er alveg galið.
Samt eru menn að fara fram á það daginn út og daginn inn á öllum vefmiðlum að þetta verði gert, með því að fullyrða að Icesave nauðgunarsamningurinn sé bara afleiðing af því að kjósa þessa flokka!
Það er lágmark að menn geti skilið á milli þess sem búið var að gera varðandi Icesave og það sem var gert af Steingrími og Jóhönnu. Þó staðan hafi verið erfið er þau tóku við réttlætir það ekki það að lyppast niður og berast bara fyrir vindi í mikilvægasta máli Íslandssögunnar.
Til að taðhausarnir fari ekki að snúa út úr vil ég segja að að sjálfsögðu að hrunið verði gert upp. Helstu gerendur á stjórnmálasviðinu, fjármálageirinn og opinberar eftirlits(leysis)stofnanir eru þar efst á blaði, ekki endilega í þessari röð, en ekki Jón og Gunna sem létu glepjast til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 23:48
Sæll Teódór,
"taðhausar" mjög gott orð, því það lýsir vindþurrkuðum úrgangi sem hefur lokið hlutverki sínu að mestu.
Eini hópurinn sem hefur verið gerður upp er almenningur í þessu landi og er það skömm að núverandi stjórnvöld samþykkja aldagamla skiptingu landsins gæða, ekkert fyrir okkur og allt fyrir elítuna.
Þessi skoðun mín gerir það sennilega að verkum að ér enn ekki orðin þjóðin.
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.1.2010 kl. 23:57
Mörg erum við zammærð um þetta, merkilegt nokk.
Steingrímur Helgason, 3.1.2010 kl. 00:14
Steingrímur, endar þetta ekki með því að enginn er þjóðin?
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 00:27
Já Gunni, ég get ekki skilið þetta öðru vísi.
Sigurður Þórðarson, 3.1.2010 kl. 00:37
Ljótt er það Gunnar Skúli. Það er alveg ótrúlega sterkt sjálftæðisgegn í landanum, alveg sama á hverju dynur.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 3.1.2010 kl. 00:59
Áttu við sjálfstæðisgen Guðrún Þóra.
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 01:09
Já þau virðast stekurst en svo er eitthvað um famsóknargen líka en ekki eins mikið. Á hvaða litning ætli þessi gegn sitji Gunnar. Þurfum við að láta Kára klára tékka þetta.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 3.1.2010 kl. 01:14
Mannfyrir-litningarnir myndi ég skjóta á.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 01:28
Vest þykir mér að Sjálfstæðisgenin eru að verða útþynnt hjá mörgum þingmönnum flokksins en þó með undantekningum.
„að vinna að varðveislu hins íslenska lýðveldis, sjálfstæðis og fullveldis og hagnýtingu gæða landsins í þágu íslenskra þegna“
„að efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslynda framfarastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis, atvinnufrelsis og séreignar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“
Sömu aðilar hafa lagt ofurkapp á seinni regluna og látið 'hagnýtingu gæða landsins í þágu íslenskra þegna' aftasta sætið. Það þarf að hreinsa út og ekki setja næstu menn á lista upp um sæti heldur HREINSA út og fá nýtt fólk, fólk sem kemur til með að svitna við að borga draumavíxil vinstri manna sem nefnist ICESAVE, fólk sem er tilbúið að vinna fyrir þjóðina og það sem er henni fyrir bestu.
Stebbi (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 01:33
Sæl Guðrún,
ef ég skil þig núna rétt þá ertu að meina að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn séu langlífir, þá vegna einhverra gena. þú segir "ljótt er það". Ertu ósátt við þessi gen? Hvað getur Kári gert í því? Eða ertu að meina að InDefence sé blanda af þessum genum?
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 01:54
Sæll Stebbi,
það er margt fagurt í stefnuskrám margra flokka og ekki síður Sjálfstæðisflokksins. Því er svo nauðsynlegt að hafa sterkt aðhald eins og þjóðaratkvæðisgreiðslur. Þá komast menn kannski síður upp með að lofa og efna síðan bara sumt.
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 02:00
Ég er greinilega svona kall eins og þú Gunnar. Lýsingin þín í upphafi gæti eins átt við mig. Enn hefur ekkert flokka-skírteini múlbundið tungu mína, hjarta mitt og huga. Sérstaklega finnst mér þessi setning þín segja allt um tilfinningarnar:
"Það er mér nokkuð þungbært að fá ekki að vera þjóðin, hversu oft sem við skiptum um ríkisstjórn."
Mér er það eiginlega meira en nokkuð óbærilegt, mér er að verða það gjörsamlega óbærilegt. Ég óttast um friðinn.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 04:02
Flokkar í pólitík eiga að vera í dag liðin tíð capút það er búið.Utanþingsstjórn=Þjóðstjórn held ég hljóti að vera það eina sem hægt væri að koma á núna.Kjósum fólk en ekki flokka.
Númi (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 09:15
Sæll Pétur, friðurinn er í raun úti því þjóðin er klofin í sinni afstöðu til Icesave/ESB. Þú átt sennilega frekar við að upp úr kunni á sjóða. Ef slíkt gerist vona ég svo innilega að þá verði ekki um átök innan þjóðarinnar að ræða. Í stað þess vona ég að þjóðin sameinist.
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 11:39
Sæll Númi,
ég er sammála þér að fjórflokkurinn virðist eiga mjög erfitt með að leysa okkar mál í dag. Önnur stjórn myndi alltaf hafa þessa 63 þingmenn sem virðast ekki geta unnið saman.
Ég óttast að sameinað þing/þjóð muni ekki myndast fyrr en ástandið á Íslandi er orðið mun verra en það er í dag.
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 11:43
Frábær pistill - ég var líka á Austurvelli fyrir ári og héldu margir fram að ég væri haður VG-sinni og nú virðist ég eiga að vera komin lengst til hægri. Ábyrgð mín er þó sú að ég kaus Samfylkinguna á sínum tíma með Ingibjörgu í broddi fylkingar og hef aldrei kosið eins heimskulega og þá
Eva Sól (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 14:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.